Solidarnosc

Um hjólaviðgerðir

Þegar ég var táningur vann ég í hjólabúð.

Einu sinni kom sending af hjólum með gallaða gíra.  Ég sá það ekki strax, þetta  var ekki augljós galli.

Ég var samt farinn að sjá mynstrið þegar tíu - tólf kúnnar voru búnir að koma út  af þessu. Þeir borguðu allir möglunarlust fyrir nýja gíra og héldu að þetta væri  þeim að kenna.

Nú var ég farinn að sjá hvað var í gangi og hefði ekki átt að taka við  peningunum heldur endursenda brotnu gírana til framleiðandans.  En ég "bara vann  þarna" og pældi ekki mikið í þessu.

Allir sem fengu hjól úr þessari sendingu borguðu fyrir viðgerð að lokum.


Um neytendasamtök

Fólk sem er ekki í samtökum og deilir upplýsingum sín á milli er ekki í aðstöðu  til að sjá mynstur eða vinna sameiginlega að sínum málum.  Það er dæmt til að  vera misnotað, jafnvel af þeim sem eru varla að reyna.

Það skiptir ekki máli hver misnotar.  Málið er að illa upplýst fólk lætur  misnota sig.  "There is a sucker being born every minute" átti P.T.Barnum að  hafa sagt. "A fool and his money are soon parted" segir enskur málsháttur.

Á Íslandi er jarðvegurinn frjór fyrir misnotkun. Hraust neytendasamtök væru  merki um sterka grasrót og virkt lýðræði.  Því miður eru þau álíka sterk hér og  félag esperantista (fyrirgefið, esperantistar!)

Í Íslandsklukkunni var Jón Hreggviðsson var troðinn í skítinn af dönskum  yfirvöldum en lofaði samt sinn danska kóng í hástert, fastur í sínu fari - þangað til hann kom til Kaupmannahafnar og sá með eigin augum hallirnar sem  höfðu verið reistar á kostnað íslendinga.  Þá óskaði hann að hann hefði drepið  kóngsins böðul.


Um afleiki

Brotnir gírar og hátt lyfjaverð eru hjóm hjá því að selja sameignir þjóðarinnar,  stofnanir, land og orku fyrir slikk.  Ég veit ekki hvort við erum að því, ég er  ekki nægilega upplýstur!

Lenape indjánar seldu Manhattan eyju til Hollendinga árið 1626 fyrir 24 dollara.  Það er fyndin og skemmtileg tilviljun að Wall Street skuli standa þar í dag og  sýnir hvað kaupmenn á eyjunni hafa haft gott viðskiptavit í gegnum árin.

Menn hafa gert mikið grín af indjánunum fyrir þetta en ég er viss um að  indjánarnir töldu sig vera að gera góð kaup út frá þeim upplýsingum sem þeir  höfðu.

Eignaréttur var ekki vel skilgreint hugtak hjá þeim.  Indjánunum fannst landið  ekki vera eitthvað sem hægt væri að selja. Þeir væru eiginlega að plata hvíta  manninn því hvernig gæti nokkur maður átt land?

Menn hafa líka bent á að 24$ væru orðinn ágætur peningur í dag ef indjánarnir  hefðu ávaxtað þá. Á 5% ársvöxtum væru þeir orðnir tveir milljarðar  bandaríkjadala.  Á 10% vöxtum væru þeir 80 kvadrilljón bandaríkjadalir  (80,000,000,000,000,000 dalir) sem er meira en allir peningar í heiminum.  Eru  ekki vaxtavextir magnað fyrirbæri?  Lántakendum er hollt að hafa það í huga.

Indjánarnir höfðu ekki um margar sparileiðir að velja og mér vitanlega eiga þeir  ekki 80 x 10 í 15.veldi dollara í dag.

Ég vona að íslenskur almenningur eigi ekki of mikið sameiginlegt með Lenape  indjánum fyrir 375 árum sem voru þó spurðir, og þeir ákváðu verðið.

Mikið af þeim nýja auði sem ég sé í dag kemur til af því menn "með glöggt auga  fyrir tækifærum" hafa lært að meta til fjár það sem var ómetanlegt áður, hvort  sem er sameiginlegt landssvæði, fiskveiðilendur, bankar eða burðarnet símans.

Gott hjá þeim!  Ef þeir hafa hagnast á okkar kostnað er það okkur að kenna fyrir  að sofna á verðinum - eða hafa aldrei vaknað almennilega síðan við fengum  sjálfstæðið.

Erum við að selja landið í skiptum fyrir útigrill og jeppa?  Ég hreinlega veit  það ekki.


Um blogg

Ég finn fyrir pirringi hjá mörgum sem blogga, þeir eru að agnúast út í  samfélagið. Það er gott, því samskiptaleiðir eru þá amk. opnar og menn tala um  það sem betur má fara.  "Guði sé lof það svíður" var mamma vön að segja þegar ég  fékk sár.  Það er hættulegra ef allt er dofið.

Getur blogg leitt af sér eitthvað uppbyggilegra en þus?  Getur verið að netið  eigi eftir að valda varanlegri breytingu á uppbyggingu lýðræðis?  Verðum við  upplýstari en Lenape indjánar fyrir 375 árum?

Það þarf meira en flottar tölvur til að fá virkt lýðræði og neytendameðvitund og  ríkisstjórnin mun ekki vinna vinnuna fyrir okkur.  Við fáum þá ráðamenn sem við  eigum skilið.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

heyr heyr, takk fyrir góðar hugvekjur um lýðræðið okkar, vonandi tekst okkur að verða upplýstari, en þá þurfum við líklega að ræða hlutina meira með þekkingu....

Sigurður Þór Guðmundsson (IP-tala skráð) 6.7.2007 kl. 08:47

2 Smámynd: Björg Árnadóttir

Góður pistill. Mjög sammála. Held að bloggið geti orðið afl til breytinga. Það fær alla vega ólíklegasta fólk til að tjá sig um hinar ýmsu hliðar þjóðfélagsins, þ.á.m. mig!

Björg Árnadóttir, 6.7.2007 kl. 11:25

3 Smámynd: Anna

Þetta er ótrúlega góður pistill hjá þér. 

Varðandi bloggið, þá held ég að bloggið sé afar oft útrás fyrir gremju, hvort sem hún er samfélagsleg eða einkamál og spurning hvort það hefur einhver áhrif þegar til lengri tíma er litið.  Það er a.m.k. sjaldgæft að sjá blogg sem er einungis á jákvæðum nótum.
Hins vegar er bloggið snilld að því leyti að eftir nokkur ár verða til ótal heimildir um lífið eins og það er, hvernig fólk tekur á hversdagslegum og alvarlegum hlutum og það er mín kenning að arfleifð bloggsins (a.m.k. eins og það er í dag) verði fyrst og fremst sagnfræðileg.

Anna, 6.7.2007 kl. 12:22

4 Smámynd: Óskar Þorkelsson

Frábær pistill :)

Óskar Þorkelsson, 8.7.2007 kl. 22:11

5 Smámynd: birna

takk fyrir góðan pistil Kári

birna, 11.7.2007 kl. 11:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband