17.10.2007 | 19:36
Sniff
Ég sat við skrifborðið þegar kona gekk framhjá skrifstofunni. Ég sá hana ekki, leit ekki einu sinni við. Af henni var blanda af útilykt, góðri ilmvatnslykt og vægri reykingalykt, ekki of sterkri til að vera vond.
Samstundis var ég átta ára að koma til dyra þegar pabbi og mamma komu heim eftir að hafa verið út að skemmta sér. Ég sá þau fyrir mér í forstofunni heima og var feginn að fá þau heim. Sennilega var mamma með ilmvatn sem líktist þessu ilmvatni. Þessi minning kom í heilu lagi, áður en ég gat hugsað um hana meðvitað.
Það virðist vera stutt leið frá nefinu í tilfinningarnar. Kannski er þefskynið eldra og frumstæðara skynfæri en hin skilningarvitin. Þar er eins og lyktin sé ekki tengd við heilann á sama hátt og þau.
Bragðskynið er víst að miklu leyti blekking því bragðið af matnum er í raun lyktin af honum. Kínverskur málsháttur ráðleggur mönnum að borða rísgrjón á meðan þeir lykta af steiktri önd nágrannans því þannig megi borða herramannsmat og spara pening.
Við eigum nákvæm orð sem lýsa tónum og hljómum, litum og formum, en nafnorð yfir lykt eru varla til. Hvaða lykt er af engifer? Hver er munurinn á þeirri lykt og sítrónulykt? Hvað heitir lyktin sem kemur út ef ég blanda þeim saman? Væri hún góð? Þetta læra franskir ilmvatnsgerðarmenn, og fá víst góð laun fyrir. Væntanlega geta þeir talað saman um lykt af meira viti en ég.
Hér í Frakklandi fæst mikið af ilmvötnum, sem ég hef ekki séð út í fríhöfn. Ekki allir ilmvatnsframleiðendur eru á vegum fataframleiðenda eins og Chanel og Boss. Fragonard er eitt merki sem ég hef hvergi séð annars staðar:
Ég hef grun um að sumt fólk sé lyktarblint. Ég held það vegna þess að ég þekki þrifalegt fólk með daunillar borðtuskur. Ef það hefði þefskyn í lagi myndi það samstundis henda borðtuskunni og ná sér í nýja. Ég veit samt ekki til þess að lyktarblinda sé viðurkennd örorka.
Athugasemdir
Þessi frásögn minnti mig á atvik á Seyðisfirði fyrir ca. 100 árum þar sem ég var í sumarvinnu. Lögregluþjónninn gekk inn á skrifstofuna hjá mér, heilsaði kumpánlega og fékk sér sæti. Skyndilega helltist yfir mig löngun að hoppa upp í fangið á honum og hjúfra mig að honum. Ekki af því að maðurinn sjálfur hefði svona mikið aðdráttarafl á mig heldur vegna þess að það var af honum sterk Fauna-vindlalykt. Alveg eins og af pabba mínum. Auðvitað sýndi ég stillingu og maðurinn slapp við þessi vinahót mín.
Jóhanna (IP-tala skráð) 18.10.2007 kl. 12:25
Ef maður bara vissi hvaða lykt virkar á hvaða fólk, þá hefði maður mikil völd. Um það var bókin "Ilmurinn" eftir Suskind. Stundum er sagt að fólk "hafi góða áru" eða hafi verið ofsalega viðkunnalegt við fyrstu sýn. Kannski var það bara lyktin?
Kári Harðarson, 18.10.2007 kl. 12:57
Skemmtileg pæling. Ilmurinn er stórkostleg bók.
Ég átti frænku sem var með lamað lyktarskyn, ég komst að þessu þegar hún kom til ömmu með kæfu sem hún hafði verið að búa til, til þess að láta hana smakka á henni fyrir sig hvort hún væri í lagi.
Greta Björg Úlfsdóttir, 19.10.2007 kl. 16:21
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.