Pliff, um pliff, frá pliffi, til pliffs


Ég er búinn að búa til nafnorðið "pliff" sem samheiti yfir
smáuppákomur, sem eru hver um sig ekki merkileg, en sameinast um að
gera lífið verra en það gæti verið.

Pliff er þegar ég tek í útihurðina í vinnunni.  Hún er með handföng
sem eru svo ýtileg að sjá en svo á maður að toga. Ég ýti því alltaf
fyrst og toga svo.  Daginn eftir endurtekur sagan sig af því ég er
eins og ég er.

Frosin bílhurð um vetur var dæmi í gamla daga.  Það kostaði nokkrar
mínútur á hverjum morgni að sprauta lásaspray og púa svolítið til að
komast inn.  Mikið var gott að fá fjarstýrðar samlæsingar.

Sumir dagar eru fullir af pliffi -- iðulega eru það dagarnir sem fara
í að eltast við dyntina í Windows tölvum.  Maður fer heim brúnaþungur
og veit ekki almennilega af hverju.

Oft þarf bara einhvern sem staldrar við í hita og þunga dagsins og
segir "þetta væri hægt að gera betur" til að bæta líf allra.

Sá sem setti strokleður á blýantsendann hefur sparað mörgum leit eftir
strokleðri.  Hann ætti að fá aðalstign og eyju í Breiðafirði.

Hinn sem raðaði tölunum 0..9 öfugt á símana ætti að fá sendan reikning
upp á þá milljarða sem hann hefur kostað samfélög jarðarbúa.

Líklega ættu menn samt ekki að reyna að halda bókhald um slík smáatriði.
Stundum er það álíka greindarlegt og að reyna að reikna út:  Hvað eru mörg Eric
Clapkíló í einum Eric Clapton ?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jónas Björgvin Antonsson

Ég styð þessa nýsmíði og mun reyna að koma pliffi að í daglegu tali, hér eftir. En er þá hægt að tala um að pliffa einhvern eða eitthvað, samanber "manninn með tölurnar á símanum". Eða jafnvel að afpliffa eða ofpliffa?

Annars er þetta eiginlega uppum alla veggi og súlur hjá mér*

J#

* (Orðatiltæki samið af Davíð Þór Jónssyni og notað að beiðni hans sbr. http://deetheejay.blogspot.com/2006/10/upp-um-alla-veggi-og-slur.html)

Jónas Björgvin Antonsson, 12.2.2007 kl. 13:43

2 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Hmmm....athyglisverð málfræðihugleiðing.  Þetta rifjar upp fyrir mér Spliff, donk og gengju, sem var svona allragagn í sjónvarpsmarkaðsgríni Fóstbræðra. 'Eg nýt þess vafasama heiðurs að hafa hannað þennan grip, sem er ekki nýtur til nokkurs gagns.

Ég hef svipaða tilfinningu fyrir orðinu "pliff" en það er ótrúlegt hvaða skrípi geta fest sig í sessi í máli okkar.  Nefni ég t.d. orðið "varnarsigur", sem ég held að tapsárir samfylkingarmenn hafi fundið upp.

Jón Steinar Ragnarsson, 12.2.2007 kl. 13:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband