Græjudellan

Flestir fara ekki út úr húsi án grunnþarfanna:

1 Lykla sem er ávísun á húsaskjól
2 Seðlaveskis sem getur gefið fæði og klæði
3 Gemsa sem veitir samband við fjölskyldu og vini

Svo flækist málið.  Eitthvað af neðantöldu gæti farið með í bæinn:

4 Skiptimynt
5 Penni

6 Vasaljós
7 Vasahnífur
8 Leatherman töng

9 Addressubók
10 Dagatal
11 Minnisbók

12 Myndavél
13 Minnislykil
14 MP3 spilari
15 GPS tæki
16 Kort af borginni.

Gemsar eru oft með eitthvað af 9..16 innbyggt en bæta við:

17 Vekjaraklukku
18 Stoppúri
19 Reiknivél
20 Leikjum

Flottustu gemsarnir eru með:

21 Tölvupóst
22 Vefaðgang
23 Kvikmyndavél
24 Kvikmyndaspilara

Listinn yfir dót í vösunum heldur vitaskuld áfram:  Tyggjó, tannþráður,
varasalvi, kontaktlinsubox... en ég verð að hætta einhversstaðar.

Þegar ég var hvað nerdaðastur var ég með lítið "herraveski". Veskið innihélt
meðal annars fyrirbærið "PalmPilot" sem ég notaði fyrir atriði 9..11 og 17..20.

Það var erfitt að skrifa á PalmPilot með pennanum sem fylgdi og hann var ekki
með vélritunarborð. Maður glataði líka öllum upplýsingum ef rafhlöður kláruðust
og því endaði hann ofan í skúffu að lokum.

Í dag er ég yfirleitt bara með grunnþarfirnar 1..3 þegar ég fer í bæinn.
Gemsinn minn er gamall.  Ég nota hann til að hringja, og stundum vekjarann þegar ég ferðast.

Reyndar er í honum myndavél en hún er lélegri en tárum taki. Nýjustu gemsarnir hafa víst fengið skárri myndavélar en ég hef ekki haft áhuga, því mér skilst þær séu ekki orðnar alvöru myndavélar ennþá.  Litlar myndavélar verða að hafa litla myndaflögu og þá verður útkoman ekki góð, svo ég held ekki í mér andanum.

Of mikið í einum pakka?

Einu sinni keypti ég vasahníf sem innihélt stækkunargler og járnsög meðal  annars, en hann var of þykkur og stór og endaði því í hanskahólfinu á bílnum því hann var ekki lengur "vasa"hnífur, heldur eitthvað annað.  Af þessu lærði ég að vera ekki að kaupa of sambyggðar græjur sem eiga lítið sameiginlegt.  Það er betra að eiga venjulegan  vasahníf og taka bara skrúfjárn með ef maður heldur að maður þurfi að nota slíkt.

Gemsar innihalda sífellt fleiri hluti og eru orðnir eins og vasahnífurinn sem ég  var að lýsa. Þessir flottu eru dýrir, úreldast hratt og ég veit fullvel að ég hef ekkert við alla þessa hluti að gera.  Ég eyði samt tíu mínútum í að skoða þá meðan ég bíð eftir flugvél.

 

Nokia N810

Nú kemur samt tæki á markað í þessum mánuði sem hrærir mína nerdastrengi og það heitir Nokia N810. 

Nokia kallar tækið "Internet Tablet".  Það er bara stór skermur, þráðlaust net,  GPS og Bluetooth, og svo er lítið lyklaborð í skúffu undir skerminum ef maður vill ekki nota snertiskjáinn.  Stýrikerfið er Linux og tækið getur keyrt forrit frá öðrum en Nokia.  Vefrápari, mynd og hljóðspilari, Skype og fleira góðgæti fylgir.

nokia-n810-press-1

 

 

 

 

 

 

 

 

Tækið er ekki gemsi heldur á að tengja það við einn slíkan með Bluetooth ef maður er ekki á svæði með þráðlausu neti.

Ég er orðinn frekar háður Google, Google maps, og Skype og sakna oft að hafa ekki aðgang þegar ég sit ekki við skrifborð.  Ég vil frekar hringja með Skype en að borga símafélagi fyrir venjulegt símtal þegar ég er erlendis.

Það væri líka gott að hafa GPS tæki tengt við Google maps þegar maður er staddur í stórborg.

Þegar ég ferðast tek ég iðulega með ferðatölvu sem getur þetta allt en það kostar tíma að kveikja á henni og maður tekur hana ekki svo glatt upp úr vasanum á götuhorni.

Stýrikerfið í N810 er opið (Linux) en ekki lokað eins og iPhone síminn nýji og það er í raun ástæðan fyrir því að ég hef áhuga á tækinu.

Tækið kemur á markað nú í nóvember og kostar grilljón.  Hálfa grilljón. 400 dollara.  Og það vantar vasahníf...  Og það verður úrelt á morgun...  Einhvern tímann verður samt að kaupa.

Þegar Seltjarnarnes og Reykjavík fara að bjóða upp á þráðlausan aðgang um allan bæ eykst notagildi svona tækis þótt maður sé ekki að ferðast.  Það væri jafnvel hægt að segja upp bæði heimilissímanum og GSM áskriftinni.

Kannski er Nokia svolítið sniðugt að byggja ekki gemsa inn í þetta tæki, því ólíkt iPhone þarf Nokia ekki að úthugsa samkomulag við hin og þessi símafélög. Ef menn vilja nota Skype allan liðlangan daginn þá geta menn það.



Hverjir kaupa?

Flest fullorðin börn láta atvinnuveitandann kaupa svona tæki fyrir sig.  Það er merkilegt að flestir tölvunarfræðingar ganga um með gamaldags pappírsdagatöl og úr með vísum, það eru bissnessmenn sem kaupa flest svona leikföng.

Ég held það sé vegna þess að tölvunarfræðingar vilja leysa vandamál. Þegar ég sé mörg þessi tæki undir glerborðinu út í fríhöfn spyr ég mig: Ef þetta er svarið, hvað var þá spurningin?

Framleiðendur eru oft ekki að reyna að leysa vanda heldur búa til nýja eftirspurn. Þeir setja myndavélar í síma af því þeir vilja auka netnotkun notenda því þeir munu reyna að senda myndina sem þeir tóku til einhverra kunningja sinna og borga vel fyrir. (Sendingin mistekst iðulega en það er svo annað mál).

Útkoman er allt of oft eins og svissneski vasahnífurinn.  Of mikið af möguleikum, sitt úr hvorri áttinni, pakkað saman í umbúðir sem er erfitt að nota.

Kannski N810 verði öðruvísi.  Kannski verður hann ómissandi. Ef ég hefði verið spurður fyrir fimmtán árum hvort ég myndi vilja ganga um með síma að staðaldri hefði ég svarað neitandi.  Mér finnst sennilegt að Internet í vasanum verði hluti af framtíðinni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Oft óskar maður þess að gemsinn hefði aldrei verið fundinn upp. Eða tölvan. Og áttar sig ekki á því hvernig og hvenær maður varð svona háður þessum tækjum. Eins og þú bendir á eru grunnþarfirnar í rauninni mjög fáar og einfaldar.

Þær eru það nefnilega - þegar að er gáð.

Lára Hanna Einarsdóttir, 18.11.2007 kl. 01:50

2 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Seinast þegar ég fékk mér farsíma (sem er nokkuð umliðið) þá var þarfagreiningin einföld: Betri hljómgæði (eftir að hafa hlustað á Magna syngja Creep gegnum síma) og aðdráttarlinsa á myndavélina. Vinnufélögum mínum þótt þetta ekkert merkilegt, en hitt merkilegra að ég skyldi gera þarfagreiningu (vann þá hjá hugbúnaðarfyrirtæki). Mér leiðast símar frekar mikið, nothæfir í neyð þó, þannig að aukabúnaður þessa Nokia N810 hljómar svolítið freistandi. Netið á símanum mínum er leiðinlega hægvirkt eins og öll GSM-nettenging síðan ég kynntist slíku fyrst fyrir svona 7 árum. Og minnið er alltaf of lítið.  En þetta er bara mín aðferð til að vera Nörd, á ekki einu sinni 3ju kynslóðina, bíð eftir að hún verði betri og buddan tæmist ekki í svona nauðþurftir.

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 18.11.2007 kl. 02:00

3 identicon

Ég sé það að fræðimennskan á vel við þig, ef marka má þarfagreininguna í 24 liðum (er ekki annars hægt að finna penna orð en þarfagreining yfir þessa nauðsynlegu iðju að skilgreina hvað þörf er á og hvað ekki)? Ein spurning þó, er þolanlegt að rápa á vefsíðum með þessari græju (auðvelt að stækka og minnka síður)? Það finnst mér reyndar það eina sem iPhone hefur framyfir t.d. litlu WindowsCE símana.

Carlos (IP-tala skráð) 18.11.2007 kl. 10:43

4 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Ég fer næstum því aldrei út með gemsann. Hann er fyrst og fremst ósiður en ekki grunnþörf.

Sigurður Þór Guðjónsson, 18.11.2007 kl. 13:25

5 Smámynd: Kári Harðarson

Ef maður veit ekki hvað mann vantar, hvernig á maður þá að geta keypt það?

Þarfagreiningin þarna var fljót-unnin og sparar óþarfa flæking og fjárútlát eins og flestar þarfagreiningar gera.

Skermurinn er í tvöfalt hærri upplausn en iPhone og vefráp að sama skapi þolanlegra, segja þeir sem hafa prófað.

Þarfagreining, betra orð?   Mér dettur ekkert í hug í svipinn.  Orðið hefur ekki stuðað mig, ólíkt orðinu "mannauðsstjórnun".

Kári Harðarson, 18.11.2007 kl. 17:53

6 Smámynd: Jón Ragnarsson

Ég ætla að kaupa hlutabréf í Apple fyrir andvirði iPhone... ;)

Jón Ragnarsson, 19.11.2007 kl. 12:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband