10.10.2007 | 21:17
Ég hef hitt óvininn og hann er við sjálf
Einu sinni mátti ég ekki eignast hlut í fyrirtæki sem ég vann hjá, því það var þá enn að litlu leyti í eigu ríkisfyrirtækis; ég tel mig hafa skaðast á þessu. Ég treysti að reglan gangi enn jafnt yfir alla og að engir einkaaðilar hafi átt að eignast ómaklega hlut í sameign borgarbúa.
Ég veit ekki hvort það stóð til. Menn eru saklausir þangað til fundnir sekir.
Ég reyni að sinna mínu starfi en verð að treysta því að aðrir geri það líka, því nútímaþjóðfélög ganga fyrir sérhæfingu.
Ef allir Reykvíkingar hafa fylgst með fréttum af Orkuveitumálinu í eina klukkustund og meðallaun eru 3.000 krónur á tímann hafa 600 milljónir króna þegar tapast bara vegna fréttaáhorfsins. Það er því mikið í húfi að fólk vinni vinnuna sína samviskusamlega svo ekki þurfi að segja af því fréttir.
Í Kína er spilling ennþá dauðasök. Það er sennilega gott að aftökur tíðkast ekki hér, en það má samt einhver meðalvegur vera. Að lágmarki verður að ætlast til þess að fólk haldi ekki opinberu starfi eftir meiriháttar afglöp.
Ef þegnar telja sig sjá afglöp, hvað eiga þeir þá að gera? Menn geta þusað í bloggi en það er vita gagnslaust, held ég.
"I could burn the house down"
Þegar upp er staðið verð ég að viðurkenna að það var Svandís Svavarsdóttir sem velti hlassinu, annars hefði ekkert gerst. Á tímabili hlaut hún skítkast fyrir. Núna er boltinn hjá umboðsmanni Alþingis og héraðsdómi, þökk sé henni, en ekki blogginu hjá mér eða neinum öðrum.
---
Þegar Halldór Laxness flutti til Íslands eftir utandvölina fann hann hjá sér þörf til að segja þjóð sinni til syndanna í skáldverkum eins og Íslandsklukkunni, Sölku völku og Atómstöðinni enda var hann ekkert sérstaklega vinsæll meðal margra sem vildu ekki hleypa þessu heimkomna merkikerti upp með moðreyk.
Kiljan var ekki að úthúða stjórnvöldum, heldur benti hann þjóðinni allri á sinn eigin slóðaskap. Ólafur Kárason, Bjartur í Sumarhúsum og Jón Hreggviðsson voru alíslenskir gallagripir sem komu ekki úr stjórnmálageiranum, og þeir stóðu ekki með sjálfum sér.
Ísland er vissulega frábært land. Þá á ég við landið - en þjóðin ætti kannski að taka sig á. Ég hef lengi verið þeirrar trúar að fólk fái yfir sig þær ríkisstjórnir (og borgarstjórnir) sem það á skilið. Ef ráðnir fulltrúar standa sig ekki er það að hluta til vegna þess að betri fulltrúar voru ekki í boði. Agalaus þjóð elur upp agalausa embættismenn.
Ég þekki fullt af fólki með vísi að góðum eiginleikum, hjálpsemi, dug, hugrekki og heiðarleika. Þetta er bara vísir. Það þarf meira til. Við erum ekki alin upp til að verða borgarar og embættismenn af okkar eigin þjóðfélagi. Kannski er þetta vítahringur.
Kannski er skýringin söguleg. Við höfum ekki járnbrautir af því við fórum beint frá moldarkofum og hestum í steinsteypu og jeppa. Á sama hátt fórum við beint úr sveitamennsku í neysluhyggju án þess að máta nokkurn tímann borgarahlutverkið -- fá meðvitund um að bera ábyrgð sem þegnar.
Jón Sigurðsson barðist fyrir sjálfstæði okkar en svo læddumst við bakdyramegin út meðan Danir voru herteknir af Þjóðverjum. Stuttu síðar vorum við að verða rík á hernaðarbraskinu. Það var aldrei nein stór bylting þar sem lýðræðið fékk eldskírn í blóði, þar sem við lærðum að vera borgarar. Of auðveld velgengni spillti okkur kannski.
Ef við gætum okkar ekki núna missum við sjálfstæðið aftur, í þetta sinn í hendur manna sem voru einu sinni íslendingar en eru nú orðnir alþjóðlegir bissnessmenn. Margir sjá þetta og ofbýður en þeir fengu ekki þjálfun í réttum viðbrögðum. Hvað eigum við að gera núna annað en blogga?
Þetta klýfur þjóðina. Þegar frammámen tjá sig í fjölmiðlum og segja "Við eigum ekki að ganga í evrópusambandið" eða "við eigum að selja orkuveituna" þá spyr ég mig: hvað meina þeir með "Við"? Erum við ein þjóð ennþá? Ég á ekkert sameiginlegt með nýju óligörkunum.
Ég held ég reyni að kynna mér hvernig lýðræði er haldið virku og hver minn þáttur á að vera í að svo megi verða áfram. Blogg og kosningar á fjögurra ára fresti nægja kannski ekki eins og staðan er í dag.
Athugasemdir
Mikið rétt elsku vinur, það er sannarlega á ábyrgð hvers þegns hverrar þjóðar að líta inn á við og rækta eigin réttlætiskennd, viðhorf og siðferði - aðeins á þann hátt ræktum við réttlætiskennd, viðorf og siðferði heillar þjóðar.
Kær kveðja,
Greppur Torfason (IP-tala skráð) 11.10.2007 kl. 00:23
Er það ekki þannig að ef maður vill breyta heiminum verður maður að byrja á sjálfum sér.
Sá um daginn viðtal við konu að nafni Þórunn sem var með hjálparstarf í Kenýu. Eitt af því sem hún sagði sem mér fannst mjög áhugavert, en kom mér reyndar ekki á óvart, var að það væri mun auðveldara að kenna börnunum þarna í fátækrahverfunum heldur en börnunum hér heima. Hún sagði að börnin þar úti væru svo innilega þakklát fyrir að fá að læra ólíkt krökkunum hér. Þetta finnst mér segja ansi mikið um íslenskt þjóðfélag.
. (IP-tala skráð) 11.10.2007 kl. 17:07
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.