6.11.2007 | 14:21
Góðærið
Davíð er farinn að tjá sig um efnahagsástandið aftur. Það er frábært. Ég er að hugsa um að gera það líka.
Hann segir að við höfum ekki efni á að tapa stríðinu við verðbólguna. Ég vil samt ekki álykta að þess vegna munum við ekki tapa því. Mér finnst líklegt að húsnæði muni falla í verði og gengi krónunnar líka.
Íslendingar eru yfirleitt aðeins á eftir í flestu. Nú hefur krísa gengið yfir á fasteignamörkuðum í Bandaríkjunum, Bretlandi og Danmörku. Ef ég þekki Ísland rétt kemur krísan hér, bara aðeins seinna en annars staðar. Af hverju ætti hún ekki að koma?
Það er margt verra en lágt gengi krónunnar. Verra er að vera að missa gott fólk og fyrirtæki úr landi.
Það eru mikil ruðningsáhrif í gangi: bankarnir ráða í vinnu á hlutfallslega - ekki raunverulega - hærri launum og þeir ryðja út fyrirtækjunum sem geta ekki borgað sömu laun þótt vinnan þar hafi verið spennandi eða þjóðhagslega verðmæt. Ég hef heyrt að Actavis sé að fara frá Íslandi því þeir fá ekki fólk.
Það kemur jafnvel til greina fyrir fyrirtæki að flytja til Bandaríkjanna þótt laun þar séu há því starfskrafturinn er þó til staðar. Slík er þenslan.
Þegar ég var yngri var starf í banka meira óspennandi en nokkuð annað í boði. Ég get ekki skilið að það hafi breyst mikið. Menn geta ekki unnið leiðinlega vinnu, sama hversu vel borguð hún er. Samt eru kunningjar mínir sem ættu að vera frumkvöðlar í tæknifyrirtækjum að starfa hjá bönkum. Ég gæti freistast til að halda að þeir hafi selt sál sína til að hafa efni á afborgununum.
Frá því ég keypti húsnæði hafa laun mín hækkað um 20% en húsnæði um 200% Ég keypti jafn dýrt og bankinn sagði mér að ég hefði efni á. Ég gæti ekki keypt sumarbústað í dag miðað við ráðleggingu bankans, vextir hafa ekki lækkað að ráði síðan þá.
Að mínu mati er óhugsandi fyrir ungt fólk að kaupa húsnæði í dag. Þess vegna verður unga fólkið að kaupa húsnæði hugsunarlaust. Það er "bara hresst" og drífur sig í slaginn. Ég býst við að það muni enda sem kynslóð af fallbyssufóðri í Íslandssögunni og deyja frá metskuldum.
Afborganir af venjulegri hæð í Vesturbænum eru 500 þúsund á mánuði með verðtryggingu ef eignin er keypt með 100% láni. Ekki gæti ég snarað þessum peningum út, milljón í mánaðarlaun er lágmark og hana fær maður bara í bankastarfi.
Ég er að segja svipaða hluti og Davíð en ég get leyft mér að "tala niður gengi krónunnar og íslenskra fyrirtækja" enda er ég bara bloggari. Sumir gætu sagt að ég sjái glasið hálftómt en það er ekki rétt, ég er bjartsýnn. Ég hlakka til að þessu góðæri ljúki - er tilhlökkun ekki einskonar bjartsýni?
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Nei, Kári, þú ert ekki svartsýnn, þú ert bara ósköp raunsær enda ert þú að fylgjast vel með því sem er að gerast í þjóðfélaginu. Alltaf er gaman að lesa bloggið þitt.
Unga fólkið er virkilega ekki öfundsvert ef það þarf að koma sér upp húsnæði. Ég er með 2 fullorðna sýni sem eru búnir að mennta sig og í frekar góðu starfi - alla vega miðað við það kaup sem ég fær sem kennari. Þeir búa báðir heima og taka ekki í mál að flytja, þó að ég get ekki boðað meira en pínulitið herbergi til að búa í.
Sem betur fer erum við í góðu sambandi, annað væri þetta mannskemmandi.
Úrsúla Jünemann, 6.11.2007 kl. 16:07
Glasið er hvorki hálffullt né hálftómt, það var bara spekkað vitlaust til að byrja með; helmingi minna glas væri nær grundvallarhönnunarforsendum.
Elías Halldór Ágústsson, 6.11.2007 kl. 17:22
Og ekki skemmir fyrir að afborgunin hækkar um hver mánaðarmót, getum við ekki bara stofnað nýlendu þarna hjá þér?
Sverrir (IP-tala skráð) 7.11.2007 kl. 01:49
Davíð Oddsson er bankastjórinn sem prentar seðlana sem við notum flest til að kaupa í matinn. Það er bankanum hans í hag, að fólk missi ekki tiltrúna á þessa seðla.
Staðreyndin er samt sú að yfirvöld geta ekki stöðvað fólk í að taka upp evru, því hér er frjálst streymi fjármagns. Hvaða lög er ég að brjóta ef ég borga út í Melabúð með kreditkorti frá franska bankanum mínum, og ef ég sem við minn yfirmann um evrugreiðslur?
Þegar ráðamenn segja "Við íslendingar munum ekki taka upp evru", þá eru þeir að blása sig út án þess að hafa innistæðu fyrir því. Þeir eru að reyna að segja að þeir geti bannað upptöku evrunnar þótt þeir geti það í raun ekki. Svo er spurning hverjir "Við íslendingar" erum þessa dagana. Ég er hvorki ráðamaður né bankastjóri.
Kári Harðarson, 7.11.2007 kl. 18:33
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.