18.10.2007 | 12:04
Hvílík forneskja!
Þegar iPod er orðinn dýrari en iPhone þá er það eins og að krókódíllinn sé fimm metrar frá haus aftur á hala en sex metrar frá hala fram á haus. Mótsögn, og sönnun þess að ríkisstofnun er komin inní fílabeinsturn sinnar eigin rökfirru.
Mér finnst að tolla þurfi að réttlæta sérstaklega. Að sjálfgefnu eiga þeir ekki að vera til staðar, frekar en bann við veiðum á ákveðnu svæði, hámarksöxulþungi, húsleitarheimild, heldur eitthvað sem gripið er til í sértilfellum eða tímabundið.
Ég krefst skýringa: hvað er svona merkilegt við tónlistarspilara á Íslandi að þeir skuli verða fyrir þessum ofurtollum sem tíðkast hvergi annars staðar? Af hverju kostar 13 þúsund króna spilari 32 þúsund heima?
Til að bíta höfuðið af skömminni er þessi flokkunarárátta algerlega úreld. Myndavélin mín getur sýnt video og síminn minn getur spilað MP3. Þeir gætu viljað flokka bifreiðar sem MP3 spilara, því flestir geta þeir spilað geisladiska í MP3 formatti núna, það er hætt við að bílverð myndi hækka við það. Ég sem hjólreiðamaður myndi gleðjast en það er annað mál.
Í alvöru talað myndi ég vilja fá skýringar á þessu, aðrar en "við ráðum þessu", því það er valdahroki að nenna ekki einu sinni að lagfæra svona augljóst ranglæti.
iPod tollurinn er kominn til að vera | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Neytendamál | Breytt s.d. kl. 12:12 | Facebook
Athugasemdir
Fyrir nokkrum árum síðan keyptu Skýrr risa HP/9000 skessu sem kostaði einhverjar tugmilljónir. Þegar hún var tollafgreidd uppgötvaðist að hún var með DVD-skrifara ...
Elías Halldór Ágústsson, 18.10.2007 kl. 13:02
Ég held að þetta sé spurning um skýra lagasetningu.
Eða betri reglugerðir frá ráðuneytunum.
Þá er það spurning um hvaða ráðuneyti, það er nefnilega oft á reiki undir hvaða ráðuneyti tollurinn fellur; fjármálaráðuneytið, dómsmálaráðuneytið eða jafnvel samgöngu eða utanríkisráðuneytið (upp í Leifsstöð).
Samkvæmt lögum er það fjármálaráðuneytið. Það er samt ekki alveg þannig í raun. Aftur spurning um skýra lagasetningu.
Þetta er mál fyrir Alþingi. Sjálfur kysi ég að tollararnir hefðu sem minnstan túlkunarrétt sjálfir.
Halldór Berg (IP-tala skráð) 18.10.2007 kl. 14:34
Það er ekki við stjórnvöld sakast eða ekki beint, Því STEF
samtök tónlistarmanna krefjast gjalds af öllum tækjum og
tólum sem hægt er að skrifa á Hljóð (taka upp). Ég nota
ógrynnin öll af CD og DVD diskum (óskrifuðum) og greiði
tug þúsundir til STEFs þó aldrei komi Hljóð þar nálægt.
Leifur Þorsteinsson, 18.10.2007 kl. 14:38
Það er nú reyndar við stjórnvöld að sakast því það eru þau sem hafa valdið til að setja þessi gjöld á sem og að taka þau af.
Það fyndna við þetta allt saman að skatttekjur af svo vinsælli vöru eins og iPod eru líklegri til að vera minni en ef ekki væri settur þessi aukatollur á hana. Viðbrögð neytenda eru að versla iPod frekar í fríhöfninni - þar sem hún er skattfrjáls - eða einfaldlega láta einhvern kaupa fyrir sig iPod erlendis þar sem hann er nær undantekinarlaus ódýrari en í fríhöfninni. Ég get alveg fullyrt það að enginn af mínum vinum hefur keypt sinn iPod í verslun hér heima. Maður leggur ekki eins mikla vinnu á sig við að fá iPodinn erlendis ef að munur á kostnaði er ekki mikill. Maður þarf ekki einu sinni að rökstyðja þetta því það eru hagfræðilíkön sem sýna fram á þetta.
Eina sem maður les út úr þessu er að STEF fær pening úr þessum tækjum sem þeir ella fengu aldrei. Þannig STEF græðir - ríkið ekki.
Egill M. Friðriksson, 18.10.2007 kl. 15:05
Látið ekki svona, það er annað mun brýnna sem þarf að afgreiða og það er bjórin í búðir :D þetta má svo koma eftir að það er búið að samþykkja það. Elías, hvað gerði tollurinn þegar hann fann DVD-skrifarann ! voru tollarnir hækkaðir ?
Sævar Einarsson, 18.10.2007 kl. 22:29
Vörugjöldin á tónlistarspilara eru orðin mótsagnakennd vegna þess að tæki í dag eru öll tölvur með marga notkunarmöguleika. Tolla og vörugjaldaskrá endurspeglar einfaldan raunveruleika sem er löngu liðinn.
Þetta minnir mig á lögreglusamþykkt Reykjavíkur þar sem stóð að menn ættu að flauta þegar þeir ækju fyrir horn og taka fullt tillit til hestamanna.
Þessar mótsagnir virðast ekki koma ráðuneytinu við, svo lengi að það koma einhverjir peningar í ríkiskassann, þá er sama hvaðan gott kemur eða hvað?
Kári Harðarson, 19.10.2007 kl. 06:36
Þessi tolla og vörugjaldaflokkun er löngu úrelt fyrirbæri.
Ég hef nú heyrt sögur af tollurum sem sitja og smakka á súkkulaði til að athuga hvort það er hjúpað eða fyllt, þar sem það er mismunandi flokkum.
Eins nauðsynlegur hlutur eins og ísskápar bera 20% toll ef þeir eru ætlaðir til heimilisnota en til annarra nota er enginn tollur. Hver er sanngirnin í því.
Það eru löngu kominn tími til að einfalda þetta kerfi og setja bara flöt vörugjöld á allt saman.
Jónas (IP-tala skráð) 19.10.2007 kl. 10:20
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.