Einsleit fjölbreytni

Mér finnst leiðinlegt að kaupa föt en gaman að fara í búðir eins og  Brynju á Laugavegi og Ellingsen.  Sennilega er það dæmigert fyrir  nerda.

Gamla Ellingsen búðin átti allt; flísatangir í svissneska vasahnífa og  kveik í steinolíuofna fyrir neyðarskýli á Hornströndum. Sumt í búðinni  hreyfðist alls ekki en það var samt þannig "C" vara sem laðaði mig  inní búðina og lét mig kaupa "A" vöruna á endanum.  Ég heillaðist af  fjölbreytninni.

(Fyrir þá sem ekki hafa lært lagerhald þá eru A vörur þær sem seljast  mikið en C vörur þær sem seljast lítið).

Í dag eru flestar búðir í hinum öfgunum.  Eingöngu það sem selst vel  er til sölu.  Það kostar pening að liggja með óhreyfða vöru.  Samkvæmt  þessari speki er í lagi að selja skó en ekki skóreimar eða skóáburð og  það má selja reiðhjól en ekki hjólapumpu eða bætur. Mér leiðast svona  búðir.

Það er svo gaman þegar maður finnur það sem mann vantar.  Ef þú ert að  ganga á Hornströndum og lendir í því að skóreimin slitnar ertu í  slæmum málum.  Þegar þú finnur svo sjórekið reipi sem hægt er að nota  sem skóreim er það góð tilfinning. Það er alvöru vöntun, en ég finn  hana sjaldan og það er lúxusvandamál.

Þrýstingurinn að kaupa er mikill.  Raddirnar í útvarpinu sem segja mér  að hlaupa út í búð eru orðnar jafn skerandi og háværar og ég man eftir  þeim í Bandaríkjunum.  Ég er farinn að lækka þegar auglýsingarnar  koma, eins og ég gerði þar.

Þegar mig vantar eitthvað finn ég ekki neitt af því ég er svo erfiður  kúnni.  Síðast vantaði mig nýjan bakpoka því sá gamli er orðinn  slitinn enda hef ég notað hann daglega í mörg ár.  Ég finn ekki poka  sem er lokað með bandi. Ég vil ekki rennilásapoka, því rennilásinn  eyðileggst löngu áður en byrjar að sjást á pokanum.

Ef ég sætti mig við rennilás bjóðast mér tugir poka. Einhversstaðar  ákvað einhver að pokar með bandi væru "C" vara og þar með voru örlög  bandbakpokaþurfandi manna ráðin.

Í Wal-Mart fást plastbollar í öllum litum og með öllum myndskreytingum  - en bara úr plasti.  Ekki leita að kristal. Úrvalið er algert - og  samt ekkert.  Þetta er mótsögnin sem ég settist til að skrifa um.  Ég  get kallað hana "Einsleit fjölbreytni".

Flestar búðir í Kringlunni selja áprentaða bómull, hampur og hör sjást  ekki.  Karlmannaföt eru einsleit, borin saman við úrvalið af  kvennafötum. (Ég veit aldrei hvernig Prince fór að því að finna fötin  sem hann var í).
PF_982028~Prince-Posters
Það er nóg til af ísskápum - en reyndu að finna ísskúffur (ég held  reyndar að það væri góð hugmynd).

Fyrir 250 milljón árum sprakk "Precambrian" sprengjan, en það er  tímabilið í sögu lífsins á jörðinni þegar allar fyrirmyndir allra  dýrategunda komu fram á mjög stuttum tíma.  Bókin sem lýsir þessu er  stórskemmtileg, hún heitir "Wonderful life" og er eftir Stephen Jay  Gould.

Það merkilega er að á þessum tíma urðu til geysilega mörg skrýtin dýr  sem hafa enga samsvörun í dag.  99% af öllum tegundunum dóu út. Öll  dýr í dag eiga forföður meðal eina prósentsins sem eftir lifði.

Steingerfingar hafa fundist af dýrum sem líktust einhverjum  ofskynjunum úr LSD trippi.  Þessi dýr voru hvorki köngulær né ormar né  neitt það sem við þekkjum í dag. Þegar steingerfingar frá þessum tíma  fundust fyrst, fengu fræðingar flog við að reyna að troða þeim inn í  þekkta flokka dýra.

Burgess1

Öll dýr í dag eru annaðhvort skyld spendýrum eða lindýrum eða köngulóm  eða nokkrum öðrum grunnflokkum.  Feykileg fjölbreytni dýra en örfáar  grunnteikningar.  Engin dýr eru til með hjól.  Engin dýr kallast á með  útvarpsbylgjum.  Ef við hefðum ekki steingerfingana myndum við ekki vita þetta og sakna  því einskis.

Svipaða sögu er að segja úr þróun reiðhjólsins og tölvanna.  Spennandi  nýar hugmyndir komu fram þegar í upphafi en örfáar fyrirmyndir urðu  eftir.

Það þarf róttæklinga til að hugsa út fyrir rammann, svo einhvern  tímann verði eitthvað nýtt til.  Það geta ekki allir setið á sömu  grein.  Við þurfum ekki fleiri pizzu staði og rennilásabakpoka.

Orðið "radical" í ensku er þýtt "róttækur" á íslensku.  Það er góð  þýðing því "radical" kemur úr "radix" á latínu sem þýðir "rót".

Sá sem er róttækur hugsar um hlutina frá rótinni í stað þess að vinna  út frá þeirri grein sem allir sitja á.

Það er þreytandi að vera róttækur því þá detta manni í hug hlutir eins  og ísskúffur þegar allir eru að leita að ísskáp og svo vill maður ekki  ísskápinn fyrir vikið.  Ég er semsagt róttæklingur. Hver hefði trúað  því, eins og ég er með óspennandi fatasmekk.  Verst er að ég nenni  ekki að stofna ísskúffufyrirtæki.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband