27.2.2008 | 12:31
Andlegur skurðmokstur
Ég fékk tölvupóst frá manni sem ætlaði að taka viðtöl við mig og kollega mína. Hann spurði hvort við gætum sent svarpóst og sagt hvenær hver okkar um sig gæti hitt hann? Ég sá fyrir mér hvernig póstarnir myndu hrannast inn: Einn getur hitt hann fyrir hádegi á mánudag, 10-12 þriðjudag, upptekinn miðvikudag. Tuttugu svoleiðis póstar.
Hefði ekki verið nær að setja upp stundatöflu og merkja okkur inn á hana? Vandinn er, hvar á Internetinu átti hún að hanga? Ekki allir móttakendur póstsins hafa aðgang að sameiginlegu skráasvæði. Það er með herkjum að ég geti séð vinnumöppurnar mínar heimanfrá. Outlook er með dagatalsmöguleika en ekki allir vilja nota Outlook og þótt þeir gerðu það er ekki hægt að tengjast því svo vel sé, nema á innra netinu. Þarna stundar maðurinn andlegan skurðmokstur í stað þess að láta tölvuna vinna fyrir sig.
Matsalan í skólanum hefur ekki tengt búðarkassann við nemendabókhald skólans og því borga nemendur með reiðufé í stað nemendakorts, því matsalan getur ekki borgað offjár fyrir sérsniðna lausn til að tengja kerfin saman.
Á heimasíðu bankans fæ ég að velja á milli greiðsluseðils, millifærslu á annan reikning, boðgreiðslu með greiðslukorti, A-gíró, B-gíró og C- gíró. Alltof margar greiðsluaðferðir sem eiga hver sína sögu og hagsmunaaðila að baki. Þegar ég svo borga fæ ég að slá inn sjö bókstafa skýringu. Sjö stafir. Halló?
Það vantar staðla. Einföldustu hlutir eru erfiðir af því tölvur vinna illa saman. Án staðla verður tæknin innantóm. Flottasti Bens væri lítils virði ef Vegagerðin væri ekki að malbika sömu vegi fyrir alla bíla. iPhone frá Apple væri gagnslítill ef símafélögin hefðu ekki bundist auðmjúkum samtökum um að þróa GSM kerfið saman.
Apple miðlar þessari auðmýkt ekki áfram til viðskiptavinanna. Ekki reynir sá sem selur brauðristar að fyrirskipa kaupendum hvaða tegundir af brauði þeir mega rista en sá sem dirfist að reyna að opna Apple síma tekur þá áhættu að Apple sendi símanum skipun um að fremja sjálfsmorð.
Menn og fyrirtæki hika við að skipta um hugbúnað þótt þjónustan sé slæm því kostnaður við að breyta gögnum á nýtt snið er svo mikill. Þessi ótuktarskapur er kallaður "lock-in". Neytandinn er orðinn neysluvaran. Ef "lock-in" gengur nógu langt getur fyrirtæki haldið sinni markaðshlutdeild þótt það minnki notendaþjónustu, hækki verð og stundi ekkert frumkvöðlastarf.
Það hefur aldrei verið hægt að vista PDF skjöl í Word því PDF er frá Adobe og Microsoft vill ekki vinna með þeim. Þetta er dæmi um hvað maður fer á mis við ef þeir sem maður á viðskipti við vinna ekki saman. Microsoft gerði sín skráarsnið erfið fyrir aðra að lesa en hafa nýlega séð að þeir voru að skjóta sig í fótinn því notendur eiga fullt í fangi með að opna Microsoft skjöl í Microsoft hugbúnaði. Microsoft er byrjað að skjala skráarsniðin sín og þeir hafa lofað að lögsækja ekki þau fyrirtæki sem reyna að lesa og skrifa skrár samkvæmt þeim.
Við fyrstu lesningu á stöðlunum blasir við ormagryfja af breytingum á skjalasniðinu í gegnum árin. Lýsingin á Excel skjali tekur 350 síður og vísar í fullt af öðrum undirskjölum enda var Microsoft ekki að reyna að skrifa staðal. Er þetta "staðallinn" sem opinberar stofnanir ætla að vista gögn í næstu árin?
Ég á mér draum. Ég vil geta opnað mína skráamöppu fyrir vini í hinum enda bæjarins án þess að þurfa að borga sérfræðingi fyrir að opna eldvegg. Ég vil geta beðið um kassakvittun frá kaupmanni beint í rafrænt heimilisbókhald, í stað úreltrar kassanótu á strimli sem ég get illa lesið. Ég vil geta náð í bíómyndir og tónlist með löglegum hætti án þess að eyða bensíni eða fara í einokunaráskrift. Ég vil geta opnað nokkurra ára gamalt ritvinnsluskjal og reikniörk.
Tal um "Open Source" hugbúnað skiptir litlu máli. Forritarar þurfa jú líka laun, en forritin sem þeir skrifa eiga samt að lesa og skrifa gögn samkvæmt opnum stöðlum.
Ríkisstjórnir eiga ekki að geyma gögn á lokuðu sniði. Þær eiga að vinna að uppbyggingu á stöðlum í stað þess að berjast óbeint gegn þeim með því að huga ekki að þessum málum.
Eftirspurn eftir tölvunarfræðingum hefur sjaldan verið meiri og launin eru góð en það er lítið um valdamikla fagmenn sem varða veginn. Tölvunarfræðingar þurfa að sýna faglega ábyrgð eins og verkfræðingar og læknar hafa reynt að gera gegnum tíðina.
Land sem verður öflugt í að skilgreina staðla og framfylgja þeim getur orðið leiðandi á heimsvísu. Íslensk hugbúnaðarfyrirtæki munu þá selja vörur sem vinna vel saman og útkoman verður stærri en summa þess sem lagt var upp með.
(Greinin var birt í viðskiptablaðinu 26.febrúar).
Flokkur: Tölvur og tækni | Breytt s.d. kl. 12:35 | Facebook
Athugasemdir
Góð grein hjá þér.
Er ekki málið að í hugbúnaðargeiranum þá ráða lögfræðingar og markaðsspekingar of miklu? Maður getur talið upp endalaus klúður:
DVD Region coding. HD-DVD vs. Blu-Ray. Skrifstofuskjöl (eins og þú nefndir).
Myndu t.d. framleiðendur brauðrista komast upp með að framleiða tæki sem pössuðu bara fyrir ákveðna tegund/stærð af brauðsneiðum, eða notuðu bara rafmagn frá ákveðnum spennistöðvum? Ég held t.d. að Siemens framleiði hvort tveggja. Hvernig þætti fólki ef það gæti bara keypt Siemens brauðristar/eldavélar/þvottavélar af því að OR ákvað að kaupa spennubreyta frá Siemens fyrir sitt rafmagn?
Hvers vegna erum við nördarnir ofurseldir valdi bókhaldara, lögfræðinga og markaðssérfræðinga? Stundum finnst mér að þetta sé allt komið á hvolf.
Jón Ragnarsson, 27.2.2008 kl. 14:01
Þarna er greinin sem ég hef svo lengi ætlað að skrifa. Þú hefur sagt þarna allt sem ég ætlaði að segja og meira til. Frábær grein.
Elías Halldór Ágústsson, 27.2.2008 kl. 14:09
Thanks anyway. Ég vil ekki fleiri græjur, ég vil almennar lausnir! Svona fyrirtæki voru keypt og seld áður en bólan sprakk.
Ef ég gæti sent mitt dagatal til tuttugu manns án þess að velta fyrir mér hvort þeir nota google calendar, outlook eða doodle.ch, þá værum við á réttri leið.
Iðnaðarráðherra tilkynnir að allir íslendingar eigi að nota iCalendar (RFC2445) staðalinn, hvernig væri það? Allar ríkisstofnanir, þám. synfonían ættu að birta dagatöl fyrir synfoníu tónleika á heimasíðum sínum skv. honum...
Kári Harðarson, 27.2.2008 kl. 16:38
Ég held að flest forrit styðji einmitt iCalendar formöt, meira að segja hið alræmda Lotus Notes sendir sín fundarboð í því formati þannig að þetta er ekkert óraunhæf krafa :)
Jóhannes Reykdal, 27.2.2008 kl. 16:51
En hvenær öðlast Skynet meðvitund?
Elías Halldór Ágústsson, 27.2.2008 kl. 16:55
Þú ert ekki sá eini sem átt þér þennan draum. Vendor locki-in er sannarlega óþolandi. Margir hlutir mættu vera mun staðlaðri. Get þó ekki sagt að ég myndi treysta pólítíkusum fyrir að ákvarða jafn tæknilega hluti og hvaða staðla sé best að nota miðað við stöðuna eins og hún er í dag.
Það er þó eitt sem er ákveðið vandamál við marga staðla er hægari upptaka nýjunga ef staðlauppfærslur eru ekki nægilega hraðar. Annað og hugsanlega verra vandamál, er að þó séu til mjög skýrir staðlar sem menn ætla sér að fara eftir, virðist það takast mjög misjafnlega, eins og raun ber vitni með vefsíður og vafra.
Einungis einn vafri nær td Acid2 Vefstaðlaprófinu með prýði (opera), en rest, þar með talinn firefox, safari og internet explorer hafa ekki staðist það hingað til, en oftast færst nær með hverri útgáfu.
Word og excel sniðin voru eins og þú sagðir aldrei hönnuð sem staðlar og miðað við yfir 10 ára viðbætur og 1000 ár af vinnustundum án staðla og smávitbóta í hverri útgáfu endaði með þessum ósköpum sem þessi snið eru í dag.
Meir aðsegja Microsoft eru búnir að fá nóg og gerðu nýtt XML-based snið, sem reyndar er af mörgum ástæðum umdeilt, en að mínu mati skref í rétta átt.
Word 2007 er það fyrsta sem getur skrifað út PDF skjöl beint, og er ég alveg sammála að þetta hefði mátt gerast löngu fyrr, og reyndar finnst mér að hver sem er ætti að mega skrifa og lesa pdf án endurgjalds, en markaðurinn því miður ekki þróast þannig.
Mér þætti sanngjarnt að öll forrit sem eru kominn með ákveðinn notendafjölda, sem opna og vista einhverskonar skrár þurfi a.m.k að bjóða uppá import/export úr og í opinn staðal.
Eins og þú hefur áður komið að, þá hefur margur kóði langan líftíma. Skráarsnið og gögn hafa og þurfa oft mun lengri líftíma en forritin sjálf. Því er mikilvægt að gerðir séu öflugir staðlar sem taka sem mest tillit til framtíðarinnar.
Það er skilda fyrir ríkistofnanir að varðveita skjöl sín og þjóðskjalasafn sér um að nú um geymslu til lengri tíma. Einnig þurfa þeir að halda gögnunum læsilegum langt fram í tímann, hvort sem það er með að setja þau í opnari formöt eða gegnum emulation.
Svo er önnur lausnin bara að öll tölvufyrirtæki verði lögð niður og annaðhvort apple eða microsoft eignist heiminn, og engin þarf meir að spá í stöðlum :)
Ævar Örn Kvaran (IP-tala skráð) 27.2.2008 kl. 19:03
Það er ekkert mál að lesa og skrifa PDF án endurgjalds. Það hefur verið ekkert mál í Unix og Linux í amk áratug, ef ekki tvo.
Elías Halldór Ágústsson, 27.2.2008 kl. 19:12
Góður pistill.
Joel Spolsky skrifaði fróðlega grein um skrársnið Microsoft forrita um daginn.
Why are the Microsoft Offile file formast so complicated? (And some workarounds)
Matthías Ásgeirsson, 27.2.2008 kl. 19:52
Einmitt Elías, svo hvers vegna er ekki hægt að segja "File Save As/Type PDF" í Microsoft Word? Ekki er það vegna skorts á eftirspurn..
Mér finnst svo þægilegt að hafa þetta í OpenOffice.
Kári Harðarson, 28.2.2008 kl. 10:35
Það má alls ekki staðla hluti of snemma, en það má heldur ekki bíða of lengi.
Edison fann upp ljósaperuna, og hann rak líka rafmagnsveitu en samt var bæði rafspennan og peruskrúfgangurinn staðlaður á endanum.
Ég get ekki sagt að sl. tíu ár í tölvubransanum hafi verið tími mikilla framfara þegar ritvinnsla og reikniarkir eru annars vegar. Fer þá ekki að koma tími á opna staðla í þeim geira innan tölvubransans?
Kári Harðarson, 28.2.2008 kl. 14:57
Reyndar þá er hægt að gera save as pdf í word 2007, en microsoft hefur reynt mikið að staðla sitt nýja OOXML, og beitt brögðum og mútum til að fá þjóðir til að styðja það. Nú er reyndar kominn veruleg andstæða við þennan staðal af ýmsum ástæðum, m.a. að það eru til nú þegar opnir staðlar sem microsoft gæti mögulega nýtt, án þess að tapa of mörgum fítusum.
Ævar Örn Kvaran (IP-tala skráð) 29.2.2008 kl. 16:24
Varstu ekki búinn að sjá nýja OOXML staðalinn frá MS ?
http://blog.janik.cz/images/OOXMLSpec.png
Dugar sem kvöldsaga í nokkrar vikur - og kennir manni að magn eru ekki gæði
Sveinn í Felli (IP-tala skráð) 6.3.2008 kl. 07:49
Ég hélt þetta væri brandari en þetta er víst útprentunin á staðlinum í alvöru.
Bloggið sem vísar í myndina er hér
Kári Harðarson, 6.3.2008 kl. 10:57
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.