Mynstur

Í bókinni "The Timeless way of building" frá árinu 1979 setur höfundurinn,  Christopher Alexander,  fram þá kenningu að íbúðir, hús, bæir og borgir byggist upp samkvæmt mörgum mynstrum, litlum og stórum, sem eru annað hvort lifandi eða dauð í eðli sínu.

Hann setur fram hugmyndir að góðum mynstrum í bókinni.  Ég nefni nokkur dæmi.

Eitt dæmi kallar hann "LESSTAÐ".  Vistarverur þurfa stað þar sem tveir gluggar mætast og hægt er að sjá vel út en samt að vera í friði, þar sem stendur þægilegur stóll og hægt er að koma sér fyrir með bók.

Annað dæmi um gott mynstur er "INNKOMA".  Það er svæði þar sem fólk er komið inn af götunni en er ekki komið inn í húsið.  Þar gefst tækifæri til að skipta um hugarfar, að hætta að vera "úti" og byrja að vera "inni".  Stundum þarf þetta bara að vera upphækkaður pallur við útidyrnar, helst með smá skyggni yfir.

"KROSSGÖTUR" er annað mynstur.  Þar sem vegir mætast, opna búðir og þar er eðlilegt að setja lítið torg.  Þar safnast fólk saman.  Bæjarhlutar sem hafa ekki krossgötur verða ekki lifandi.

"19% BÍLASTÆÐI" heitir enn eitt mynstrið.  Höfundur slær á að svæði, þar sem meira en 19% landrýmis fer undir bíla, missi lífskraftinn.  Þegar þetta er skrifað eru 50% Reykjavíkur komin undir malbik.  Það skal tekið fram að höfundur bókarinnar er að skrifa bók um arkitektúr, hann er ekki vinstri grænn.

Í seinni bókinni fer hann í gegnum u.þ.b. 250 mynstur, hvað geri þau góð, í hvaða samhengi þau eiga við.

Mismunandi kúltúrar koma sér upp mismunandi mynstrum.  Það sem gerir London að London eru mörg lítil og stór mynstur, hvernig menn ganga frá handriðum upp að útidyrunum, hvað gangstéttin er breið, hallinn á þökunum.   Þetta eru mynstrin í London. Allt er eins á vissan hátt og samt er ekkert eins.

Enginn einn aðili þarf að hanna London eins og hún leggur sig, menn þurfa bara að koma sér upp sameiginlegu "mynstursmáli" til að borgin verði að London.

Önnur mynstur gera þorp í Perú að þorpi í Perú.

Ef menn tala sama málið verður lítið um árekstra milli manna, það fer enginn að setja risastóra gluggastofu ofan í klósettgluggann hjá nágrannanum.

Að hans mati er mikilvægt að allir íbúar borgar tali sama "mynstursmálið", að þeir hafi sameiginlega sýn á hvaða mynstur gera borgina þeirra góða og húsin þeirra góð.  Þannig geta íbúar fengið góða tilfinningu í borginni, fundið að þeir eigi heima þar, án þess að allt virki "feik" eða sundurslitið.

Menn sjá tilsýndar ef reynt er að hanna "bryggjuhverfi" sem á að líta út fyrir að vera svo notalegt en var í raun hannað af einni arkitektastofu.  Einsleitnin  kemur upp um verknaðinn.  Einn aðili getur ekki hannað fjölbreytina sem er í  lifandi borgarskipulagi sem hefur byggst upp með sameiginlegum mynstrum.

Hann segir að nútíma fólk hafi misst niður þetta mynstursmál, það sé orðið "mállaust" í vissum skilningi.  Það treysti því "sérfræðingum" til að hanna miðlægt alla hluti hvort sem um er að ræða umferðar mannvirki, borgarhverfi eða húsgögn.

Sérfræðingarnir koma með mynstrin úr sínum skóla og setja alltof mikið af sínu egói í hönnunina.  Útkoman sé sundirslitnar borgir þar sem húsin og borgarskipulagið verða ögrandi í stað þess að gera borgina lifandi.

Þegar gömul hús brenna eins og gerðist í Austurstræti má samkvæmt nýjum arkitektum ekki byggja sambærileg hús aftur því þá væri verið að byggja gamaldags hús og það væri "feik".  Þetta er vitleysa.  Sumir hlutir eru tímalausir.  Það er verið að prjóna nýjar lopapeysur í sauðalitunum í dag og það er ekkert feik við það að þær eru nýjar.  Mynstrin í þeim eru tímalaus. Eftir þúsund ár verða þær vonandi prjónaðar ennþá.

Sósíalistar hönnuðu hlutina miðlægt og útkoman varð hryllilega mannfjandsamleg mannvirki sjöunda áratugarins.


comarch

 

 

 

 

 

 

 

 

Kaldhæðnin er að íslenskur ný-kapítalismi er að gera þetta nákvæmlega sama.  Nýja skuggahverfið og Kópavogur eru byggð upp miðlægt, án samræðna í sameiginlegu "mynstursmáli" við fólkið sem á að búa þarna.

Fólkið í bæjarstjórn heldur að það verði ekki tekið alvarlega nema það tali um pennga.  Það hættir að hlusta á fólkið sem býr í bænum en talar þess í  stað við verktakana, sem vilja græða sem mest með því að nota staðlaðar einingar.  Fólkið hlustar ekki á sjálft sig lengur svo það er ekki við neinn að sakast.

Útkoman verður sú sama eins og ef kommúnistar hefðu verið á ferð fyrir fjörtíu árum.

Ef íbúar reyna að finna málið aftur og standa á rétti sínum er vaðið yfir þá.  Uppivöðslusemi bæjarstjórans í Kópavogi er skýrt dæmi um fenið sem við erum komin í.

Við getum ekki afsakað okkur með því að líta til kapítalistanna í Bandaríkjunum.  New York borg velur að byggja ekki í Central Park.  Hvað skyldi landið undir garðinn kosta?  Borgarstjórnin þar kastar trilljörðum á glæ með því að byggja ekki þarna.  Hvílík eyðsla!

En hvað væri New York án Central Park?  Stundum eru það holurnar sem eru mikilvægastar.  Hvað væri donut án  holunnar?  Hvað kostar holan?

Í New York tala allir sama málið að því leyti að maður byggir ekki í Central Park.  

 

(Þessi grein var hluti af færslunni "Potpourri" sem ég lagði inn fyrir tveim dögum en ég vildi tengja þennan hluta hennar við þessa frétt).

 

 


mbl.is Lýsa furðu yfir að leyfa eigi að byggja hús í Laugardal
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hilmar Sigurðsson

Skemmtileg kenning og nálgun!

Já, það er merkilegt hvernig þetta fer allt í hring - hægri er orðið últra hægri, þannig að últra hægri orðið lengra til vinstri en vinstri sem er orðið miðjan sem er orðin hægri. Ekki skrýtið að við séum orðin áttavillt.

Það er kominn timi til að sveitastjórnir átti sig á mikilvægi þess að ræða við þá sem málið varðar áður en hafist er handa við skipulagsbreytingar. Enn þann dag í dag er samráð við íbúa og íbúalýðræði lítið annað monologue valdhafa sem finnst auglýsing og einræða vera samráð. Fyrir flestum öðrum þýðir samráð að tala saman og gera það áður en búið er að ákveða niðurstöðuna. Þangað til að raunveruleg samræða á sér stað á hugmyndastigi, er hætt við enn frekari og alvarlegri skipulagsárekstrum og þar af leiðandi dauðu mynstri.

Hilmar Sigurðsson, 20.9.2007 kl. 16:06

2 Smámynd: halkatla

sammála fyrstu setningu Hilmars,maður bjóst einhvernvegin ekki við einhverju svona djúpu og þetta er mjög áhugavert til að spá í, svona fyrir þá sem hafa áhuga á því

halkatla, 20.9.2007 kl. 18:43

3 Smámynd: Kári Harðarson

Ég skil þig Anna, þessi pistill almenns eðlis og ekki bara um ástandið í Laugardal.

Hins vegar er þessi sama saga að endurtaka sig úti um allan bæ og allt land, hvort sem eru Kárahnúkar, kvosin í Mosfellsbænum, Kársnesið í Kópavogi, viðbygging Iðnskólans eða Laugardalur.

Alltaf skal vera stál í stál, frekja á móti frekju, menn tala ekki sama málið og eru ekki vissir um rétt sinn eða skyldur.

Þetta samskiptamynstur þarf að fara, annars fáum við nýja útgáfu af þessari sömu frétt aftur og aftur.  Að því leytinu til þarf að taka þessa umræðu á "hærra plan".

Kári Harðarson, 20.9.2007 kl. 18:56

4 Smámynd: Guttormur

Í Laugardal, útivistarparadísinni eru nú þegar 2000 gjaldfrjáls bílastæði en enginn ókeypis róluvöllur né opinn fótboltavöllur fyrir börnin í hverfunum. Grænu skref Reykjavíkurborgar eru í raun hlæileg þegar nú á að ganga frá síðustu óráðstöfuðu blettunum í Laugardal. Einungis eru um 10-15% eftir af órástöfuðu svæðum. Skipulagsráð kallar græna blettinn sem nú á að byggja á vera ónýttan og einungis fyrir borgarstarfsmenn að slá, svo að þetta verður líklega léttir fyrir þá að losna við hann.

Takk áhugaverða grein hér að ofan.

Andrea Þormar

Guttormur, 20.9.2007 kl. 20:39

5 Smámynd:  Úrsúla Jünemann

Mjög góður pistill. Þetta hvetur manninn svo sannarlega til að spá í það sem er að gerast í kringum okkur og hvers vegna það er að gerast.

Úrsúla Jünemann, 20.9.2007 kl. 20:45

6 Smámynd: Gunnar Ásgeir Gunnarsson

Sæll Kári 

Það er alltaf jafn gaman að lesa pistlana þína.

Það er gríðarlega rík tilhneiging til að ofskipuleggja.

  Mér finnst alltaf skemmtilegra að fara um hverfi þar sem hús eru ólík hvert öðru.  Skemmtilegast af öllu er að fara um gömlu hverfin þar sem eigendur lóða máttu nánast byggja eins og þeim sýndist. 

Í dag eru öll hverfi steypt í sama mótið og Steingeld af öllu lífi  

Gunnar Ásgeir Gunnarsson, 20.9.2007 kl. 23:05

7 Smámynd: Jón Halldór Guðmundsson

Frábær lesning og þú hreyfir mikilsverðu máli.  Ég kom nálægt verkefni þar sem verið var að skoða hvað ylli hnignun bæja úti á landsbyggðinni. Um var að ræða svæði í Finnlandi Svíþjóð og Skotlandi, auk Íslands. Menn sáu sameiginleg einkenni; það alvarlegasta var konurnar fluttu burtu, unga fólkið fór í burtu í nám og kom ekki aftur, einhæft atvinnulíf.

Af hverju kom ekki fólkið aftur og af hverju fluttu konurnar burtu? Eitt af því sem menn skoðuðu og voru að reyna að bæta var að gera vistlegan miðbæ þar sem fólki liði vel að vera.

Þannig að svona miðbæjarkjarni í einhverri mynd, þar sem fólk getur pínulítið slappað af er svo mikilsvirði fyrir stór og minni bæjarfélög. 

Jón Halldór Guðmundsson, 21.9.2007 kl. 23:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband