9.8.2008 | 13:18
Ekki kom háskerpan þetta árið
Útsending kínverja frá Ólympíuleikunum er í háskerpu. Fimm hundruð klukkustundir af háskerpuefni verða sendar út á Sky HD sjónvarpsstöðinni. Allir viðburðir sem BBC sendir frá verða einnig í háskerpu á rásinni BBC HD, og svo verða 230 klukkutímar af efni á Eurosport HD.
Ég hafði spáð fyrir ári að Olympíuleikarnir myndu marka tímamót á Íslandi, því þá yrðu fyrstu útsendingar hér í háskerpu og þá myndu kaupendur flatskjáa í fyrsta sinn fá tækifæri til að sjá útsendinguna sem þeir eru hannaðir fyrir.
Engin af þessum háskerpurásum er komin á myndlykla símans eða á aðra lykla mér vitanlega, þrátt fyrir auglýsingar símans um að vera í fararbroddi með háskerpu. Það er merkilegt því í mörgum löndum voru Ólympíuleikarnir notaðir sem ástæða fyrir söluátak fyrir háskerpuna.
Síminn leggur mikla áherslu á að selja myndlykla en þeir eru fyrir ADSL sem nýtir gömlu símalínurnar sem forfeður okkar borguðu fyrir, en ekki ljósleiðara eða breiðband. Ég efast um að ADSL muni verða mikið notað undir háskerpusjónvarp í framtíðinni því háskerpumynd þarf 10 megabita á sekúndu til að komast óbrengluð til skila ef vel á að vera. Ef myndin er send þjöppuð um ADSL rýrna myndgæðin því myndin breytist í mósaík. Hér er dæmi um lélega stafræna útsendingu:
Þetta er óþjöppuð fyrirmynd:
Ég held að gagnaveitan álykti að síminn kemst ekki mikið lengra með sína tækni enda eru göturnar í Reykjavík nú sundurgrafnar af ljósleiðaraskurðum. Síminn hefði átt að geta skipt úr ADSL yfir í VDSL um þetta leyti en ég hef ekki séð hann gera það, enda hef ég lesið að það gangi illa að kreista meiri sendihraða út úr gömlu símalínunum. Síminn hætti að þróa breiðbandið sitt og nú gæti hann verið að súpa seyðið af því.
Ef gagnaveitan leggur ljósleiðara áfram getur verið að eitthvað fari að rofa til í háskerpumálum hér, en fyrst sjálfir Olympíuleikarnir nægðu ekki til að síminn þyrði að byrja útsendingar þá er ég ekki vongóður um að þær hefjist hér á næstunni. Ég sé persónulega enga ástæðu til að endurnýja heimasjónvarpið á meðan þær eru ekki hafnar að neinu viti.
Í óskyldum fréttum þá er merkilegt að samkvæmt sölutölum seljast minni flatskjáir mest, það eru þeir sem eru undir 26 tommum. Þessi þróun hefur komið framleiðendum mikið á óvart sem hafa lagt mesta áherslu á 42 tommu tæki og stærri.
-----
Hér má sjá mismunandi stærðir af útsendingum, þar á meðal gömlu PAL útsendinguna sem íslenska sjónvarpið notar í dag, og svo nýju 1080p háskerpu útsendinguna sem er notuð frá Olympíuleikunum.
Meginflokkur: Tölvur og tækni | Aukaflokkur: Neytendamál | Breytt s.d. kl. 13:24 | Facebook
Athugasemdir
Eina háskerpan sem ég sé er það sem ég tek upp sjálfur í pínulítilli videomyndavél... Satt að segja finnst mér RÚV og 365 standa sig illa í þessu...
Jón Ragnarsson, 9.8.2008 kl. 17:24
Hvaða stór(íþrótta)viðburð þarf til að núverandi ljónum verði rutt úr veginum?
Anna Ólafsdóttir Björnsson, 9.8.2008 kl. 20:23
Vil minna á að skv. lögum um Ríkisútvarpið ohf., á fyrirtækið að standa í fararbroddi fyrir tæknilegri framþróun...sem hefur löngum verið skemmtilegur brandari í bransanum. HD er ekki eitthvað sem sjónvarpsstöðvarnar íslensku hafa ofarlega á dagskrá komandi ára. Skítt með fjárfestingu neytenda í HD ready flatskjáum...eina lausnin er að kaupa sér diska ef fólk vill fá eitthvað út úr þeirri eign á næstu árum.
Maríanna Friðjónsdóttir (IP-tala skráð) 9.8.2008 kl. 20:31
Fagna þessari umræðu en þessi pistill er svolítið eins og að vera argur útí sjónvarpið sitt þegar það er léleg dagskrá. Staðreyndin er sú að RÚV virðist ekkert hafa áhuga eða bolmagn til þess að koma þessu efni út sem þeir(við) erum að borga fyrir í HD. Það kæmi mér ekki á óvart að það hreinlega samsvaraði ekki hugmynd Sigurðs Kára um fullkomið líf, að RÚV auki við þjónustu sína. HD réttur að mig minnir á Júróvisjón, EM og ÓL voru til staðar, í það minnsta 2 dreifikerfi sem eru að senda út HD til staðar. Ætli þetta sé ekki spurning um að þegar allir sveitabæir á landinu geta fengið HD þá er RÚV klárt í HD. Í nágrannalöndum okkar er Ríkissjónvarp hvers lands leiðandi í tækniframförum í þágu þegna sinna. Ég sé í það minnsta nokkur andlit vinbloggara þinna sem helst vildu leggja slíka stofnun af. Þú fyrirgefur að ég er doldið upptekinn þessa dagana að horfa á dásamlegu heimsmynd frjálshyggjunnar flagna í sólbaði, því að á sama tíma og hún gerir okkur kleift að versla okkur fjölda tegunda Háskerputækja af fjöldanum öllum söluaðilum þá kemur hún að sama skapi í veg fyrir að við sjáum vinsælasta sjónvarpsefnið glitra á þeim.
Haraldur Sturluson (IP-tala skráð) 9.8.2008 kl. 21:37
Þú talar um tvo hluti, dreifileiðir/kerfi og svo efnisveitu.
Hvað dreifileiðir varðar þá er Síminn búinn að gera heilmargt hvað háskerpu varðar:
- Fyrsti aðilinn til að senda út háskerpu á Íslandi
- Búið að dreifa þúsundum HD myndlykla til viðskiptavina
- Kerfið í raun "ready" til útsendinga á háskerpuefni
Það sem vantar er efnið og viljann hjá útsendingaraðilum. Enn sem komið er hafa sjónvarpsstöðvar, efnisveitendur, ekki séð ástæðu eða hag í því að senda efni sitt út í háskerpu.
Framleiðendur sjónvarpsþátta og kvikmynda rukka meira ef sjónvarpsþáttur eða kvikmynd sé send út í háskerpu. Markaðurinn hér á Íslandi svo og áhorfsfjöldi er einfaldlega of lítill til að standa undir sér til að réttlæta þennan aukakostnað.
Efnisframleiðendur líta ekki heldur á háskerpu sem eðlilega framþróun, heldur sem viðbót við SD (standard definition). Þessi hugsun er röng að mínu mati, því hvar værum við ef framleiðendur myndefnis hefðu litið sömu augum á litasjónvarp og þeir gera háskerpusjónvarp, og rukka premium fyrir slíkt?
ADSL2+ ræður við 24mbit (fræðilega), þó þessi tala sé sennilega nærri 18mbit við kjöraðstæður. Því ætti ADSL2+ að vel ráða við HD útsendingar. Síminn er búinn að vera senda út Discovery HD í um ár núna og myndin kemst í gegn hnökralaust.
Kostnaður við þann premium sem framleiðendur myndefnis setja á er stór barrier fyrir margar sjónvarpsstöðvar. Einnig er ákveðinn viljaskortur ríkjandi hjá aðilum eins og RÚV að senda út háskerpuefni sem þeir hafa þó aðgang að, t.d. Olympíuleikana. Dreifileiðirnar eru til, og Síminn var þar fyrstur.
Árni Arent (IP-tala skráð) 13.8.2008 kl. 11:21
Já...
Ég skil bara ekki af hverju síminn er ekki með Eurosport HD og BBC HD í boði á sínum myndlykli rétt eins og Eurosport og BBC. Varla er það RÚV að kenna?
Kári Harðarson, 13.8.2008 kl. 13:29
Já ég er sammála, það er hundfúlt að geta ekki séð OL í háskerpu þegar öll tækni er til staðar. Ég sé Discovery HD ágætlega í háskerpu (1080i) í ADSL sjónvarpi Símans.
Ég sé ekkert athugavert að borga eitthvað meira fyrir háskerpumerki enda er maður að fá 4-5 sinnum meira gagnamagn.
Finnur Hrafn Jónsson, 14.8.2008 kl. 00:07
smá innskot sem að kemur þessari grein ekkert við heldur metan greininni en þar sem að ekki var hægt að koma fleirri athugasemdum við þar þá lét ég þetta flakka hérna.
Við erum farnir af stað með fyrirtæki sem að geri fólki kleypt að keyra á LPG eða autogasi. Það er svipað og metan nema að það er mun minni þrýstingur á því.
Kíkið á linkinn www.autogas.is
Kveðja
Einar
einar (IP-tala skráð) 15.8.2008 kl. 00:09
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.