2.12.2008 | 16:18
Seven habits of highly effective countries
Margir sem andmæla inngöngu í evrópusambandið benda á að það muni jafngilda uppgjöf sjálfstæðis.
Mér dettur í þessu sambandi í hug bókin "Seven habits of highly effective people". Fyrstu ávanarnir sem höfundur vill að lesandinn tileinki sér ganga út á að verða sjálfstæð manneskja.
Höfundur telur að fólk eigi að:
- Taka frumkvæði í stað þess að kenna öðrum um, bera ábyrgð á sínu lífi.
- Setja sér markmið en til þess þarf að hafa lært að þekkja sín grunngildi í lífinu.
- Forgangsraða, svo allur tíminn fari ekki í hluti sem virðast aðkallandi en skipta engu máli í hinu stóra samhengi.
Þessir fyrstu þrír hlutir snúa að því að manneskjan þroski sjálfa sig og standi á eigin fótum. Það má kalla þennan part sjálfstæðisbaráttu. Svo þegar sjálfstæðinu er náð er hægt að mynda bandalög við aðra fullvalda einstaklinga.
Liðir 4..7 hafa því með annað fólk að gera.
- Finndu leiðir til að ná þínum markmiðum þannig að aðrir nái sínum markmiðum líka. Ef þín hugmynd um velgengni kostar aðra þjáningar ertu ekki á réttri leið. (Útrásarvíkingarnir flöskuðu þarna).
- Reyndu að skilja aðra áður en þú byrjar að segja þeim frá þínum væntingum og vera með tilætlunarsemi, þá muntu ná betri árangri. Byrjaðu t.d. samtal með "hvernig hitti ég á þig?" en ekki bara "gerðu X fyrir mig".
- Deildu verkefnum á þá sem eru betur færir um að leysa þau en þú. Notaðu hrós og hvatningu og njóttu þannig góðs af því þegar allir gera það sem þeir gera best.
- Haltu þér í þjálfun, andlega og líkamlega. Farðu á námskeið. Farðu í frí. Endurskoðaðu markmiðin í lífinu reglulega. Ekki gera bara "bissness as usual" þangað til þú brennur út og þekkir ekki sjálfan þig.
Þeir sem vilja heilbrigð samskipti við aðra þurfa að vera orðnir heilbrigðir einstaklingar sjálfir. Þetta passar vel við þá visku sem kennd er í tólf sporunum í AA og Al-Anon.
Þeir sem eru styttra komnir á þroska/sjálfstæðisbrautinni eru oft hræddir við að stofna til sambanda við aðra því þeir óttast um eigið sjálf. Það er hluti af persónulegum þroska að byrja að treysta öðrum.
Íslendingar þurfa að hafa náð þangað áður en þeir ganga til viðræðna um náin samskipti því þeir mega ekki meðvirklast og gefa eftir í prinsipp málum. Kannski erum við ekki orðin nógu sjálfstæð til að geta umgengist aðrar þjóðir sem jafningjar?
Athugum með inngöngu í bandalagið, en höfum okkar markmið á hreinu áður. Það er veruleg hætta á að við semjum af okkur ef við göngum til viðræðna án þess að þekkja okkur sjálf og hvað við viljum.
Persónulega langar mig í bandalagið af því ég vil geta:
- unnið í öðrum löndum
- geymt mín verðmæti í öruggum gjaldmiðli. (Það er öruggt að krónan á sér enga framtíð og að við þurfum myntbandalag, bara spurning hvaða gjaldmiðill kemur í stað hennar).
- átt viðskipti við aðra banka og tryggingarfélög en starfa hér
- flutt sjálfur inn vörur án tollahafta og útrýmt þannig fákeppni í verslun
- laðað hingað erlend fyrirtæki sem útvega spennandi störf
- losnað við gömlu valdaklíkurnar á Ísland en fengið í staðinn nýjar og spennandi erlendar valdaklíkur :)
Ég óttast að ef við göngum í bandalagið muni:
- vandalausir flytja arð úr landi (skaðinn þegar skeður)
- vandalausir hagnast af útgerð en flytja arðinn úr landi (skaðinn þegar skeður)
- íslendingar kafna í ólögum sem henta ekki hér (hef ekki dæmi um slík lög -- mun EB banna kæstan hákarl?)
Semsagt: Ef við erum jafn frábær þjóð og við þykjumst (þóttumst) vera, þá eigum við að ganga til viðræðna. Ef við eigum einhver óútkljáð mál hér heima væri þó farsælla að afgreiða þau fyrst. Það má þó engan tíma missa, því margir (þar á meðal ég) vilja ekki búa í sjúku meðvirklaþjóðfélagi sem er ekki fært um eðlileg samskipti við aðrar þjóðir.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 3.12.2008 kl. 15:26 | Facebook
Athugasemdir
vel mælt
Brjánn Guðjónsson, 2.12.2008 kl. 16:31
flottur pistill Kári.. að vanda :)
Ísland væri töff innanum öll þessi bákn í evrópu.. rödd okkar mun heyrast daglega og við mundum koma vel út úr samkeppni við aðrar þjóðir evrópu.. svo fengjum við eflaust líka aumingjahjálp líka því við erum jaðarþjóð.. lifum á mörkum hins byggilega heims...
Óskar Þorkelsson, 2.12.2008 kl. 18:00
unnið í öðrum löndum
Það krefst þess að þú getir fengið atvinnu. Þessutan er þér ekkert að vanbúnaði. En þú kemst ekki inn í velferðarkerfi og sjúkratryggingar neinna ESB landa nema að þú greiðir þar skatta, þ.e. að þú hafir atvinnu, eða sért námsmaður. Nema náttúrlega á milli Norðurlandanna. Ísland er eitt af Norðurlöndunum nú þegar.
,
geymt mín verðmæti í öruggum gjaldmiðli
Það hefur alltaf verið hægt að velja á milli venjulegra innlánsreikninga og gjaldeyrisreikninga á Íslandi. En þegar evran féll um 30% þá var ekki gott að eiga evrur í banka, enda vildu engir á gjaldeyrismörkuðum eiga evrur þá. Það eru aðeins 6 ár síðan þetta var. Þessutan þá eru næstum allir innlánsvextir neikvæðir í ESB núna. Eina landið sem býður uppá verðtryggða innlánsreikninga í EEA er Ísland. Raunávöxtun innlána hefur yfirleitt alltaf verið betri á Íslandi en í ESB.
.
átt viðskipti við aðra banka og tryggingarfélög en starfa hér
flutt sjálfur inn vörur án tollahafta og útrýmt þannig fákeppni í verslun
Sem þegni í ESB getur þú ekki átt viðskipti við banka í öðru ESB landi í praxís. Enda eru skattar og fjármagnstekjuskattar ekki samhæfðir ennþá svo það verefni er næst á dagskrá. Enginn atvinnurekandi mun vilja leggja laun þín inná bankareikning í örðu landi, enginn!
.
laðað hingað erlend fyrirtæki sem útvega spennandi störf
losnað við gömlu valdaklíkurnar á Ísland en fengið í staðinn nýjar og spennandi erlendar valdaklíkur :)
Alcoa hefur fjárfest grimmt á Íslandi. En ég hugsa að fæstir Íslendingar sem hafa prófað að starfa hjá fyrirtækjum í ESB myndu taka Íslensk fyrirtæki langt langt fram yfir þau erlendu. En þér er sem sagt frjálst að flytja vörur inn eða sjálfan þig út. Það er ekkert sem hindrar þig í því. Athugaðu vinsamlegast að allar þær vörur sem öll ESB ríki þurfa að flytja inn frá löndum utan ESB eru háð ótrúlegri skriffinnsku og tollum. Þetta er alls ekki svona einfalt eins og búið er að ljúga að ykkur.
Núna eru Íslendingar að hugsa um að fá erlenda banka til að mjólka sig. Það verður gaman að fylgjast með því. Það verður einnig gaman að fylgjast með því þegar þessir erlendu bankar fara á hausinn og verða þjóðnýttir erlendis. Þá munu þeir þurfa að loka á Íslandi. Það getur því farið svo að bankarnir nái að fara tvisvar sinnum á hausinn.
Gunnar Rögnvaldsson, 2.12.2008 kl. 20:12
þetta er mjög skynsamleg hugleiðing hjá þér. Eins og ég sé þetta er að við sem þjóð þurfum að vera búin að gera heimavinnuna okkar svo við komum ekki með báða lófa upp - biðjum um það sem okkur vantar, en erum í reynd reiðubúin að deila og vinna saman í samfélagi þjóða. Kveðja
Hákon Jóhannesson (IP-tala skráð) 3.12.2008 kl. 08:40
Þetta er skynsamlega mælt og ætti að vera öllum auðskilið, hvaða afstöðu sem menn hafa til aðildar þegar þar að kemur. Ef við ætlum að ganga til viðræðna ættum við alla vega að koma okkur upp úr keldunni fyrst. Sjálfur sé ég reyndar enga ástæðu yil að ganga til viðræðna yfirleitt, sbr.: http://einarolafsson.blog.is/blog/einarolafsson/entry/716817/
Einar Ólafsson, 3.12.2008 kl. 09:22
Ég er sammála höfundi þessarar bókar um að "Bera ábyrgð á sínu lífi og kenna ekki öðrum um", nema að því leiti til, að við getum ekki komist hjá því að deila plássi með öðrum og að aðrir þar með geta orsakað eitthvað af illvilja. Ég er einnig samála því að "Nota eigi hrós og hvatningu", hitt verð ég að segja að ekki höfðar til mín á nokkurn hátt. Nú get ég ekki sagt að ég hafi lesið bókina, en mér finnst eins og höfundur sé að túlka það sem hann sér í kringum sig ... mér finnst maður eigi að varast slíkt.
Til dæmis finnst manneskja sem er í "hárri" stöðu, en hún er eiturlyfjaneytandi og forsvari eiturlyfjaneytenda. Fæstir átta sig á þessari manneskju, eða hversu hættuleg hún er ... en hún safnar í kringum sig fólki sem er "glæpahneigt" vegna þess að hún meðal annars heldur því fram að hinir séu allir eiturlyfjaneytendur líka, nema bara að þeir gangi á adrenalíni eða endorfini, sem líkamsæfingar og kynlíf komi af stað. Fólk safnast í kringum þennan "óþverra" af því það höfðar til þeirra, og af því það hagnast á því sjálft eins og höfundur kemst að orði. Fólk er svona sjálft, illa geðspillt svo að engin rómantík eða eðlileg tilfynningalíf finnst og því höfðar þetta til þeirra því þeir vilja sjá vandan hjá öðrum með því að glápa á þá, í stað þess að sjá það hjá sjálfum sér ... þetta er bara "bullshit" eins og ameríski þátturinn kemst að orði.
Villt þú hafa þetta svona líka sjálfur? Ekki ég ... ég vil heldur halda í tilfynningalífið, flörta stundum og finna fyrir rómantík, hvað með þig?
En er þetta ekki allt paradoxalt? Nei, það er það ekki og mundu að "bullshit" er "bullshit" sama hvort það sé í biblíunni, hjá þér, mér eða hjá kónginum í Siiba. Því á ekki að ganga í ESB, bara af því maður hagnast á því, eða af því það höfðar til eiginhagsmuna ... heldur af því að það er móralskt rétt, og fremjar framfarir.
Bjarne Örn (IP-tala skráð) 3.12.2008 kl. 10:43
Þessi eiturlyfjaneytandi sem þú lýsir, ég sé ekki hvernig hann er dæmi um að höfundur túlki það sem hann sér í kringum sig. Finnst þér höfundurinn gefa í skyn að fólk eigi að vera með fordóma? Getur þú skýrt nánar?
Þú ritaðir einnig:
Sammála. Innganga í ESB verður eins og hjónaband. Það þýðir gagnkvæma virðingu og samstöðu í blíðu og stríðu. Hjónaband þar sem eigingirnin er í fyrirrúmi með tilætlunarsemi og frekju endist ekki lengi.
Kári Harðarson, 3.12.2008 kl. 13:04
Flottur pistill Kári.
Gaman að lesa svona vel uppsetta og ritaða bloggfærslu.
Og innihaldið er alveg eðal!
Eggert Vébjörnsson (IP-tala skráð) 9.12.2008 kl. 19:06
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.