4.5.2009 | 22:50
Hvað má Olli Rehn segja skv. andstæðingum ESB?
Ég las þetta á amx.is:
Íslendingar ættu að nýta tækifærið meðan Svíar sitja í forsæti Evrópusambandsins og sækja um aðild" segir Olli Rehn, stækkunarstjóri ESB. Hann býst ekki við að nokkurt þjóðþing neiti Íslandi um aðild.
[...]
Smáfuglarnir eru þeirrar skoðunar, að ekki sé tímabært fyrir Olli Rehn að tala um aðild Íslands að ESB, fyrr en málið er lagt fyrir hann. Íhlutun hans og Percy Westerlunds, sendiherra ESB gagnvart Íslandi, af íslenskum innanríkismálum er komin út fyrir öll eðlileg mörk. Olli Rehn verður auk þess örugglega hættur sem stækkunarstjóri ESB, komi einhvern tíma til þess, að Ísland sæki um aðild.
Önnur vefsíða kallaði manninn "Slettireku" þegar hann tjáði sig síðast.
Ég spyr: Hvar stendur skrifað að Olli Rehn megi ekki segja skoðun sína? Hverjir mega tjá sig?
Ég hef búið ellefu ár erlendis og er orðinn hálfgerður útlendingur fyrir vikið, amk. finnst mér þessi eyja býsna heimóttarleg oft á tíðum. Má ég tjá mig?
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
góð spurning.. ég hef sömu tilfinningu og þú fyrir landanum og eyjunni okkar..
Óskar Þorkelsson, 4.5.2009 kl. 22:53
.. og ég hef líka búið erlendis í nær 9 ár..
Óskar Þorkelsson, 4.5.2009 kl. 22:53
Steini má tjá sig, en Olli ekki
Brjánn Guðjónsson, 4.5.2009 kl. 22:56
Í þessu tilfelli er Olli karlinn að tjá sig sem embættismaður Evrópusambandsins pg sem fulltrúi þess, ekki sem bara sem einhver einstaklingur. Slík afskipti af innanríkismálum ríkis utan þess eru ekki við hæfi.
Hjörtur J. Guðmundsson, 4.5.2009 kl. 23:03
Já, meira ruglið. Nú eru Hjörleifur Guttorms og fleiri þjóðernistrúboðar komnir á hjarirnar vegna þess sjálfsagða viðtals við Olli Rehn.
Ekki nóg með að hann megi tjá sig, heldur Á hann að tjá sig. Það er hans skylda, ef eftir því er leitað. Íslenskur almenningur er svo illa upplýstur að það tekur engu tali. En Hjörleifur og félagar vilja halda því þannig, það sem sagt má ekki tala við hæstráðendur í ESB. Hverskonar rugl er þetta eiginlega?!
Svo kvarta þeir líka yfir því að RÚV skuli hafa gert sér far til Brussel. What?? - hvað getur verið að því...?? - þvert á móti, þá hafa íslenskir fjölmiðla engan veginn staðið sig í umfjöllun um Evrópusambandið hingað til. Líklega er Ísland eina landið í öllum hinum vestræna heimi, þó víðar væri leitað, sem hefur engan fréttaritara í Brussel. Það er ekki bara metnaðarlaust, heldur beinlínis bjagað fréttamat. Allir stærstu miðlarnir ættu að hafa mann á staðnum, svo einfalt er það.
En nei, loks þegar RÚV sendir einn fréttamann til að taka eitt saklaust - en afar upplýsandi - viðtal, þá flippa þeir út.
Hjörleifur, amx.is, og fleiri heimastjórnarmenn afhjúpa sig enn einu sinni - þeir vilja halda umræðunni niðri, þjóðinni illa upplýstri. Svei.
Evreka (IP-tala skráð) 4.5.2009 kl. 23:08
Olli Rehn, prívatpersóna, má segja hvað sem hann langar hvenær sem hann langar til þess. En það hefur aldrei þótt góð latína í samskiptum siðaðra þjóða, að embættismenn í einu landi séu leggja íbúum annars lands lífsreglurnar. Mér finnst að þetta sé alveg óháð því hver afstaða fólks annars er til Sambandsins. Þetta er kjarni málsins, ekki hitt, hvort evra og EB-aðild sé góð eða slæm fyrir Ísland. Það er okkar að meta út frá upplýsingum á mannamáli sem fyrir okkur verða lagðar á næstunni.
Flosi Kristjánsson, 4.5.2009 kl. 23:31
Takk Flosi.
Við værum betur stödd ef embættismenn bankanna hefðu ekki verið að ráðleggja fólki að taka lán í erlendum gjaldmiðlum, þeir misnotuðu traust þar og kannski er Hr.Rehn að því líka.
Hvaða embættismenn mega annars tjá sig? Hvað ef einhver spyr hvað þeim finnst, eiga þeir að þegja? Ég ímynda mér að RÚV hafi spurt Hr. Rehn hvað honum fyndist. Það hlýtur að vera erfitt að þurfa að "vera stofnun" en ekki maður sjálfur.
Kári Harðarson, 5.5.2009 kl. 00:08
Hjörtur hefur þegar sagt það, sem ég vildi sagt hafa:
Olli Rehn er ekki einber prívatpersóna. Hann talaði þarna sem "EU-Kommissar" og sem fulltrúi erlends valds, ríkjasambands.
Orðrétt sagði Rehn um daginn (ummælin sem kölluðu á viðbragð mitt: greinina um slettirekuhátt hans): "Islands natürlicher Platz ist in der EU. – eðlilegur eða náttúrlegur staður Íslands er í Evrópubandalaginu." – Þetta er frek íhlutun í okkar innanríkismál.
Og í kvöld berast þær fregnir frá honum, að "Ísland EIGI að nýta tækifærið meðan Svíar sitja í forsæti Evrópusambandsins og sækja um aðild"! – Hann er farinn að segja okkur, hvað við eigum að gera! En hvenær höfum við kosið hann til að skipa okkur fyrir eða leiða okkur inn í framtíðina? Sjálfur er hann forgengilegur pótentáti, sem situr þarna sinn afmarkaða tíma, og ætti ekki að vera með puttana í málefnum óviðkomandi, sjálfstæðra þjóða – sízt af öllu að leika hráskinnaleik í samráði við 5. herdeildar menn hér á landi til að hlaða undir uppgjafarstefnu þeirra í málefnum þjóðarinnar.
Þeim mun fremur sem Íslendingar reynast þær heybrækur að þegja undir slíku tiltali, þeim mun líklegra er, að EBé-kommissarar haldi slíku áfram. Það verður eftir því tekið, hver viðbrögð Jóhönnu Sigurðardóttur og annarra Samfylkingarforingja verða við þessum yfirlýsingum Rehns.
Jón Valur Jensson, 5.5.2009 kl. 00:12
Takk Jón, sennilega er þetta rétt ályktað.
Kári Harðarson, 5.5.2009 kl. 00:17
Hvaða vitleysa er þetta. Íslenskur fréttamaður fer til Brussel og leitar eftir viðtali við stækkunarstjórann, sem slíkan. Hann fær viðtalið, skárra væri það nú. Og Olli svarar spurningunum samviskusamlega en gætir sín alltaf að segja "ef Íslendingar kjósa að sækja um" og "ef Íslendingar komast að þeirri niðurstöðu" og tala í viðtengingarhætti. Það er nákvæmlega ekkert að þessu, enda er maðurinn að svara sjálfsögðum og eðlilegum spurningum um stækkunarferlið og hann er manna best til þess fallinn. Hafa menn eitthvað á móti því að staðreyndirnar séu á hreinu, "from the horse's mouth" eins og enskir myndu segja?
Vilhjálmur Þorsteinsson, 5.5.2009 kl. 00:48
Það var ekkert talað í viðtengingarhætti í þessari uppsláttar-setningu Olla Rehn, sem notuð var strax í fréttayfirliti Sjónvarpsins í kvöld og kom fram í fréttinni sjálfri, sem birtist þó ekki fyrr en um kl. 19.10.
En yfirklórið og meðvirknin í viðbrögðum Samfylkingarmannsins Vilhjálms koma mér ekki á óvart! Óbeint er það reyndar vitnisburður um, að jafnvel hann sér, hve óviðeigandi þessi ummæli EU-kommissarsins voru.
Jón Valur Jensson, 5.5.2009 kl. 01:03
það er vandlifað í þessum heimi.
Auðvitað eiga íslendingar að grípa tækifærið núna. Segir sig sjálft.
Hann bendir líka á að ísland eigi að gerast aðili sem fyrst til að koma að endurskoðun sjávarútvegsstefnunnar.
Ómar Bjarki Kristjánsson, 5.5.2009 kl. 01:22
Ég hlustaði á viðtalið á Rás 1:
http://dagskra.ruv.is/ras1/4462987/2009/05/04/
Kvótið um formennsku Svía er á sirka 13:58. "... ég tel að formennska Svía muni koma Íslendingum vel, ákveði þjóðin að sækja um."
Eins og menn heyra sjálfir ef þeir hlusta á viðtalið, er þetta allt í viðtengingarhætti eins og kostur er. En ekki að mér finnist það skipta neinu máli, ég skil ekki glæpinn í málinu. Olli er auðvitað mjög jákvæður og ítrekar að umsókn okkar yrði tekið vel.
Vilhjálmur Þorsteinsson, 5.5.2009 kl. 01:37
Þetta innlegg frá Ómari Bjarkakemur engum á óvart, sem séð hefur hans EBé-hrifnæmu innlegg hist og her um netið.
En þetta sýnir vitaskuld, að hann ýmist nær ekki því, sem menn eru að ræða hér: hin óviðeigandi afskipti Rehns þessa af íslenzku ákvörðunarmáli, eða er svo blindaður á réttmæti þeirrar íhlutunar, að hann (Ómar) gerir sjálfan sig um leið ómarktækan sem álitsgjafa um þá hluti, sem varða þjóðarhagsmuni okkar.
Hláleg er lokasetningin: "Hann bendir líka á að Ísland eigi að gerast aðili sem fyrst til að koma að endurskoðun sjávarútvegsstefnunnar."
Ég er hræddur um, að Ómar þurfi að leggja heilann betur í bleyti um það, hver hlutur okkar yrði í löggjafarstörfum og annarri stefnumótun í Evrópubandalaginu:
Á Evrópuþinginu fengjum við í mesta lagi 5 þingmenn af 790 eða o,63%, og í ráðherraráði Evrópubandalagsins fengjum við þrjá ráðherra af 348 eða o,86%!
Þingmennirnir 785, sem nú sitja á Evrópuþinginu í Strassborg, hafa ekki einu sinni rétt til að bera fram eigin lagafrumvörp! – lagatillögur verða að koma utan að, frá hinni voldugu framkvæmdastjórn (og síðan eftir umfjöllun ráðherraráðsins) – sjá t.d. ágæta töflu um ákvörðunarferlið á bls. 29 í ritinu Tengsl Íslands og Evrópusambandsins. Skýrsla Evrópunefndar (forsætisráðuneytið, marz 2007).
Það stefnir allt í, að neitunarvald einstakra ríkja verði afnumið.
Ennfremur er reglan um hlutfallslegan stöðugleika á útleið eða er a.m.k. mjög ÓSTÖÐUG í sessi og alls engin grunnregla bandalagsins, sem Íslendingar geti reitt sig á.
Og jafnvel þótt hún hafi verið "regla", hefur gríðarlegt kvótahopp átt sér stað í bandalaginu, eins og dæmin frá England og Skotlandi sanna.
Jón Valur Jensson, 5.5.2009 kl. 01:39
Vilhjálmur heldur, að hann sanni mál sitt með því að grípa til glefsu innan úr viðtalinu.
En þar er um aðra setningu en þá, sem Rehn lét sér um munn fara og ég hef rætt hér ofar.
Fréttin á vef Rúv, http://ruv.is/heim/frettir/frett/store64/item263550/, byrjar nákvæmlega svona:
"Íslendingar ættu að nýta tækifærið meðan Svíar sitja í forsæti Evrópusambandsins og sækja um aðild, segir Olli Rehn, stækkunarstjóri ESB."
Jón Valur Jensson, 5.5.2009 kl. 01:44
Jón, skammaðu RÚV en ekki mig, þeir vitna greinilega rangt í orð Olla, sönnunargögnin liggja fyrir. Og þú lepur það upp eftir þeim og stekkur upp á nef þér yfir meintum skorti hans á diplómatíu. Dragðu frekar orð þín til baka, það er stórmannlegra.
Vilhjálmur Þorsteinsson, 5.5.2009 kl. 01:53
Viltu ekki reyna að skamma þá sjálfur, Vilhjálmur!
Mér er sem ég sjái þá sármóðgaða fyrir aðdróttun þinni um fölsun þeirra á textanum!
Ég hlustaði sjálfur á þetta á Speglinum og svo í Sjónvarpinu. Það er ekki nóg að benda á eina skilyrta setningu Rehns og láta eins og hún ein gildi, þegar hann talar afdráttarlaust í annarri.
Jón Valur Jensson, 5.5.2009 kl. 02:05
"... sármóðgaða yfir aðdróttun þinni" vildi ég nú (heldur syfjaður) sagt hafa.
Jón Valur Jensson, 5.5.2009 kl. 06:15
Títt nefndur stækkunnarstjóri er nú að öllum líkindum prívatpersóna líka svona inn á milli svo að menn séu nú ekki verið að rífast um það.
Hann hlítur sem stækkunar stjóri að eiga og meiga segja skoðun sína bæði sem stækkunarstjóri og sem prívatfígúra. Það þikir mér heldur slæm pólitík að segja ekki skoðun sína og eða reina að koma sjónarmiðum sínum bæði sem prívatdúkka og sem embættismaður til skila.
Það er nú líka hlutverk hans, að maður mindi ætla, að stækka þetta samband og þá er eðlilegt að hann líti til firirmindarlandsins Íslands og reini að selja þeim þessa hugmind (að ganga í bandalagið). Skárri væri það nú sölumenskan að reina ekki að gilla firir góðum kúnna...
Tumi Þór (IP-tala skráð) 5.5.2009 kl. 09:41
Lítilþægur Tumi Þór talar hér um prívatpersónu.
Hver hefur áhuga á því að vita um afstöðu einhverrar finnskrar prívatpersónu á stórmálum islenzkrar utanríkisstefnu?
Sumir afsaka manninn ennfremur (alltaf verið að afsaka hann) með því, að hann hafi ekki sagt þetta að eigin frumkvæði, heldur aðspurður af fréttamanni.
En leyfist Frakklandsforseta eða Spánarkóngi að segja hvað sem er, aðspurður af fréttamanni? Hefðu Bush verið fyrirgefnar ambögur, af því að hann var að svara einhverjum?
Hvorki Obama né Pútín né ráherrar þeirra hafa neitt leyfi til að segja okkur, að við eigum að ganga í þeirra ríkjasambönd. En þetta leyfir þessi Olli Rehn sér að að gera og örugglega ekki í óleyfi þeirra, sem með honum stýra Evrópubandalaginu. Það er líka í takt við framkomu þeirra hingað til, eins og við upplifðum hana í haust. Og þá sem nú var Samfylkingin sjúklega meðvirk og beitti sér beinlínis GEGN því, að við færum í mál vegna Icesave. Formaðurinn ISG kvað það "of dýrt", 200 milljónir króna (og ýkti svona típrósent), en jafnvel sú upphæð var innan við 1/3 af EINU PRÓ MILL af 640 milljarða króna upphæðinni!
Jón Valur Jensson, 5.5.2009 kl. 10:21
Jón, það hafa örugglega ekki margir gaman af þessu rexi okkar, en svo því sé til skila haldið, þá sagði Olli nákvæmlega bara setninguna sem ég vísa í, enga aðra, um þetta Svíamál. Allt annað er tilbúningur/ónákvæmni RÚV, og tilvitnun AMX er vísun í þann tilbúning. Ég veit ekki hvernig ég á að orða þetta skýrar, en þú finnur örugglega leið til að snúa út úr þessu, ef ég þekki þig rétt.
Vilhjálmur Þorsteinsson, 5.5.2009 kl. 10:51
Rosalega er gaman að lesa athugasemdir þeirra sem eru með ESB fælnina á ólæknandi stigi. Angistin leynir sér.
Finnur Bárðarson, 5.5.2009 kl. 12:14
Vilhjálmur: Gott að einhver nennir að leiðrétta ýkjur og rangfærslur á netinu. Annars er nánast tilgangslaust að rökræða við Jón Val þar sem aðeins eitt rétt sjónarmið ríkir, sem er hans, jafn vel þó maður geti sýnt fram á annað rétt eins og þú hefur gert. Svo virðist vera einhver ótrúleg þörf hjá manninum að skjóta einhverjum litlum móðgunum til þeirra sem eru ósammála honum í stað þess að rökræða málin eins og eðlileg manneskja.
Egill M. Friðriksson, 5.5.2009 kl. 13:53
Jahá, það er nefnilega það. Bara fjör í þessu hérna.
En svo ég svari nú spurningunnií fyrirsögn pistilsins um hvað Olli má segja skv. andsæðingum ESB - þá má hann segja "sameiginleg sjávarútvegsstefna ESB"
Þá er það eiginlega upptalið.
Ómar Bjarki Kristjánsson, 5.5.2009 kl. 14:47
Jæja, Vilhjálmur, hvernig gekk þér að "leiðrétta" þá á Rúvinu, og fannstu einhvern "sökudólg", og hvað ætlarðu að gera í málinu? Út með sprokið!
Jón Valur Jensson, 5.5.2009 kl. 15:01
Að taka eitthvað alvarlega sem er ritað á AMX.is er auðvitað ávísun á snemmbúna heilabilun, svo vitlaust er það sem kemur þar fram á fremsta fréttaskýringarvef landsins.
Jóhannes Birgir Jensson, 5.5.2009 kl. 17:49
Kári minn hættu að kveikja í þjóðinni. Vera bara næs. Þetta er einfalt: Ef þú talar íslensku máttu tala um aðild Íslands að erlendum klúbbum. Ef þú hefur vit á því, en talar útlensku -- sorry.
Annars verið að velta fyrir mér, hvað með ef þú hefur vit á þessu og talar íslensku, hvað þá? En gerði mér svo grein fyrir því að þetta er jaðartilvik og tímasóun að leysa það núna. Við verðum bara að refactora ef svo ólíklega vill til að einhver íslenskumælandi manneskja fer að reyna að skilja OG tala um ESB.
Hefur annars einhver Íslendingur kynnt sér hvernig alþjóðleg samskipti virka? Það nefnilega er stundum þannig að það sem er sagt sendir skilaboð sem eru kannski ekki á yfirborðinu. Hvað þýðir það t.d., sem evrópskir pótintátar eru að segja? Er etv. einhver hugsun á bak við þetta sem ristir dýpra en íslenskir hnéfantar skilja (sbr. e. knee-jerk...)?
En þjóðin sem gaf glæframönnum fjöregg sitt að borða er nú líkleg til að velja rétt. Best að gefa henni það val. Rétta mér saltið takk fyrir.
Sámur biður að heilsa
andri
...
andri (IP-tala skráð) 5.5.2009 kl. 19:13
Jón Valur: Stofnunin er oft nefnd Ríkisútvarpið sjónvarp. Skv. þínu skammstöfunarkerfi heitir það þá Rúvess.
Páll Geir Bjarnason, 6.5.2009 kl. 15:25
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.