29.12.2011 | 11:46
Bílaliðið þegir þunnu hljóði
Bílaliðið þegir þunnu hljóði
Desember 2011 hefur sýnt okkur hve vitlaus bíladellan er, sem stjórnmálafólk treður upp á landann þessi dægrin. Hér á heimskautinu ráðast stjórnvöld gegn þeim fjölskyldum sem setja heilsuna framar öllu, ferðast um með börnin í reiðhjólastólum í leikskólann og í skólann á hjóli sem þau nota síðan hvort á sinn staðinn í Reykjavík í vinnuna.
En það uppfyllir ekki staðalímynd borgar- og landsyfirvalda, sem er hjólalaust par á bíl með krakkann afturí, býr í einbýlishúsi í Garðabæ og allt sem þau gera, skólar, vinna, námskeið, skemmtanir, vinaheimsóknir osfrv. er inní litlu sófasetti á hjólum. Ekki skal farið eftir því hvernig Íslendingar eru eða hvernig lífið er á Íslandi, heldur hvernig það ætti að vera, samkvæmt stöðluðu amerísku kapítalístísku lífsmynsturmódeli .
Raunveruleikinn er síðan allt annar: Sama hversu vel snjórinn væri skafinn, ef hann væri skafinn, þá gengur þetta bílaskrölt ekki upp í landi þar sem skiptast á skin og skúrir, frost og fannfergi. Varla kemur á óvart að alvarlegum slysum á bílum fjölgar.
Ef þessu stjórmálafólki er alvara með það að við eigum öll að vera á bíl þá verður það að fórna bíladraumnum sínum þegar því verður að ósk sinni og olíuleysisárin koma aftur, í anda ársins 1974.
Um áramótin á víst að ganga almennilega frá því glæpafólki sem dirfist að sækjast eftir öryggi og betra lífi á hjóli, með því að skattleggja reiðhjól út úr kortinu. Stjórnvöld ríkis og borgar sækja að einstaklingnum og fjölskyldunni úr öllum áttum, en þegar öryggi borgaranna er ógnað, þá er komið að því að láta þetta yfirvald lönd og leið.
PS: Ég var innblásinn af: http://astromix.blog.is/blog/astromix/entry/1213744/
Athugasemdir
Þetta er ágætt hjá þér til að sýna fram á rökleysuna í máli einkabílistanna. En auðvitað eiga báðir hóparnir fullan rétt á að tillit sé tekið til þeirra. Þetta á ekki að snúast um forgang eins á kostnað annars. Að ferðast á hjóli er lífsstíll miklu fremur en aðferð til að komast á milli A og B. Og það á að skipuleggja gang og hjólastíga þannig að mokstur af einni tegund umferðarleiðar teppi ekki umferð á hinni eins og nú er. En hvað skyldu stjórnmálamennirnir áætla mikið fé til hreinsunar á gang og hjólastígum og hvort skyldi nú hafa forgang hjá hreinsunardeildum? Þessi ófærð er erfið fyrir alla og kennir kannski frekjukynslóðinni að stundum verður að hafa fyrir lífinu
Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 29.12.2011 kl. 12:23
Líklega flokkast undirrituð undir bílaliðið. Þó ekki vegna þess að stjórnmálafólk hafi þröngvað upp á mig þeim lífsstíl. Nær væri að segja að ellin hafi gert það.
Þegar komið er á sjötugsaldurinn viljum við gamalmennin oft halda áfram að taka þátt í atvinnulífinu þótt hreyfigetan hafi minnkað frá því sem var á yngri árum. Margt jafnvel bilað endanlega eins og hné og mjaðmaliðir.
Aldraðir og öryrkjar ferðast ekki á reiðhjóli, það er nokkuð ljóst. Varla heldur barnafólk sem þarf að sækja vinnu 10-20 km aðra leiðina og skila að auki af sér börnunum með einhverjum aukakrókum í leiðinni.
Þetta er eiginlega frekar spurning um að sníða sér stakk eftir vexti. Þeir hjóla sem vilja og geta - hinir bíla.
En það er alveg rétt; bílaliðið þegir þunnu hljóði. Við bílalið höfum nefnilega ekkert á móti þeim sem vilja hjóla.
Kolbrún Hilmars, 29.12.2011 kl. 13:34
Sæl Kolbrún,
Ef 15-20% borgarbúa hjóla í vinnuna er ég meira en ánægður. Ég á stóran jeppa og er oft á honum. Ég vil samt geta hjólað í vinnuna.
Þetta er ekki spurning um "allt eða ekkert". Nóg er nú samt af Talíbönum.
Kári Harðarson, 29.12.2011 kl. 14:18
Kári, það er rétt að "þetta er ekki spurning um allt eða ekkert" því hver og einn hefur sínar ástæður varðandi "lífsstílinn" sem eru óháðar vilja yfirvaldsins.
Það var nú eiginlega þess vegna sem ég lagði í púkkið hér að ofan. :)
Kolbrún Hilmars, 29.12.2011 kl. 14:33
Kobrún, það er alveg ótrúlegt hvað maður getur gert og farið á hjóli. Krókana sameinar maður í einn túr (sem reyndar getur orðið ævi mikill þeytingur) og börnin, hef ekki mikla reynslu á því, en það er líka hægt að sækja þau á hjóli.
Þetta er allt spurning um skipulag. Þegar maður er keyrandi, þá þeytist maður eins og manni sýnist. En þegar maður er á hjóli, í strætó eða gangandi þá hugsar maður aðeins betur hvert og hvenær. Tapar maður einhverjum tíma á því að fara aðrar leiðir en bílandi? Jújú, það er svona cirka einn sjónvarpsþáttur eða svo á dag.
Persónulega hjóla ég 20 km á dag, í og úr vinnu, og krókast öll minni erindi á hjólinu. Tók saman um daginn og hef fram að þessu hjólað um 70% virkra daga á þessu ári.
Varðanir öryrkjana, þá ættu margur þeirra að geta hjólað, af sjálfsögðu ekki allir, það er bara eins og með hina "óöryrkjana.
Varðandi alrdaða, þá er gaman að segja af því að ég þekkti til manns (frá Danmörku og býr þar) sem var komin vel að áttræðu. Læknirinn hans sagði við hann að hann yrði að hætta að hjóla vegna stoðgrindavandamála. Fyrir þennan ákveða mann var þetta svipað og þegar menn á Íslandi eru beðnir að hætta að keyra bílana sína. Setur svolítið hugarfarið í samhengi.
PS. ég eignaðist ekki bíll fyrr ég var kominn á fertugsaldurinn.
Daníel Sigurbjörnsson (IP-tala skráð) 29.12.2011 kl. 14:42
Daníel, ég samgleðst þér með það að eiga alla þessa valkosti.
En ég get ímyndað mér að t.d. einstæð móðir í fullu starfi, með 2 til 3 börn sem þarf að dreifa börnunum á þrjá mismunandi áfangastaði og sækja þau aftur ásamt því að koma við í Bónus m.m. eftir vinnu, þurfi kröftugra flutningstæki en reiðhjól.
Sennilega hefur hún ekki einu sinni efni á því að eiga bæði bíl og reiðhjól - en það er auðvitað annað mál. :)
Kolbrún Hilmars, 29.12.2011 kl. 16:47
Sæl Kolbrún. Það virðist vera tendence á Íslandi að draga alla í fast mótaða dilka. Það er ekki hugsun mín með fyrri athugasemd að segja að allir eigi að fara að eins og ég og eigi að hjóla. Mér finnst að allir eigi að hafa val. Valið er auðvitað háð því að hverjum valmöguleika sé haldið eins opnum eins og hægt er.
Valið er ekkert annað en val. Ef þú (ekki beint á þig, Kolbrún, heldur almennt) vilt nota bílinn þá gerir þú það, ef þú vilt hjóla þá gerir þú það og svo framvegis. Ef það sem þú vilt velja er ekki mögulegt, vegna aðstæðna eða fjármuna, líkt og einstæða móðirinn í dæminu þínu, þá þarf kannski að forgangsraða með öðrum hætti. Það sem ég vildi benda á að fleiri geta valið sér aðrar leiðir en eingöngu að aka. Það hefur sést á umferðinni að margur er háður bílnum sínum og sér ekki aðrar leiðir til þess að komast í vinnuna í snjónum, þótt bílar þeirra séu með öllu ónothæfir í snjó. Persónulega tók ég strætó í gær í vinnuna (treysti mér ekki að hjóla) og ég tók bílinn í dag.
Af hverju tók ég bílinn? Jú, vegna þess að í dag þarf ég að útrétta svo margt.
Daníel Sigurbjörnsson (IP-tala skráð) 30.12.2011 kl. 08:48
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.