2.10.2008 | 12:53
Ísland geldur fyrir óhóf í fjármálum
Á síðari hluta ársins 2007 versnaði ástandið í húsnæðislánum á Bandaríkjamarkaði. Blaðagreinar fóru þá að birtast um að Ísland væri sem "kanarífuglinn í kolanámunni". Sett var fram sú kenning að slæmt ástand á Íslandi væri ávísun á versnandi horfur hjá öðrum löndum.
Eftir þetta hefur ástandið á Íslandi hríðversnað. Framleiðsuvísitalan hefur lækkað um 4% á fyrsta ársfjórðungi ársins 2008. Hlutabréfamarkaðurinn og gengi krónunnar hafa fallið um þriðjung (skrifað í Júlí 2008).
Skuldir þjóðarbúsins eru út úr kortinu á alþjóðlegan mælikvarða. Viðskiptajöfnuður var neikvæður um 25% af þjóðarframleiðslu árið 2006 og 17% árið 2007. Skuldir þjóðarbúsins voru fimmtánfaldar eigur seðlabanka landsins eða 200 prósent af þjóðarframleiðslu. Langtímaskuldir þjóðarbúsins bæta svo við 350 prósentum af þjóðarframleiðslu. Bankaeignir voru orðnar tíföld þjóðarframleiðsla í lok ársins 2007. Þetta ójafnvægi kemur til vegna innkaupa íslenskra fyrirtækja í Bretlandi, Danmörku og annars staðar.
Hvernir getur svona lítill stubbur valdið svona miklu? Svarið er að finna fyrir árið 2000 þegar flestir bankar voru ennþá reknir eins og deildir í ríkisstjórninni. Raunvextir voru lágir og jafnvel neikvæðir á stundum.
Til að bregðast við eftirspurn eftir lánsfé breyttust bankarnir í pólítiskar stofnanir sem lánuðu aðeins þeim sem voru í náðinni. Óhagræðið sem af þessu hlaust kom fram sem skuldasöfnun erlendis og lengstu vinnuvikur í vestur-Evrópu. Þrátt fyrir allt var niðurstaðan sú að Ísland varð ríkt miðað við höfðatölu.
Bankarnir voru einkavæddir árið 2000 með fljótfærum og pólítískum hætti. Eignarhald á bönkunum fór til manna með náin sambönd í íhaldsflokkunum sem höfðu lítið vit á bankarekstri. Seðlabankinn og fjármálaráðuneytið voru rekin af fólki sem vildi eins lítil afskipti og hægt var.
Bankarnir breyttust fljótt úr venjulegum bönkum í fjárfestingabanka. Hvorki þeir né ráðuneytin eða seðlabankinn gerðu greinarmun á þeirri ábyrgð og tryggingu sem fylgir venjulegum bankarekstri annars vegar og hins vegar á áhættustarfseminni sem fylgir fjárfestingabankarekstri. Það að ríkið og þar með þegnarnir skyldu ábyrgjast rekstur fjárfestingabankahlutans gerði þeim kleift að taka mjög áhættusamar ákvarðanir bæði heima og erlendis. Þeir ráku starfsemina með erlendum lánum í stað þess að byggja á innlánum viðskiptavina.
Seðlabankinn batt viljandi hendur sínar og ákvað að reyna aðeins að stjórna með ákvörðun vaxta. Hann neitaði sér um að ákvarða bindiskyldu á þeirri forsendu að bankarnir vildu það ekki, og hann reyndi heldur ekki að tala um fyrir bönkunum á siðferðislegum grundvelli. Tilraunir seðlabankans til að hefta verðbólguna með því að hækka vexti (upp í 15% 2008) höfðu þau áhrif að enn meira erlent fjármagn sogaðist til landsins og áhrif vaxtahækkana urðu því engin. Krónan hækkaði í verði þrátt fyrir gífurlegar erlendar skuldir.
Vegna styrks krónunnar á fyrstu árum aldarinnar fóru íslensk heimili og fyrirtæki að taka lán eins og enginn væri morgundagurinn. Nú er svo komið að skuldir íslendinga eru miklu hærri en möguleikar seðlabankans til að gangast í ábyrgðir og aðrir bankar í Skandinavíu hugleiða að aðstoða seðlabankann þótt ekki væri nema til að koma í veg fyrir að hrun Íslands smiti út frá sér.
Þetta gífurlega hrun sem nú á sér stað er útkoma óhófs sem byggðist upp í umhverfi lítils sem einskis eftirlits, sem var ekki til staðar vegna fljótfærnislegrar einkavæðingar. Nú er ríkisstjórn Íslands í mjög alvarlegum vandræðum. Sögusagnir herma að næst stærsti stjórnmálaflokkurinn, sósíaldemókratar, sem komst til valda í maí 2007 í fyrsta sinn í fjórtán ár muni slíta samstarfi við stærsta flokkinn, hinn íhaldssinnaða sjálfstæðisflokk og koma af stað nýjum kosningum.
Skoðanakannanir gefa til kynna að sjálfstæðisflokkurinn muni tapa mjög miklu fylgi og sósíaldemókratar sem hafa beðið minni hnekk á mannorði vegna fjármálahneykslisins gætu fengið nægt fylgi til að mynda nýja ríkisstjórn með öðrum flokkum.
Þetta gæti orðið byrjunin á vel þeginni stefnubreytingu í íslenskum stjórnmálum í átt að norrænu samfélagi þar sem samfélagið stjórnast ekki af duttlungum fjármálamanna og skuldir eru teknar föstum tökum.
Þýtt úr grein sem kom í Financial Times í júlí 2008. Höfundurinn, Robert Wade er prófessor í hagfræði við London School of Economics.
Þeir sem einkavinavæddu bankana og veittu þeim svo ekki nauðsynlegt aðhald en sváfu á verðinum meðan þeir fóru í fjárhættuspil með fjöregg þjóðarinnar munu ekki láta af völdum af sjálfsdáðum þótt það eina sem haldi þeim uppi núna sé drambssvipurinn og jakkafötin. Hvenær mun doðinn breytast í reiði?
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkur: Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 13:12 | Facebook
Athugasemdir
Góð samantekt sem er í anda þess sem ég hef verið að segja undanfarna 18 mánuði eða svo. Þú gleymir samt einu ákaflega mikilvægu:
Þegar krónan var sett á flot var óstöðugleiki í hagkerfinu. Verðbólga var búin að vera ofan efri vikmarka samfellt í 18 mánuði eða svo, mest allan tímann milli 5 og 7%. Síðan höfðu stýrivextir verið yfir 10% á þessum sama tíma. Þegar hún var svo sett á flotvoru stýrivextir 11,4% eða 10,9% eftir því hvort maður miðar við stýrivexti í mars eða apríl 2001. Krónan átti aldrei sjens. En þetta eru undirstöðurnar sem við byggðum allt á. Það veit það hver einasta sála, að maður byggir ekki hús á ónýtum undirstöðum. Hvað þá háhýsi eins og reynt var hér. Blessuð krónan átti erfitt uppdráttar strax frá upphafi, en fyrst og fremst vegna þess að henni var hent út í ólgusjó í staðinn fyrir að bíða þar til um hægðist.
Það væri vissulega hægt að tína ýmislegt fleira til eins og röng verðbólguviðmið. Þ.e. að notuð hafi verið vísitala neysluverðs með húsnæðislið í staðinn fyrir án húsnæðisliðar. Að ákvæðum BASEL II regluverksins hafi verið breytt í febrúar 2007 og þannig aukið við útlánagetu bankanna sem þegar var meiri en góðu hófi gengdi. Að dregið hafi verið úr bindiskyldu þegar BASEL II regluverkið var innleitt árið 2003 í staðinn fyrir að herða hana.
Marinó G. Njálsson, 2.10.2008 kl. 15:14
Ég er mjög reið! Burt með Sjálfstæðisflokkin!
Úrsúla Jünemann, 3.10.2008 kl. 11:41
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.