Ferðalög um flækjustig dauðans

Bíllinn tók upp á því fyrir ári að verða rafmagnslaus í tíma og ótíma.  Nýlega skildi ég hvers vegna.  Það er hægt að opna bílinn með  þráðlausri fjarstýringu.  Eftir að nágranninn fékk sér þráðlausa  veðurstöð sem sýnir hitann úti, hlustar bíllinn á útsendingar  veðurstöðvarinnar á mínútu fresti, vekur bíltölvuna og eyðir öllum  straumi á bílnum ef hann stendur ónotaður í 2-3 daga.

Það var engin veðurstöð í grennd við bílaverkstæðið og því fannst ekkert að bílnum.

Að lokum var það leit á Google sem kom mér á sporið. Viðgerðin felst í  að skipta um móttakara í bílnum, nýi móttakarinn vekur ekki tölvuna  nema alvöru bíl-lykill sé á ferðinni.

Mig dreymdi þetta vandamál á nóttunni þegar verst lét.

---


Mótórhjólið mitt drap á sér og hagaði sér eins og það væri  bensínlaust. Skýringin var að ljósið í mælaborðinu sem átti að sýna að  hjólið væri bensínlaust var raðtengt við bensíndæluna eins og pera í  jólatrésseríu. Þegar peran sprakk, hætti bensíndælan að dæla bensíni.  Þetta var Yamaha Virago XV535, fyrir þá sem vilja forvitnast um þessa  merkilegu hönnun.

Ég skipti um peruna og hjólið fór í gang en þá hafði ég líka eytt  miklum tíma í lítið.
Yamaha XV535

 

 

 

 

 

 

 

 

 

---


Vinur minn rak vatnskassann á glænýjum jeppa í íshröngl þegar hann  keyrði yfir ársprænu.  Kælivatnið lak af bílnum, en af því  vatnshitamælirinn mældi hitann í vatnskassanum en ekki í vélinni seig  mælirinn hægt niður á við í stað þess að hækka og blikka rauðu ljósi.  Vélin bræddi úr sér, sú nýja kostar rúmlega milljón.

Það má spyrja hvort þetta var ekki hönnunargalli á bílnum.  Ætti ekki  sex milljóna jeppi að vera með hitamæli á vélinni?  Ætti vatnskassinn  að vera neðsti púnkturinn á jeppa sem rekst í eitthvað?

---


Mér varð það á um jólin, að segjast vera fæddur 17.september 2007  þegar ég skráði nýja leikatölvu sonar míns hjá Microsoft.  Eftir það  sagði forritið að ég þyrfti samþykki foreldra minna.  Ég  gat ekki bakkað út úr skráningarferlinu því nú var ég barn og því ekki  treystandi samkvæmt Microsoft sem mundi eftir mér næst þegar ég reyndi  að tengjast.

Ég þurfti því skrá mig tvisvar og er nú barn sjálfs mín og væntanlega  afi sonar míns, samkvæmt leikjatölvudeild Microsoft.  Ég hef á  tilfinningunni að ég sé ekki búinn að bíta úr nálinni með þetta  axarskaft.

---


Læknir í London að nafni John Snow fann upptök kólerufaraldurs í borginni með því að fylgjast grannt með því hvar fólk veiktist og ályktaði að vatnsból á Broad Street væri mengað.  Þessi saga er notuð sem dæmi um ályktunargáfur greindra manna og setti John Snow í mannkynssöguna.

snow_cholera_map_lg

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Ég þarf jafn mikla rökhyggju ef ekki meiri til að berjast við draslið  sem ég er að kaupa út í búð þessa dagana, en ekki kemst ég í mannkynssöguna fyrir það.

Framleiðendur eru alltaf að finna hjólið upp aftur og alltaf kemur eitthvað  nýtt uppá.  Ég enda á að aflúsa hönnunina fyrir framleiðandann í sjálfboðavinnu.

Niðurstaða mín ætti að vera að lifa einföldu lífi og kaupa einfalda og þrautprófaða hluti, en ónei.  Ég er svo  nýungagjarn að ég held áfram að kaupa þessa vandræðagripi og berjast við þá eins og hetja Cervantes barðist við vindmyllur.

 personal-data-breaker

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Elías Halldór Ágústsson

Frábær pistill. Það er einmitt út af svona hlutum sem RISKS er eftirlætis póstlistinn minn.

Elías Halldór Ágústsson, 18.1.2008 kl. 12:44

2 Smámynd: Óskar Þorkelsson

já tek undir með Elíasi, virkilega skemmtilegur pistill .

Óskar Þorkelsson, 18.1.2008 kl. 15:11

3 Smámynd: Stefán Jónsson

Frábær pistill.
Þú og vinur þinn eigið báðir að kaupa ykkur gamla Toyotu, þá losnið þið við svona fáránlegt vesen með bílana ykkar.
Ég held að allir geti verið sammála um það, að í dag er vandfundinn varningur sem er gerður til þess að virka, svo maður tali nú ekki um endast.

Stefán Jónsson, 18.1.2008 kl. 16:09

4 Smámynd: Þór Sigurðsson

Snilld Kári :) Ég skellti uppúr þegar kom að fjölskyldutenglsum þínum við sjálfan þig :D

Þór Sigurðsson, 18.1.2008 kl. 19:08

5 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Góður pistill, takk fyrir.

Sveinn Atli Gunnarsson, 18.1.2008 kl. 23:52

6 identicon

Tær snilld.

Þórarinn Þ Gíslason (IP-tala skráð) 19.1.2008 kl. 11:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband