30.11.2009 | 09:50
Um bætiefni
Man einhver eftir STP límmiðunum? Slatti af þessum límmiðum endaði á hnökkum á Raleigh Chopper hjólum hér og þar um bæinn þegar ég var strákur. Krakkar fóru á bensínstöðvar og sníktu þessa miða. Ég komst seinna að því hvað þetta fyrirtæki seldi.
Það seldi (og selur enn) bætiefni í bensín sem eiga að gera bílvélar kraftmeiri. Það þurfti að borga hálfa milljón dollara í sekt árið 1978 fyrir að vera með rangar auglýsingar, fullyrðingar sem þeir gátu ekki staðið við -- þeir voru aftur sektaðir um 0,8 milljónir dala árið 1995 út af sömu ástæðu. Þeir selja ýmislegt gagnlegt en hluti af vörulínunni átti semsagt að auka hestöfl bílvéla umfram það sem sennilegt gat talist. Í dag held ég að flestir sem vilja kraftmeiri vél í bílinn kaupi sér kraftmeiri bíl.
Þetta rifjaðist upp fyrir mér þegar ég heyrði um konu sem lifir nánast á Herbalife dufti og hleypur öllum stundum.
Herbalife selur ýmislegt gagnlegt. Fólk þarf prótein og ef það velur að borga fyrir sojaprótein frá Bandaríkjunum í stað þess að kaupa íslenskt skyr ætla ég ekki að mótmæla. Mig grunar samt að sumir eigni þessu dufti eiginleika sem það getur ekki staðið undir.
Það bættist nýr meðlimur í hlaupahópinn, venjuleg kona sem borðaði venjulegan mat og hafði ekki hlaupið mikið áður. Hún reyndist hins vegar eiga mjög auðvelt með hlaup af Guðs náð, og var orðin betri en Herbalife konan eftir nokkrar vikur á hlaupum. Sagan hermir að þetta hafi fengið mjög á duftætuna.
Ég veit að mér þætti það mjög svekkjandi að hafa borðað nánast ekkert nema duft og komast svo að því að fólk er bara misjafnlega vel gert - eins og bílvélar.
Athugasemdir
Takk fyrir upprifjunina, Þeir liggja margir kílómetrarnir hjá mér Chopper hérna í gamla daga. (Einhvern veginn var þetta hjól miklu flottara í minningunni en myndin sýnir).
Steinarr Kr. , 30.11.2009 kl. 10:28
Sagan af Naglasúpunni er fyrsta dæmið um svona lagað, og svo eru líka Nýju fötin keisarans hluti af slíkum dæmisögum af blekkingum. Það eru kallaðar Lyfleysur öll þau efni sem fá fólk til að upplifa heilsubót (til dæmis með því að sofa með tiltekinn steinn undir koddanum). Ætli sé ekki best að miða við það að innbyrða hóflega bæði mat og drykk? Þá getur maður hlaupið alveg út í eitt!!
Flosi Kristjánsson, 30.11.2009 kl. 10:55
Herbalife proteinblandan er framleidd í Jiangsu héraðinu í Kína. Önnur Herbalife náttúrlyfjan er einnig framleidd þar. Kínverjar eru þekktir fyrir sínar árhundruði langa þekkingu og framleiðslu á 'náttúrlegum' heilsuvörum.
Hvort það hafi einhver áhrif á líkamann er annað. Það þarf hver og einn að mæla sjálfur.
Já, chopperinn var 'stíll' og ekki gleymir maður STP miðunum heldur. Chopperinn kom skömmu eftir að skipt var yfir í hægri umferð en mig minnir að STP miðinn hafi komið á sama tíma og hægri umferðin.
nicejerk (IP-tala skráð) 30.11.2009 kl. 20:44
Sæll frændi, ég fékk netta nostalgíu við að sjá Chopper hjóli, átti svona og þegar ég eignaðist hondu 50 árið 1973, var stýrið tekið að reiðhjólinu og soðið á honduna, hnakknum á hondunni breytt í svipaðan stíl með jafnvel hærra baki, gafflarnir lengdir, pústið hreinsað út og svo brunaði maður á þessu hjálmlaus um allar trissur í ómeðvituðum kamakazi leiðangri ;)
Enginn skortur á STP límmiðum, var með svoleiðis á veggnum hjá mér í herberginu þar sem ég safnaði límmiðum lengi vel á barna og unglingsárunum ;)
P.S ef þú ert eitthvað að velta fyrir þér frændakveðjunni, þá er ég Sifjarson.
Ólafur í Hvarfi (IP-tala skráð) 1.12.2009 kl. 17:20
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.