Þegar góð fyrirtæki tapa áttum.

Ég hef rakað mig með Gillette rakvélum síðan ég man eftir mér. Gamla skaftið var úr málmi, ég átti það í mörg ár og keypti bara ný rakvélarblöð en sá að þau urðu áberandi dýrari með árunum.

Nýlega hættu blöð að fást í gamla skaftið svo ég keypti nýtt skaft. Það var forljótt og líktist meira einhverju úr morgunkornspakka, eða Legokassa en ég lét mig hafa það af því ég treysti Gillette.  Inní því var titrari og Duracell batterí, þetta átti að gera raksturinn betri.


gillette_m3_power.gif

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Nokkrum mánuðum síðar brotnaði skaftið í tvennt. Það var úr plasti og holt að innan. Þarna er þá kominn þessi "Planned Obsolence" sem er svo mikið í tísku nú á dögum, ekkert má endast.

Ég raka mig nú með hálft skaftbrot og lít í kringum mig eftir nýrri rakvél. Gillette er með aðra nýja rakvél.  Rakvélarblöðin kosta eins og brennivín og ég efast um að skaftið sé endingarbetra.


fusion.jpg

 

 

 

 

 

 

Rakvélarblöðin hjá Gillette verða dýrari og dýrari.  Eftir margra ára forystu á markaði er Gillette loksins að missa markaðshlutdeild því neytendur eru farnir að átta sig á því að fyrirtækið er að blóðmjólka þá.  Sjá grein hér.

Fyrrverandi forstjóri fyrirtækisins, Jim Kilts seldi það árið 2005 til Procter & Gamble fyrir 57 milljarða dollara og hætti sjálfur með fúlgur fjár.  (Sama fyrirtæki selur Braun, Oral-B og Duracell).  Það virðist vera yfirlýst stefna núna hjá þeim að vera með dýrar og mikið auglýstar vörur. 

Fjöldaframleiðsla er frekar þekkt verkefni núna á 21. öldinni.  Rakvélarblað ætti að kosta álíka mikið og ró og bolti út í Brynju, svona 70 kr. stykkið.  Gillette blöðin kosta nú 440 kr. stykkið í Bandaríkjunum og 700 kr. hér.  Þetta er því ekki bara íslenskt okur aldrei þessu vant því framleiðslukostnaður er um 8 cent stykkið fyrir Gillette.

Ég veit að rakvélarblöð eru ekki stærsti kostnaðarliðurinn á heimilinu en mér líkar samt ekki að láta hafa mig að fífli.

Ég ætla því að leita að rakvél sem endist betur, kostar minna og lítur ekki svona fíflalega út inná baðinu.

merkur_39c.jpg

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

PS:  Ég sá að Dr. Gunni hefur skrifað um þetta sama efni.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég hef oft velt því fyrir mér afhverju þessar sköfur eru kallaðar vélar. 

Jóhann Ólafsson (IP-tala skráð) 1.12.2009 kl. 18:03

2 Smámynd: Haukur Nikulásson

Kári, konan keypti líklegast í Europris poka af Gillette Blue II Plus sem eru einnota blöð með áföstu skafti. Ég mæli með þessu. Auk þess hef ég góða reynslu af einnota BIC tveggja blaða grænum rakvélum. Í mörg ár lét ég mig hafa þessar appelsínugulu eins blaðs raksköfur frá BIC sem mér þótti bara ágætar á þeim tíma.

Ég er viðkvæmur í húðinni og raka mig ekki fyrr en ég er búinn að hita á mér andlitið.

Haukur Nikulásson, 1.12.2009 kl. 18:09

3 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Takk fyrir þetta Kári. Mikið satt og rétt hjá þér.

Hér í DK þarf maður að koma eins og glæpamaður að búðarkassanum og biðja um rakvélarblöð því þau eru falin fyrir viðskiptavinum verslana því einhverjir hafa stolið þessum varningi sem maður nú borgar 3360 ISK fyrir (4 blöð). Svo þegar maður fær 10 sekúndur til að ákveða sig (það bíða jú 20 í röðinni fyrir aftan mann) þá gefst maður upp því ekki er lengur hægt að sjá hvað er í pakkanum. Maður fer helst tómhentur heim og brýnir gamla hnífinn.

Svo er bara til eitt merki, Gillette (hljómar nú orðið eins og nicorette).

Takk fyrir kaffið 

Kveðjur 

Gunnar Rögnvaldsson, 1.12.2009 kl. 19:01

4 Smámynd: Anton Þór Harðarson

prufa að panta héðan, http://www.dealextreme.com/search.dx/search.gillette 

Gillette Mach3 4 blöð 8,73$ með sendingarkostnaði, hef sjálfur verslað þarna án nokkura vandræða, veit að vísu ekki hverning þetta kemur út  til íslands, en mjög vel hingað til noregs

Anton Þór Harðarson, 1.12.2009 kl. 19:07

5 Smámynd: Theódór Gunnarsson

Þetta eru orð í tíma töluð.  Ég hef heilmikið velt þessu fyrir mér undanfarin ár, en ég hef ekki enn látið mig hafa það að gefa bara skít í Gillette.  Það hefur hinsvegar leitað meira og meira á mig í seinni tíð.  Þetta gengur svo augljóslega út á að vera sífellt að fá mann til að skipta um skaft og um leið að gera blöðin dýrari.  Hver er t.d. tilgangurinn með þessum titrara?  Ég veit að samkvæmt teóríunni á titringurinn að valda hreyfingu til hliðanna á meðan rakað er, og þar með að aðstoða blöðin við skurðinn, en ég finn engan mun hvort kveikt er á titraranum eður ei.  Svo veit ég ekki hvar þetta endar með blaðafjöldann.  Einhver hefði nú haldið að 2 væru nóg, en nú eru þau orðin 5.  Verða þau 10? Þetta er bara fáránlegur skrípaleikur.

Því verður ekki neitað að þessir náungar kunna að spila á viðskiptavinina.  Mér fannst t.d. alveg frábært þegar Gillette gerði konur að jafnáköfum kaupendum og karlar eru.  Þeir matreiddu nákvæmlega sama dæmið þannig að konur gætu hugsað sér að kaupa það líka, bara með því að hafa draslið í kvenlegum litum t.d. bleikt, og breyttu skaftinu þannig að konunum gæti fundist að þær væru að kaupa eitthvað allt annað.  Síðan hefur hefur ekki þótt viðeigandi að konum vaxi hár annarsstaðar en á kollinum.

Theódór Gunnarsson, 1.12.2009 kl. 21:43

6 identicon

Í umræðum hér að ofan og á vef dr. Gunnar er tvennt sem stendur upp úr:

1. hátt verð á rakvélablöðum.

2. umræða um lítinn endingartíma rakvélablaða.

Um ástæðu fyrir nr. 1 , því að á Íslandi eru fyrst og fremst í boði rakvélablöð frá Gillette og þau dýr hlýtur að vera í fyrsta lagi að samkeppni á sér ekki stað á þessum markaði á Íslandi (ekkert nýtt í þeim efnum, þ.e. enginn hefur ja þar til nú séð sér hag í að selja vöruna ódýrar, eða finna ódýrari vöru og geta þar af leiðandi selt hana ódýrar. Í öðru lagi að við hér á klakanum, og þá sérstaklega karlar, erum lélegir neytendur, það hafa ekki nægilega margir látið í sér heyra, nú eða boycottað Gillette, safnað alskeggi og mótmælt í fjölmiðlum hái verði, gegnum neytendasamtökin o.sv.frv.

Hvað varðar lítinn endingartíma rakvélablaða þá er mín reynsla að ef ég notast EKKI við raksápu frá Gillette hvaða nafni sem hún nefnist þá endist Gillette rakvélablað 20 X LENGUR! Nú almennt sleppi ég raksápunni, og raka mig strax eftir bað eða hausþvott.

 Engu að síður blöskrar mér þeir peningar sem ég eyði í blöðin, Gillette og smávöruverslanirnar, og mun því skoða að rölta við hjá Torfa rakara hjá Hlemmi og nálgast gamaldags blaðarakvél, jafnvel leita uppi gamla góða hnífinn og slípigræjurnar. Svo fæst gamli góði Wilkinsson víst í Fjarðarkaupum og víðar þessa dagana.

Ingimundur Stefánsson (IP-tala skráð) 2.12.2009 kl. 10:15

7 Smámynd: Einar Jón

Ég nota oftast Mach 3 með titrara, en á "heimili nr. 2" er ég með titraralausa Mach 3 sem ég nota af og til. Mér finnst ég miklu fljótari með titraranum, og þarf ekki að fara eins oft yfir sama svæðið til að ná síðustu stubbunum.

Síðast keypti ég 8 blöð í maí 2008, og á ennþá um helminginn ónotaðan (þó að ég noti Gilette raksápu), svo ég hef aldrei skilið menn sem kvarta yfir endingu. Ég held að málið sé að sápan og stubbarnir harðna á milli blaðanna, sem gerir þau gjörsamlega ónothæf eftir nokkra rakstra nema þau séu skoluð almennilega eftir hvern rakstur...

En þar sem ég bý get ég fengið rakstur með sköfu á 15 rúpíur (40kr). Þeir nota Old spice raksápu úr túbu, bursta og gamaldags rakhníf. Útkoman er ekki síðri en með Gillette.

Einar Jón, 2.12.2009 kl. 16:21

8 identicon

Ég nota Mach 3 og birgði mig upp fyrir kreppu og keypti þá 36 sköfur í einni ferð í útlöndum. Það var fyrir 2 árum og ég held ég sé ekki búinn að klára helminginn af þessum sköfum ennþá. Þrátt fyrir endinguna þá er 700kr/skafan brálæðislegt verð. Ég þarf því að finna mér aðra lausn þegar birgðirnar klárast.

En ég er löngu hættur að nota Gillette raksápu. Hef lengi vel keypt Barberskum sem kostar mjög lítið og virkar vel. Hér í Danmörku kaupi ég það í Nettó, en á Íslandi fæst það í einhverri matvörukeðjunni en man ekki hverri.

Árni Richard (IP-tala skráð) 2.12.2009 kl. 17:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband