16.10.2007 | 21:05
Alvöru gírkassar
Þegar ég var strákur átti ég þriggja gíra hjól eins og flestir jafnaldrar mínir. Gírarnir voru inní afturöxlinum sem var fáanlegur frá tveim framleiðendum, annars vegar Sturmey-Archer í Bretlandi, og hins vegar Sachs í Þýzkalandi.
Gíraöxlarnir voru yfirleitt til friðs nema ef litla "gírkeðjan" slitnaði sem tengdi öxulinn við barkann upp í handfangið. Það gerðist yfirleitt þegar hjólið datt á hliðina því gírkeðjan stóð út um afturöxulinn og á hann datt hjólið. Það breytti samt ekki því að gírarnir inní öxlinum voru alltaf í lagi.
Um 1980 komu keppnishjólin til Íslands og eftir það voru gírar utanáliggjandi, sennilega vegna þess að fólki fannst betra að hafa fleiri gíra en bara þrjá. Það er alveg rétt, þrír gírar nægja ekki.
Keppnishjólagírar láta keðjuna ekki ganga beint milli tannhjóla eins og í flestum vélum sem nota keðjur, heldur er undið upp á vesalings keðjuna til að beina henni á mismunandi tannhjól.
Keðjan er send gegnum lítinn gaffal sem beinir henni inn á stórt eða lítið tannhjól að framan, og svo í S beygju gegnum tvö tannhjól úr plasti að aftan sem halda henni strekktri og beina henni á fimm og upp í átta tannhjól. Þannig geta gírhlutföllin orðið frá því að vera 2x5=10 og upp í 3x8=24. Mörg gírahlutföllin eru of svipuð til að þekkjast sundur í reynd svo það er hálfgerður skáldskapur að segja að "24 gíra" hjól sé það í raun og veru.
Utanáliggjandi gírar eru léttir og ódýrir en það þarf að stilla þá reglulega því annars er ekki hægt að velja alla gírana, og stundum lafir keðjan á milli tveggja gíra með tilheyrandi skrölti.
Slabb og slyddudagar eru algengir á Íslandi, og tjara og vegryk sest í keðju og gíra. Þetta sandleðjuparsl slítur og eyðileggur gírana á einum vetri ef þeir eru ekki þrifnir reglulega. Svo er heldur ekki hægt að setja keðjuhlíf utanyfir.
Þeir sem treysta sér ekki til að þrífa og stilla utanáliggjandi gíra ættu að skoða þetta:
Þetta gæti verið gírkassi úr vörubíl en er afturöxull með fjórtán gíra í stað þriggja áður. Engin tvö gírhlutföll eru eins, þau nýtast því öll.
Öxullinn er meiri fjárfesting en í utanáliggjandi gírum og um það bil hálfu kílói þyngri, en mér er sagt að hann sé viðhaldsfrír og skipti létt um gíra í öllum veðrum eins og fínasti jeppi.
Hjólið sjálft verður einfaldara:
- Keðjan er alltaf bein en þannig líður keðjum best.
- Keðjan getur verið stór og sterk og því minna viðkvæm fyrir sliti og skít.
- Það er hægt að setja keðjuhlíf á hjólið.
- Aðeins einn gírskiptir á stýrinu velur alla gírana fjórtán.
Framleiðandinn að öxlinum heitir Rohloff. Til eru ódýrari gíraöxlar frá Shimano sem heita Nexus. Þeir eru átta gíra og ku ekki þola eins mikil átök, enda ætlaðir í ferðir til og frá vinnu, ekki hamagang á hálendinu.
Ef þessir gírar fást ekki á Íslandi er það vegna þess að enginn vill þá og þess vegna selur þá enginn, en enginn vill þá, af því þeir fást ekki. Þannig er vítahringurinn oft. Það sakar samt ekki að spyrja eftir þeim, og svo má panta reiðhjól á netinu.
Það er dálítið mótsögn að smíða sterkleg fjallahjól en með utanáliggjandi gírum. Ég sé mig í anda keyra upp á hálendið í jeppa með loklausan gírkassa, opinn fyrir vegarykinu.
Ef ætlunin er að fá sér gíra sem eru lokaðir og viðhaldsfríir, má í framhaldi fá sér vökvadiskabremsur til að hjólið verði álíka viðhaldsfrítt og japanskur bíll.
Þá vantar bara góða hjólastíga, sem minnir mig á borgarstjórnina í Reykjavík, en það þykir mér ennþá of sárt umræðuefni...
Flokkur: Hjólreiðar | Breytt s.d. kl. 21:13 | Facebook
Athugasemdir
Fyrsta fjallahjólið sem ég eignaðist var pantað að utan, enda voru engin fjallahjól seld í landinu. Það var allt opið á þeim og þau þoldu illa fjallaferðir, allar legur gáfu sig strax þegar komið var í tætinginn! Annars þekktust fjallahjól bara hjá ferðafólki sem kom með þau með sér. Þetta var hópur sem keypti 10 Marin Muirwoods hjól og setti þau saman.
Mér sýnist að Rohloff verði aðeins notað af ágætlega stæðu fólki þar til þeim tekst að ná niður verði á þessu fjölmúlavíli. Nexus frá Shimano verður líklega á hjólum á viðráðanlegra verði.
Sveinn Ólafsson, 16.10.2007 kl. 21:57
Mm...Koma gamlar minningar upp í hugann. Ég átti Sturmey-Archer 3ggja gíra nöf. (lét setja hana á hjólið alveg sérstaklega.)
Vandamálið þar var að ef gírarnir voru vitlaust stilltir, þá slitnuðu tannhjólin illa, og endaði með því að nöfin fríhjólaði bæði áfram og afturábak í öllum gírum.
Já, merkilegt þetta dæmi, að vera að bjóða á utanáliggjandi gíra fyrir fjallahjólin, sem þó eru að berjast um í drullubaði og öðru sullu. Og merkilegt að þessi 14 gíra nöf sé ekki algengari.
Einar Indriðason, 16.10.2007 kl. 22:10
Mig rámar í að ef maður átti svona þriggja gíra öxul nógu lengi án þess að gefa honum smurningu þornaði hann upp, einkennin voru að maður fríhjólaði og komst ekkert áfram. Þetta lagaðist ef maður gaf honum feiti. Ég held ekki að þeir hafi slitnað svo mikið.
Það er smurkoppur á öxlinum, eins og í mismunadrifi á bíl. Koppurinn sést á efstu myndinni sem er af gamla Sturmey-Archer nafinu.
Kári Harðarson, 17.10.2007 kl. 06:48
Það var ekki smurkoppur á minni 3ggja gíra nöf frá Sturmey-Archer. Annars hjólaði ég þetta hjól í sundur, ég hjólaði svo mikið á því, þá. Og ekki alltaf á sem gáfulegastan hátt, á þessum árum. Stökk, "handbremsubeygjur" (ok, fótbremsubeygjur), láta væla í dekkjunum við að finna steyptar gangstéttir, og snöggbremsa, torfærur. Nánast nefndu það. Ég veit ekki hvað ég skipti oft um dekk, eftir að hafa verið kominn niður í striga.
Það var þá, í þá gömlu góðu daga :-)
Einar Indriðason, 17.10.2007 kl. 08:41
Sæll Kári.
Það var einhver að selja hjól með "lokuðum" gírum á Íslandi í fyrra. Minnir að það hafi verið Europrise. Þetta voru svört frúarhjól með körfu að framan. Gírstig voru 3.
Ekki séð neitt sambærilegt síðan.
Jóhann F Kristjánsson (IP-tala skráð) 17.10.2007 kl. 13:25
Hmmm...minningar...Já! ég átti Chopper, sem var með gírskiptingu í miðjuni s.s. rétt fyrir framan sætið og og gírar voru ínnan í öxli, dauð sé eftir að hafa hent þessu hjóli á sínum tíma, hefði verið gaman að gera það upp núna, væri eiginlega antík í dag
Arnbjörn (IP-tala skráð) 17.10.2007 kl. 14:06
Já Rohloff er alveg snilldar drif á hjól enda ætla ég að fá mér svoleiðis :-)
Það er kominn umboðsaðili hér, man bara ekki í augnablikinu hver það er. Hef aðenns verið að skoða hjól á netinu og líst nokkuð vel á þessi:
http://www.vannicholas.com:80/WbmBikeHome.aspx?EncIdName=ObZZ8v72cXdnFrC%2fPvLxQVX%2bNuxDbta5VS18ZccHiwyemrVYwA709oJfzsoBfncdQIkESJQkfEg28KX7YMS4iyaO3fDiH7Qs3b9AzGhCDFj55vJ8s4MHQg%3d%3d
http://www.hilset.be/singlespeed.htm#Rohloff%20OEM%20frame
http://www.nicolai.net/index.html
http://www.thorncycles.co.uk/ravenenduro.html
http://www.endorfinbikes.de/EN/ (speed-r)
svo er bara að finna rétta hjólið.
steinimagg, 18.10.2007 kl. 16:08
Sælir herramenn og takk fyrir áhugavert spjall. Vill einhver ykkar skýra hvernig gírar “slitna út”? Hættir hjólið að skipta rétt? “Hoppar” keðjan á tannhjólunum? Hvað gerist? Ég á í smávandræðum með einn gír (sjötta minnsta tannhjólið á afturfelgunni) á nýlegu reiðhjóli, en sé ekki í fljótu bragði hvað er að.
Gunnlaugur Ásgeirsson (IP-tala skráð) 20.10.2007 kl. 21:27
Sæll Gunnlaugur,
Utanáliggjandi gírar slitna oftast þannig, að hlekkirnir í keðjunni slitna og keðjan lengist við það, ekki mikið, en nóg til þess að bilið milli hlekkjanna passar ekki við bilið milli tannana í öllum tannhjólum hjólsins.
Þetta veldur því að keðjan byrjar að slíta tannhjólunum og þau byrja að líkjast haföldum sem eru að fara að brotna í stað þess að vera eins og beinir fjallstindar.
Ef maður kaupir nýja keðju þegar allt er orðið slitið, hoppar nýja keðjan og skoppar á þessum slitnum tönnum, jafnvel þótt gamla keðjan hafi verið þolanleg með tannhjólunum sem hún sleit.
Ef hjólið þitt er nýlegt, hafa keðjan og tannhjólin sennilega ekki náð að slitna. Mér dettur því helst í hug að hlekkir í keðjunni séu stífir og það þurfi að liðka þá með því að stinga skrúfjárni inn á milli og snúa uppá.
Vitaskuld þarf keðjan líka að vera vel smurð. Það er best að smyrja keðjur, leyfa smurningunni að síast inn en þurrka svo umfram smurninguna af, því hún gerir ekkert nema virka sem segull á vegaryk.
Síðasti möguleiki er að afturskiptirinn sé ekki að beina keðjunni rakleitt upp á tannhjólin og það þurfi að fínstilla hann, en það er venjulega gert með skrúfuhulsunni þar sem gírbarkinn endar. Ef þetta er vandinn fer það ekki milli mála, því gírinn er þá hávær og það skröltir í keðjunni.
Láttu vita hvernig gengur!
Kári Harðarson, 21.10.2007 kl. 06:29
Bæði DBS og Kettler hjól eru með innbyggða gíra.
Ég veit ekki hvort DBS eru enn seld á Íslandi, en Kettler fæst í Markinu.
Einar Jón, 23.10.2007 kl. 16:57
Takk Kári. Málið er að keðjan “höktir” á einu (og bara einu) tannhjóli að aftan, eins og hún hoppi stundum um eina tönn. Þetta gerist bara þegar ég stíg hjólið þungt, t.d. við að reyna að halda sem mestum hraða upp brekku. Þegar ég stíg hjólið létt, virkar allt óaðfinnanlega. Ég held að afturskiptirinn stýri keðjunni rétt upp á tannhjólið umrædda. Bara til að vera viss stilli ég afturskiptinn aðeins fram og tilbaka (nær og fjær nafinu sumsé) með því að stilla barkann. Það breytti engu, keðjan “hoppaði” á tannhjólinu sem áður, þegar þungt var stigið. Tannhjólin eru ekki orðin mikið slitin eða “hooked” eins einhverjir kölluðu það. Hinsvegar má sjá smá “gráður” eða málmbríkur þar sem keðjan nuddast í tennurnar. Eitthvað aðeins eru gírarnir farnir að slitna. Mér hefur dottið í hug að tannhjólið margumrædda hafi slitnað þannig að tennurnar hafi rúnnast aðeins og haldi keðjunni ekki nógu vel þegar átakið er þungt. Ég held ég prófi að kaupa nýtt afturtannhjóla sett og sjá hvað það gerir. Bestu þakkir fyrir upplýsingarnar.
Gunnlaugur Ásgeirsson (IP-tala skráð) 23.10.2007 kl. 22:57
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.