10.2.2008 | 22:58
Þungur baggi
Ég fór á rafmagnsverkstæði með bílinn vegna þess að hann verður rafmagnslaus ef hann stendur nálægt þráðlausum veðurstöðvum. Tölvan í bílnum heldur nefnilega að þær gætu verið fjarstýrður lykill.
Þegar verkstæðiseigandinn var búinn að hlægja nóg af þessari tíktúru í bílnum og hafði sýnt félögum sínum hvernig tölvan át hálft amper úr rafgeyminum í hvert skipti sem einhver útvarpspúls var í grenndinni, sýndi hann mér apparat á stærð við kalkún sem hann var með uppí hillu:
Svo sagði hann mér söguna á bak við stykkið:
Ökumaður ætlaði að hagræða sér í sætinu á nýlegum Range Rover og greip þéttingsfast í stýrið. Þá heyrðist brestur og stýrið varð laust svo hann fór með bílinn á verkstæði. Pinni hafði brotnað í einingunni á myndinni og það þurfti að skipta um hana í heild. Hún vegur um tíu kíló og kostar hundrað þúsund krónur. Reiðhjólið mitt kostaði hundrað þúsund krónur og vegur tíu kíló, þetta er nefnilega lúxushjól.
Nú kemur ástæðan fyrir blogginu: Eini tilgangur stykkisins er að hækka og lækka stýrið í bílnum.
Range Rover eigendur keyra um allt með tíu kílóa aukavigt fyrir hundrað þúsund krónur til að geta ýtt á takka ef þeir vilja hækka og lækka stýrið.
Nú gat ég séð með eigin augum hvernig verðið og þyngdin á bílum í þessum flokki verður til. Augu mín opnuðust og ég fékk "bíla-nirvana". Ég lofaði sjálfum mér að láta mig ekki dreyma um svona lúxus eftirleiðis.
Karlkyns páfuglar ganga nærri sjálfum sér til að skarta fjaðraskrúði og ganga í augun á kvenfuglunum. Á sama hátt virðist lúxuskapphlaupið í bílabransanum vera að gera út af við bílana sem farartæki.
Upphaflega hugmyndin að jeppa var að gera sterkbyggðan bíl sem þyldi volk og væri fær í flestan sjó. Það er mótsögn að fylla þannig bíla af þungum og viðkvæmum búnaði. Það væri hart að verða úti á fjöllum af því maður hagræddi sér í sætinu.
Athugasemdir
hahaha, mikið rétt. páfuglssamlíkingin er góð
Brjánn Guðjónsson, 11.2.2008 kl. 01:16
Það þarf að skipta um móttakarann sem er staðsettur ofan við hægra afturbretti. Ný útgáfa af honum filterar betur út aðrar tíðnir. Einfalt mál að skipta um, meira að segja tölvunörðar eins og við fara létt með þetta. Óþarfi að ónáða gamansama verkstæðiseigendur......
Stykkið kostar nokkra þúsundkalla, ætti að vera til á lager hjá bogl.
kv
ÞÞ
Þorrsteinn (IP-tala skráð) 11.2.2008 kl. 10:12
Takk fyrir. Ég held að móttakarinn kosti reyndar 30 þúsund krónur. Getur þú sagt mér hvernig ég næ hlífinni af án þess að valda skaða ? Þú mátt alveg hringja í mig í 862 9108.
Kári Harðarson, 11.2.2008 kl. 10:20
Um rafkerfi í Range Rover & kynni mín af slíku gæti ég skrifað þvílíka vælulangloku að það hálfa væri meira en heill hellíngur.
Það er gott að eiga einfaldann Ford.
Steingrímur Helgason, 12.2.2008 kl. 21:56
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.