30.4.2007 | 20:20
Um lýðræði, frjálst framtak og fleira
Farþegar í lestarvagni fóru að fikta í hitastilli sem sem hafði verið stilltur á 20 gráður. Upp komu deilur.
Kulvísa fólkið vildi fá 22 stig en þeir sem voru þreknir vildu heldur 18 gráður. Haldin var atkvæðagreiðsla og hitinn ákveðinn 22 stig með naumum meirihluta.
Menn voru almennt sammála um að lýðræðinu hefði verið fullnægt, en þreknu farþegarnir héldu áfram að svitna og hugsuðu með sér að það hefði verið gott ef einnig hefði verið kosið um óbreytt ástand.
Seinna komu lestarvagnar með fjögurra manna klefum. Nú sátu þeir heitfengu saman við opna glugga og þeir kulvísu gátu hjúfrað sig í öðrum klefum með ofninn á fullu og gluggana lokaða. Allir voru ánægðir og ekkert reyndi á lýðræðið.
---
Ég hef séð þykk ský af fuglum á flugi en ég hef aldrei séð tvo fugla rekast á og hrapa.
Nokkrir tugir flugvéla að meðaltali eru yfir Atlantshafi á hverju augnabliki. Hver flugvél um sig hefur meira pláss en kúkur í keppnislaug. Samt þarf aragrúa af flugumferðarstjórum mörg þúsund kílómetra í burtu til að stýra þeim.
Vita fuglar eitthvað sem flugmálayfirvöld vita ekki?
---
Í frumskóginum er einstaklingsframtakið á fullu. Hæstu tréin sólunda ómældri orku í að verða hæst til að njóta sólar. Plönturnar fyrir neðan deyja úr ljósskorti.
Í sama skógi hjálpast maurar að. Samhjálpin er alger og eigingirni ekki til enda spurning hvort hver maur hafi meðvitund.
---
Ég hef séð sérfræðing hanna vélmenni sem á að rata út úr völundarhúsi. Ég hef líka séð völundarhús leyst með því að hella vatni ofan í það svo vatnsbunan lekur út um útganginn. Hvernig fór vatnið að því að rata? Til hvers þurfti þá allar tölvugræjunar?
---
Bifreiðaeftirlitið gamla fannst mér gott dæmi um leiðinlegt fyrirtæki. Það var ríkisrekið. Einkarekna Lyf og heilsa er í 2.sæti hjá mér. Fyrirtækið sem mér líkar best við þessa stundina er rekið af bænum: Sundlaugarnar. Einkarekni Bónus er í 2.sæti.
---
Átti lýðræðið við hjá lestarfarþegunum? Lestarfélagið leysti málið án þess að reyndi á lýðræði.
Er miðstýring betri, eða á hver einstaklingur að ráða sér sjálfur, eins og fuglarnir gera á flugi? Kirkjan er miðstýrð, AA samtökin og Al-Quaida ekki.
Er samvinnan best eins og hjá maurunum eða gildir einstaklingsframtakið eins og hjá trjánum?
Á að kaupa dýrar lausnir á vandamálum sem eru kannski ekki vandamál ef maður setur önnur gleraugu á nefið?
Hvort er ríkisrekstur eða einkarekstur betri?
Ég hef engin patent svör, bara að það er ekki hægt að alhæfa neitt. Þetta eru bara verkfæri og hvert verkefni er sérstakt.
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkur: Bloggar | Breytt 6.6.2007 kl. 10:48 | Facebook
Athugasemdir
Skemmtileg dæmi, sem þarfnast ekki allsherjarniðurstöðu. Alltaf smá efins um að slík niðurstaða sé til. Kropotkin, gamli anarkistinn, lenti í miklum deilum við Darwinista um hvort mönnum (og dýrum) væri eðlislægt að hjálpast að eða berjast. Hann leiddi fram ýmsar sögur um hagræðið af samvinnu og hélt því fram að það væri af praktískum hvötum sem nágranninn kæmi með vatn í fötu ef brynni í næsta húsi. Eitthvað, ,,eðlisávísun" kannski segði honum að þetta væri best og skynsamlegast. Ég er höll undir anarkismann, finnst hann skynsamlegur, en jafn efins um að til sé einhver algild lausn allar mála.
Geimferðastofnun Bandaríkjanna tók eftir því að ekki var hægt að skrifa með kúlupennum í geimnum. Í nokkur ár fór fram þróunarvinna og loks leit tækniundrið dagsins ljós, penni sem hægt var að nota til að skrifa í geimnum. Rússarnir notuðu blýant.
Anna Ólafsdóttir Björnsson, 30.4.2007 kl. 22:09
Þorsteinn Gunnarsson, 2.5.2007 kl. 03:22
Mjög skemmtilegar og athyglisverðar pælingar hjá þér Kári. Fengu mig til að hugsa...
Sigurjón, 4.5.2007 kl. 10:22
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.