Potpourri

Gott er að verzla

Það er ánægjulegt að kaupa í matinn þótt ekki sé nema tómata, baunir og eina kjötsneið hér í Frakklandi.  Með þessu borða ég Baguette" og drekk eplacider frá Bretagne með. (4,5%)


p9150042

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Maturinn sem ég elda er svo einfaldur en hráefnin eru svo góð. Grænmetið í Yggdrasil á Skólavörðustíg skagar reyndar langleiðina upp í þessi gæði.  Maður dettur sjálfkrafa í "Franskt eldhús".

Hér er skinka alvöru skinka og lítur út eins og skinka.

 p9150044

 

 

 

 

 

 

 

 

Ferköntuðu "skinkuna" að heiman hef ég ekki séð til sölu.  Ég hef séð hana í Bretlandi, en þar heitir hún "SPAM".  SPAM er pressað hakk með viðbættu kartöflumjöli eins og íslenska "skinkan".

Hér er fullorðið fólk að afgreiða.  Kannski er það vegna þess að eftirspurn eftir vinnuafli er ekki eins mikil hér eins og á Íslandi. Mér finnst samt vinalegt að jafnaldrar eða eldri skuli afgreiða mig.

p9150026

 

 

 

 

 

Einu sinni fann ég ekki klósetthreinsilög í Krónunni. Ég spurði afgreiðslubarnið hvar hann væri.  "Er þetta það?" sagði það og kom með uppþvottalög.  Það hefur kosti að hafa fullorðið fólk í afgreiðslu.

 

Skipulag

Þegar ég mætti til starfa var þegar búið að merkja hurðina með nafninu mínu, gera nýtt tölvupóstfang, setja upp nýja tölvu og útvega skrifborðsstól.  Lykilkortið mitt var tilbúið og bara eftir að smella af mér ljósmynd og setja á kortið.

Ég gat strax notað kortið til að kaupa mat í mötuneytinu og opna hurðir. Ég gat líka farið á bókasafnið og tekið bækur.  Ég fékk lítinn bækling til að setja í veskið með tölvupóstföngum allra sem skiptu máli, húsvörðurinn, bóksasafnið, hvað ef ég er læstur úti o.s.frv.  Svona verða hlutirnir ekki nema einhver hafi hugsað út í skipulagninguna af alúð.

Það er mötuneyti í húsinu og hægt er að panta matinn frá tölvunni fyrir kl.10, þá er hann til taks kl.1200 og væntanlega hægt að mæla betur út hver eftirspurnin er svo ekkert fari til spillis.  Þetta hef ég ekki séð áður.  Reyndar er ekki pantað á vefnum heldur á skipanalínunni sem er krúttlega nerdalegt.


Hjólreiðarfólk á fyrsta farrými

Hérna er rein í hringtorgunum fyrir hjólreiðar.  Það bráðvantar heima því þar þeytast bílarnir út úr hringtorgi og yfir gangbrautirnar með engum fyrirvara.

Hér eru líka skilti úti um allan bæ þar sem á stendur "Nema fyrir hjólreiðafólk". Þetta og hitt er bannað, gata er einstefnugata, "Nema fyrir hjólreiðafólk". Öll umferð bönnuð "nema fyrir hjólreiðafólk".

Þetta sendir svo skýr skilaboð um að hjól eru fyrsta flokks í umferðinni. Borgin vill hjólreiðar.

Ef gata er einstefnugata í Reykjavík þá er hjólreiðafólki væntanlega bannað að hjóla hana í báðar áttir.  Samt er ástæðan að hún er einstefnugata sú, að tveir bílar geta ekki mæst í henni.  Af hverju á hjólreiðafólk að gjalda þess að bílar eru svo fyrirferðarmiklir að þeir geta ekki mæzt í mjóum götum?

Því skyldi hún ekki vera merkt tvístefna fyrir reiðhjól?



Hvað er fréttnæmt ?

Í fréttunum heima las ég að Gísli Marteinn hafi sagt að Reykjavík sé orðin meiri bílaborg en flestar borgir í Bandaríkjunum.

Þetta er "Ekkifrétt".  Þetta hefur verið vitað lengi.  Við náðum Detroit fyrir nokkrum árum.  Fréttamenn geta bara ekki sagt frá því, fyrr en þeir hafa það eftir einhverjum viðurkenndum aðila "sem sagði það".  Þetta var jafn mikil staðreynd
áður en Gísli Marteinn steig í pontu.

Ég held sveimér þá að meðalaldur íslenskra fréttamanna fari að nálgast meðalaldurinn á afgreiðslufólkinu í Bónus og Krónunni.

Ég vona að Gísli Marteinn geri eitthvað róttækt í umferðarmálum en ég þori ekki að vona að fréttamenn muni halda honum við efnið. Þeir virðast ekki hafa frumkvæði í sér til þess þessa dagana.

Annars hef ég aldrei skilið hvað telst fréttnæmt og hvað ekki.  Ég held að fréttamenn ritskoði sjálfa sig fyrirfram.

"Átján íslendingar byrjuðu á þunglyndislyfjum í dag" væri aldrei fyrirsögn.  Hins vegar er í lagi að hafa fyrirsögnina á borð við: "Hlutabréf í 365 miðlum féllu um 0,2% í dag".  Sú fyrirsögn er í lagi dag eftir dag (amk. hjá Blaðinu).

Af hverju er annað frétt en ekki hitt?  Mín lífshamingja sveiflast ekki eftir genginu í 365 miðlum.


Debitkort eru betri en kreditkort, en reiðufé er kannski best

Þegar ég fór utan keypti ég evruseðla og nú borga ég með þeim. Ég sé í veskinu núna hvað mikið er eftir af þeim pening sem ég tók út úr hraðbankanum.  Það er góð tilfinning.

Heima dett ég í að borga allt með kortinu og þá missi ég stjórn á því hvað ég á mikinn pening.  Reyndar er ég skrúfaður þannig saman að ég kem út í plús eftir mánuðinn en tilfinningin er samt ónotaleg.

Þegar ég notaði tékkhefti í gamla daga skrifaði ég í "svuntuna" í heftinu hvað ég átti mikinn pening fyrir og eftir hverja færslu.  Seðlarnir í veskinu voru sjálfsskjalandi.  Þessi stjórnun á fjármálunum er farin veg allrar veraldar eftir að kortin komu.

Að vísu fæst kvittun hjá hverjum kaupmanni en sú kvittun fer ekki jafnóðum inn í litla færslubók í veskinu.  Ég veit ekki  um neinn sem færir skipulega bókhald þegar hann notar kreditkort.

Ég myndi vilja fá aftur völdin yfir mínum fjármálum aftur en ég veit ekki alveg hvernig.

Á Íslandi borga allir með kreditkorti, upphaflega vegna þess að það er dýrara að nota debitkort en kreditkort.  Ef maður vill ekki skulda neinum og notar því debitkort, á maður á hættu að fá FIT sekt þótt maður fari bara eina krónu
yfir á reikningnum.

Sú eina króna gæti hafa verið tekin sjálfkrafa út af reikningnum af bankanum svo ekkert veskisbókhald getur komið í veg fyrir þetta.

Af hverju er það sektarvert ef ég fer eina krónu yfir á reikningnum?  Af hverju lokar ekki bankinn á færsluna og segir "ónóg innistæða?"  Nóg er af tölvusamskiptunum frá versluninni til bankans þegar maður borgar með kreditkorti.

Nú er afgreiðslufólk farið að spyrja  "viltu nokkuð kvittunina" þegar maður borgar með kreditkortinu. Stjórnleysið er orðin sjálfgefin hegðun.

Í Danmörku borguðu allir með Debetkorti og þar voru FIT sektir ekki til. Ef innistæða var ekki á kortinu þá kom það bara á skerminn í búðinni.

Þar spurði afgreiðslufólkið hins vegar "pa belobet?".  "Viltu fá reiðufé til baka?" Það fannst mér þægilegt.

Ég hef reynt að biðja um reiðufé í íslenskri verslun þegar ég borga með debetkorti.  Það sækist seint og illa og hámarkið er þúsund krónur. Maður skyldi halda að kaupmaðurinn væri að taka áhættu með því að láta
mann hafa pening.  Hann er það ekki, bankinn borgar honum örugglega.



Þegar hamingjan sést tilsýndar

Um helgina hjólaði ég 77 kílómetra frá Rennes til Dinan.  Leiðin öll er meðfram bátaskurði sem Napóleon lét grafa á 17.öld þegar Bretar réðu lögum og lofum á Ermarsundi og meinuðu Frökkum aðgang um sundið.  Skurðurinn sker í gegnum allan Bretagne skaga.

Næstu 25 kílómetrana tók ég bát frá Dinan til St.Malo við ströndina.

Þar sem áin kemur út í hafið er stærsta sjávarfallavirkjun í heimi.  De Gaulle vígði hana 1968.  Þar eru fjörtíu túrbínur sem nýta muninn á flóði og fjöru sem er mjög mikill hér eða 15 metrar þegar mest er.  Meðfram virkjuninni er skipastigi sem lét skipið okkar síga niður metrana fimmtán.  Það var tilkomumikið.

Hjólaleið liggur meðfram skurðinum alla leið.  Hún er ótrúlega falleg vegna þess að hún er svo vel hirt.  Með reglulegu millibili eru "bátalásar".  Við hvern lás stendur hús.

p9150015

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 Það virðist vera samkeppni milli þeirra sem þar búa að gera þau sem fallegust og halda þeim sem best við.  Það virðist gera eitthvað mjög gott fyrir sálarlífið að búa þar.  Hvert einasta hús bar þess merki.  Allt virtist vera í svo miklu samræmi og ró yfir hlutunum.
p9160035

 

 

 

 

 

 

 

 

Og það minnir mig á annað.


Mynstur

Ég er að lesa bókina "The Timeless way of building" frá árinu 1979 eftir Christopher Alexander.  Í henni setur hann fram þá kenningu að íbúðir, hús, bæir og borgir byggist upp samkvæmt mörgum mynstrum, litlum og stórum, sem eru annað hvort lifandi eða dauð í eðli sínu.

Hann setur fram hugmyndir að góðum mynstrum í bókinni.  Ég nefni nokkur dæmi.

Eitt dæmi kallar hann "LESSTAÐ".  Vistarverur þurfa stað þar sem tveir gluggar mætast og hægt er að sjá vel út en samt að vera í friði, þar sem stendur þægilegur stóll og hægt er að koma sér fyrir með bók.

Annað dæmi um gott mynstur er "INNKOMA".  Það er svæði þar sem fólk er komið inn af götunni en er ekki komið inn í húsið.  Þar gefst tækifæri til að skipta um hugarfar, að hætta að vera "úti" og byrja að vera "inni".  Stundum þarf
þetta bara að vera upphækkaður pallur við útidyrnar, helst með smá skyggni yfir.

"KROSSGÖTUR" er annað mynstur.  Þar sem vegir mætast, opna búðir og þar er eðlilegt að setja lítið torg.  Þar safnast fólk saman.  Bæjarhlutar sem hafa ekki krossgötur verða ekki lifandi.

"19% BÍLASTÆÐI" heitir enn eitt mynstrið.  Höfundur slær á að svæði, þar sem meira en 19% landrýmis fer undir bíla, missi lífskraftinn.  Þegar þetta er skrifað eru 50% Reykjavíkur komin undir malbik.  Það skal tekið fram að höfundur bókarinnar er að skrifa bók um arkitektúr, hann er ekki vinstri grænn.

Í seinni bókinni fer hann í gegnum u.þ.b. 250 mynstur, hvað geri þau góð, í hvaða samhengi þau eiga við.

Mismunandi kúltúrar koma sér upp mismunandi mynstrum.  Það sem gerir London að London eru mörg lítil og stór mynstur, hvernig menn ganga frá handriðum upp að útidyrunum, hvað gangstéttin er breið, hallinn á þökunum.   Þetta eru mynstrin í London. Allt er eins á vissan hátt og samt er ekkert eins.

Enginn einn aðili þarf að hanna London eins og hún leggur sig, menn þurfa bara að koma sér upp sameiginlegu "mynstursmáli" til að borgin verði að London.

Önnur mynstur gera þorp í Perú að þorpi í Perú.

Ef menn tala sama málið verður lítið um árekstra milli manna, það fer enginn að setja risastóra gluggastofu ofan í klósettgluggann hjá nágrannanum.

Að hans mati er mikilvægt að allir íbúar borgar tali sama "mynstursmálið", að þeir hafi sameiginlega sýn á hvaða mynstur gera borgina þeirra góða og húsin þeirra góð.  Þannig geta íbúar fengið góða tilfinningu í borginni, fundið að þeir eigi heima þar, án þess að allt virki "feik" eða sundurslitið.

Menn sjá tilsýndar ef reynt er að hanna "bryggjuhverfi" sem á að líta út fyrir að vera svo notalegt en var í raun hannað af einni arkitektastofu.  Einsleitnin  kemur upp um verknaðinn.  Einn aðili getur ekki hannað fjölbreytina sem er í  lifandi borgarskipulagi sem hefur byggst upp með sameiginlegum mynstrum.

Hann segir að nútíma fólk hafi misst niður þetta mynstursmál, það sé orðið "mállaust" í vissum skilningi.  Það treysti því "sérfræðingum" til að hanna miðlægt alla hluti hvort sem um er að ræða umferðar mannvirki, borgarhverfi
eða húsgögn.

Sérfræðingarnir koma með mynstrin úr sínum skóla og setja alltof mikið af sínu egói í hönnunina.  Útkoman sé sundirslitnar borgir þar sem húsin og borgarskipulagið verða ögrandi í stað þess að gera borgina lifandi.

Þegar gömul hús brenna eins og gerðist í Austurstræti má samkvæmt nýjum arkitektum ekki byggja sambærileg hús aftur því þá væri verið að byggja gamaldags hús og það væri "feik".  Þetta er vitleysa.  Sumir hlutir eru tímalausir.  Það er verið að prjóna nýjar lopapeysur í sauðalitunum í dag og það er ekkert feik við það að þær eru nýjar.  Mynstrin í þeim eru tímalaus. Eftir þúsund ár verða þær vonandi prjónaðar ennþá.

Sósíalistar hönnuðu hlutina miðlægt og útkoman varð hryllilega mannfjandsamleg mannvirki sjöunda áratugarins.
comarch

 

 

 

 

 

 

 

Kaldhæðnin er að íslenskur ný-kapítalismi er að gera þetta nákvæmlega sama.  Nýja skuggahverfið og Kópavogur eru byggð upp miðlægt, án samræðna í sameiginlegu "mynstursmáli" við fólkið sem á að búa þarna.

Fólkið í bæjarstjórn heldur að það verði ekki tekið alvarlega nema það tali um pennga.  Það hættir að hlusta á fólkið sem býr í bænum en talar þess í  stað við verktakana, sem vilja græða sem mest með því að nota staðlaðar einingar.  Fólkið hlustar ekki á sjálft sig lengur svo það er ekki við neinn að sakast.

Útkoman verður sú sama eins og ef kommúnistar hefðu verið á ferð fyrir fjörtíu árum.

Ef íbúar reyna að finna málið aftur og standa á rétti sínum er vaðið yfir þá.  Uppivöðslusemi bæjarstjórans í Kópavogi er skýrt dæmi um fenið sem við erum komin í.

Við getum ekki afsakað okkur með því að líta til kapítalistanna í Bandaríkjunum.  New York borg velur að byggja ekki í Central Park.  Hvað skyldi landið undir garðinn kosta?  Borgarstjórnin þar kastar trilljörðum á glæ með því að
byggja ekki þarna.  Hvílík eyðsla!

En hvað væri New York án Central Park?  Stundum eru það holurnar sem eru mikilvægastar.  Hvað væri donut án holunnar?  Hvað kostar holan?

Í New York tala allir sama málið að því leyti að maður byggir ekki í Central Park.



« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Heill og sæll Kári. Kveðjur héðan úr HR. Góðir pistlar hjá þér. Ég skil vel hrifningu þína á svæðinu. Drýpur smjör af hverju strái og Bretónarnir frábærir heim að sækja. Bretagne er einfaldlega sá staður sem mér hefur liðið hvað best á á mínum ferðalögum. Vona að þú njótir lífsins og gangi allt í haginn. kv. ÞVF

Þórður Víkingur Friðgeirsson (IP-tala skráð) 18.9.2007 kl. 11:25

2 identicon

Jæja... nú náðir þú mér.

Viltu vinsamlega sýna mér dæmi um það hvernig þú notar skipanalínuna til að panta mat?

kv. Stefán Freyr.

Stefán Freyr (IP-tala skráð) 18.9.2007 kl. 11:31

3 Smámynd: Kári Harðarson

Stefán, svona lítur þetta út:

dring[13:40]%cafet
*** On transite en transat par europe.irisa.fr ***
    Lancement de Cafet
    Mise en place des variables
** Il est 13h40. Réservations avant 10h10 uniquement - Désolé
dring[13:40]%

(Það er ekki hægt að panta mat ffrá skipanalínunni eftir kl.10:10).

Kári Harðarson, 18.9.2007 kl. 11:42

4 Smámynd: Óskar Þorkelsson

virkilega áhugaverður pistill Kári.  sérstaklega fannst mér mikið tilkoma um "umhverfismál" borga og mættu íslenskir ráðamenn taka sér þetta til fyrirmyndar.

Óskar Þorkelsson, 18.9.2007 kl. 12:53

5 Smámynd: Einar Indriðason

Hvað verðurðu lengi úti í Frans?

Og ... áhugverður pistill :-)
(hefði verið hægt að skipta í nokkra smærri, en stendur vel svona.)

Einar Indriðason, 18.9.2007 kl. 14:23

6 Smámynd: birna

mjög góðar athugasemdir. Ég hugsaði aldrei um skipulagsmál, fannst þau leysa sig sjálf og örugglega vel .. en nú horfi ég í kringum mig og sé hvar verktakar komast upp með að troða sem flestum rúmmetrum á hvern reit til að fá hellings peninga í vasann. . og við sitjum uppi með ljóta dimma borg.

birna, 18.9.2007 kl. 17:12

7 Smámynd: Ásgeir Kristinn Lárusson

Takk fyrir mig - góð lesning...

Ásgeir Kristinn Lárusson, 18.9.2007 kl. 18:43

8 Smámynd: Unnur R. H.

slef, slef og jammi Þú ert bara góður

Unnur R. H., 18.9.2007 kl. 19:45

9 identicon

Fékkstu sms frá mér 17. sept? Ef ekki, þá til hamingju aftur með afmælið, litli bróðir.  Góðar pælingar hjá þér eins og fyrri daginn, t.d. þetta með "fréttabörnin" og "afgreiðslubörnin". Vorum einmitt að hella úr eyrunum yfir þessu hér í kaffinu í morgun ... Hressandi að sjá myndir af frönskum tómötum og skinku í staðinn fyrir öll lögbrotin á götum Reykjavíkur!

Ragnheiður sys (IP-tala skráð) 19.9.2007 kl. 14:33

10 Smámynd: Kári Harðarson

Takk fyrir SMS-ið !

Það er hressandi að vera hérna.  Ég þurfti smá frí frá bílaborginni Reykjavík.  Ég vildi  að ég gerði mig ánæðan með flottan bíl og útigrill, þá væri svo einfalt að lifa heima !

Kári Harðarson, 20.9.2007 kl. 08:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband