Glöggt er gests augað

Háskólinn í Reykjavík er núna að ráða erlenda fræðimenn sem koma til landsins í stuttar heimsóknir til að kynna sér skólann, land og þjóð. Þeir eiga stutt viðtöl við okkur sem vinnum í skólanum eftir fyrirfram skipulagðri stundaskrá.

Breskur prófessor sem kom í síðustu viku sagði við kollega minn að sér hefði brugðið að sjá Reykjavík, því hún væri í einu og öllu eins og amerísk borg, full af bílum og engar gönguleiðir sjáanlegar, eða neitt sem gleður augað. Hann var Evrópubúi í húð og hár, vissi ekkert um Ísland og skildi ekki að hann væri kominn til miðvesturríkja Bandaríkjanna.

Hann lét í það skína að þetta væri ekki að selja honum þá hugmynd að flytja til Íslands frá þeim stað þar sem hann rannsakar og kennir núna enda sagðist hann hjóla og ganga mikið.

Við kepptumst um að segja honum að tilgangurinn með því að búa í Reykjavík væri að keyra út úr borginni við öll tækifæri og sjá fallega landið fyrir utan.

Hann sá sennilega Reykjavík eins og ég sé mannabyggðir á Grænlandi, berangur og lágt menningarstig. Byggðin eins og sundurlaust hrúður á yfirborði landsins.

Með fullri virðingu fyrir öllum útlendingunum sem eru þegar komnir hér í nýlenduna þá var þarna útlendingur sem ég vildi virkilega fá hingað. Ég vona að hann láti ekki Reykjavíkurborg hindra sig í að íhuga flutning en ég er óneitanlega mjög sammála honum og yrði ekki hissa ef hann ákveður að halda sig heima.

Það eru lítil lífsgæði að búa á svæði sem líkist orðið ofvöxnum olíuborpalli í miðju N.Atlantshafi, fullum af tjöru og vélagný. Svo bætir ekki úr skák að fyrir þessi vafasömu lífsgæði þarf að greiða okurverð.

Þeir íslendingar sem fara til náms vilja komast heim í faðm stórfjölskyldunnar. Sumir útlendingar giftast eða kvænast íslendingi sem vill endilega draga hann/hana "heim".

Hvað með þá sem ekki tengjast Íslandi blóðböndum? Hvað höfum við að bjóða fólki sem er í fremstu röð og getur búið þar sem það vill, því atvinnuveitendur pakka með glöðu geði búslóðinni og borga flutninga milli landa?

Göngur á fjöll er að stunda á mjög mörgum stöðum, til dæmis Skotlandi, Spáni, Þýzkalandi og Sviss. Heit böð eru til í Evrópu. Lambakjöt fæst í öðrum löndum. Hvað gerir okkur sérstök?  Hvað getur maður sem hefur heiminn í höndum sér hvergi fengið annars staðar? Ég myndi ekki koma, svo mikið er víst.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Eitt af því sem ég sakna frá Íslandi eru sundlaugarnar.  Það er kannski ekki nóg til að heilla prófessorinn, en þær eru allavega sérstakar og alls ekki sjálfsagðar.

Jóhann Ólafsson (IP-tala skráð) 17.3.2008 kl. 12:31

2 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Ég held að þau lífsgæði sem ég sakna mest frá Íslandi sé heita vatnið (sem tengist óneitanlega sundlaugunum sem minnst er í athugasemdinni hér að ofan).  Það er óneitanlega lúxus að hafa ótakmarkað heitt vatn í krananum.

Kalda vatnið er líka lífsgæði sem ég hugsa gjarna til þegar ég ber vatn í flöskum, rétt eins og múlasni, hem að Bjórá.

Vissulega er náttúrfegurð á Íslandi, en hana hef ég í ómældum mæli hér í Kanada sömuleiðis, þó að öðruvísi sé.  Hér er lítið sem ekkert lengra í ósnortna náttúru þó að ég búi í stórborg.

Ég sé ekki að þetta dugi til að fá fræðimenn til Íslands, en vissulega er öllum, fræðimönnum sem öðrum, hollt  að skipta um umhverfi og takast á við nýtt umhverfi.  Það skerpir hugsunina.

G. Tómas Gunnarsson, 17.3.2008 kl. 14:56

3 identicon

Tækifæri til að lokast stöku sinnum frá umheiminum þegar fólk í öðrum löndum hefur vorverkin sín?

Ævar Örn Kvaran (IP-tala skráð) 17.3.2008 kl. 17:12

4 identicon

Snarbrjáluð óveður og harðfiskur eru það eina sem ég sakna.  Samt ekki oft

Baldur McQueen (IP-tala skráð) 17.3.2008 kl. 22:01

5 identicon

Þessi umræddi breski prófessor tók ekki bara eftir bílaflota borgarinnar sem þeysist um göturnar og leggur svo uppi á gangstéttum úti um allan bæ enda bílastæðin sem fyrir eru oft allt of lítil fyrir þessa ofvöxnu fáka. Hann hafði ekki síður orð á flugvellinumsem fær að vera óhindraður í miðri Reykjavík með öllu  því ónæði sem honum fylgir, fyrir utan augljóst bruðl með dýrmætt og mikilvægt miðborgarland.  Satt að segja hafa allir erlendir gestir okkar við HR haft orð á þessu furðufyrirbæri sem flugvöllurinn í Vatnsmýrinni er.

Anna Ingólfsdóttir (IP-tala skráð) 18.3.2008 kl. 09:51

6 Smámynd: Hildigunnur Rúnarsdóttir

Anna, ha? nú? Eru ekki flugvellir í 5 mínútna fjarlægð frá miðbæjum og stjórnsýslu út um allan heim? Hvernig fer fólk "utan af landi" eiginlega að í útlöndum?

Hildigunnur Rúnarsdóttir, 18.3.2008 kl. 13:32

7 Smámynd: Morten Lange

Ef starfsmenn HR sjá að þessir gestir hafa eitthvað til sín máls, þá væri ekki úr vegi að HR geri sjálft svolítið til að bæta ástandinu hjá sér ?

Þarf ekki að taka þetta alvarlega kannski tengja ábyrgð á þessu sviði við tiltekna stöðu í stjórn HR ?

Ég beini þessu ekki fyrst og fremst til Þín, Kári, heldur til stjórnanda skólans. En kannski þarf að ýta við þeim....

Nokkrar tillögur um  úrbætur  :

Kennsla :

- Öll fagsvið athuguð og gáð hvort  ný viðhorf þurfi að koma inn í kennslu og rannsóknir / þróun

- Endurmenntun í þessum fræðum fyrir kennarar við Kennslu- og Lýðheilsudeild. Amk nokkrir fara á stóra hjólaráðstefnuna Velo-City  2009 í Brüssel eftir rúmu ári. Fullt aföðrum möguleikum í boði.

- Þessi deild komi til samstarfs  við Landssamtök hjólreiðamanna um að byggja upp kennsla í því að hjóla af öryggi í umferðinni. ( Leitarorð t.d. assertive, vehicular cycling, bikeability, hjólafærni ) 

- Efla umræðu um gildi okkar og tengja við hluti eins og lýðheilsu, landnotkun, auglýsingaflóð um bíla og mengun 

Umhverfið við HR : 

- Athuga hvort ekki megi gera eitthvað svipað og VGK Hönnun sem er komið með samgöngustefnu.  Þar hafa menn séð að það sé vitlaus skilaboð og óréttlæti að gefa þeim  sem mæta á bíl nota bílastæðin án endurgjalds, sem getur verið 20.000 króna virði á mánuði, meðan þeir sem ekki nota bílastæði ekki fá neitt fyrir sín snúð.  Mjög viða erlendis er núna krafist þess að stór fyrirtæki móta sér samgöngustefnu í samræmi við markmið um heilbrigðar og umhverfisvænna samgöngur.

- Athuga hvort ekki mega hætta með ökutækjastyrki ( sem snúa að ferðum á vegum skólans ), heldur  setja á fót samgöngustyrk, eins og Reykjavíkurborg er að feta sér áfram með, og tiðkast þegar t.d í norskum sveitarfélögum.

- Grafa niður amk 2/3 af bílastæðunum við nýja HR, og planta tré og runna, hafa garðskála, hjólreiðabrautir og göngustígar og þess háttar í staðinn.

Just my two eurocents.... 

Morten Lange, 18.3.2008 kl. 17:20

8 Smámynd: Hildigunnur Rúnarsdóttir

í Listaháskólanum, plönuðum við Laugaveg er viljandi ekki gert ráð fyrir einu einasta bílastæði. Kudos...

Hildigunnur Rúnarsdóttir, 20.3.2008 kl. 00:27

9 identicon

Ég er alveg hjartanlega sammála Morten í því að bæði HR og HÍ þurfa að gera eitthvað til að minnka bílaflota nemenda (og kennara). Á Íslandi eru allir nemendur uppteknir af því að vinna fyrir bílnum sem þeir þurfa jú nauðsynlega að hafa til að komast í vinnuna til að vinna fyrir bílnum, sem...     Flott hjá Listaháskólanum að bjóða ekki uppá ókeypis bílastæði.

Anna Ingólfsdóttir (IP-tala skráð) 23.3.2008 kl. 18:34

10 Smámynd: Morten Lange

Bloggaði smá um KRIMI gatnamót, sem að mér finnst tengist þessu :

Í dag spyr Vísir hvort menn vilja mislægt gatnamót þarna. 

http://mortenl.blog.is/blog/mortenl/entry/484257/

Morten Lange, 25.3.2008 kl. 11:39

11 identicon

Þetta gæti líka verið litað af því að manngreyið kom að hitta ykkur á ömurlegasta stað borgarinnar. Fátt eins dapurlegt og Kringluhverfið.

Svo ætlið þið að færa útivistarperluna í Nauthólsvík á sama lága bílaplanið. Fussogsvei.

Tóti (IP-tala skráð) 28.3.2008 kl. 15:37

12 Smámynd: Kári Harðarson

Það er hætt við því, Tóti.  Ég vil bíða með að færa flugvöllinn þangað til fólk kemst í borgarstjórn sem ráðstafar svæðinu ekki í vitleysu.

Kári Harðarson, 28.3.2008 kl. 16:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband