6.11.2008 | 09:44
Neyðin kennir blönkum manni að vinna
Þessi konar heitir Amy Smith og kennir við MIT.
Sjáið hvað hún fæst við í þessu myndbandi.
Þótt við búum ekki í moldarkofum getum við nýtt okkar eigin afurðir miklu betur en við gerum.
- Getum við framleitt drumba í eldstæði úr þjöppuðum dagblaðamassa, þurrkað hann með hitaveituvatni?
- Við ættum ekki að flytja inn próteinduft fyrir vaxtarækt þegar við getum framleitt það úr mjólkurafurðum í stað amerískra sojabauna.
- Við hljótum að geta gert okkar eigin hunda/kattamat úr afgöngum.
- Við flytjum inn hraunmola fyrir ketti til að skíta á! Er ekki hægt að framleiða kattasand á Íslandi?
- Hér í Frakklandi er mjög vinsælt að kaupa grænmetis súpur á fernum, þetta er alveg drauma heilsufæði og kostar lítið. Hvernig væri að selja íslenskar súpur á fernum?
- Af hverju að flytja inn eldhússborð úr granít þegar fólk annars staðar er að nota litaða steinsteypu til að gera mjög flottar borðplötur?
Þetta er steinsteypa og gæti allt eins verið íslensk framleiðsla.
Í eðlilegu árferði á að borga sig að búa þessa hluti til hér á landi. Ef það borgar sig að safna skuldum í stað þess að gera hlutina sjálfur er eitthvað mikið að.
Mikil nýsköpun getur farið fram á bóndabæjum, sérstaklega ef úrelt lög (eins og um heimaslátrun) verða afnumin. Eins og Amy segir réttilega: Bændur eiga ekki að hætta að vera bændur, en þeir eiga að hætta að vera fátækir bændur.
Ekki öll verkefni þurfa milljónalán frá bönkum. Hvað er að því að byrja smátt og nota hagnaðinn til að stækka?
Þegar ég var lítill sagði ég einu sinni "Mamma, mér leiðist". Mamma byrsti sig og sagði að það væri lúxusvandamál, það væri alltaf nóg að gera. Það er örugglega rétt hjá henni.
Athugasemdir
Já sækjum þekkinguna heim....við eigum að snúa okkur að eldri kynslóðum sem kunnu að lifa af og fá þær fyrirmyndir fram í dagsljós nútímans - allar mögulegar hugmyndir. Nú er tími eldri kynslóðanna að koma fram og vera virkir þátttakendur í að kenna þeim yngri leiðir í framleiðslu smærri fyrirtækjum til sjávar og sveita. Eldra fólkið hefur fjármálavit sem týndist í hraða kapphlaups og neyslu. Ég veit að mikil þekking leynist í reynsuheimi foreldra okkar - öfum og ömmum. Svo eru margir með frjóar hugmyndir...og þá er bara að láta verkin tala og framkvæma. Meira af svona umræðu..gott innlegg Kári.
Katrín Erla Kjartansdóttir, 6.11.2008 kl. 14:34
Takk fyrir Kári og Amy. Hvað get ég gert fyrir aðra, það er málið...
Ásgeir Kristinn Lárusson, 6.11.2008 kl. 20:45
Áhugaverður og hrífandi fyrirlestur hjá henni Amy. Alltaf uppörvandi að finna að enn er til skynsamt hugsjónafjólk á þessari plánetu þar sem þeir sjálflægu stjórna. Og það er vissulega margt sem við getum gert hér heima og ættum fyrir löngu að vera komin á hærra stig í sjálfbærni. Íslendingar hafa bara of mikið verið að eltast við að vera hipp og kúl kanaaftaníossar til að nýta það sem eldri kynslóðirnar höfðu að miðla. En nú fer vonandi að verða í tísku að vera ekki hipp og kúl heldur nýtinn og útsjónarsamur og vonandi á sú tíska eftir að fylgja okkur til frambúðar.
, 6.11.2008 kl. 20:58
Það er fólk eins og þú Kári, sem vonandi kemur okkur út úr þessu klúðri. Með því að hugsa í lausnum, framúrskarandi lausnum.
Takk fyrir frábær skrif.
Davíð Guðmundsson (IP-tala skráð) 6.11.2008 kl. 21:33
Fín færsla, Kári. Landinn er að vakna til lífsins með þetta, brauð- og hakkavélar seljast upp, svo og frystikistur ...
Hrifinn af þessu með kattasandinn ... stutt er í fjörusand þar sem ég bý ...
Carlos Ferrer (IP-tala skráð) 6.11.2008 kl. 21:41
Frábær vinkill, ég er viss um að við og þessi hugsunarháttur er það virkilega sem kemur okkur á rétta braut sem sameinuð þjóð.
Sjálftökuflokkurinn ætti að fara hlusta meira á grasrótina, menntafólkið og almenning en minna á spákaupmennina með sýndarbankabréfin.
Davíð Halldór Lúðvíksson (IP-tala skráð) 7.11.2008 kl. 00:19
Mamma þín hefur greinilega verið dálítið lík pabba mínum. Hann sagðist ekki skilja fólk sem gæti látið sér leiðast, sér leiddist aldrei, því hann gæti alltaf fundið sér nóg til að hugsa og framkvæma.
Mér hefur í mörg ár fundist fáránlegur innflutningur á Íslandi - að detta í hug að flytja inn grjót alla leið frá Kína, þegar nóg er til af því hér heima...o.s.frv. o.s.frv.
Góð áminning hjá þér.
Greta Björg Úlfsdóttir, 7.11.2008 kl. 03:10
Hefur verið = líklega hefði ég heldur átt að segja ER.
Greta Björg Úlfsdóttir, 7.11.2008 kl. 03:12
Stórkostlegt myndband - frábær Amy Smith.
Er það rétt skilið hjá mér þar sem hún segir í endann að hún sé "one person staff" að þetta sé hennar einka verkefni (one woman project)? Getur það verið?
Greta Björg Úlfsdóttir, 7.11.2008 kl. 03:30
Já það er margt hægt að gera og nauðsynlegt fyrir alla að endurskoða lifnað sinn, hvað sem kreppu líður eður ei. Nú er máske tækifæri til að endurmeta hvað eru lífsgæði og hvað ávani. Sustainable living, er það sem koma skal, ef ekki á að fara illa svona almennt séð. Líf í hljómfalli við afkastagetu náttúrunnar sjálfrar. Neysla sem skilar einhverju til baka og byggir upp.
Okkar vitfirrta neysluhyggja hefur haft alvarlegar afleiðingar og ein afurð neyslukapítalismans er línulaga neysluferli, sem engu skilar til baka og grefur undan okkur smátt og smátt.
Hér er einfalt myndband, sem segir meira en mörg orð um efnið.
Jón Steinar Ragnarsson, 7.11.2008 kl. 05:43
Ég varð að hætta að horfa á myndbandið eftir aðeins tíu mínutur - þetta er of sársaukafullt. Verð að safna kröftum og andlegu jafnvægi fyrir hinar ellefu. Takk Jón Steinar!
Carlos Ferrer (IP-tala skráð) 7.11.2008 kl. 14:23
Jón Steinar, flott myndband!
Þá má eiginlega segja út frá því að kreppan (sem er rétt að byrja) sé í leiðinni stóra tækifærið okkar Íslendinga að breyta hlutunum og jafnvel að vera öðrum þjóðum fyrirmynd, ehemm, best að setja lok á þjóðarstoltið... og segja bara: breyta hlutunum hér heima...eitt skref í einu...LOCAL ECONOMY...það er lóðið!
Greta Björg Úlfsdóttir, 7.11.2008 kl. 14:52
Fyrirspurn setti ég inn á færslu um maraþonhlaup þitt og Garminúr. Færslan líklega of gömul til að þú værir að skoða athugasemdirnar.
Þess vegna prófa ég aftur hér, en spurningin var hverrar gerðar Garmin-úrið væri sem þú hljópst með og fékkst þessi flottu gröf og kort út úr tölvunni eftir á?
Ágúst
Ágúst Ásgeirsson, 8.11.2008 kl. 09:36
Það er framleiddur góður og ódýr hunda- og kattamatur á Íslandi http://www.ifex.is/
Pokinn af kattamat kostar tæpar 600 kr í Bónus og dugar í u.þ.b. mánuð fyrir 1 kött.
Vigfús (IP-tala skráð) 13.11.2008 kl. 08:08
Ágúst, úrið heitir Garmin Forerunner 305 og kostaði 14 þúsund krónur í N1 upp á Höfða í sumar.
Kári Harðarson, 13.11.2008 kl. 08:53
Alveg rétt. Nú verðum við að nýta okkar möguleika betur.
Í Súðavík er verið að framleiða kattarmat.
En eitt hef ég aldrei skilið. Af hverju flytjum við Íslendingar inn salt? Það er ekki eins og það skorti salt í sjóinn hérna í kring um okkur. Sjávarsalt af bestu sort allt í kring um okkur, við þurfum bara að teygja út hendina, en veljum frekar að flytja inn lágæða verksmiðjusalt.
Jóhanna (IP-tala skráð) 13.11.2008 kl. 14:59
Jóhanna, þetta er bara eitt dæmi af mörgum um að seilst sé langt yfir skammt og vatnið sótt yfir bæjarlækinn (er máltækið ekki annars þannig?).
Sem betur fer var ekki búið að murka lífið úr íslenskum landbúnaði, eins og var á sumum að eigin áliti málsmetandi mönnum að heyra hér um árið að væri öllum fyrir bestu.
Greta Björg Úlfsdóttir, 13.11.2008 kl. 15:30
Þakka kærlega, Kári.
Ágúst Ásgeirsson, 13.11.2008 kl. 21:38
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.