9.11.2007 | 09:34
Sullað með vatn
Verð á neysluvöru hefur verið í umræðunni. Sumir segja að þótt verðið sé hátt séu gæðin á vörum hér mikil. Það er ég ekki svo viss um.
Ég hef áður skrifað um skinku sem er ekki skinka heldur svínakjötskurl pressað saman með vatni, salti og kartöflumjöli. Ég hef líka skrifað um Mozzarella ost sem er bara brauðostur í öðruvísi pakkningu.
Hér eru tvö önnur dæmi. Þegar ég flutti heim keypti ég kjúkling, brytjaði niður og ætlaði að steikja. Ég gat það ekki því hann hafði verið sprautaður með of miklu vatni:
Pollurinn í pönnunni er ekki þarna eftir mig, þetta var bara kjúklingur og 2 matskeiðar af snarpheitri olíu. Steikingarhellan er mjög öflug, kjötið hefði átt að lokast og brúnast. Ég hef ekki bragðað steiktan kjúkling eftir heimkomuna, bara mismunandi soðinn.
Hér er annað dæmi. Í Danmörku áttum við flösku af snafs í frysti til að bjóða með bjór. Þegar við fluttum heim keyptum við íslenskt Brennivín til að setja í frystinn. Sami ísskápur og geymdi danska snafsinn, hann kom heim með okkur frá Danmörku. Þegar ég ætlaði að bjóða upp á snafsinn leit flaskan svona út:
Ég hélt að einhver alkinn í vinahópnum hefði vatnsþynnt innihaldið en las svo smáa letrið á flöskunni. Íslenskt brennivín er 37% alkhóhól en flestir erlendir brenndir drykkir eru 47%. Einu sinni var hægt að frysta brennivín -- ég veit ekki hvenær þeir þynntu það um 20% til viðbótar.
Sumum kann að virðast það smámunasemi að fylgjast með vatnsmagni í kjúklingi og brennivíni. Neytendafrömuðurinn í Spaugstofunni er til að hlægja að, ekki til að taka sér til fyrirmyndar, halda sumir.
Íslendingar hafa venjulega litið upp til rudda og berserkja því það eru fyrirmyndirnar úr íslandssögunni. Slíkir menn voru ekki að rukka vini sína um eitthvað sem þeir höfðu fengið lánað, þeir fóru bara í víking ef þá vantaði meira af einhverju. Ég er samt ekki viss um að þetta sé haldgóð fyrirmynd á 21.öldinni.
Nú kemur sífellt betur í ljós hversu mjög hallar á hlut þeirra sem álpuðust til að eignast ekki banka og önnur innflutningsfyrirtæki, Jafnvel þeir sinnulausustu sem halda að þeir séu "ópólítiskir" og hafa sjaldnast fyrir því að líta upp frá brauðstritinu taka eftir því að fjárráðin fara minnkandi. Þetta er dauði þúsund smására, verðhækkun hér, rýrnun þar.
Það er ekki uppbyggilegt að nöldra í bloggi um að "þeir séu með samsæri gegn okkur". Þetta er ekki samstilltur óvinaher heldur mörg fyrirtæki sem þurfa aðhald, hvort sem þau eru að selja ostalíki, kjúklinga, brennivín, skinkukurl eða útvötnuð húsnæðislán.
Þetta stríð verður ekki unnið með einhverri "aðgerð ríkistjórnarinnar". Stríð eru búin til úr mörgum orrustum og venjulegir landsmenn þurfa að gerast landgönguliðar. Þú heldur vöku þinni, ferð yfir kassastrimilinn hjá þér, og tilkynnir skírt og skorinort í búðinni svo allir heyri ef þér finnst gert á þinn hlut. Svo færir þú þín viðskipti annað, þótt þú þurfir að keyra í Fjarðarkaup til að versla. Öðruvísi gerist ekkert.
Flokkur: Neytendamál | Breytt s.d. kl. 09:44 | Facebook
Athugasemdir
A M E N!
Mál að vakna...
Greta Björg Úlfsdóttir, 9.11.2007 kl. 13:45
Frábær hugvekja! Það er líka fáránlegt að geta ekki farið í verslun án þess að fá það sterkt á tilfinninguna að það sé verið að snuða mann. Manni líður hreinlega illa - svona eins og einhver sé að hlægja að þér, öllum sjáandi, og þú getur ekkert í því gert.
Jónas Björgvin Antonsson, 9.11.2007 kl. 14:39
Vel athugað hjá þér Kári.
Ég hef einmitt velt því fyrir mér alllengi hvers vegna íslenskir kjúklingaframleiðendur komast upp með að geta ekki um magn af vatni í vörunni en það kjúklingakjöt sem flutt er inn hingað frá Danmörku er merkt í bak og fyrir.
Eftir talsverða eftirgrennslan komst ég síðan að því að þessi viðbót, sykrað og saltað vatn (salt 0,6%, sykur 0,3%), sem sprautað er í "ferska" kjúklingakjötið er um 8% af þyngd. Ég komst líka að því að í iðngreininni kallast þessi viðbót, sem við greiðum fyrir dýrum dómum, "ábati".
Árni Matthíasson , 9.11.2007 kl. 20:37
Ég gæti sjálfur hugsað mér að léttast um 8% af þyngd. Það myndi aldeilis muna um það!
Miðað við ljósmyndina sem ég tók af Wok pönnunni þá er vatnið þarna meira en 8%. Þetta var eins og að reyna að steikja marglyttu.
Kári Harðarson, 9.11.2007 kl. 20:54
Hvern langar í bringu fulla af salt- og sykurpækli ? Frekar kaupi ég heilan kjúkling eða tvo og nota bringurnar af þeim. Sama gera vinir mínir frá útlöndum þegar þeir elda heima hjá mér.
Svo við minnumst ekki á íslenska skinku-líkið. Ég sé áleggsborð æsku minnar í Gautaborg í hillingum, þrjátíu árum síðar. Eða sænskt beikon. Það er af annarri plánetu en það íslenska (og af hverju þarf það að vera svona BRIM-salt ?).
Skora svo á þig að setja útivistarmyndina af sjálfum þér aftur inn á síðuna. Hún var eitthvað svo feel-good. Mig langaði alltaf að fara út að hjóla þegar ég sá hana.
Lana Kolbrún Eddudóttir (IP-tala skráð) 9.11.2007 kl. 21:58
Ykkur til gleði, þá er þetta vatnsspraut ekki bundið við kjúklinga. Ég er að sjá samskonar dæmi bæði við gúllash og lærisneiðar.
Þetta eru bara hreint og klárt Vörusvik.
Einar Indriðason, 9.11.2007 kl. 23:01
Ég keypti mér eitt sinn úti í búð girnilegar kjúklingabringur á ótrúlega lágu verði. Þegar kom að því að snæða kom í ljós að þær voru óætar, eins og plast á bragðið og með ógeðslegum, grófum trefjum, þarf varla að orðlengja að þær enduðu í ruslinu.
Greta Björg Úlfsdóttir, 10.11.2007 kl. 15:21
Helvíti góður punktur. Þetta er ekki samstilltur óvinaher heldur mörg fyrirtæki sem þurfa aðhald, hvort sem þau eru að selja ostalíki, kjúklinga, brennivín, skinkukurl eða útvötnuð húsnæðislán.
Takk fyrir áminninguna. Og takk fyrir bónorðið
Jóna Á. Gísladóttir, 10.11.2007 kl. 19:31
Bið að heilsa bretanum
Kári Harðarson, 10.11.2007 kl. 20:57
Velkominn heim aftur, Kári. Mér finnst þú hitta naglann á höfuðið, það er ekki hægt að skreppa til útlanda öðruvísi en að fá algert sjokk þegar maður kemur heim aftur.
Carlos (IP-tala skráð) 11.11.2007 kl. 08:07
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.