7.4.2008 | 11:09
Sófasett á hjólum
Reiðhjól voru úr stáli. Núna eru þau úr áli, koltrefjum og jafnvel títan. Hjól sem vógu 8 kíló í gamla daga voru fokdýr og viðkvæm en sú þyngd þykir ekkert merkileg lengur. Vökvadiskabremsur eru að verða algengar og fjórtán gíra viðhaldsfríir öxlar líka.
Reiðhjólapartar ganga á milli hjólastella. Einn hjólaframleiðandi getur notað gíra, stýri og gjarðir frá mörgum sérhæfðum framleiðendum sem framleiða parta fyrir margar hjólategundir. Ég held að það sé skýringin á því hvað þróunin hefur verið mikil í hjólabransanum.
Bílar eru hins vegar alltaf úr stáli. Nýju efnin hafa lítið breytt þeim enda virðist bransinn vera fram úr hófi íhaldsamur. Einn og einn hlutur er úr plasti og áli en bílar hafa aldrei verið hannaðir aftur frá grunni miðað við nýju efnin.
Mér skilst að bílabransinn kunni ekki að fjöldaframleiða úr áli ennþá. Vélmennin sem púnktsjóða stálþynnurnar virka ekki á ál. Það er hægt að lasersjóða álið en verksmiðjurnar hafa ekki fjárfest í tækjunum til þess. Þar að auki er ál fimm sinnum dýrara í innkaupi en stál og því þyrfti bíll sem væri smíðaður úr áli að endast eitthvað. Þegar maður sér áldósahaugana út í Sorpu er erftitt að trúa því að ál sé dýrt, en samt er það svo.
Bílar í dag eru ekki hannaðir til að endast. Þeir eru eins og risastórar einnota umbúðir. Þess vegna má ekki vanda of mikið til neins, bíllinn þarf helst að ganga úr sér jafnt.
Þessi einnota hugsun kemur í veg fyrir að nýjar lausnir séu skoðaðar, held ég, samt er mikið í húfi. Ef bíll sem vegur 1200 kíló væri smíðaður úr áli myndi hann vega 400 kíló enda er ál þriðjungur af þyngd stáls miðað við styrk. Bíllinn myndi fara úr 9 lítra bensíneyðslu í 3 lítra giska ég á, ef kraftur er jafn og massi sinnum hröðun.
Það væri gaman ef bílabransinn væri svolítið eins og tölvu eða hjólabransinn. Maður gæti keypt húsið sér, vélina sér og sófasettið líka. Vélar gætu farið undir húdd á mismunandi húsum og fimm sæta sófasettin gætu gengið á milli líka. Ég væri þá búinn að fjárfesta í álhúsi fyrir nokkrum árum, og væri að kaupa diesel hybrid vél til að skipta út gamla bensínrokknum. Leðursætin í bílnum væru tuttugu ára gömul úr gamla bílnum hans pabba.
Það er ósennilegt að bílabransinn vilji skoða svona lausnir þegar hann getur rukkað 30 þúsund krónur fyrir einn lykil með þráðlausri fjarstýringu í krafti þess að allir varahlutir og þjónusta bjóða upp á einokun gagnvart þeim sem keypti bílinn.
Sennilega þarf bylting í þessum málum að koma frá annari átt. Kannski bílabúð Benna og álversmenn ættu að fara í þróunarverkefni saman?
Meginflokkur: Tölvur og tækni | Aukaflokkur: Hjólreiðar | Breytt s.d. kl. 11:18 | Facebook
Athugasemdir
Skemmtileg pæling, ég er algjörlega sammála þessu. Bílaframleiðendum er meira segja svo mikið í mun að hafa af okkur pening að það er endalaust verið að breyta varahlutunum á milli árgerða þó svo um sömu tegund sé að ræða.
Þóra Guðmundsdóttir, 7.4.2008 kl. 13:24
Reyndar eru menn aðeins að nota ál í bílaiðnaði, t.d. áttir þú síðast þegar ég vissi bíl sem er að nokkru leyti smíðaður í áli, þ.e.a.s. hurðar og bretti eru úr áli og gamli bensínrokkurinn er líka úr áli. Hins vegar hefur álnotkun í þessum bílum farið minnkandi enda eiga róbótar víst (eins og þú nefnir) erfiðara með að höndla það.
Það er meira að segja hægt að fá lykil og fjarstýringu fyrir minna, en þá verður þú að tala við aðra en framleiðandann.
Þorsteinn (IP-tala skráð) 7.4.2008 kl. 14:46
Það eru til bílar sem eru smíðaðir úr áli að hluta eða miklu leiti, eitt dæmi er Audi A8. Síðan eru margir hlutar bíla eins og vélar, gírkassar, felgur og fleira smíðaðir að miklu eða öllu leiti úr áli. Og hvað varðar hluti sem ganga á milli þá eru framleiðendur oft að samnýta hönnun. Dæmi: Mazda 2 er meira og minna sami bíll og Ford Fiesta og báðir nota meðal annars vélar frá PSA (Peugeot/Citroën). Það sést líka sífellt meira af hlutum úr efnum eins og koltrefjum sérstaklega í dýrari bílum.
En ástæðan fyrir að stál er svona mikið notað er að það er einfalt í meðhöndlum og sterkt. Bílar úr öðrum efnum eru einfaldlega flóknari og erfiðari í framleiðslu og þar með dýrari.
Einar Steinsson, 8.4.2008 kl. 00:25
Bifreiðar með ál yfirbyggingu hafa verið á götum landsins í áratugi, til dæmis Land Rover og Range Rover. Þeir bílar eru ekki léttari en aðrir bílar af sömu stærð. Ástæðan fyrir því ætti að vera augljós, sem sagt aksturs eiginleikar og síðan en ekki síst smekkur bílakaupenda. Samt heldur stóriðjufólkið alltaf áfram þessum áróðri að fleiri álver minnki mengun með því að vélknúin farartæki verði léttari og sýna það með útreikningum. Þessu var haldið fram þegar verið var að byggja álverið í Hvalfirði en síðan þá hefur meðal þyngd bíla aukist en samt er því alltaf haldið fram að bílarnir léttist við næsta álver (sprenghlægilegt) Hvar eru þessir léttu álbílar? Ég bara spyr. Gæti einhver hugsað sér að aka 400 kílóa bíl undir Hafnarfjalli í hvassviðri?
Húnbogi Valsson (IP-tala skráð) 8.4.2008 kl. 07:52
Ég held að Audi A8 sé einn af fáum álbílum, en hann er mjög dýr lúxusbíll. Að hluta til er hann dýr af því hann er ekki fjöldaframleiddur, verksmiðjurnar ráða ekki við fjöldaframleiðslu á honum. Það var einmitt það sem ég sagði, verksmiðjurnar kunna ekki ennþá að fjöldaframleiða álbíla.
Einn og einn panell er úr áli en grindin í bílnum er úr stáli sem og öxlar og burðarbitar. Það þarf að endurhugsa bílahönnun alveg frá grunni ef þessir partar eiga að verða úr áli, sem ég benti líka á. Það er hægt að hanna sterka hluti úr áli, það sýna reiðhjól, þotur og geimför.
Ég vildi heldur borga minna bensín og bíða í nokkrar klst. með að keyra fyrir Hafnarfjall þá sjaldan það verður vandamál -- ég skil ekki þau rök að bílar verði að vera níðþungir.
Smekkur neytenda er svo breytilegur. Það hafði enginn "smekk" fyrir iPhone áður en hann var markaðssettur -- ef Apple hefði alltaf selt það sem fólk vill væru þeir líklega að selja kúluritvélar.
Hér eru glærur sem fjalla um framleiðslu á bílum og vinnslu á áli:
http://msl1.mit.edu/hoog3.pdf
Kári Harðarson, 8.4.2008 kl. 10:18
Sæll Kári,
Athugaðu að bensínnotkun kemur fyrst og fremst til vegna loftmótstöðu og núnings í drifbúnaði, jafnframt er nýtni vinnuhringsins (Otto eða Dísel) varla meiri en 40%. Þannig að ekki svo ýkja stór hluti orkunnar fer í hröðun!
Ál myndi hjálpa en það er hins vegar orkufrekt í framleiðslu eins og við þekkjum! Minni bílar hjálpa enn meira. Er ekki skynsamlegra að skipta úr olíubrennslu í rafmagnsbíla, sér í lagi innanbæjar?
Ármann (IP-tala skráð) 8.4.2008 kl. 23:39
Audi gerðu smábíl, A2, úr áli:
http://en.wikipedia.org/wiki/Audi_A2
Frekar nice græja fannst mér alltaf. Þeir gáfust upp á því að selja hann, því miður.
Kristleifur (IP-tala skráð) 16.4.2008 kl. 10:01
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.