20.9.2009 | 14:06
Sóun á auðlind?
Mikið er rætt um að spara auðlindir, endurnýta plastflöskur og dósir, og keyra ekki að óþörfu.
Í framhaldi af því datt kunningjakonu minni í hug að spyrja: Hvað er mikil eyðsla fólgin í því þegar nemandi flosnar upp úr námi af því honum var ekki sinnt sem skyldi í skólanum?
Það eru erfið viðbrigði fyrir marga að fara úr menntaskóla í háskóla. Margir kennarar vita vel að margir nýnemar eiga ekki erindi í háskóla og sinna þeim því hæfilega lítið, snúa við þeim baki í vissum skilningi.
Ef þeir eru ennþá til staðar eftir fyrsta árið líta þeir við og segja "Ertu hér ennþá? Best að fara að sinna þér".
Hvaða vit er í því að láta herdeildir af nemendum keyra yfir bæinn og fylla skólastofurnar í ár ef svo stór hluti þeirra hverfur hljóðlega út úr skólanum eftir það? Er hægt að gera þetta á hagkvæmari hátt og sem brýtur ekki niður sjálfstraust nemenda?
Kunningjakona mín telur að ef einhver hjá háskólunum fylgist með nýjum nemendum sem eru óstyrkir í byrjun og hefur samband ef þeir hætta að mæta í tíma megi koma í veg fyrir mikla óþarfa sóun. Margir geta lært en þurfa "verndarengil" sem sýnir þeim að öllum stendur ekki á sama um þá.
Athugasemdir
Þú setur puttann á slagæð þarna, Kári. Spurningin er náttúrlega bara hvort slagæðin er einstaklings eða þjóðar, einkaaðilila eða sameign okkar allra.
Ég hef haft á tilfinningunni að þeir sem sinna sameiginlegum málum okkar finnist eðlilegasta mál, að velta fjárhagsvanda sínum á einstaklinga. Dæmi um það eru t.d. strætisvagnasamgöngur, smíð reiðhjólastíga og "númerus klásus" í formi þess sem þú lýsir hér fyrir ofan. Eða með öðrum orðum:
Af hverju ætti ég að setja fé stofununarinnar (sem er af skornum skammti) í verkefni sem einstaklingurinn getur vel borgað? Sem er þá eigin farskjóta, einkabíll og skólaganga.
Afleiðingin er sú að "eðlilegt" er að hafa byggðina dreifða og of fáa hjólavegi, gangstéttir og strætisvagna. Eðlilegt er talið að einstaklingurinn falli án aðstoðar í vegkanntinn, flosni hann úr námi á fyrsta ári.
Eða með orðum Werner von Braun:
Vissulega er það kaldhæðin yrðing, en leiðinlega nákvæm. Leyfi mér að umorða hana og set mig í stól þess sem rekur skóla fyrir takmarkað fé.
Ég gef mér að til staðar séu námsráðgjafar, námslán og upplýsingar um hvernig á að nálgast þessa hluti.
Carlos Ferrer (IP-tala skráð) 20.9.2009 kl. 15:38
Verndarengillinn er vissulega góð hugmynd, spurning hvort hægt er að leysa hana þannig að hún kostar skólann ekkert annað en fyrirhöfn en ekki peninga. T.d. með jafningjastuðningi (tutorar), sem metin er til eininga.
Carlos Ferrer (IP-tala skráð) 20.9.2009 kl. 15:42
Sammála. Ég held að einhver innan skólanna sem færi að berjast í þessu fengi ekki neina umbun í virðingu eða peningum. Nemendafélagið gæti eins vel sinnt þessu og skólinn sjálfur. Grundvallarspurningin er "ber mér að gæta bróður míns?" Þetta breytist sennilega ekkert.
Mér finnst aðallega athyglisvert að varpa þessu fram út af þessari tízku að fara vel með auðlindirnar.
Kári Harðarson, 20.9.2009 kl. 16:19
Reyndar hafa kennarar mínir í Menntavísindadeild HÍ áhyggjur af brottfalli nemenda úr framhaldsskólum. Rannsóknir sýna að fjölgun nema og auknar væntingar leiða til þess að fleiri reyna að læra en hafa forsendur til ... þær forsendur breytast síðan hjá sumum þeirra sem detta út seinna á lífsleiðinni. Þessvegna er fjarnám m. a. svo mikið notað. Fólk reynir að vinna upp það sem það réð ekki við fyrr á lífleiðinni.
Er það tíska að fara vel með auðlindirnar? Ég veit ekki betur en besta leiðin til að auka skilvirkni og hagkvæmni í rekstri er að minnka umfang þess sem fellur brott ónotað. Í veitingahúsarekstri er það matvæli sem lenda í sorpinu. Í bankarekstri peningum sem er sóað. Í mannahaldi er það missir fólks sem fyrirtækið hefur haft fyrir að þjálfa til starfa.
Ég held að við verðum að læra þá list, að vera sparsöm. Ekki vegna tískustrauma heldur vegna hagkvæmninnar.
Carlos Ferrer (IP-tala skráð) 20.9.2009 kl. 18:19
Sæll Kári.
Pistlar þínir upp á síðkastið hafa verið ansi skemmtilegir. Greinilegt að sumir eflast við efnahagslegt mótlæti umhverfisins.
Nokkrar skoðanir/punktar varðandi skólagöngu, engla, oþh.
Það er nokkuð seint í rassinn gripið, held ég, að fara að englast yfir 20 ára fólki. Það væri öllu nær að skerpa oddinn í menntakerfinu fyrr. Það virðist vanta að skilgreina af hverju fólk fer í skóla. Amk. er ábyggilegt að það er ekki í framhaldsskólum til að læra. Námsefnið þar (nema mikið hafi breyst) er 2 ár, dreift yfir 4 ár. Það eru því mikil viðbrigði að koma í háskóla þar sem hraðinn getur verið 2-3x það sem var í framhaldsskóla.
Svo er þetta með að hleypa öllum inn. Til hvers? Er óeðlilegt að þeir sem vilji mennta sig sýni að þeir hafi lagt á sig vinnu, hafi til þess þroska, séu þokkalega greindir, etc.? Vandamálið um þessa auðlind, mannauðinn, er að Íslendingar sýna henni álíka mikla virðingu og öðrum auðlindum. Þeas., ekki mjög mikinn.
Svona að lokum. Þá væri ekki úr vegi að kenna gagnrýna hugsun, siðferði, og jafnvel mannasiði í íslenskum skólum. Kæmi kannski í veg fyrir næsta hrun.
Andri
Andri Haraldsson (IP-tala skráð) 21.9.2009 kl. 01:06
Í mörgum löndum eru inntökupróf í Háskóla. Mér finnst það mun eðlilegri og mannúðlegri leið en t.d. klásuskerfið var sbr. læknadeildina forðum þar sem nemendur lærðu á fullu í heilt ár jafnvel á námslánum aðeins til að falla á fyrsta ári, ekki vegna þess að þeir væru lélegir námsmenn heldur vegna þess að aðeins 10% komust í gegn, þ.e. þeir sem voru með allra hæstu einkunnirnar.
Ég leyfi mér að efast um að slíkt kerfi framleiði endilega góða lækna. Það framleiðir hinsvegar án efa fólk sem kann að læra undir próf.
Róbert Badí Baldursson, 21.9.2009 kl. 10:10
Það þarf bara að hætta að markaðssetja háskólanám sem einu leiðina út á vinnumarkaðinn. Það er hræðsluáróður í gangi.
Jökull (IP-tala skráð) 21.9.2009 kl. 15:41
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.