Tíminn og þú

Ár, mánuður, vika, dagur.  Eitt af framatöldu er öðruvísi.  Veistu hvert?

Árið er hringferð jarðar um sólu, mánuðurinn hringferð tungls um jörð en
dagurinn hringferð jarðar um sjálfa sig.

Vikan (svarið sem ég vildi fá) er ekki háð himintúnglum heldur er hún gamall
verkalýðssamningur milli faraós og ráðinna starfsmanna við pýramídaviðhald,
vatnsveitur og önnur tilfallandi störf.  Faraó var frumkvöðull í
mannauðsstjórnun. Hjá honum áttu menn að vinna sex daga en halda frí þann
sjöunda.

Biblían sagði seinna að Guð hefði haft sama vaktaplan.  Sennilega var það
skrifað til að skapa jákvætt andrúmsloft á vinnustað gyðinga og sýna þeim hverju
hægt væri að koma í verk með góðri tímastjórnun.

Margir kvarta undan tímaskorti.  Þetta er bull.  Þeir hafa allan tímann í
heiminum.  Það má halda því fram að við séum öll í hinu eílifa núi og að tíminn
sé tálsýn.

Flestir eru bara að reyna að gera of mikið.  Þeir borða aðeins of mikið og þeir
vilja líka meiri tíma.  Tími er peningar svo tímaskortur er bara útgáfa af
græðgi.

"Todo" listinn er önnur ástæða fyrir kvörtunum hjá fólki.  Því hættir til að
hrúga öllu á hann þangað það er orðið sannfært um að það muni ekki hafa tíma til
að lifa.  Fyrirmyndar tímastjórnandi ætti væntanlega að byrja listann sinn:

1. Koma út úr mömmu  2. orga.

Listinn myndi enda:  N-1. segja eitthvað spaklegt  N.Deyja.

Það verður eitthvað á todo listanum þegar þú deyrð og eins gott að sætta sig við
það.  Notaðu hann því fyrir hluti sem þú vilt gera, ekki sem áminningu um hvað
þú ert lélegur pappír.

Nákvæmar klukkur komu nýlega til sögunnar.  Klukkur voru ekki gerðar nákvæmar
fyrr en járnbrautafélög þurftu að samræma lestarferðir yfir heimsálfur.

Núna er fólk farið að leika járnbrautalestir hverja einustu mínútu í lífi sínu.
Það er kannski hagkvæmt fyrir þjóðfélagið en ég veit ekki hvort það hámarkar
lífshamingjuna hjá einstaklingnum.

Ég legg til að menn noti Mán-Fös fyrir fyritækið sem þeir vinna hjá, Lau fyrir
fyrirtækið sem þeir reka sjálfir, þ.e. heimilið, en taki sunnudaginn frá fyrir
sjálfa sig.  Ef sunnudeginum er eytt í Smáralind (hvort sem er í innkaup eða
afgreiðslustörf) er það vísbending um að hægja á sér.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jónas Björgvin Antonsson

Annað með "todo" listann fræga. Hann ýtir á afköst en ekki gæði. Að hrúga á sig verkefnum og þjösnast svo áfram til þess að ná þeim aftur út af listanum er ekki endilega góð leið. Ef þú ert mjög heppinn þá endarðu með að gera "réttu" hlutina en ekki hlutina "rétt", endilega.

Þú þarft einmitt að gefa þér tíma til þess að gera hlutina vel - sama hvað um ræðir. Það er líka svo mikið skemmtilegra að einbeita sér að hverju verki, gleyma sér í núinu og dunda við að t.d. leika við barnið sitt. Gera það eins vel og hægt er. Ganga aftur í barndóminn og hugsa ekkert um það sem eftir er á listanum góða.

Að vísu er náttúrulega ekki hægt að nostra við allt. Stundum verður maður að klára ákveðin verk innan ákveðins tíma. Þetta á t.d. við um atriði N-1 "Að segja eitthvað spaklegt". Þar sem N = Deyja þá er ekki víst að þú getir hugsað þig lengi um. Kannski er best að ljúka N-1 af bara snemma. Þetta þarf ekki að vinnast línulega, er það?

 J#

Jónas Björgvin Antonsson, 16.2.2007 kl. 15:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband