Lýðræði og regluverk

Enginn vill lýðræði í alvöru.  "Lýður" þýðir skítapakk.  Vilja ekki flestir fá stjórnendur sem eru viðkunnalegt fólk með svipaðar skoðanir og þeir sjálfir?

Reyndar treysti ég ekki sjálfum mér og mínum líkum til að stjórna miklu.  Allir eru með sína litlu persónulegu sýn á raunveruleikann og hann er svo miklu stærri og flóknari en nokkuð eitt okkar.

Svo eru flestir menn gallagripir.  Ef þeir geta ekki einu sinni hætt að reykja eða grennt sig, hvernig geta þeir þá stjórnað öðrum eins og guðir?

Trúbadorinn Paul Kelly söng:

    Little decisions
    are the ones I can make

    Big resolutions
    are so easy to break

    I don't want to hear about your
    Big decisions
    
Ég er sammála honum.  Venjulegir menn ættu ekki að taka of stórar ákvarðanir.

Í ljósi þess að menn eru ákaflega breyskir og yfirleitt ófærir um að taka stórar ákvarðanir, verandi náskyldir öpum, þá hefur mér sýnst satt að þeir stjórni best sem stjórna minnst.  Þegar menn vilja setja reglur sem aðrir eiga að fara eftir er best að hafa þær sem einfaldastar.

Dæmi um hið gagnstæða:

Ónefndur ráðherra setti skatt á tóma geisladiska.  Peningarnir áttu að fara í að borga  tónlistarmönnum sem eiga hugsanlega tónlist sem yrði hugsanlega brennd á þessa diska.  Það er hægt að brenna bíómyndir og forrit á diska en forritarar og kvikmyndagerðarmenn fá ekki pening úr þessum sjóði.  Mér vitanlega er þessi skattur innheimtur ennþá.
    
Þarna finnst mér N.N. leika almætti.  Jafnvel Guð og jólasveinninn í sameiningu væru ekki færir um að kíkja á alla geisladiskana á landinu og sjá hvað var brennt á hvern disk og koma svo niður um strompinn hjá öllum hlunnförnu tónlistamönnunum með glaðning sem væri útdeild sanngjarnt.

 

Annað dæmi.  Hér er sýnishorn úr tollskránni sem er 526 síður:

    0805 Sítrusávextir, nýir eða þurrkaðir:
    0805.1000 --- Appelsínur
    0805.2000 --- Mandarínur (þar með taldar tangarínur og satsúmur);
    klementínur, wilkingávextir og áþekkir blendingar    sítrustegunda
    [0805.4000 --- Greipaldin, þar með talin pómeló
    --- Sítrónur (Citrus limon, Citrus limonum) og súraldin
    (Citrus aurantifolia, Citrus latifolia):
    0805.5001 --- --- Sítrónur
    0805.5009 --- --- Annað
    0805.9000 --- Aðrir

Þegar ég les tollskrána spyr ég mig: Hverju voru þessir menn að reyna að stjórna?  Var tilganginum náð?  Hvað kostar að framfylgja þessum reglum?  Hvers vegna þarf ríkisstjórn Íslands að gera greinarmun á Sítrónum og Satsúmum?  Líf hvers verður betra?

Hér er sýnishorn úr þriðju Mósebók sem mér finnst vera mjög sambærilegt rit:

Þegar einhver vill færa Drottni matfórn, þá skal fórn hans vera fínt mjöl, og  skal hann hella yfir það olíu og leggja reykelsiskvoðu ofan á það. Og hann skal  færa það sonum Arons, prestunum, en presturinn skal taka af því hnefafylli sína, af fína mjölinu og af olíunni, ásamt allri reykelsiskvoðunni, og brenna það á  altarinu sem ilmhluta fórnarinnar, sem eldfórn þægilegs ilms fyrir Drottin. En það, sem af gengur matfórninni, fái Aron og synir hans sem háhelgan hluta af  eldfórnum Drottins. Viljir þú færa matfórn af því, sem í ofni er bakað, þá séu  það ósýrðar kökur af fínu mjöli olíublandaðar og ósýrð flatbrauð olíusmurð.

En sé fórnargjöf þín matfórn á pönnu, þá skal hún vera ósýrt brauð af fínu  mjöli olíublandað. Þú skalt brjóta það í mola og hella yfir það olíu; þá er það  matfórn. En sé fórn þín matfórn tilreidd í suðupönnu, þá skal hún gjörð af fínu  mjöli með olíu. Og þú skalt færa Drottni matfórnina, sem af þessu er tilreidd.  Skal færa hana prestinum, og hann skal fram bera hana að altarinu. En presturinn skal af matfórninni taka ilmhlutann og brenna á altarinu til eldfórnar þægilegs  ilms fyrir Drottin. En það, sem af gengur matfórninni, fái Aron og synir hans  sem háhelgan hluta af eldfórnum Drottins.

 
Ég ímynda mér að mennirnir sem skrifuðu textann hafi verið andlega skyldir mönnunum sem skrifuðu tollskrána.

Er þetta ekki fullmikil stjórnsemi?

Það þyrfti að setja amk. ein lög í viðbót: Lög og reglugerðir sem ekki er hægt að sjá hvaða áhrif muni hafa (til góðs eða ills) eða hvernig á að framfylgja, fari beint í ruslafötuna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Maron Bergmann Jónasson

Ég held að þú sér einmitt að sýna hér svart á hvítu hvernig opinbera kerfiið virkar.

Allt frá örófi alda hafa verið til blýantsnagandi afætur sem sjúga sig fasta á ríkiskerfið, ég að vísu veit ekki hver greiddi fyrir biblíuskrifin, og hanga þar hvað sem á dynur.

Hvort sem um er að ræða Grikki eða Rómverja til forna eða "mennina" sem sitja við það á daginn að breyta og bæta tollskránna þá verð ég að segja að mér finnst skattpeningunum mínum illa varið þegar kemur að því að borga þessu fólki laun.

Ég vinn hjá innflutningsfyrirtæki og allir þeir óþörfu ríkisstarfsmenn sem ég rekst á í gegnum störf mín vekja óneytanlega upp spurningar um það í hvað skattarnir okkar eiginlega fara.

Ég raunar veit svarið en ég yrði brostinn í grát þegar það yrði komið.

Maron Bergmann Jónasson, 27.2.2007 kl. 18:05

2 Smámynd: Jónas Björgvin Antonsson

Snillingur!

Tvennt þykir mér þó sérlega merkilegt í innleggi þínu. Í fyrsta lagi gerði ég mér ekki grein fyrir því hversu góð uppskriftabók biblían er. Hún er ekkert að flækja hlutina og í örfáum málsgreinum er manni gert ljóst hvernig best er að baka príðis brauð á pönnu eða í ofni. Frábært mál! Þetta er sannarlega frábær bók sem inniheldur eitthvað um allt.

Í öðru lagi velti ég því fyrir hve líkir við erum, ég og Drottinn. Mér finnst nefnilega ilmurinn af nýbökuðu alveg svakalega þægilegur. Þægilegasti ilmur sem ég finn, hreinlega. Ég er samt ekki alveg að sjá það, svona í fljótu, hvernig hann kom því til skila að honum þætti ilmurinn þægilegur... Svo fer maður að spá í því hvort Drottinn grípi stundum fyrir nefið bara. Hvort honum finnist sum lykt hreinlega óþægileg? Þetta er ekki skemmtileg tilhugsun samt, ef maður hugar að því að Drottinn er alls staðar. Líka á náðhúsinu. Þetta á sjálfsagt eftir að valda mér einhverjum vandamálum. Bara að spegúlera...

J#

Jónas Björgvin Antonsson, 27.2.2007 kl. 22:22

3 identicon

Það ætti að leggja tollakerfið niður í heild sinni.  Það er nóg að hafa virðisaukaskattinn (sem ætti að vera 7% á allt). 

"Ef þeir geta ekki einu sinni hætt að reykja eða grennt sig, hvernig geta þeir þá stjórnað öðrum eins og guðir?"   Líka gaman að sjá að þú hefur haft mig í huga við ritun greinarinnar

Ra (IP-tala skráð) 6.3.2007 kl. 10:05

4 Smámynd: Gunnar Ásgeir Gunnarsson

Öll kerfi hafa tilhneigingu til að stækka og þenjast út í það óendanlega eða þangað til þau kæfa sjálft eða það sem þau dafna á

Gunnar Ásgeir Gunnarsson, 6.3.2007 kl. 15:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband