11.4.2008 | 09:24
Tölvuvæðing sem mætti klára
Símaskráin var mikið þarfaþing á árum áður og náði að trosna á hornunum áður en sú næsta var gefin út. Ef menn báðu fallega og borguðu fyrir fengu menn "götuskrána" en það var símaskrá sem var raðað eftir heimilisföngum. Hún var aðeins í eigu útvaldra af því forráðamenn álitu að hana væri hægt að misnota til að ónáða fólk. Núna er hægt að fletta upp á heilu íbúðargötunum þökk sé "http://www.ja.is" en ég veit ekki til þess að nein klögumál hafi komið upp út af þeirri breytingu.
Bifreiðaskráin
Fyrst að óttinn reyndist ástæðulaus vil ég leggja til að bifreiðaskráin verði líka gefin frjáls. Í dag hafa aðeins bílaumboð og fleiri útvaldir aðgang að henni. Hægt er að sækja um áskrift en hún kostar formúu. Samt er hún í almannaeign. Rökin fyrir að hún er lokuð eru sennilega þau sömu og vegna götuskrárinnar fyrir tuttugu árum.
Ef bílaskráin yrði opnuð gæti ég hringt í manninn sem leggur ólöglega upp á gangstétt eða lokar innkeyrslunni hjá mér, eða er ljóslaus í umferðinni, eða skellti hurðinni á frakkann sinn og keyrir með lafið í drullunni.
Síminn
Þegar einhver hringir í mig í gemsa ætti nafn og heimili viðkomandi að birtast, ekki bara númerið. Síminn er með símaskrána svo af hverju sendir hann mér ekki upplýsingar um þann sem hringir?
Heimilissíminn er orðinn svo úreltur að ég veit ekki af hverju hann fær að vera í sambandi heima. Hann er að vísu með númerabirtingu, en hann sýnir ekki nöfn þeirra sem hringja og viðmótið í honum er algerlega úrelt. Ég spái heimilissímanum ekki langra lífdaga úr þessu.
Póstaðgangur
Eitt gæti bjargað heimilissímanum og það væri ef hægt væri að fá einhverskonar heimasíma sem gæti lesið og skrifað tölvupóst. Mamma mín er orðin of gömul til að reka einkatölvu enda er hún strandaglópur á upplýsingahraðbrautinni. Hefur þú reynt að senda áttræðri manneskju tölvupóst nýlega? Ætti bærinn eða ríkið kannski að gera eitthvað fyrir þetta fólk?
Ég þarf stundum að senda fólki pappírspóst í umslagi en þá þarf ég sjálfur að prenta hann, stinga honum í umslag og fara á næsta pósthús en þau eru orðin ótrúlega fá í Reykjavík. Hvers vegna get ég ekki sent tölvupóst til póstsins og beðið hann að prenta póstinn fyrir mig og senda hann til viðtakanda?
Á sama hátt gæti pósturinn opnað pósthólf fyrir gamalt fólk þar sem tölvupóstur til þess væri prentaður og borinn í hús til þeirra. Vitaskuld yrði póstsían að vera öflug til að ruslpóstur yrði ekki borin þannig út. Hann gæti líka leigt út þessa póstlestrarsíma sem ég skrifaði um áðan.
Sjálfsalar
Ég trúi varla að sjálfsalar taki ekkert annað en klink enn þann dag í dag. Ef ég vil kaupa samloku í skólanum þarf ég að nota debetkort til að taka út seðla í hraðbankanum sem ég fer svo með í sjálfsala sem gefur mér klink sem ég sting svo í samlokusjálfsalann. Ef ein þessara véla virkar ekki fæ ég enga samloku.
Kassanótur
Atlantsolía sendir mér tölvupóst með kvittun í hvert skipti sem ég kaupi hjá þeim bensín. Það er svo miklu þægilegra en þessi stömu kassastrimlar sem dofna eftir nokkra mánuði og ómögulegt er að setja í skipulegt bókhald. Ég vil að fleiri api þessa nýbreytni eftir Atlantsolíu. Ég myndi vilja fá kassanótuna frá Krónunni, Bónus, Melabúð o.s.frv. til að geta fylgst með vöruverði.
Verðskrár
Enn þann dag í dag tíðkast að íslensk fyrirtæki kaupa heilsíðu auglýsingar til að kynna vörur en birta engin verð. Ég þykist vita að það sé vegna prúttmenningarinnar sem hér ríkir. Góðu kúnnarnir fá góðu verðin og þeir vita hverjir þeir eru. Þetta ætti að vera ólöglegt, og ennfremur ætti að vera hægt að nálgast verð á heimasíðum fyrirtækja svo neytendur geti gert verðsamanburð áður en þeir fara í bæinn til að versla. Hvað kostar iPod? Hvar er hann ódýrastur? Það ætti ekki að þurfa viku vinnu hjá neytendasamtökunum til að komast að því.
---
Það er rannsóknarefni útaf fyrir sig hvers vegna tölvubyltingin virðist vera búin í bili. Ég bíð eftir því að sjálft lýðræðið verði gert skilvirkara með aðstoð netsins. Miðað við litlu málin sem eru óleyst er ég ekki vongóður um stóru málin.
Meginflokkur: Neytendamál | Aukaflokkur: Tölvur og tækni | Breytt s.d. kl. 09:31 | Facebook
Athugasemdir
Ég held nú að heima síminn verði við lýði fyrst um sinn.
Ef eitthað er mætti fólk fara nota hann meira til að hringja í aðra heimasíma og jafnvel minnka það að hringja í gsm síma. Alla vega á fólk ef það kemst hjá því að hringja úr heimasíma í gsm síma. Það sem ég er að fara með þessu er að við eigum að neyða símafélögin til að lækka gjaldskrár sínar fyrir gsm síma. Hvernig gerum við það? jú nota ódýrasta kostinn það er nota heimasíma til að hringja í heimasíma og fyrirtæki, gsm til að hringja í gsm og þar fram eftir götununum.
Vegna þess að gjaldskrár símafyrirtækjanna eru svífirðilega háar og eiginlega bara af því að fólk pælir ekkert í kostnaðinum heldur bara notar símana sína og pælir ekkert í hvað þetta kostar.
Virðingarfyllst
Steinþór
Steinþór Ásgeirsson, 11.4.2008 kl. 09:42
Sammála. Það er ekkert nema undarlega há verðskrá á GSM símtölum sem heldur heimilissímanum frá því að láta lífið.
Í Danmörku kostar mínúta í GSM núna 5 kr. Hér kostar hún 16 kr. Ekki er það vegna hás innkaupsverðs á fóðri eða hvað?
http://www.telepristjek.dk/nyheder/telmore-har-saenket-opkaldsafgiften.aspx
Kári Harðarson, 11.4.2008 kl. 10:03
Ég er hjá Nova. Ætli verðið fyrir mig sé ekki svipað og hjá hinum þegar uppi er staðið. Það sem mér líkar hjá Nova (og SKO) er eitt fast mínútuverð fyrir öll símtöl. Því veit ég alltaf þegar ég hringi að hver mínúta kostar 15 krónur.
Hjá Símanum og Vodafone er óendanlega flókin verðskrá og skiptir öllu máli hjá hvaða símafyrirtæki "hinn" er þegar maður hringir. Málið er bara að það er ekki möguleiki fyrir fólk að fylgjast með og vita hver er hjá hvaða fyrirtæki. Það er mjög óeðlilegt að sé maður hjá Símanum og ætli að hringja í X þá getur símtalið kostað 11 krónur sé hann hjá Símanum, 22 krónur sé hann hjá Vodafone og 28 krónur sé hann hjá Nova.
Hugmyndin með að senda tölvupóst á Póstinn sem prentar hann út og sendir bréfleiðis hljómar mjög vel. Ef það væri einhver metnaður fyrir þjónustu hjá Póstinum yrði þetta einhverntíman að veruleika. Ég sé það hins vegar ekki gerast. Því miður.
Andri Valur (IP-tala skráð) 11.4.2008 kl. 12:32
Þakka hlý orð í garð Já.is - þar er þróuninni samt engan veginn lokið og von á góðum framförum í ár.
Ég hef stundum gantast með það í fyrirlestrum að þó mbl.is og visir.is hafi ef til vill fleiri notendur þá sé Já.is engu að síður sá vefur sem hafi mest þjóðhagslegt gildi. Þrátt fyrir gamansemina er ég samt tilbúinn að standa við það með góðum rökum. Það er nánast einstakt í heiminum að til sé ein síma- og þjónustuskrá sem nær yfir nánast heila þjóð.
Hvað aðra gagnagrunna varðar, gæti ég ekki verið meira sammála þér. Ég hef reyndar á síðustu vikum verið að kalla eftir því að hið opinbera marki sér stefnu varðandi aðgengi að gögnum í eigu og umsjá opinberra aðila. Endilega fá sem flesta með á þá sveif...
Hjálmar Gíslason (IP-tala skráð) 11.4.2008 kl. 12:51
Það er nú hægt að hringja og fá upplýsingar úr bifreiðaskránni ef einhver leggur bílnum sínum þannig að hann sé til vandræða - Umferðarstofa gefur manni nafn og heimilisfang eigandans.
Annars voru ein rökin fyrir því að hafa þetta ekki opið að þá gætu óprúttnir aðilar séð hverjir væru erlendis með því að skoða bílastæðin við Leifsstöð og brotist síðan inn hjá viðkomandi.
Púkinn, 11.4.2008 kl. 15:00
Ég gef lítið fyrir þau rök. Manstu þegar upphringimótöld voru bönnuð því hugsanlega mætti stunda símaat með þeim?
Ef bara sérstakir útvaldir aðilar hafa aðgang að skránni, þá er það "big brother" samfélag. Því skyldum við ekki öll fá að fletta í þessari skrá? Af hverju bara starfsmenn á bílasölum?
Kári Harðarson, 11.4.2008 kl. 15:22
Hjálmar, hvers vegna var hætt að hafa nei.is sem lén? var tóm snilld að ja.is og nei.is væru hvor tveggja til.
Minn heimasími sýnir annars svipað og gsm þegar hringt er, númer og nafn, er líka með símaskrá. (Bang & Olufsen Beocom, vildi alls ekki vera án hans), líka frítt í öll fastlínunúmer í Og1. Tóm snilld þegar maður á ungling sem getur talað leeeeengi í símann, að hún megi hringja í vinkonurnar úr heimasímanum í þeirra heimasíma. Líka ennþá ekki komin nægilega góð niðurstaða úr rannsóknum um hvort gsm símar skaði við mikla notkun.
Undir annað í færslunni tek ég heils hugar.
Hildigunnur Rúnarsdóttir, 11.4.2008 kl. 15:53
annars er alveg í helmingi tilfella sem ég fletti upp GSM númeri á ja.is, að engar niðurstöður finnast. mér finnst svo sem allt í lagi að fólk geti haft leininúmer, þannig að ekki sé hægt að finna númer útfrá nafni eða heimilisfangi. hinsvegar ætti alltaf að vera hægt að fá upp eiganda númers sem leitað er eftir. sjái ég 'missed call' á símanum mínum og kannast ekki við númerið, hringi ég ekki til baka nema vita hver viðkomandi er.
Brjánn Guðjónsson, 11.4.2008 kl. 16:01
Rétt til að svara spurningum sem til mín er beint að ofan:
Hildigunnur: Akkúrat eins og er beinir nei.is umferðinni yfir á ja.is. Okkur þótti ákveðinn húmor í því að eiga bæði lénin og hver veit nema við gerum eitthvað snjallt við það í framtíðinni.
Brjánn: Varðandi farsímanúmer sem ekki eru skráð hjá okkur, þá er það algerlega undir hverjum rétthafa komið hvort hann skráir númerið sitt til birtingar hjá okkur eða ekki. Endilega hvetja sem flesta til að skrá númerið sitt ef þeir eru ekki skráðir - í flestum tilfellum eru þetta mistök eða yfirsjón hjá viðkomandi og skráning á nafni og númeri er ókeypis.
Hjálmar Gíslason (IP-tala skráð) 11.4.2008 kl. 16:27
Hjálmar, ég veit (nota alltaf nei.is frekar en ja.is). Fyrst gat maður bara flett öllu upp þar án þess að það breyttist í já, það var það sem mér fannst fyndið...
Hildigunnur Rúnarsdóttir, 11.4.2008 kl. 19:15
Sæll frændi, við hjá iPnet-HeimsFrelsi erum með nýtt símkerfi í þróun sem er að fara á markað, en þar verður heimasíminn í þeirri mynd sem hann er í dag óþarfur. Við erum að prufukeyra ýmsa WIFI síma og síma sem eru bæði WIFI og GSM, t.d erum við að keyra IPHONE með bæði GSM viðmót og VOIP WIFI tengingu sem er með heimasímánúmer, þannig að þegar þú ert tengdur þráðlausu neti er heimasíminn virkur og þegar þú ferðast milli staða er GSM virkur, en þegar þú ert í þráðlaus neti eru reyndar bæði GSM og WIFI virkir.
Það skemmtilega við þetta kerfi er að það er sama hvar þú ert í heiminum þá ert þú alltaf með heimasímann virkann á innanlandsgjaldi, svo lengi sem þú kemst í net, en það er að verða lítið mál í dag. Einnig er hægt að vera með heimasímanúmer frá flestum þróuðum löndum heimsins, t.d ef það gagnast þér getur þú haft breskt eða danskt heimasímanúmer og látið þá sem þar búa hringja í þig t.d. hér heima á þeirra innanlandstaxta osvfrv.
Ef þú vilt vita meira þá kíktu bara í heimsókn og heilsaðu upp á frændur þína Óla og Bjarna Sifjarsyni sem starfa saman við þetta með IPNET-HeimsFrelsi, alltaf heitt á könnunni.
Kveðja,
Ólafur í Hvarfi Ragnarsson (IP-tala skráð) 11.4.2008 kl. 23:51
Sæll sá að þú skrifaðir svolítið um Rennes í fyrra. Býrðu þar eða bjóstu?
Nanna Katrín Kristjánsdóttir, 13.4.2008 kl. 15:00
Einar Solheim (IP-tala skráð) 14.4.2008 kl. 11:18
Nanna, ég bjó þar sept-des 2007 og ætla aftur í haust. Síminn hjá mér er 862 9108 ef þú vilt ræða Rennes ferðir eitthvað.
Kári Harðarson, 14.4.2008 kl. 11:24
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.