20.10.2009 | 10:01
Ef mín starfsgrein væri aðeins eldri...
Ég ólst upp við suðið í tölvu móður minnar þegar hún sat í stofunni heima og forritaði. Faðir minn var úti í tölvuveri og sinnti búverkum, afritatöku og uppfærslum.
Einu sinni í viku kom pósturinn inn dalinn, sótti nýjustu viðbæturnar sem skrifaðar höfðu verið og skildi þá gjarnan eftir einhvern bitling á pallinum í staðinn, lítinn tölvuleik eftir hagleiksmann að vestan eða annað viðbit.
Ég hef alist upp við íslenska hugbúnaðargerð og tel að hún sé ein af máttarstólpum lífs á landinu. "Forritari er netþjónabústólpi, netþjónabú er landstólpi" orti skáldið. "Þar sem tveir forritarar koma saman, þar er hugbúnaðarhús" sagði þingmaðurinn.
Við íslendingar höfum borið gæfu til að hlúa að hagsmunum forritarastéttarinnar og leyfa ekki ótakmarkaðann innflutning á erlendri hugbúnaðarvöru. Hugbúnaðarráðuneytið hefur verið ómissandi þáttur í að gæta vegferðar íslensku þjóðarinnar.
Ef þessum vörnum hefði ekki verið komið við er ekki víst að íslenska væri töluð á íslandi í dag. Erlend ritvinnsluforrit styðja ekki við íslensku og henta ekki fyrir íslenskar aðstæður.
Öðru máli gegnir um þau ritvinnsluforrit íslensk sem skrifuð hafa verið hér og seld af forritasamsölunni um árabil. Hún er í eigu hugbúnaðarhúsa og sér um að safna saman uppfærslum og dreifa þeim til neytenda sem og að standa að vöruþróun. Núna nýlega setti hún á markað leikinn "Sokkaplaggaflokkarann" sem er íslenskuð útgáfa af leik sem er kallaður "Tetris" og er seldur í útlöndum.
Ég skrifa pistil núna í tilefni af því að nú á að leyfa innflutning á nýju erlendu stýrikerfi, Windows 7. Ég er sannfærður um að þetta yrði óheillaspor.
Íslenska stýrikerfið Iðavellir sem við notum öll í dag er sameiningartákn þjóðarinnar og dæmi um íslenskt handverk eins og það gerist best. Að vísu vantar stuðning við grafík og mýs en þetta eru einmitt dæmi um óþarfann sem við fengjum fyrir dýrmætann gjaldeyrinn.
Ég skora á ráðamenn að leyfa ekki þennan innflutning. Hann mun ganga af íslenskri forritarastétt dauðri.
Meginflokkur: Tölvur og tækni | Aukaflokkur: Spaugilegt | Breytt s.d. kl. 10:06 | Facebook
Athugasemdir
Góður Kári!
er myndin af forritunaraðstöðu móður þinnar ?
birna, 20.10.2009 kl. 11:30
Fín grein Kári. Myndin er jafnvel frá því fyrir daga heimilistölvunnar.
Svona ritvélar voru samt ágætar.
Sæmundur Bjarnason, 20.10.2009 kl. 13:48
Flott grein Kári
Bjössi
Björn Hermannsson, 21.10.2009 kl. 14:17
Vel gert, og frábær mynd af "Steampunk" tölvunni. Hér er önnur.
Carlos Ferrer (IP-tala skráð) 31.10.2009 kl. 07:35
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.