4.5.2008 | 22:15
Don't ask, don't tell.
Spök kona sagði í ræðu sem ég heyrði í vikunni að jafnvel neikvæð afskipti af unglingi væru betri en engin. Þeir sem fá alls engin afskipti veslast upp.
Í framhaldi datt mér í hug : Man lesandinn til þess að hafa lesið um afstöðu borgarstjóra, eða borgarstjórans á undan, eða þar á undan, til hjólreiða og hjólreiðafólks? Ég giska á að svarið sé nei. Þessi málaflokkur er algerlega afskiptur. Borgarstjórarnir gætu ekki sent reikning upp á eina krónu fyrir vinnu í þágu hjólreiðamála.
Að vísu eru gangstéttar og útivistarstígar lagðir, en það eru aðskild verkefni, ekki hluti af stærri stefnu.
Engar greinar eru skrifaðar af öðrum en hjólafólki. Engin lög hafa verið sett um hjólreiðar síðan á sjöunda áratugnum þegar ákveðið var að reiðhjól skyldu hafa keðjuhlíf. Flestir hjólreiðamenn eru því lögbrjótar strax og þeir hjóla af stað enda hafa keðjuhlífar lítið verið notaðar síðan tíugírahjólið kom á markað á áttunda áratugnum.
Hjólafólkið í Reykjavík er að því leyti eins og hommarnir í bandaríska hernum að um þá gilda engar reglur, bara óskrifuð lög: "Don't ask, don't tell". Við tölum ekki um slíkt. Hjólið bara og við horfum í hina áttina.
Fæstir vita að samkvæmt lögum á að hjóla á götunni. Einhvern tímann var gerð undanþága um að menn mættu hjóla á gangstéttum, nokkuð sem átti aldrei að leyfa. Hugsunin var sennilega sú að týpískt hjólreiðafólk væri sex ára gamalt og þyrfti að verða samferða mömmu og pabba eftir stéttinni. Það er ekki minn raunveruleiki í dag. Ég er á fimmtugsaldri og hjóla á 25 km hraða til og frá vinnu. Það er fimm sinnum hraðar en gangandi vegfarandi enda er þeim meinilla við það þegar ég skýst fram úr þeim, lái þeim hver sem vill.
Margir halda að það eigi að hjóla á gangstétt. Fyrir vikið er flautað á hjólamenn sem fylgja lögum og fara á götuna. Einhvers staðar á ég sekt fyrir að hafa hjólað á gangstétt þegar ég var táningur í Reykjavík.
Það er engin leið að hjóla löglega í Reykjavík. Þú verður að brjóta reglur. Samkvæmt lögum er bannað að hjóla yfir gangbrautir en þær eru samt ómissandi hluti af gangstéttum.
Stundum vantar gangstéttir, stundum enda þær snögglega. Stundum byrjar hjólaslóði og endar aftur 50 metrum síðar. Stundum er hann merktur hjólum hægra megin og gangandi vinstra megin þannig að maður þarf að taka fram úr gangandi fólki hægra megin þótt venjan sé að taka eigi fram úr vinstra megin.
Biðskyldur bíla eru oft vitlausu megin við gangbrautir svo bílarnir nema staðar ofan á gangbrautinni. Þar að auki staðnæmast bílar oft með afturdekkin á stöðvunarskyldu í stað þess að stöðva fyrir framan hana. Ég hef aldrei séð lögreglu skipta sér af, frekar en af þeim sem leggja á gangstétt og loka þar með "hjólastígnum".
Áður en við getum farið að tala um úrbætur þarf að búa til raunverulegt kort af hjólaleiðum í borginni. Reykjavíkurborg gaf út kort með hjólastígum en kortið er skáldskapur, áróður fyrir eitthvað norrænt þing þar sem átti að sanna að hér væri allt í himna lagi. Hefur einhver séð hjólastíg meðfram Hringbraut frá Suðurgötu út að JL húsi? Ekki ég. Samt er hann á þessu korti.
Aðrar þjóðir eiga stefnuskrá um hjólreiðar, um það hvernig hjólastæði eiga að vera, hvernig ganga eigi frá leiðum þegar vegavinna er í gangi, frágangi við gatnamót og svo framvegis. Íslendingar eiga engar reglur.
Tvennt mætti gera strax. Í fyrsta lagi þarf að fylgja lögum og banna bílastæði á gangstéttum.
Í öðru lagi þarf að sjá til þess að bílar loki ekki gangbrautum með því að staðnæmast ofan á þeim. Hjólafólk sem fer meðfram aðalbraut þarf að stoppa á öllum gatnamótum af því bílar stöðva ekki þar sem þeir eiga að stöðva. Það er óþolandi að þurfa að stoppa fyrir öllum sem ætla inná eða út af aðalbraut þegar maður ekur sjálfur meðfram henni - á gangstéttinni. Ég er alltaf í órétti.
Ég er rauða örin á myndinni. Á meðan ég þarf að hjóla á gangstétt meðfram aðalbraut eru bílar no.1 og 2 á myndinni óvinir no.1 og 2 í umferðinni. Ef borgaryfirvöld geta minnkað hættuna af þeim væri strax betra að vera á hjóli.
Flokkur: Hjólreiðar | Facebook
Athugasemdir
Þetta með að hjólaslóðar séu merktir hjólum hægra megin en gangandi vinstra megin gæti nú kannski farið eftir því í hvora áttina er farið. Annars góð og þörf grein.
Sæmundur Bjarnason, 5.5.2008 kl. 01:05
Alltaf áhugaverðir punktar hjá þér og vel skrifaðir.
Með kveðju frá Grænlandi
Baldvin Kristjánsson, 5.5.2008 kl. 09:48
Heyr heyr!
Róbert Badí Baldursson, 5.5.2008 kl. 10:56
Ég hef alltaf verið andvígur þessari aðgreiningu hjólafólks og gangandi umferðar á göngustígunum vegna þess að hún grefur undan reglunni um hægri umferð. Þess fyrir utan virðast gangandi vegfarendur ekkert taka mark á þessum merkingum og verða bara reiðir ef maður stefnir á þá eftir að hafa hringt bjöllunni í svona hálfa mínútu á undan.
Elías Halldór Ágústsson, 5.5.2008 kl. 12:08
Varðandi myndina, ég játa að ég legg oftar en ekki eins og bíll 2 vegna þess að ég neyðist til þess því þú sérð ekki rassgat (afsakið) hvort að umferð sé að koma frá vinstri eða ekki (oft vegna trjágróðurs). Þaraf leiðandi er maður að teygja sig eins langt og maður getur (þ.e. keyra yfir gangbrautina) til þess að athuga hvort öllu sé óhætt.
Ég kýs frekar að ergja einn hjólreiðamann frekar en að stoppa á löglegan hátt við gatnamótin og aka síðan af stað upp á von og óvon og klossbremsa síðan, kominn hálfa leiðina út á akbrautina vegna umferðar sem ég sá ekki.
ökumaður (IP-tala skráð) 5.5.2008 kl. 12:21
Hvers vegna liggur hjólreiðabrautin ekki bara í beina línu? Það væri best fyrir alla hlutaðeigandi.
Elías Halldór Ágústsson, 5.5.2008 kl. 12:30
Á Lönguhlið má sjá mannvirki sem kemst næst því að vera hjólreiðabraut á Íslandi. Við Lönguhlið í suðurátt yfir Miklurbaut er tilraun til þess að gera þetta rétt, með því að mála akrein fyrir hjólandi í götustæði. Og akkúrat það tekst nokkuð vel, þó að akreinin hefði mátt vera greinilegra, og tildæmis máluð með hjólavísum ( "Bike and Chevron", "Sharrow" ).
En viða eru göturnar þannig að betra sé einmitt að hjóla á götu, fyrir vana hjólreiðamenn. Og ef hámarkshraði er lækkaður, bætist almennt umferðröryggi, og þannig fjölgar þeim götum þar sem mönnum finnst fysilegt að hjóla á götu eins og umferðarlögin gera ráð fyrir.
Eftir nokkrar vikur mun verkefni Landssamtaka hjólreiðamanna og Íslenska Fjallahjólaklúbbsins, "Hjólum og verum klár í umferðinni" hefja menntun hjólakennara. Styrkur hefur fengist frá m.a. Menntamálaráðuneyti og Pokasjóði (2007). Fræðin, sem við köllum Hjólafærni á íslensku, leggur einmitt áherlsu á það að hjóla af öryggi á akbrautum (þar sem það hentar). Breskur kennari frá LifeCycleUK kemur og kennir 6 framtíða hjólakennarar eftir Breskum stöðlum.
Morten Lange, 5.5.2008 kl. 13:35
Sammála, ökumaður. Gatnamót eru oft hönnuð þannig að ökumenn neyðast til að stöðva ofan á gangbrautinni.
Erlendis er það oft þannig, að ef maður keyrir yfir stöðvunarskyldu eða biðskyldu sér maður ekki græna ljósið koma, því götuvitinn er einungis við hliðina á stöðvunarskyldunni, ekki líka handan við hana eins og hér.
Hér á landi er yfirleitt auka götuviti svo bílar geta farið eins langt og þeir vilja inn á gatnamótin, þeir sjá samt græna ljósið koma.
Ég myndi sleppa þessum auka götuvita sem býður einmitt upp á þennan ósið ökumanna, kostar aukalega og er óþarfur.
Kári Harðarson, 5.5.2008 kl. 13:56
Annað hvort hjólum við með bílunum á götunni eða á sérstökum hjólastígum. Hjólreiðar á gangstéttum ætti að banna aftur.
Hjólastígur þarf ekki að vera sérstakt mannvirki, hann getur verið sérstök rein á götu sem er þegar til staðar.
Ef þetta fæst ekki samþykkt, þarf löggjafinn að útskýra hver réttur og skyldur hjólreiðamanna er í þessu einskismannslandi gangstétta, stíga og götukanta svo maður viti á hverju maður á von þegar slys ber að höndum.
Kári Harðarson, 5.5.2008 kl. 14:03
Ósammála, ökumaður, að því leyti að þú átt fyrst að stoppa á réttum stað til að sjá hvort gangandi eða hjólandi eru að koma. Svo mjakarðu þér yfir gangbrautina til að sjá hvort bílarnir eru að koma. Allt of margir fara strax út á vegbrúnina og í veg fyrir hjólandi og gangandi. Það er að keyra yfir stöðvunarskyldu og sektin var amk. 50 þúsund síðast þegar ég vissi.
Kári Harðarson, 5.5.2008 kl. 14:23
Góð grein, Kári og er ég hjartanlega sammála þér. Ég er búin að hjóla hér á Íslandi í 25 ár og á þeim löngum tíma hefur ekki verið gert mikið fyrir hjólreiðafólkið, því miður. Við hjólreiðamenn eigum að vera á götunum og gefa skít í að það sé flautað á okkur. Viðhorfið bílandi fólks mun breytast smátt og smátt ef við erum bara nógu margir í umferðinni. En samt ætti ekki banna að vera á gangstéttunum, ég er þá sérlega að hugsa til barnanna á hjóli.
Úrsúla Jünemann, 5.5.2008 kl. 14:52
minn hjólakall skrifaði einmitt um þetta sama um daginn hér. Veit ekki hvort ég mæli með lausninni, samt, fullsnúið.
Hildigunnur Rúnarsdóttir, 5.5.2008 kl. 15:08
Það væri vonandi að núna þegar "Hjólum í vinnuna" átakið er að byrja, að svona ábendingar komist alla leið til ráðamanna, og verði farið eftir þeim.
Góður pistill.
Einar Indriðason, 6.5.2008 kl. 07:46
Sammála, Úrsúla,
Það eru tvenns konar hjólreiðar í gangi. Fimm ára krakki sem hjólar við hliðina á pabba og mömmu á að vera á gangstétt, en ég ætti að vera á götunni og það ætti að vera pláss fyrir mig þar.
Kári Harðarson, 6.5.2008 kl. 09:54
Það er reyndar oft miklu hættulegra að hjóla á gangstéttunum heldur en götunni.
Bílstjórar eiga oft nógu erfitt með að spotta hjólareiðamann sem hjólar á götunni meðal bílanna.
Ef þú hinsvegar hjólar á gangstéttinni eru líkurnar minni að bílstjórar taki eftir manni (enda beinist athygli þeirra að götunni) og hættan mun meiri að það sé keyrt í veg fyrir
mann á gatnamótum eins og þessum sem þú teiknaðir.
Þá er ótalin hættan sem skapast við innkeyrslur og bílaplön.
Ormurinn (IP-tala skráð) 6.5.2008 kl. 17:32
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.