13.7.2007 | 10:50
Breytum tollalögunum eins og ef við værum að ganga í Evrópusambandið.
Ef tollakerfið yrði einfaldað gæti hver sem er flutt inn vörur.
Ef mér líkaði ekki verðið í búðum gæti ég farið í verslunarferð til Englands og láta senda mér heim nokkrar pallettur.
Eins og ástandið í tollamálum er núna, þarf her af sérfræðingum til að stunda innflutning. Tollskráin er mörghundruð blaðsíður og gerir greinarmun á Klementínum, Satsúmum og Tangerínum.
Tollarar eru í dómarahlutverki og ekki er hægt að áfrýja: Er iPod tölva, upptökutæki eða plötuspilari? Í dag er hann upptökutæki og í hæsta mögulega tollflokki, enda kostar hann þrefalt á við öll önnur lönd. Tollurinn gæti breytt þessu með einu pennastriki, slíkt er veldi hans.
Við borgum fullorðnum mönnum laun fyrir að viðhalda þessum skrifræðisóskapnaði. Ég tími því ekki. Breytum tollalögunum eins og ef við værum að ganga í Evrópusambandið.
Matvæli dýrust á Íslandi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Eins og talað úr mínum munni Kári. Við þurfum ekki að ganga í ESB til að fella niður tollana eins og sumir halda blákalt fram í einhverrri undarlegri minnimáttarkennd.
Lifi sjálfstætt Ísland!
Haukur Nikulásson, 13.7.2007 kl. 10:54
Og stór amerískur pallbíll t.d. Ford 350 er vinnutæki án vörugjalda (30% held ég)en Toyota Hillux er bifreið með vörugjaldi. Ætli einhver hjá tollinum hafi langað í amerískan jeppa?
Sigurður Þór Guðmundsson (IP-tala skráð) 13.7.2007 kl. 11:03
Það er mjög erfið pólitísk aðgerð að fella niður verndartollana einhliða og mun aldrei vera samþykkt á hinu háa Alþingi, það held ég að sé fullreynt. Það er mun einfaldara að ganga í ESB og fá þaðan tollaumhverfið sem við viljum vera í, og á móti fáum við aðgang að styrkjakerfið sambandsins til að vega upp á móti þeirri tekjuskerðingu sem bændur á Íslandi verða fyrir.
.
Landbúnaðar og sjávarútvegsstefna ESB er það eina sem við erum ekki að taka þátt í, því við erum hluti af innri markaðinum í gegnum EES og erum því að taka upp alla vinnumálalöggjöf, löggjöf um allann fyrirtækjarekstur og allt þessháttar sem snýr að innri markaðinum. Þess vegna er oft sagt að við séum 80% aðilar að ESB, þar sem Ísland þarf að taka upp 80% af þeim evrópusambandslögum sem Svíþjóð þarf að taka upp! Ísland verður því ekkert minna sjálfstætt við að ganga í ESB! Danmörk og Svíþjóð eru sjálfstæðar þjóðir. Minnimáttarkenndin er sú að halda að þetta samstarf sé einhverskonar yfirstjórn sem við Íslendingar munum ekki höndla.
.
Lífi sjálstætt Ísland! og nýtum sjálfstæði okkar til að vinna með öðrum þjóðum að meiri hagsæld.
Jónas Tryggvi Jóhannsson, 13.7.2007 kl. 11:07
Hjartanlega sammála. Tollskrá má breyta með reglugerð. Alþingi kemur ekki að slíku að minni bestu vitund.
Sveinn Ingi Lýðsson, 13.7.2007 kl. 14:47
Það á ekki að breyta tollum, það á að fella þá niður með öllu.
Frjáls alþjóðleg viðskipti eru góð fyrir flesta jarðarbúa, tollar þjóna bara takörkuðum sérhagsmunum á kostnað annarra. Tollar eru ekki réttlætanlegir.
Geir Jónsson (IP-tala skráð) 13.7.2007 kl. 21:19
Ágætu bloggararGaman að sjá að fleiri en ég hafa gaman af tollamálum.Ég gat ekki orða bundist þegar ég sá af hve lítilli þekkingu var fjallað um tollamál og starfsmenn tollsins í þessu bloggi og athugasemdum þess. Það kann að vera að ástæða þess að ég er svona viðkvæmur fyrir þess sé að ég er formaður Tollvarðafélags Íslands, auk þess sem ég gegni stöðu yfirmanns hjá tollstjóra. Ég vil hins vegar taka skýrt fram að þessa grein skrifa ég ekki í umboði tollyfirvalda eða Tollvarðafélagsins, heldur er um sjálfstæða skoðun mína að ræða.Svör við Kára HarðarsyniFyrir það allra fyrsta vil ég benda Kára Harðarsyni á að öllum er heimill innflutningur til Íslands, nema að sjálfsögðu ef um innflutningsbann eða – takmarkanir sé að ræða á varningnum. Ef þér finnast reglurnar of flóknar gerir þú líkt og þúsundir íslenskra fyrirtækja og einstaklinga: þú kaupir þér aðstoð tollmiðlara.Drífðu þig endilega til London og taktu með þér nokkrar ,,pallettur” af klementínum og seldu ódýrt – ég kem að kaupa af þér – ekki málið!Hvað boð og bönn eða takmarkanir varðar,þá styðjast slíkar innflutningstakmarkanir og –bönn við lög og reglugerðir. Því er við Alþingi að sakast, því lögin eru sem alþjóð veit sett af Alþingi en ekki stjórnvöldum. Alþingi ákvarðar jafnframt heimildir framkvæmdavaldsins til setningar reglugerða og annarra reglna. Að sakast við stjórnvöld á borð við tollstjóra (tollverði), sem einungis sinna skyldu sinni og framfylgja lögunum er ekki sanngjarnt.Þegar tollverðir eða aðrir starfsmenn tollstjóra tollflokka eru þeir einnig að framfylgja landslögum. Tollskráin er viðhengi eða viðauki við tollalögin og hefur lagagildi. Þegar tollstarfsmenn tollflokka eru þeir einungis að flokka varning í réttan tollflokk, þannig að rétt gjöld séu greidd í ríkissjóð og rétt leyfi liggi fyrir við innflutning (fyrir hvoru tveggja eru sem sagt lög sem fyrr segir).Tollskráin (Harmonized System) er notuð í yfir 200 löndum um allan heim og er gefin út af Alþjóðatollastofnuninni (World Customs Organization – WCO). Aðalmarkmið WCO og Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (World Trade Organization – WTO) – sem er aðal samstarfsaðli WCO og ekki þekkt fyrir að standa í vegi fyrir alþjóðaviðskipum – er að auðvelda og auka heimsviðskiptin. Tollskráin er einmitt tæki til að auðvelda viðskipti landa á milli, en ekki leið til hindrunar viðskipta landa á milli. Þegar ég sem tollari sé tollskrárnúmer, þá veit ég annaðhvort hvaða vara er á bak við númerið eða ég fletti því upp.Tollskráin er einnig mikilvæg fyrir hagtölur, en með númerunum er hægt að fylgjast með inn- og útflutningi á öllum varningi. Innflutnings- og útflutningsaðilar – og stofnanir hins opinbera – geta þannig fylgst með heildar-innflutningi í ákveðnum tollskrárnúmerum. Þetta nýtir sér heill her af fólki í þjóðfélaginu, bæði hjá fyrirtækjum og ríkisstofnunum.Íslendingar eru t.d. með eigin númer á alls kyns fisktegundum og öðru sem aðrar þjóðir hfa ekki og nýtir þær upplýsingar sem tollyfirvöld veita til margra hluta.Kalifornía hefur ekki áhuga á að flokka loðnu og síld í mismunandi tollflokka eða löngu og karfa eða þorsk, en í staðinn hafa þeir áhuga á ýmsum cítrus-ávöxtum s.s.: klementínum, satsúmum og tangerínum.Tollarar ákveða því ekki að í dag fari ,,i-pod” í þennan flokk og á morgun fari hann í annan tollflokk. Sé slíkt gert er það lögbrot, sbr. umfjöllun mína á undan, og það á að kæra til tollstjóra og síðan til ríkistollanefndar. Viljirðu hins vegar lækka gjöldin þarftu að tala við hið háa Alþingi – hér að neðan er 77.gr. stjórnarskrárinnar okkar, svo þetta sé á hreinu:Skattamálum skal skipað með lögum. Ekki má fela stjórnvöldum ákvörðun um hvort leggja skuli á skatt, breyta honum eða afnema hann.
Enginn skattur verður lagður á nema heimild hafi verið fyrir honum í lögum þegar þau atvik urðu sem ráða skattskyldu.Veldi tollsins er sem sagt ekkert þegar að ákvörðunum um gjöld kemur eða varðandi tollflokkun – þar ræður blákaldur lagatextinn.Hvað lokakaflann hjá þér varðar, Kári minn, þá finnst mér leiðinlegt að valda þér vonbrigðum, því sama ,,skrifræðisóskapnaðinn” er að finna í tollamálum innan ESB og einnig bölvaða tollskrána – sorry!Svar við Hauki Nikulássyni:
Hárrétt Haukur:
Við þurfum ekki að ganga í ESB til að fella niður tollana eins og sumir halda blákalt fram í einhverrri undarlegri minnimáttarkennd.Að fella niður tolla kemur tollinum ekkert við. Ef við göngum í ESB erum við alls ekki að fella niður tolla, þvert á móti erum við að ganga í tollabandalag, þ.e.a.s. það eru engir tollar innan ESB en hins vegar tollar á innflutning frá öðrum löndum, jafnvel á lönd sem við erum með fríverslunarsamninga við nú (og innflutningur er tollfrjáls frá).
Svar við Sigurði Þór GuðmundssyniÞú heldur að amerískur pallbíll sé með 30% toll. Það er rangt hann er með 14% vörugjald. Bíll upp að 2.0 lítra vélarstærð er með 30% vörugjald og bíll með stærri vél en 2.0 lítrar er með 45% vörugjaldi.
Ég þekki engan í tollinum sem á pallbíl eða heldurðu virkilega að fyrir utan minn vinnustað geymi allir tollararnir 15 pallbíla - ,,come on get sensible” – bara pínu!
Líkt og ég sagði áðan er það Alþingi sem ákveður hvað gjöldin eru há, ekki tollurinn.
Svar við Jónasi Tryggva JóhannssyniHárrétt hjá þér að: ,,Það er mjög erfið pólitísk aðgerð að fella niður verndartollana einhliða og mun aldrei vera samþykkt á hinu háa Alþingi, það held ég að sé fullreynt. Það er mun einfaldara að ganga í ESB og fá þaðan tollaumhverfið sem við viljum vera í ...”Hvað bætur frá ESB varðar, þá hefur ESB í hyggju að skera niður styrki til bænda á næstu árum og skikka Evrópulönd til að minnka niðurgreiðslur sínar. Þetta mun auðvelda fátækari löndunum ESB innflutning til þeirra ríkari, en einnig mun þetta auðvelda þeim löndum, sem hafa frá náttúrunnar hendi betri skilyrði til að stunda landbúnað innflutning til annarra ESB.Ég er hins vegar evrópusinni – þótt ég vilji fara varlega en djarflega – og er þér hjartanlega sammála hvað lok greinarinnar varðar, þ.e.a.s. að við ættum að skoða alvarlega aðild að ESB – en ekki ganga inn í bili. Ég hef verið þó nokkuð í Brüssel sem formaður TFÍ og tekið þátt í samstarfi þar og hef það ekki á tilfinningunni að þar sé valtað yfir minni löndin innan ESB – þvert á móti.Svar við Sveini Inga LýðssyniSjá að ofan: Tollskráin er lög og verður því ekki breytt með reglugerð – kynna sér málin – Bitte!Svar við bloggi Geirs Jónssonar:Ekki sammála um að fella eigi niður tolla með öllu án þess að við fáum tollfríðindi á móti– málið er flóknara en þetta, án þess að ég geti útskýrt það í nokkrum setningum.Í grundvallaratriðum sammála þér hvað þetta varðar:,,Frjáls alþjóðleg viðskipti eru góð fyrir flesta jarðarbúa, tollar þjóna bara takörkuðum sérhagsmunum á kostnað annarra. Tollar eru ekki réttlætanlegir.”Jæja búinn að gera nokkra brjálaða og ekki í fyrsta skipti!Kveðja,Guðbjörn GuðbjörnssonGuðbjörn Guðbjörnsson, 14.7.2007 kl. 00:27
Takk fyrir ítarleg og góð svör, Guðbjörn. Þú hefur gefið mér heilmikið að hugsa um.
Kári Harðarson, 14.7.2007 kl. 09:09
Sáu menn þáttinn í ríkissjónvarpinu um Nýfundnaland og þróun mála þar eftir þeir ákváðu að verða hluti af Kanada á sama tíma við fengum Sjálfstæði. Þeir eru mikið ríkari af auðlindum en við (olía fiskur málmar) en dag er þar hörmungar ástand, 30% atvinnuleysi.
þeir fá senda ölmusutékka frá Kanada og njóta í engu þeirra auðlinda sem þeir búa yfir allt flutt inn ódýrt en sjálfsmyndin ónýt.
Kanadastjórn lítur á þá sem útjaðars rassgat og eru búnir eyðileggja fiskimiðin þeirra í mikilvægari milliríkjaviðskiptum við Spánverja og aðra.
Evrópulöndin öll eru fyrst og fremst iðnaðar og þjónustulönd en búa yfir litlum náttúrulegum auðlindum en ísland og Noregur búa yfir hluta af þeim auðlindum sem Evrópa þarfnast og gerir hér raun byggilegt
Hvernig væri ástandið á íslandi ef hér væri ekki fiskur eða orka eða þær auðlindir nýttar án okkar aðkomu samanber Nýfundnaland
Gunnar Ásgeir Gunnarsson, 14.7.2007 kl. 11:52
Gunnar: Það er ekkert skylt með því að ganga inn í ESB og sameinast Kanada. Evrópusambandið er samstarf sjálfstæðra og fullvalda landa. Það er bara bull að reyna líkja þessu saman.
Jónas Tryggvi Jóhannsson, 14.7.2007 kl. 13:14
Jónas það er mjög augljóst að það er vilji innan ESB að gera það að ríki á endanum, þróunin hefur einfaldlega stefnt í þá átt. Af hverju heldur þú að þeir þurfi alltaf að breyta nafninu reglulega?
Evrópusambandið er seinasta skrefið (og nafnið) áður en þetta verður að einu ríki, "Bandaríki Evrópu".
Geir Jónsson (IP-tala skráð) 14.7.2007 kl. 15:19
Kári, Evrópusambandið er harðlæst fyrir okkar landbúnaðarvörum með ofurtollum og tæknilegum hindrunum og að opna einhliða mundi gera út af innlenda framleiðslu
Í fyrra ráðstafaði íslenska ríkið 4.2% af útgjöldum sínum til landbúnaðar og menntunar bænda en þetta sama hlutfall er 56% hjá EU og þá er ekki teknir þeir styrkir sem löndin styrkja sína eigin bændur eða fræðslukostnaðurinn þar
Gunnar Ásgeir Gunnarsson, 14.7.2007 kl. 23:42
Gunnar; ESB er samstarf en ekki land, löndin innan þess eru sjálfstæð og fullvalda og sjá sjálf um sín útgjöld rétt eins og hér á Íslandi. Það er bara bjánaskapur að bera saman fjárlög ríkis og sambands - það er ekki einusinni epli og appelsínu samanburður því það eru amk bæði ávextir. Það væri gaman ef þú, Gunnar, myndir lesa einhventímann svörin við gasprinu þínu í stað þess að halda áfram í ruglinu án þess að hafa skoðað afhverju ruglið þitt stenst ekki.
.
Það er alveg rétt að stór hluti fjárlaga Evrópusambandsins eru landbúnaðarmál, en það er bara útaf því að þetta er eini ríkisstyrkti iðnaðurinn innan sambandsins og vegna þess að þetta er einn sameiginlegur markaður þá sér sambandið um þann hluta. Samt sem áður eru þessir styrkir til bænda innan ESB helmingi lægri en hér á Íslandi!
.
Það er enginn heilbrigður maður að láta sig dreyma um eitt stórt Evrópuríki í stað mismunandi evrópskra landa. Þrátt fyrir að löndin sjái sér hag í því að víkka út samstarfið í sameiginlegan her og annað, þá þýðir það alls ekki að löndin séu að ákveða að sameinast.
Jónas Tryggvi Jóhannsson, 15.7.2007 kl. 10:56
Jónas. Ég þekki nokkra bændur í Evrópu og við höfum verið að reyna bera saman en það er mjög erfitt vegna flókinna reglna. Þeir bændur sem taka sig saman 4-5 og ráða sérfræðinga til að passa upp á það sækja um styrkina hafa það mjög gott því það er alltaf verið breyta kerfinu.
En það sem í rauninni Stendur upp úr er spillingin og þeir sem eru glannalegastir í því nýta sér flókið kerfið, grá svæði með fölsuðum skýrslum eða hálf sannleik eru að hafa það best. Ég er ekki spenntur fyrir slíku kerfi þar sem þeir sem eru ósvífnastir komast best af. Hér á landi höfum við hlutina á borðinu.
P.S
Jónas. Ég er búinn að starfa við þetta í yfir 20 ár, lifi og hrærist á þessum markaði svo kemur einhver skólastrákur og segir mann bulla, yfirleitt nenni Ég ekki svara svona málflutningi
Gunnar Ásgeir Gunnarsson, 15.7.2007 kl. 18:25
Ég er nú útskrifaður úr skóla Gunnar, en Kári kenndi mér einmitt aðeins þar! Það sem mér fannst bull hjá þér var að líta á ESB sem land sem við myndum sameinast, því það er mjög langt frá því að vera satt. Það sem skiptir máli er samt að WTO eru að vinna hörðum höndum að því að lækka verndartolla og styrki til Landbúnaðar um allann heim, og því er alveg ljóst að við þurfum að breyta þessu kerfi hérna ef við ætlum að vera með í alþjóðaviðskipum - það er bara spurning hvenær og hvernig við viljum gera þetta.
.
Ég horfi á landbúnaðarstefnu ESB sem þægilega leið sem við erum búin að sjá hin norrænu löndin reyna - og reynslan er að matvælaverð lækkar mjög hratt. Það er mjög gott að þau eru búin að fara þessa leið, því t.d. Finnland fékk undanþágu fyrir landbúnað sem myndi nýtast okkur þannig að við getum haldið áfram að borga bændum hér nokkuð háa styrki. Það má samt ekki miskilja mig þannig að mér finnist þetta vera fullkomin og hnökralaus leið; þetta er bara besta og áhrifamesta raunhæfa leiðin til að ná fram jákvæðum breytingum og koma okkur í jákvæðari farveg til framtíðar.
.
Ég veit til þess að fólk innan bændastéttarinnar er farið að skoða þennan möguleika mjög alvarlega, því það veit eins og við að þetta kerfi getur ekki haldið mikið lengur. Ég hvet því fólk til að íhuga hvaða raunhæfu leiðir eru í boði til að ná þessum breytingum fram - ég sé enga aðra en þessa, því frjálshyggjudraumórar um að við fellum niður tolla og styrki munu aldrei verða að veruleika (sem betur fer, því það færi mjög ílla með Íslenskan landbúnað).
Jónas Tryggvi Jóhannsson, 16.7.2007 kl. 01:40
Jónas.
þú hefur margt gott til málanna að leggja og ég er meira að segja stundum sammála þér
En til að umræðan verði skemmtileg og nái árangri verður maður að gæta hófs í orðavali og þá er meira mark tekið á því sem skrifað er.
með bestu kveðju Gunnar
Gunnar Ásgeir Gunnarsson, 16.7.2007 kl. 10:03
Þakka Guðbirni góðan pistill um tollinn, eitt sem ég hjó eftir hjá honum, en það var ef manni þykir reglurnar flóknar þá gæti maður ráðið sér tollmiðlara. Það er nefnilega ekki þannig að tollurinn leiðbeini manni í gegnum reglurnar, sem mér hefði þótt eðlilegra. Almennt ræður maður sér sérfræðinga til að maður borgi sem lægst gjöld, en ekki til að maður fái að borga gjöldin yfirleitt.
Í þessu finnst mér hlutverk tollsins stundum kristallast, þ.e. koma í veg fyrir að þú flytjir eitthvað inn í stað þess að aðstoða þig við það. En þarna er líklega við ráðuneyti eða alþingi að sakast ekki tollaranna.
Annars var þessi umræða komin út í eitthvað allt annað.....
Sigurður Þór Guðmundsson (IP-tala skráð) 16.7.2007 kl. 15:11
Góður Kári...
Það er athyglisvert að lesa tilkynninguna frá Hagstofunni. Mikið kapp er lagt á að draga úr trúverðugleika niðurstöðunnar með því að draga upp einhverjar gamlar tuggur um gengisbreytingar. Með þessum æfingum tókst sérfræðingum Hagstofunnar að útskýra uþb 3%, en hvað með hin 60%? Þetta er náttúrulega bara fyrirsláttur. Niðurstaðan er ennþá ljós, maturinn á íslandi er dýrari en alls staðar annars staðar í evrópu, og þó víðar væri leitað.
Ef það væri bara maturinn sem er svona dýr, þá værum við kannski í góðum málum, en það er bara allt á uppsprengdu verði, vegna tollastefnu ríkisins og of lítils markaðar.
Ármann (IP-tala skráð) 16.7.2007 kl. 17:39
Sjáum hvernig innganga fátæku landanna í Autur-Evrópu gengur í hin ríku Vestur-Evrópulönd gengur og tökum stöðuna eftir svona 10 ár eða svo. Ef vel gengur í ESB, en illa hjá okkur, getum við sótt um; ekki eins og staðan er í dag.
Sigurjón, 17.7.2007 kl. 01:41
Nú, kannski eins og í Danmörku eða Sviss, þar er nú ekki náttúruauðlindunum fyrir að fara. En hugvitið nóg.
Því miður erum við allt of sein, erum búin að missa af lestinni nokkrum sinnum. Hefðum átt að fara inn með Svíþjóð og Finnlandi.
Vilhjálmur Þorsteinsson, 17.7.2007 kl. 12:32
Tollurinn sjaldnast til að þjónusta fólk:
Heyrðu ég hringdi í Tollin s: 425-0650
Og þar svaraði mér maður sem sagði mér að þeir eru hættir að skrá vörur við hliðið vegna þess að 90% af öllu sem var skráð við hliðið var smiglaður varningur.
Veit ekki alveg hvar hann fékk þessa tölu fram en þetta var allavega málið.
Ég spurði hann hvernig ég ætlaði að koma vél sem ég hef ekki græna hvort að fyrri eigandi hafi borgað af henni eða ekki hafi greitt af henni. Og ég þekki þann mann bara með notendanafni á internetinu.
Þá segir hann mér að ég verði að bera sannanir fyrir þessu máli. Og ég verði að borga vask ef að fyrri eigandi hefur ekki gert það.
Ég spurði nú bara þennan ágæta mann um það hvernig ég gæti vitað hvort hann hefði gert það eða ekki. Og þá segir hann að hann geti flett því upp á móti kennitölu mannsins. (Munið það, skráið kennitölu allra sem þið kaupið notaða hluti af)
En ég spurði hvort tollafgreiðslan skráði nokkuð niður seríal númer á myndavélum og öðrum innfluttum búnaði eða ekki. En það gera þeir ekki Question
En þá ætti maður að geta sagt í tollinum nákvæmlega hvaða kennitölu sem er. (Sem maður veit að hefur tollafgreitt myndavél og linsur) Og þannig sloppið í gegnum tollin.
Ég spurði nú þennan ágæta mann hvernig ég ætti að bera mig að með það eina að koma myndavélini minni í gegnum tollin vegna þess að ég veit ekki kennitölu né fullt nafn á manninum sem ég keypti vélina af.
Og hann segir mér að það er engin leið fyrir mig. Ég lendi sennilegast í því að þurfa að borga VSK af vélini minni. Sem er að verða 1.5 ára gömul.
Hressandi... Er ekki hægt að fara með svona viðtöl í fréttirnar?
Jón Ragnarsson, 21.7.2007 kl. 17:16
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.