15.1.2008 | 09:59
Rafmagnaðri Prius - myndi ég kaupa rafmagnsbíl?
Toyota Prius bíllinn er orðinn algengur á götum Reykjavíkur.
Hann verður afgreiddur með innstungu frá árinu 2010, því þá verður hægt að stinga bílnum í hleðslu.
Full hleðsla er 2.7 kílóvattsstundir og tekur 4 klukkutíma. Á þessari hleðslu getur bíllinn keyrt 12 kílómetra áður en bensínvélin hrekkur í gang. Tólf kílómetrar jafngilda bíltúr úr Hafnarfirði í Kringluna og til baka. Það er ekki mjög langt, en hins vegar er bíllinn ekki sérstaklega hannaður sem rafmagnsbíll, enda kemst hann út um allt á venjulegu bensíni þegar rafmagnið þrýtur.
Kílóvattsstund kostar 4,38 kr. núna svo kílómetrarnir tólf munu kosta 12 krónur.
Sama vegalengd í venjulegum bensínbíl kostar 162 krónur í bensín (miðað við 135 krónur á lítrann og tíu lítra eyðslu á hundraðið).
Tólf kílómetrar eru sú vegalengd sem margir fara til og frá vinnu daglega.
Ég vil heldur borga 12 krónur en 162 krónur fyrir keyrslu dagsins, en á móti kemur að ég þarf að muna að stinga bílnum í samband á hverju kvöldi. Ég væri líka að spara bíltúra út á bensínstöð og það er líka einhvers virði.
Á hverju ári fer ég 240 ferðir í vinnuna. Ef hver um sig kostar 162 krónur í bensín gera það 38.880 kr. Það er nú ekki mjög mikill peningur á ári sem maður sparar með því að hætta að kaupa bensín.
Þegar bíllinn hefur einu sinni verið keyptur, því þá ekki að nota hann sem mest, fyrst bensínið er ekki stærri hluti af rekstrarkostnaðinum? Þarna er væntanlega komin skýringin á umferðinni á götum Reykjavíkur. Það þarf miklu meiri hækkanir á bensíni til að fólk fari að labba eða hjóla þegar afborganir af bifreiðinni eru miklu stærri kostnaðarliður en bensínið sjálft.
Heimildir:
http://www.nytimes.com/2008/01/14/business/14plug.html?ref=technology
http://www.orkusalan.is/heimili/index.cfm?ccs=69
Flokkur: Tölvur og tækni | Breytt s.d. kl. 10:04 | Facebook
Athugasemdir
Rafmagnsbíll er nú ekki endilega eini kosturinn. Verið er að þróa líka bíla sem ganga fyrir lofti, háþrýstilofti. Hér er hlekkur og YouTube
Tryggvienator, 15.1.2008 kl. 10:27
Þrýstiloftbílar eru nú ætlar til innanbæjaraksturs, þetta er ekki kappakstursbíll Ef maður skoðar wiki þá er nú alltaf talað um 160 til 220km á tanki. Mismunandi nú eftir tegund. En það er stefnt að því að það kosti undir 200 kr að fylla tankinn.
Tryggvienator, 15.1.2008 kl. 11:03
Á Íslandi gæti vel gengið að dæla þrýstilofti á bíla með rafmagni. Mætti ekki nota hitann sem myndast til að hita vatn og nýta svo heita vatnið í eitthvað?
Er ekki mergurinn málsins að verða óháður aröbum, frekar en að ná sem allra bestri nýtingu?
Þetta minnir á umræðuna um hljómgæði í geisladiskum. Þegar upp var staðið var flestum sama, það voru þægindin sem fólk vildi.
Kári Harðarson, 15.1.2008 kl. 11:29
> Ef guð er til í að breyta lögmálum varmafræðinnar þá ætla ég ekki að segja mig upp á móti honum.
Já, enda verðum við þá orðnir tveir á móti einum
Kári Harðarson, 15.1.2008 kl. 11:40
Ef maður er svo vel af Guði gerður að geta notað rúgbrauðsmótorinn á maður að sjálfsögðu að gera það.
Ég lít svo á að ég sé að borga í lífeyrissjóð með því að hjóla í vinnuna, því heilsan er eitthvað sem ég vil eiga í handraðanum þegar ég verð eldri.
Ef maður reiknar heilsuna inn í hagkvæmnisútreikningana er engin spurning hvaða leið í vinnuna borgar sig!
Kári Harðarson, 15.1.2008 kl. 12:08
Kvitta fyrir lestur Kári og sendi þér kveðju.
Guðmundur Pálsson, 15.1.2008 kl. 13:00
Hér eru nokkrir aukapunktar í pælinguna:
- Ef borinn er saman heildarmengun við framleiðslu, notkun, og förgun á dæmigerðum líftíma á: Toyota Prius annars vegar og Hummer hins vegar, þá mengar Toyotan meira. Ástæða? Það er mikil, mikil mengun sem fylgir því að búa rafhlöðurnar til.
- Ef almenningssamgöngur væru nothæfar, þá myndu (vonandi) fleiri notfæra sér það að taka strætó eða sporvagn.
- Ef það væri skemmtilegri aðstaða fyrir hjólafólk, þá myndu (vonandi) fleiri hjóla.
Tveir seinni punktarnir eru eitthvað sem þú hefur nefnt áður, Kári, ég ætla bara að nefna þá svona sem aukið vægi. (Eigum við að kalla þetta "virðisaukandi komment" :-)
Hitt er svo annað mál, að það stendur upp á stjórnvöld, hvort þau hafi vilja, getu, þor, til að breyta umferðarstefnunni svona mikið.
Einar Indriðason, 15.1.2008 kl. 13:39
Takk fyrir þessa viðbót í hagkvæmnisútreikningana, það gerir auðveldara að hjóla heim úr vinnunni á eftir!
Það var annars ágætt að hjóla þetta í muggunni í morgun. Ég fór að minnsta kosti hraðar en bílarnir á Hringbrautinni. Það er svo sem ekkert keppikefli hjá mér, en svona var þetta í morgun.
Ég mæli með nagladekkjum undir hjólhestinn í svona færð. Það þarf enginn að hafa áhyggjur af því að ég spæni upp malbik eða steypu með þeim. Ég er með annað hjól á sléttum dekkjum fyrir frostlausu dagana.
Sveinn Ólafsson, 15.1.2008 kl. 15:03
Sæll Kári,
Kostnaðurinn er hærri! Í fyrsta lagi þá er rafmagnsverð helmingi hærra en þú gefur upp. Verðið á kWst sem Orkusalan hf gefur upp, er bara fyrir sjálft rafmagnið, þá átt þú eftir að borga Landsneti fyrir dreifingu, 1,15 Kr/kWst + VSK og svo Orkuveitunni til að dreifa rafmagninu frá Landsneti heim til þín, eða 2,31 kr/kWst + VSK. Heildarverðið er því 3,52 + 2,31 +1,15 = 6,98 + VSK =8,69 kr/kWskt. Kíktu á sundurliðaðan rafmagnsreikninginn þinn.
Samt mjög ódýrt miðað við bensín, en bíddu við. Þú þarft að reikna heildar kostnaðinn. Hvað endist rafgeymirinn lengi og hversu oft getur þú hlaðið hann? Hvað kostar að endurnýja hann?
Nýlega hóf Perlugrafarinn að flytja inn afl-litla og smáa indveska rafmagnsbíla. Raforkunotkun þeirra er mjög lítil, en þegar verðið á batterínu (200+ þús kr) er tekið inn í og heildarkostnaður reiknaður, þá er eldsneytiskostnaður á ekinn km orðinn svipaður og t.d. hjá Toyota Yaris diesel.
Í svona dæmi verður maður að skoða heildardæmið. Hins vegar held ég að þessi bíll frá Toyota sé mjög sniðugur og sömuleiðis geta rafmagnsbílar vel átt góða framtíð fyrir sér.
p.s.
Annað sem gleymist líka, er að tæplega helmingur af verði bensíns og díselolíu eru skattar. Þú borgar engin gjöld af rafmagninu til uppbyggingar vegakerfisins eins og þú gerir með hverjum lítra af bensíni eða dísel. Ef allir skipta yfir í rafmagnsbíla, þá þarf að leggja sérstakt þungagjald á rafmagnsbíla, eða hækka aðra skatta, nú eða finna leiðir til að skera niður kostnað og/eða þjónustu í ríkiskerfinu.
Geir Guðmundsson (IP-tala skráð) 15.1.2008 kl. 19:08
Takk fyrir góða púnkta, Geir!
Kannski var ég full fljótur að finna raforkuverðið á netinu. Ég valdi www.rarik.is og bað um verðskrá til heimila. Þarna er hvergi sagt að þetta sé ekki endanlegt verð, vsk. er kominn á þetta og þá hlýtur það að vera endanlegt verð til notanda eða hvað?
Ég fæ ekki lengur rafmagnsreikninginn á pappír svo ég veit ekki hvað ég borga lengur.
Netvæðing á svona greiðslum hefur ekki gert mann meðvitaðri um verðlag nema síður sé.
Kári Harðarson, 15.1.2008 kl. 20:10
Ég er greiði líka mína orkureikninga rafrænt, en OR sendir inn á Einkabanka minn hjá Landsbankanum reikninganna og þar get ég skoðað þá undir liðnum "Rafræn skjöl". Mér þykir líklegt með að þú getir líka skoðað þína rafmagnsreikninga á netinu. Ef ekki kvartaðu þá við bankann þinn.
Ég rangnefndi Perlukafarann (www.perlukarfarinn.is) (kallaði fyrirtækið óvart Perlugrafarann ) í fyrri færslu. Perlukafarinn flytur inn Reva rafmagnsbílinn.
Samkvæmt rannsókn hjá HÍ í fyrravor, þá var kostnaður Reva 78 kr/100km sem er þá bara rafmagnskostnaður. Samkvæmt framleiðandanum kemst bíllinn 40 - 80 km á hleðslunni og rafgeymirinn þolir 800 hleðslur og kostar yfir 210 þús. kr.
Miðað við að hlaða bílinn á 80 km fresti (ath bestu aðstæður), þá er afskrftarkostnaður geymisins 330 kr/100 km. Þannig að kostnaður er kominn yfir 400 kr/100 km.
Prius eyðir samkvæmt sömu rannsókn 4,4 l/100 km, eða tæplega 600 kr /100 km miðað við bensín verð í dag. Þannig að munurinn á kostnaði er ekki svo mikill, eða 30 þús. kr á ári miðað við 15 þús km akstur. Það er hins vegar mjög mikill munur á sjálfum bílunum hvað varðar gæði, þjónustu, kraft, þægindi og öryggi.
Geir Guðmundsson (IP-tala skráð) 15.1.2008 kl. 22:48
Guðjón: Nei, ég man ekki frumheimildir, en man þó að þetta var á einhverri vefsíðu, sem hefur eitthvað betra repp en slashdot. Hvort þetta var á einhverri tækni-undirsíðu hjá BBC eða the register, ég man það ekki.
Einar Indriðason, 16.1.2008 kl. 00:24
Þetta með Hummer vs Prius er víst byggt á furðulegum forsendum. Ef þú (Einar) hefðir nú lesið aðeins betur á Slashdot (þó að slashdot sé ekki góð heimild eru góðir hlekkir þaðan), sjá
http://hardware.slashdot.org/article.pl?sid=07/03/20/1858204&from=rss
En skv. forsendunum er gert ráð fyrir að Hummerin endist 300.000 mílur meðan priusinn átti bara duga 100.000 mílur. Það var lítið sem ekkert sem studdi þessar tölur. En það er augljóst að príusinn kemur ílla út svona samanburði þó það er vita mál að hann dugar meira en 100.000 mílur.
Það má skammlaust segja að það sé rugl að Hummerinn sé umhverfisvænni en priusinn.
Takk annars fyrir gott blogg Kári.
Gísli Jónsson (IP-tala skráð) 16.1.2008 kl. 00:42
Gísli: ég les ekki slashdot... of mikið af suði þar. Það sem ég sá, var að mengunin við að framleiða rafgeymana í priusinn væri það mikil, að hún vægi upp slatta af Hummernum.
Hitt er annað mál, að við ættum að skoða betri almenningssamgöngur annars vegar, og styðja við bakið á gangandi og hjólandi á betri hátt en gert er í dag.
Einar Indriðason, 16.1.2008 kl. 08:57
Heyr, heyr ! :-)
Að númer 2 : Einföld og sjálfsögð byrjun gæti verið að uppræta augjós mísrétti þar sem borgað sé með bílanotkunar og ýtt undir henni, meðal annars með fjarhagslegum hvötum.
Svo er það þetta klassiska:
- Setja 30 km hraða miklu viðar og gera mönnum ljóst að akvegurinn sé aðalstaðurinn fyrir hjólreiða fullorðina, og sérstaklega þar sem umferð sé ekki bæði hröð og mikill.
- Greiðari leiðir sem gefa hjólreiðamenn valkost sem er þægilgeri og gefur meiri öryggistilfinningu en hraðbrautirnar/stofnbrautirnar. Dæmi frá suðvesturhorninu Miklabraut, Ártúnsbrekka, Vesturlandsvegur að Esju eða Akraness, Reykjanesbraut, Hafnarfjarðarvegur
- Bæta viðhaldi á núverandi samnýttum stígum : Sópa, tryggja nokkuð slétt yfirborð, án sprungna og skurði, moka betur
- Stórbæta fræðslu um hjólreiðar. Bæði í skólum, í fjölmiðlum og ökuskólum. Efnið einungis kennt og efnið framleitt af fólki sem sjálfur hjólar til samgangna og hefur kýnnt sér fræðin sem systirsamtök Landssamtaka hjólreiðamanna í European Cyclists' Federation hefur komið upp ( BikeAbility ofl )
Ok verð að láta þetta duga núna...Morten Lange, 16.1.2008 kl. 10:55
Leiðrétting : Engir bílar geta verið umhverfisvænir. Samkvæmt sérfræðingi á ráðstefnu OECD um sjálfbærar samgöngur í Kanada 1996, er reiðhjólið það ökutæki sem einna helst gæti kallast sjálfbært. En að hampa Hummer sem mengunarminni en einhver annar bíll, er bull.
Morten Lange, 16.1.2008 kl. 11:00
Ég biðst afsökunar á því að fara aðeins út fyrir efnið, en ég vil bara að það komi fram að þessi „rannsókn“ á heildarmengun á Hummer og Prísu (og fleirri bílum) er algjört bull.
Nú veit ég ekkert hvað þú sást Einar, en það hefur líklega verið bara enn ein fréttin sem hefur endurtekið vitleysunar sem rannsóknin komst að.
Skýrslunar er að finna hér:
http://cnwmr.com/nss-folder/automotiveenergy/DUST%20PDF%20VERSION.pdf
En í skýrslunni má finna marga gullmola eins og:
ABOUT THIS REPORT
This is a general-consumer report, not a technical document per se. It includes breakdowns of each vehicle’s total energy requirements from Dust to Dust but does not include issues of gigajuelles, kW hours or other unfriendly (to consumers) terms. Perhaps, in time, we will release our data in such technical terms. First, however, we will only look at the energy consumption cost.
Orkunotkunin er sem sagt ekki mæld í einhverjum óþægilegum orkueiningum heldur dollurum.
Ef þú nennir ekki að lesa í gegnum ríflega 400 bls skýrslu af ótrúlegum tölum, lagatextum, tölvupósti og teiknimyndum þá skaltu taka mark á þeim sem segja að skýrslan er rugl.
Ps. Ef einhver vill lesa hlægilegu (eða sorglegu) hluta skýrslunar þá mæli ég með að goggla eftir gagnrýni á skýrsluna. Það er nefnilega til fólk á netinu sem hefur lesið öll ósköpin þar má oft lesa skemmtilegu hlutana.
Gísli Jónsson (IP-tala skráð) 16.1.2008 kl. 11:15
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.