17.12.2007 | 15:56
Hvaða kvóti er þetta?
Ég gerði smá verðkönnun á leið heim til Íslands enda er ég alltaf að leika neytendafrömuð. Ég tók tvær algengar vörur, Ipod og Xbox og bar saman í raftækjaversluninni "FNAC" í Frakklandi og svo í Elko í Leifsstöð.
Ipod
Út úr búð í Frakklandi kostar svartur 8GByte Ipod Nano 209 Evrur. Evran er 91 kr svo það gera 18.810 kr. Í Frakklandi er 19% söluskattur. Ef ég fæ söluskatt endurgreiddan á leið úr landinu kostar Ipod mig því 15.237 kr.
Verslunin Elko í Leifsstöð selur þennan sama svarta 8 gigabyte Ipod fyrir 19.999 kr. Hann er því dýrari án skatta og tolla hjá þeim en með sköttum og tollum í Frakklandi.
Venjulegar verslanir í Evrópu eru ekkert sérstaklega ódýrar. Þessi Ipod kostar 199$ á heimasíðu Apple í Bandaríkjunum. Dollarinn er 63 krónur svo það gera 12.537 kr. með sköttum í Bandaríkjunum. Ókeypis heimsending er innifalin í því verði.
Xbox
Næst er það Xboxið.
Út úr búð í Frakklandi get ég keypt Xbox 360 með leiknum "Call of duty" inniföldum fyrir 385 Evrur. Leikurinn innifaldi kostar annars 60 evrur. Með tölvunni og leiknum fylgir afsláttarmiði upp á 50 Evrur. Síðan fást 56 evrur endurgreiddar í skatt á leið úr landinu. Því er endanlegt verð á sjálfri Xbox tölvunni (385-50-60-56) * 91 kr = 19.929 kr.
Í Elko í Leifsstöð kostar þessi sama Xbox 360 tölva 30.999 kr. Aftur kem ég því betur út með því að versla ekki í Leifsstöð.
Hvers vegna?
Mér finnst það skrýtið að svokölluð "Duty Free" verslun skuli ekki geta keppt betur við venjulegar búðir í Evrópu.
Enginn heilvita maður kaupir svona tæki í bænum, flestir kaupa þau úti á flugvelli á leið inn í landið. Þarna er því hálfgerð einokun í gangi. Af hverju er þetta eina búðin úti á flugvelli? Af hverju geta menn ekki bara framvísað farmiðanum í Heimilistækjum eða bræðrunum Ormsson og fengið skattinn dreginn af þar?
Ef Elko borgar ríkinu sérstaklega fyrir þau forréttindi að selja íslendingum raftæki án tolla og skatta, þá er þarna um úthlutun á kvóta að ræða. Hvenær var þessi kvóti boðinn út og hvaða "auðlindagjald" þarf Elko að greiða fyrir réttinn til að vera sá sem selur öllum Ipod og Xbox?
Er auðlindagjaldið kannski svo hátt að það útskýrir hvers vegna Elko getur ekki keppt við venjulegar verslanir í Evrópu (hvað þá Bandaríkjunum)?
Flokkur: Neytendamál | Facebook
Athugasemdir
jáhá,, einn ROSAgóður puntur hérna handa þér.
Þegar iPod Touch var að detta inná markað hér fyrir nokkrum vikum vonaðist Apple IMC til þess að hann yrði flokkaður sem lófatölva en ekki tónlistarspilari og því sleppa að borga vörugjöld og tolla. Gáfu upp verð sem var að mig minnir 36900kr(16GB útgáfa) miðað við þannig flokkun, en annars 53900 ef ég man rétt, Sem er verðið í dag.
Samkvæmt þessu ætti þá iPod Touch vera ódýrari en 36900kr í Fríhöfninni, því þar eru ekki borgaðir skattar, tolla né önnur gjöld.
Hann er seldur á 42þús kr þarna.
Það vildi svo til að ég var með í höndunum þessa auglýsingu þegar ég var síðast í Fríhöfninni og rak því augun í þetta, fór og spurði starfsmann þarna, sem var auðvitað einhver slagmálahundur úr Keflavík sem hugsaði líklega bara um að aflituninn á hárinu sér væri í réttum tónum.
Fékk semsagt engin gáfuleg svör frá honum og ætlaði því að spyrja næsta, þegar ég sá hann datt í sama aflitaða flokkinn sleppti ég því, ég gat frekar átt þessar samræður við marmelaði.
Held nú að málið sé að þetta er ekki bara Elkó sem er að smyrja á þetta, þetta tíðkast bara þarna og meðan verslanir komast upp með þetta þá er það gert. Hef alltaf haldið því fram og því fyrr sem fólk gerir sér grein fyrir því, þá er þetta duty free svæði okkar íslendinga OKURbúlla.
Annað tæmi eru ilmvötn, þau eru að meðaltali um 500kr ódýrari þarna en heldur úr snyrtivörubúð/apóteki, sem segir mér að munurinn á DutyFree og hagkaup er án efa minni.
Að versla vín og tóbak sleppur, meira er það ekki.
Rúnar Sigurður Sigurjónsson, 17.12.2007 kl. 18:31
Þarna hefur ekkert verið verslandi mjög lengi, utan vín og tóbak. Mér er nær að halda að þeir séu að borga svona mikið fyrir þetta skotveiðileyfi sem þeir hafa þarna á góðglaða Íslendinga, aðallega.
Hafsteinn Viðar Ásgeirsson, 18.12.2007 kl. 07:24
Það hefur lengi verið þannig í fríversluninni, að útselt verð á t.d. myndavélum er um 10% hærra en út á götu í stórborgum Evrópu. Svipaða sögu get ég sagt af fríverslun í JFK eða Heathrow. Þetta á maður nátturlega bara að vita.
Carlos Ferrer (IP-tala skráð) 18.12.2007 kl. 07:30
8 GB Nano kostar útúr búð í Kaupmannahöfn 1.499 dkr. Það gera 18.403 íslenskar. Er ekki klár á hversu hár söluskatturinn er. Svo er hægt að fá stóra hlunkinn (80 GB) á 1.899 dkr sem gera 23.314 íslenskar.
Jóhann (IP-tala skráð) 18.12.2007 kl. 09:14
Já, ég keypti mér Samsung GSM síma á leiðinni út um daginn, einmitt í ELKO í Leifsstöð. Sá hann svo c.a. 3000 kalli ódýrari á Heathrow, einum dýrasta flugvelli í Evrópu, þar sem ég millilenti á leiðinni til baka.
Snorri Bergz, 18.12.2007 kl. 09:45
Ég tek verðdæmin bara til að sýna að þarna er einokun augljóslega í gangi, engin virk samkeppni og það finnst mér skipta öllu máli.
Ég sætti mig við ríkisrekna fríhöfn, en þessi Leifsstöð er einokunar óskapnaður. Ég legg til að verslanirnar í Leifsstöð verði látnar keppa við venjulegar búðir í Reykjavík. Ég vil geta framvísað farmiða í Bræðrunum Ormsson, ekki bara Elko.
Kári Harðarson, 18.12.2007 kl. 10:11
Eruð þið klárir á því að þið greiðið morð fjár í stefgjöld þegar
keypt eru upptökutæki fyrir hljóð. Ég nota óskrifaða CDdiska
í miklum mæli vegana atvinnu og hef greitt tugi þúsunda í
stefgjöld þótt svo að það komi aldrei tónlistar gaul á diskana.
Leifur Þorsteinsson, 18.12.2007 kl. 13:32
Smá innlegg....ekki kannski tengt fríhöfninni en neytendamálum og okri engu að síður http://www.cafesigrun.com/2007/11/24/verdhkonnun/
Sigrún (IP-tala skráð) 18.12.2007 kl. 13:33
Okkur líður svipað, þér og mér, Sigrún.
Það er engin afsökun að verð hér sé hærra af því laun hér séu hærri. Kosturinn við "Glóbaliseringu" er sá að vörur eiga að verða jafn dýrar alls staðar.
Ef við ætlum að taka þátt í glóbaliseringu þá er ekki hægt að opna fyrir sumt og ekki annað. Í dag er opið fyrir frjálst streymi fjármagns (bankar hagnast) og verkafólks (verktakar hagnast) en ekki neytendavarnings. Þess vegna er hann dýrari hér.
Kári Harðarson, 18.12.2007 kl. 14:44
Sæll Kári
hef fylgst með þessum pælingum þínum undanfarið... og datt í hug smá lausn...
Grænland er að mestu tollalaust land og enginn VSK. Ef þú pantar vöru og lætur senda hana til mín, er velkomið að umpakka henni og senda áfram. Ég versla sjálfur talsvert í gegnum netið og virkar þrælfínt, VSK laust, og frá Bandaríkjunum er þetta líka gjaldalaust. Að sjálfsögðu getur orðið vesen með ábyrgð en hef ekki lent í því.
Ef ég opna vöruna þína, fjarlægi umbúðir og sendi heim til þín (ekki vinnu) eru góðar líkur á að íslenski tollurinn geti ekki smeykt gjöldum í pakkann.
Neyðin kennir naktri konu að spinna og stundum þarf að grípa til skrítinna aðferða. Þetta er ein, tekur smá auka tíma og umstang en dropinn holar steininn... :)
með kveðju úr landnámi Eiríks
Baldvin Kristjánsson, 18.12.2007 kl. 14:54
Þakka gott boð Baldvin! Ég mun hugsa málið. Ég tók einmitt eftir því að vörur í búðum í Qaqortoq voru ódýrari en í verslun í Reykjavík.
Kári Harðarson, 18.12.2007 kl. 15:11
Velkomið. Grænlenska tollskráin er 1 A4 síða, með leiðbeiningum á bakhliðinni...
koma gjöld á sykur, gosdrykki, áfengi, tóbak, bíla og vélsleða. Annað sleppur...
engin gjöld á geisladiskum, ipodum og þ.h.
Baldvin Kristjánsson, 18.12.2007 kl. 15:31
Ein síða !
Það er þá eitthvað annað en íslenska báknið sem er nógu þungt til að brjóta bak og bein í fullhraustum fílelfdum karlmanni.
Síðast þegar ég þurfti að fletta í gegnum íslensku tollskrána á pappír (anno 1996 c.a.) var þetta svo mikið skrifræði að mér hefði auðnast meiri lukka í að sækja um aðgang og komast í gegnum inntökupróf í NSA Bandaríkja Norður Ameríku en að koma þessum eina skjásviss með snúrum í gegnum toll hér heima.
Það er náttúrulega alltaf í sama streng tekið hér, að það er fátt sem er sérstaklega "bannað", það er bara gert ómögulegt með skrifræði og tómu h*..s veseni (pardon my french) af völdum ríkis og embættismanna með litla sál og mikil völd.
Það er löngu kominn tími á að íslendingar rísi upp og geri alvöru skarkala á við frakka eða ítali. Það eru komin um 50 ár síðan síðast voru alvöru mótmæli á íslandi, og hæstráðendur orðnir of feitir og værukærir þar sem þeir sitja og eyða skattpeningum borgaranna í að rífast um ómerkilega og gagnslausa hluti eins og lit á barnafötum á fæðingardeildum og hvort eigi að kalla Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur ráðfrú, ráðherfu eða ráðherra.
Ég lenti í umræðum í dag þar sem var verið að taka fyrir svona mál (fríhafnir v.s. innflutningur) og það kom niður á sama stað - það er alltaf ódýrara að flytja hlutina inn sjálfur, jafnvel þótt þú þurfir að fara utan eftir þeim.
Þú manst eftir vélinni sem ég notaði í tímum Kári ? (TabletPC) Ég flaug til Englands og keypti hana þar. Keypti líka dokku fyrir vélina, nokkra auka penna, auka rafhlöðu, auka geisladrif og harðdiskskúffu. Borgaði flugfarið, uppihald í 3 daga, lestarferðir, út að borða OG ferð á frumsýningu í Odeon fyrir 2 í bestu sætum. Borgaði svo VSK í rauða hliðinu hér heima, OG var svikinn um endurgreiðsluna á enska VSK (á Stanstead). Samt var ég með ríflega 30þ eftir í veskinu miðað við að ég hefði keypt _bara tölvuna_ hér heima. Go figure...
Þór Sigurðsson, 18.12.2007 kl. 22:59
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.