Ísland endurræst

Í tilefni af umræðu um Ísland 2.0 datt mér í hug að taka saman hvað ríkisstjórnir eiga sameiginlegt með stýrikerfum. Mér hefur fundist samanburðurinn gefa mér innsýn í heima stýrikerfa og ríkisstjórna.

Stýrikerfi gefa öllum forritum á tölvu sameiginlegan vettvang að starfa á. Öll forritin nota harðan disk, minni, prentara, lyklaborð, mús með því að spyrja stýrikerfið í stað þess að tala beint við þessi tæki.  Þannig þurfa höfundar forrita ekki að tala við hvern einasta músaframleiðanda og læra að nota músina þeirra, þeim nægir að biðja stýrikerfið um að segja sér á hvað músin bendir.  Stýrikerfið býr þannig til vettvang sem sparar öllum forritum fyrirhöfn og tíma.

Ríkisstjórn útvegar einstaklingum og fyrirtækjum líka sameiginlegan vettvang, útvegar heilbrigðis og menntakerfi, peningakerfi, rafmagn og vegi til að fyrirtækin þurfi ekki sjálf að byggja bryggjur og vegi eða gera rafmagnsvirkjanir og sjúkrahús og prenta peninga.

Stýrikerfi tryggja að eitt forrit leggi ekki undir sig öll afköst vélarinnar og geri hinum forritunum ókleift að vinna. Stýrikerfi eru með "Scheduler" sem sér til þess að öll forrit fái að keyra svolítið, hafi einhvern aðgang að diski, neti og skjá, og að forritin sem fyrir eru geti ekki meinað nýjum forritum að keyra með því að leggja allar auðlindir vélarinnar undir sig.

Ríkisstjórn á að koma í veg fyrir verðsamráð og einokun hjá fyrirtækjum sem bólgna út og vilja leggja landið undir sig.  Stjórnin gerir það með því að leysa of stór fyrirtæki upp í smærri einingar (eins og gert var við AT&T) eða sekta fyrirtækin.  Ríkisstjórnir eru með skatta, virðisaukaskatt, launaskatt og erfðafjárskatt sem dreifa auðnum og sjá til þess að nýir einstaklingar geti einhvern veginn komist af stað í lífinu og á kostnað þeirra sem eru búnir að koma sér vel fyrir.  Ef ríkið gerir þetta ekki endar landið með miðalda fyrirkomulag þar sem allir verða leiguliðar hjá fáum ríkum landeigendum og allt stendur fast.

Stýrikerfi er með einhvern vegg milli sín og forritana sem keyra til að tryggja að stýrikerfið spillist ekki af forritum sem reyna að breyta stýrikerfinu viljandi eða óviljandi. Vírusar reyna viljandi að skipta út hlutum stýrikerfisins og gera það handgengið sér. Sum forrit spilla stýrikerfinu óviljandi með því að afrita gamlar útgáfur stýrikerfisskráa í möppur sem aðeins stýrikerfið ætti að skrifa í. Windows hefur verið slæmt að þessu leyti, Linux minna.  (Ef Windows er eins og bómullarborðúkur er Linux eins og vaxdúkur).  Stýrikerfi sem halda þessum aðskilnaði ekki til streitu verða á endanum grálúsug og hæg og það þarf að formatta diskinn upp á nýtt til að laga til.

Ríkisstjórn ætti að hafa sambærilegan vegg sem kemur í veg fyrir að embættismenn þiggi sporslur frá einstaklingum og fyrirtækjum eða að ráðherrar ákveði hverjir sitja í hæstarétti.  Einnig að þarf að tryggja að lögum sé ekki laumað inn í löggjöfina sem hygla ákveðnum hópi, sbr. kvótakerfið.  Svo mega forsetar ekki þiggja far með einkaþotum auðvaldsins. (Þarna er stærsti gallinn í Lýðveldinu Ísland 1.0 að mínu mati, skilin milli stjórnar, laga og auðvalds).

Í sumum stýrikerfum er litið svo á að notandinn eigi sjálfur að ná sér í þau forrit sem hann vantar og stýrikerfið sé bara til þess að gæta minnisins og harða diskins.  Önnur stýrikerfi halda að þau eigi að bjóða uppá sem mest frá byrjun, til dæmis ritvinnslu, póst og netvafra.  Þetta gerir seljendum forrita gramt í geði því stýrikerfið tekur frá þeim markaðshlutdeild.  Microsoft er gott dæmi um þessa heimsspeki en það dreifði Internet Explorer með Windows í óþökk margra.  Forrit frá framleiðanda stýrikerfisins geta þó oft gert hluti sem forrit frá öðrum framleiðendum geta ekki því sömu menn koma að hönnun beggja.

Sumar ríkistjórnir vilja bjóða upp á eldspýtnagerð, bæjarútgerð, bílaleigu, matvælaframleiðslu en aðrar halda sig við lágmarks framboð á þjónustu og láta einkageirann um sem flest.  Samt eru skil milli ríkis og einkageira alltaf óljós.  Af hverju rekur hið opinbera bókasöfn en ekki myndbandaleigur?  Af hverju tryggjum við okkur hjá Tryggingarstofnun en bílinn hjá Sjóvá?

Mörg stýrikerfi eiga erfitt með netvæðingu því vélin fyllist af vírusum. Þetta er sérlega slæmt ef stýrikefið er ekki nógu rammgert til að þola ókunnug forrit og notendur.  Þessi stýrikerfi voru mörg hver skrifuð áður en netsamskipti voru til, þess vegna eru þau svona viðkvæm.

Margar ríkisstjórnir eiga á sama hátt erfitt með alþjóðleg samskipti, þær líta á inngöngu í Evrópubandalag sem endalok sín, þær þurfa alls kyns tollamúra og eftirlit til að verja viðkvæma innviðina fyrir erlendum áhrifum. Íslenska ríkið er til dæmis með viðkvæma krónu sem þolir ekki öll þessi samskipti við aðrar þjóðir.

Stundum má deila um hvort tölva er nógu stór og öflug til að keyra stórt stýrikerfi.  Vél sem sligast undir Vista getur verið hress undir Windows XP. Eldgamlar tölvur geta haldið áfram að gera gagn ef þær keyra Windows 95 eða jafnvel DOS.

Sum lönd eru svo lítil að þau ættu ekki að vera með sendiráð í mörgum löndum eða ráðuneyti fyrir óþarfa hluti. Það má spyrja hvort Ísland eigi að vera með tollembætti eða synfoníu?  Getum við keyrt lagabálk Evrópubandalagsins?  Getur okkar land keyrt stjórnarskrá sem var hönnuð fyrir annað land á öðrum tíma?  Er okkar stjórnarskrá bara léleg afrit af þeirri dönsku?

Hér lýkur samlíkingunum. Ef menn sjá fleiri sambærilega hluti er um að gera að skrifa athugasemd.

windowsjitter1.jpg

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Ástandið á Íslandi í dag er að okkur tókst einhvern veginn að endurræsa stýrikerfið eftir að tölvan hrundi en við erum í lítilli skjáupplausn og helmingurinn af forritunum getur ekki keyrt. Flestir eru á því að vírusar hafi eytt gögnunum af harða diskinum, ef gögnin hafi ekki glatast séu þau komin á harða diska í Cayman Islands. Vírusarnir voru vondir en stýrikerfið átti ekki að leyfa þeim að fjölga sér.  Maðurinn sem átti að taka backup hafði aldrei gert það og vill nú ekki segja af sér.

Sumir vilja formatta harða diskinn og setja upp nýtt, einfaldara stýrikerfi.

Ég er í þeim hópi sem er efins um að gera stórar breytingar á stuttum tíma. Ástæðan er sú, að gömul forrit eru oft gömul og skrýtin en þau endurspegla samt þekkingu sem hefur safnast upp á löngum tíma. "Never assume the guy who wrote the code was an idiot" segir máltæki í tölvubransanum. Það eru mörg dæmi um að nokkrar línur í kóða sem enginn vissi hvað gerði voru fjarlægðar, og allt hrundi.

Það eru dæmi um að fyrirtæki hafi ákveðið að endurskrifa hugbúnaðinn sinn frá grunni til að laga til og losna við gamalt drasl, en aldrei borið sitt barr eftir það því nýji kóðinn varð verri en gamli kóðinn.  Nýi kódinn var einfeldningslegur og tók ekki á mýmörgum sértilfellum sem fara ekki af sjálfum sér.

Þannig reyndi Netscape í mörg ár að skrifa netvafrann sinn aftur en ekkert gekk, Bandaríska flugmálastjórnin reyndi að endurskrifa hugbúnað fyrir flugumferðarstjórn án árangurs. Hún er ennþá að nota hugbúnað frá sjöunda áratugnum síðast þegar ég vissi.

Við þurfum að endurbæta lög og stjórnkerfi en við ættum þá að fara leið sem í hugbúnaði er kölluð "refactoring". Einhverjir góðir forritarar taka þá að sér að endurbæta forrit til að gera þau læsilegri og í samræmi við góða siði. Þeir eiga ekki að bæta við möguleikum, bara að laga til og gera hlutina skýrari.

Þetta jafngildir því að lögum og stjórnarskrá sé breytt gagngert til að endurbæta lýðveldið, en ekki af því einhver hópur sé að biðja um breytingar í eiginhagsmunaskyni.

Mig grunar að þessi tillögun og endurbótavinna hafi ekki verið unnin á Lýðveldinu Ísland 1.0, stjórnarskráin og lögin hafi staðið í stað í gegnum árin. Það er þó ekki réttlæting fyrir því að henda öllu út og byrja frá grunni.því fer hratt út í vitleysu. Hvað með hvalveiðar? Hvað með NATÓ? Eigum við að banna ættarnöfn? Og svo framvegis...

 

Hér er grein um "Refactoring" og hér er grein um hættur þess að skrifa allt aftur frá grunni.





« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Benedikt Sigurðarson

Skemmtileg pæling Kári og líkingin fer langt með að ganga upp.

Við erum kannski að tala um að fara í nýtt "stýrikerfi" sem er búið að prufukeyra annars staðar.  Þar á ég við að hin síð-frjálsu ríki Austur Evrópu tóku mörg hver áhugaverða afstöðu til stjórnarskrár - og byggðu þar á afar vandaðri greiningu.  Þangað getum við örugglega sótt viðmiðanir til að bæta okkar eigin kerfi . . . .

Frænka þín biður að heilsa ykkur . . . .

Benedikt Sigurðarson, 29.1.2009 kl. 19:00

2 Smámynd: Offari

Það þarf kanki bara að fara með tölvuni í vírushreinsun.

Offari, 29.1.2009 kl. 20:54

3 Smámynd: Villi Asgeirsson

Skemmtileg færsla. Þetta með ESB og netið. Ég nota OSX á Makka. Kerfið er byggt fyrir vélina. Rétt fyrir aldamót ákvað Apple að skipta út gamla kerfinu og byrja upp á nýtt. Margir kvörtuðu því það vantaði fítusa sem þeir höfðu vanist, en nú, átta árum síðar eru allir sáttir. Fítusarnir eru komnir aftur og kerfið mikið sterkara en það var. Vírusar eru ekkert vandamál því það er erfiðara að skrifa þá fyrir OSX. Ef nýtt forrit vill keyra, spyr stýrikerfið hvort ég vilji það og segir mér í leiðinni hvaðan forritið kom.

Þannig getum við byggt upp okkar land. Við þurfum að byrja upp á nýtt, hanna kerfi sem hentar landinu frekar en að nota eitthvað almennt kerfi sem hentar öllum soldið en engum fullkomlega. Það mun taka einhver ár að fínpússa það, en sú vinna mun marg borga sig á endanum.

Villi Asgeirsson, 29.1.2009 kl. 21:02

4 Smámynd:

Flott samlíking

, 29.1.2009 kl. 21:35

5 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Fyrir rammpólitískan tölvunörd er þetta eðallesning, þótt ég sé ekki sammála öllu (engin þörf á því) eru líkingarnar skemmtilega skotheldar.

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 30.1.2009 kl. 01:03

6 Smámynd: Kjartan Pétur Sigurðsson

Flott greining. Ég nota OS X á Mac og hefur það reynst mér vel. Er þó líka að nota Windows og eru þar margar hættur og vírusar við hvert fótmál. Ég er með eina góða lausn á því vandamáli. Ég keyri Windows sem sjálfstæða einingu undir OS X og ef eitthvað klikkar (sem gerist reglulega). Þá á ég eininguna uppsetta og klára og tekur það mig 10 mín. að setja hana inn aftur. Þannig para ég því gríðarlega vinnu við nýja uppsetningu. Einnig er ég með sjálfstæða Windows einingu sem ég ræsi upp til að fara á netið eða prófa ný varasöm forrit.

Vandamál stjórnmála á Íslandi er að það þarf að uppfæra stýrikerfið í ÖLLUM sem sitja inni á hinu háa Alþingi Ísendinga, en því miður er það ekki nóg, heldur þarf að skipta út óstarfhæfu "Hardware" líka!

Kjartan Pétur Sigurðsson, 30.1.2009 kl. 07:25

7 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

skemmtileg samlíking

kannski þessvegna sem ríkisstjórnin crash-aði?

„Fatal error. This government has performed an illegal operation, and must be shutted down. Error code: 0xF40A72C0“

Brjánn Guðjónsson, 31.1.2009 kl. 13:18

8 Smámynd: Heimir Tómasson

Góð lýsing og virkilega góð greinin "10 things". Ég féll stundum í þessa gryfju í gamla daga (í forritun) en spurningin með að falla í gryfjur er að koma sér uppúr þeim og passa að detta ekki í þær aftur.

Takk fyrir þetta.

Heimir Tómasson, 2.2.2009 kl. 04:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband