6.1.2008 | 00:33
Hvað er í sjónvarpinu?
Ef mig langar að leigja heimildamynd finn ég hana ekki úti á leigu enda er það ekki hlutverk myndbandaleiga að vera menningarmiðstöðvar landsmanna.
Myndbandaleigur eiga nýlegar amerískar myndir og lítið annað. Engin myndbandaleiga í mínu hverfi á DVD diskinn með bíómyndinni "Titanic" sem var þó ein af stórmyndum ársins þegar hún kom út.
Myndbandaleiga er eins og sjoppa, þar fæst sjoppufæði og það er skiljanlegt. Ef ég ætti leigu myndi ég bara eiga þær myndir sem hægt er að leigja sem flestum.
Þegar bókin var upp á sitt besta var ekki ætlast til þess að bókaútgefendur héldu úti bókasöfnum. Hið opinbera sá um það og gerir enn.
Bókasöfnin eiga slatta af myndefni núorðið, ég gat t.d. fundið "African Queen" með Bogart og myndina "Titanic" með því að leita á safnavefnum: www.gegnir.is
Vísir að myndaleigu á netinu er kominn hjá "Sjónvarpi" símans en þar geta þeir sem eru með ADSL myndlykil hjá símanum leigt myndir. Úrvalið er fátæklegt og myndirnar eru dýrar en hugmyndin virðist virka vel.
Ég held að framtíðin hjá bókasöfnunum hljóti að vera kvikmyndasafn á netinu. Svona myndasafn myndi nýtast fleirum en bara þeim sem eru svo heppnir að búa í grennd við eitthvað safnaútibú.
Tilgangurinn með ríkissjónvarpinu er að halda vörð um menningu. Ef ríkið vill sinna þessum upphaflega tilgangi þá held ég að svona miðlæg gagnaveita með efni svari kalli tímans miklu betur en þessi gamla tækni sem sjónvarpið er. Heimasíða RUV vitnar um þessa þróun því þar er þegar hægt að nálgast suma útvarps og sjónvarpsþætti en bara suma og bara í stuttan tíma.
Þetta er róttæk endurskilgreining á hlutverki bóksafna en ég held að þetta sé næsta skref í þróunarsögu þeirra ef þau eiga að vera virkur hluti af menningu okkar áfram. Ef ríkið tekur ekki boltann þá munu þeir sem kunna eitthvað á tölvur stela því myndefni sem þeir geta með forritum eins og BitTorrent, en hinir sem ekki geta hjálpað sér sjálfir alast upp við þunnildið frá Hollywood.
Athugasemdir
Ég er sammála þér að SkjárBíó er dýr afþreying. 600 krónur fyrir tímabundið niðurhal á mynd er dýrt. Myndbandaleigurnar þurftu að halda kostnaði uppi (í uþb. 600 krónum) vegna þess að þær liðu fyrir hvað viðskiptavinir fóru illa með áþreifanlegar eignir þeirra, þ.e. vídeóspólurnar. Ekki tók betra við þegar farið var að leigja DVD diska - það er happa og glappa hvort þú fáir DVD disk sem er hægt að spila í spilaranum þínum.
SkjárBíó getur ekki réttlætt þennan kostnað.
Ég er búinn að vera með þetta gargan núna í tæpt ár. Ég hef eitthvað nýtt mér fría efnið þeirra, en enn sem komið er hef ég ekki leigt eina einustu mynd þar sem a) þeir eiga ekki þær gömlu myndir sem ég myndi vilja sjá, og b) þær nýlegu myndir sem þeir hafa kosta einfaldlega allt of mikið.
Mér finnst að sjónvarpið ætti að geta boðið upp á svipað með allt sitt innlenda efni, en fyrir aðeins meira viðunandi verð. Ég hefði t.d. gaman að því að horfa á Stiklur aftur, en vil ekki kaupa þær dýrum dómum á myndböndum eða DVD vegna þess að ég hef ekkert við þær að gera uppi í hillu. Gömul áramótaskaup væru skemmtileg upprifjun, svona til að sjá hvað íslenskt þjóðfélag hefur nú raunverulega lítið breyzt, og svo væri alltaf handhægt í heimildavinnu að geta gripið í gamla fréttatíma.
Mér finnst svona lagað vanta.
Þór Sigurðsson, 6.1.2008 kl. 01:01
Sæll Kári.
Þetta er svo sannarlega ORÐ Í TÍMA TÖLUÐ og sem meira er.
Það er ekki hægt að hrekja það sem þú segir(alla vega í þetta sinn).
Góð ÁBENDING.
Þórarinn Þ Gíslason (IP-tala skráð) 6.1.2008 kl. 01:06
Afhverju eru forsvarsmenn SMÁÍS ekki spurðir að þessari spurningu. Hvort neytendur séu ekki einfaldlega séu einfaldlega að búnir að velja sér dreifileiðir sem forsvarsmenn þeirra eru ekki bjóða upp á. Í staðin fyrir að mála neytendur sem kjósa aðra leiðir sem glæpamenn.
Ég held að Rétthafar séu tréhestarnir í þessu máli, ég veit að rétthafar eru þeir sem stjórna verðinu í hinu mjög sniðuga skjá bíó. Skjá bíó má ekki hafa lægra verð en videóleigurnar.
Mín kynslóð hefur ekki áhuga að láta einhver dagskrástjórna sínu áhorfi, hefur ekki áhuga á að ná video/dvd út á videoleigu sem er bæði rándýr og ég tala nú ekki um ef maður gleymir að skila. Mín kynslóð vill stjórna sínu áhorfi, af því að hún getur það.
Á meðan rétthafar átta sig ekki á þessu þá verða þeir að halda áfram að berjast við vindmyllur og mín kynslóð að stunda borgaralega óhlíðni.
Ingi Björn Sigurðsson, 6.1.2008 kl. 10:07
Þú hefur greinilega ekki komið á Aðalvídeóleiguna á Klapparstíg. Þeir eru með ágætt úrval að heimildarmyndum.
thora gunnarsdottir (IP-tala skráð) 6.1.2008 kl. 11:21
Tek undir með þér i þessu, Kári. Úrvalið hjá Skjábíóí ( ADSL /iptv sjónvarp Símans ) er reyndar aðeins betra en litur út fyrir í fyrstu. Mæli með heimildarmyndinni "The corporation" . Hægt er að finna hana með því að fara í "leit" og pikka inn corpo, til dæmis. Capturing The Friedmans, Supersize Me og The Road to Guantanamo eru líka áhugaverðar.
Morten Lange, 6.1.2008 kl. 11:59
Áramótaskaupin verða seint endursýnd. Ástæðan er sú að þá þyrfti að gera sérsamning við *alla* þá sem koma fram í þeim, hvern einasta leikara. Og það er flókið og langt verk.
Annars er ég sammála því að leigja myndir yfir VOD-ið í TVoADSL hjá Símanum / Skjánnum er rán... rándýrt!
Einar Indriðason, 6.1.2008 kl. 12:32
Það má einnig finna ýmislegt á www.joost.com
Júlíus Valsson, 6.1.2008 kl. 16:33
Þarfur pistill. Langur að benda á myndbandaleigu - held hún heiti Laugarnesvideo og er á Dalbraut. Þeir bjóða upp á marga klassikina þar. Nefni þar sérstaklega þáttasyrpu um Barða Hamar (Sledge hammer) sem og margt fleira.
Alma Guðmundsdóttir (IP-tala skráð) 6.1.2008 kl. 20:01
Já, ég get líka mælt með Laugarnesvideó varðandi heimildarmyndir og úrval mynda annarstaðar en frá stóru dreifikerfunum. Og framtíðin er auðvitað að menn velji sér úr gagnaveitum það sem þeir vilji sjá. Þess vegna held ég að Ríkisútvarpið ætti bara að snúast um íslenska dagskrágerð, vera einhvers konar akademia , þarsem er besta aðstaðan , þarsem þjálfaðir eru góðir dagskrárgerðarmenn og tæknimenn og aðstaða sé einnig fyrir sjálfstæða aðila að koma inn til að vinna einkum heimildamyndir, heimildaþætti, listsköpun í margmiðlun etc., menningarefni- það er umframboð á afþreyingarefni í heiminum- og þar hefur sjaldnast legið okkar styrkur.
María Kristjánsdóttir, 7.1.2008 kl. 00:23
Eitthvað er að gerast:
http://www.visir.is/article/20080107/LIFID01/101070103
Jón Ragnarsson, 7.1.2008 kl. 09:41
Vel sagt, María.
Kári Harðarson, 7.1.2008 kl. 10:06
Sumir gætu haft gaman að því að kíkja hingað: Internet Archive
Kristján Ingi Úlfsson (IP-tala skráð) 7.1.2008 kl. 13:04
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.