Anger management

Ég ræddi við félaga minn um að minn væri hugur þungur vegna "ástandsins" á Íslandi.

Hann sagði að þunglyndi væri reiði sem ekki væri búið að vinna úr.

Ég sagði þá að það væri stjórnleysi og frumstætt að sýna reiði (ég las það í "Art of War" eftir Sun Tzu).

Hann sagði þá að ég væri eitthvað að misskilja bókina, maður ætti að virkja reiðina því annars æti hún mann upp innanfrá.

Ég ólst upp við að reiði væri eyðileggjandi kraftur, nánast ein af dauðasyndunum, en hann sagði að þannig þyrfti hún ekki að vera.  Ef hún breytist í heift er hún orðin eyðileggjandi, ekki fyrr.  "Þó nokkuð til í því" hugsaði ég.

Þegar ég hjólaði í vinnuna í morgun svínaði bíll í veg fyrir mig.  Reyndar var það ekki bíllinn heldur ökumaðurinn.

Mannleg samskipti brotna niður þegar fólk ferðast í bílum.  Maður á gangi sem rekst harkalega utan í einhvern biðst afsökunar, en þessi sami maður stoppar ekki nauðsynlega bílinn og biðst afsökunar ef hann brýtur á öðrum ökumanni.

Á venjulegum degi hefði ég bölvað í hljóði og haldið áfram og geymt þessa lífsreynslu með öðrum súrum kögglum, en af því ég var nýbúinn að vera að hugsa um þetta með reiðina ákvað ég að elta bílinn.  Hann lagði í stæði stuttu síðar.

Ökumaðurinn opnaði hurðina hálfskelfdur, sýndist mér.  Ég spurði með þjósti: "sástu mig ekki?"  "Nei, fyrirgefðu" kom svarið.  Aha!  Fyrirgefning.  Ég bráðnaði á staðnum, sagði "allt í lagi" og hjólaði í góðu skapi í vinnuna.

"Anger management" dagur 1.  Lærdómur dagsins:  Elta þá - en ekki drepa þá.

Byrja á þeim sem svína í umferðinni og svo "baby steps" þangað til maður er farinn að fá beiðni um fyrirgefningu frá útrásarvíkingum og flokksgæðingum.

 

PS:  Ég held það væri sniðugt ef hægt væri að hringja í bílnúmer.  Ég er með RJ875.  Ef hringt væri í 1-500-RJ875 fengist símsamband við mig.  Þú gætir þá sagt mér að það væru ljós á bílnum, ég væri með lint í afturdekkinu, nú eða að ég hefði svínað fyrir þig.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þyrfti sú gamla ekki að athuga sín mál?  Eða ekki...

http://www.youtube.com/watch?v=UPlITw1YPj0&feature=player_embedded

Kolbrún (IP-tala skráð) 5.11.2009 kl. 11:25

2 Smámynd: Jóhannes Reykdal

Pant ekki láta hringja í bílinn minn. Road Rage er nógu slæmt fyrir.

Jóhannes Reykdal, 5.11.2009 kl. 13:33

3 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

ekki galin hugmynd að geta hringt í bílnúmer. gæti þó orðið snúið að gera greinarmun á RJ875 og SL875, þar sem RJ og SL hafa bæði tölugildið 75

Brjánn Guðjónsson, 5.11.2009 kl. 13:37

4 Smámynd: Offari

 Á ég þá að reiðast til að losna við þunglyndið sem hefur hrjáð mann frá hruni?

‹Missir stjórn á skapi sínu›

Offari, 6.11.2009 kl. 01:15

5 Smámynd: Einar Indriðason

Eru svona "1-500-númer" ekki oftar en ekki "heitar línur" í USA?

Einar Indriðason, 6.11.2009 kl. 08:57

6 Smámynd: Kári Harðarson

Offari, þú spyrð eins og ég spurði.

Skv. viðmælanda mínum ert þú reiður nú þegar, en hefur ekki fundið reiðinni farveg.

Áttu að sýna reiðina?  Já!

Kári Harðarson, 6.11.2009 kl. 10:43

7 identicon

Fyrirgefðu er töfraorð.  Reiði er orka/kraftur/eldur sem við skulum nýta til að lýsa en ekki brenna. Takk fyrir skrifin.

Erna Valdís (IP-tala skráð) 16.11.2009 kl. 11:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband