16.12.2009 | 13:31
Sjálfvirkni / stjórnleysi
Ég keypti kort í ræktina og bað um að mánaðargjaldið yrði greitt með beingreiðslum á reikning sem ég er með hjá Glitni.
Mánuði síðar kom bréf frá World Class um að gjaldið hefði ekki verið greitt, 72 krónur í dráttarvexti - og 900 kr. innheimtukostnaður. Það stóð líka : Ef skuld þín verður ekki greidd verður hún send Intrum Justitita til innheimtu.
Skemmtileg byrjun á viðskiptasambandi eða hitt þó heldur.
Ég fékk að vita reikningsnúmerið. Það kom í ljós að ég hafði gefið upp númer á vitlausum bankareikningi, reikningi sem ég á en er ekki með innistæðu. Nóg af peningi á hinum reikningunum, bara ekki þessum ákveðna reikningi.
Tölvan hjá World Class hafði reynt að tala við tölvuna hjá Glitni, Glitnistölvan sagði að peningurinn væri ekki til. "Computer says no" eins og þeir segja í Little Britain.
Ég hringdi í World Class og spurði um sundurliðun á þessum 900 krónu kostnaði. Svarið var: Reyndar er bréfið ekki frá okkur heldur frá Intrum Justitia, allt sem greiðist ekki strax fer þangað sjálfkrafa. 900 kr. er hámarkið sem má rukka skv. lögum. Ef ekki hefði verið fyrir þessi lög hefðu þeir getað krafist 170 þúsund króna væntanlega, óútskýrt og ósundurliðað?
Sannleikurinn var þá sá að skuldin var þegar komin til Intrum Justitita þótt þetta væri fyrsta aðvörun til manns sem er nýkominn í viðskipti og ósköp eðlileg skýring á öllu saman. Hótunin var semsagt þegar komin í framkvæmd.
Næst hringdi ég í þjónustuver Glitnis og sagði: Mér skilst að gerð hafi verið tilraun til að taka út af reikningi hjá mér en innistæða hafi ekki verið til fyrir úttektinni. 1) Af hverju mátti World Class reyna að taka út af reikningi hjá mér án þess að þið hefðuð samband við mig, ég hef ekki undirritað leyfi (sem ég hefði vitaskuld gert, en rétt skal vera rétt) og 2) af hverju var ég ekki látinn vita að misheppnuð tilraun til úttektar hefði verið gerð?
Svarið: "Við getum látið vita með SMS ef innistæða fer niður fyrir ákveðin mörk en við getum ekki látið sjálfkrafa vita ef misheppnuð úttektartilraun er gerð. Þetta er náttúrulega góð hugmynd, ég skal koma henni áleiðis".
Mig grunar að Glitnir geti ekki látið vita af svona úttektartilraunum vegna þess að millifærslurnar eru framkvæmdar af reiknistofu bankanna sem er óguðlegt sameignarfyrirtæki allra bankanna með tölvubúnað frá sjötta áratugnum ef marka má lengd skýringartexta sem má fylgja millifærslum, það eru víst sex bókstafir, finnst öðrum en mér það vera grunsamlega stutt skýringarsvæði?
Önnur skýring er að allir í bankakerfinu græða á að hafa þetta svona, FIT gjöld eru annað dæmi um þetta sama fyrirbæri. Ég er hættur að nota debetkort því ef ég nota það og innistæða er ekki fyrir hendi kemur þúsundkall í sekt, jafnvel oft sama daginn.
Þetta er tölvuvæðing sem er stjórnlaus. Það liggur við að ég vilji loka netbankanum og skipta yfir í ávísanir. Mér finnst ég hafa misst stjórnina á mínum fjármálum þegar fyrirtæki út í bæ mega sjálf skammta sér peninga svona og rukka sektir fyrir eitthvað sem er ekki einu sinni skilgreint.
Hefði ekki verið nær að hafa sektina upp á 20 milliwött eða 4 míkrósekúndur, eitthvað sem tölvur nota en ekki menn?
Mig grunar að Icesave sé svoldið tengt svona misheppnaðri sjálfvirkni, bara í stærri stíl. Tölvubransinn er ekki saklaus þarna.
Meginflokkur: Tölvur og tækni | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Það er reyndar svo að latir, lélegir eða vitlausir forritarar geta sett öllum skorður. Hérna er auðvelt að benda á að stærð aðal-nafnasvæðis í Þjóðskrá er enn 31 stafur (mér skilst að til sé lengra svæði sem er til innanhúsnota eingöngu).
Í HR var okkur kennt að best væri að nota kennitölur sem frumlykla í viðskiptamannakerfum, þannig að hvort sem ég tek bókasafnsbók, fer með bíl á verkstæði, tek DVD-disk eða legg inn pöntun á sleikjó þá er það kennitalan mín sem ég þarf að gefa upp. Menn hafa rökrætt um þetta varðandi opacity or obscurity þar sem SSN í Bandaríkjunum er algjört einkamál sem veldur miklum vandræðum ef einhver annar kemst að, á meðan að kennitölufaraldurinn hér heima er þannig að hver sem er getur komist að kennitölu hvers sem er en þó ekki afrekað jafn alvarlega hluti með þá þekkingu.
Svo eru það hjálplegu forritararnir sem setja inn alls konar tékk til þess að passa upp á að rétt sé slegið inn, með þeim afleiðingum að 17 ára mæður geta ekki verið skráðar mæður barna sinna í kerfinu þar sem villumeldingin "Er of ung til að vera skráð móðir" dúkkar upp. Ef starfsfólkið er heppið getur það skráð ömmuna sem forráðaaðila barnsins og hefur athugasemdasvæði þar sem það getur skrifað "Gunna Gunns er reyndar mamman en er ekki orðin 18 ára".
Svo eru það snillingar eins og sá sem skrifaði Dominos-SMS kerfið, einhver gaf upp rangt númer þar í fyrndinni með þeim afleiðingum að frúin mín fær SMS í hvert sinn sem viðkomandi pantar pizzu. Dominos segjast ekki hafa tól til að finna númerið í kerfinu sínu sem bendir til þess að viðmótið sé ekki með leitarmöguleika, sjálfur ætla ég að bjóðast til þess að mæta á staðinn og keyra stutta SQL-scriptu til að losna undan þessu böggi.
Á hverjum degi getur maður því rekist á það að þurfa að gefa kennitölu sína til ókunnugra til þess eins að fá aðgang að einhverju lítilfjörlegu, rekist á það að villutékk eru að breyta sannleikanum þannig að móðirin er ekki lengur móðir, aðeins annar forráðamaður foreldra sem eru með 50% forráð er skráð foreldrið og svo videre og videre.
Þeir sem hanna kerfin (virkni og viðmót), forrita og prófa ættu að mæta á staðinn og spyrja starfsfólkið nánar út í málin og vera tilbúin að leiðrétta.
Computer says no er aldrei gild afsökun fyrir því að gera fólki lífið erfiðara.
Höfundur er sérstakur áhugamaður um gögn, viðmót og samspil manns og kerfa
Jóhannes Birgir Jensson, 16.12.2009 kl. 14:01
Það rifjast upp fyrir mér þegar fyrstu mótöldin komu á markað (Hayes) sem gátu hringt sjálf. Áður þurfti notandinn sjálfur að hringja og setja mótaldið í gang þegar sónninn á hinum endanum heyrðist.
Póstur og sími bannaði þessi mótöld í mörg ár á þeim forsendum að tölvur gætu óvart hringt í vitlaus númer og skapað ónæði. Mér fannst þeir vera steinaldar fyrirbæri en það var sannleikskorn í þessari forsjárhyggju...
Kári Harðarson, 16.12.2009 kl. 14:09
Það er margt skrýtið. Ef maður biður um greiðsluseðil og gamaldags aðferð við að fylgjast með segja sumar stofnanir það frekar óeðlilegt og fólk sem komið er á efri ár upplifir sig sem öðruvísi en það sem talið er eðlilegt og þetta sama fólk hefur oft ekki átt kost á að læra á tölvu.
Svo koma greiðsluseðlar frá bönkum sem maður er margbúinn að afpanta, vegna mánaðarlegra millifærslu. Gjaldið fyrir þessa seðla verður maður að borga eða gera meiriháttar mál úr því til að sleppa við það. Hver skilur kerfið? Hvað þá gamla bankakerfið?
Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 16.12.2009 kl. 14:49
Þetta er ástæða þess að ég nota orðið nánast einungis seðla og oftast Kreditkort... það er ekkert færslugjald á kortið og fer aldrei á fit, auk þess að halda peningum á bankavöxtum fram að gjaddaga kredits... nú og síðan nota ég einnig kreditkort hjá World Class...
Intrum... fit og aðrar afætur er ekki fyrir venjulegan mann að umbera ;)
Ólafur í Hvarfi (IP-tala skráð) 16.12.2009 kl. 16:11
Jóhannes. mér finnst konan þín eigi að gera kröfu að fá afhentar allar þær pizzur sem henni hefur, sannarlega, verið lofað.
Brjánn Guðjónsson, 16.12.2009 kl. 19:12
Kári. fleiri hafa slegist í steinaldarhópinn en landsími Íslands, gegn um árin.
man að ég las einhverntíma, fyrir löngu, skilyrði IntÍs fyrir þá sem vildu tengjast Internetinu gegn um þá. Þá voru þeir eini aðilinn sem bauð upp á slíkt.
menn urðu að nota tiltekinn Cisco búnað og hvað og hvað. ekki dugði að nota hvað sem er sem uppfyllti kröfur og staðla. það vantaði bara að menn þyrftu að heita Magnús.
Brjánn Guðjónsson, 16.12.2009 kl. 19:16
en talandi um kort, þá er ég alsæll með mitt síhringi-debetkort. fæ ekki FIT kostnað og myndi ekki vilja skipta í ekki-síhringikort, enda undantekning að ekki náist samband.
Brjánn Guðjónsson, 16.12.2009 kl. 19:18
Einhverjir (man ekki hvar) hafa sagt að þeir hafi beðið bankann um að öllum debetkortunum þeirra sé breytt í síhringikort og farið fram á að þeir muni ekki borga FIT-kostnað ef því sé ekki framfylgt. Það hefur gengið eftir, að þeirra sögn.
Einar Jón, 16.12.2009 kl. 19:24
http://helgafell.rhi.hi.is/intrum.png
Elías Halldór Ágústsson, 17.12.2009 kl. 09:31
Athyglisverður pistill hjá þér, Kári, einkanlega þar sem þú segir að fjármálastofnanir og innheimtufyrirtæki geti nánast skammtað sér tekjur með því að rjúka strax í "full-blown" innheimtuaðgerðir án þess að gaumgæfa hvort þær eru réttmætar eða ekki.
Mér finnst ekkert að því að athugasemd starfsmannsins í Glitni verði fylgt eftir. Það eru vísast mýmörg dæmi um að kröfur í heimabanka "frjósi" ef innistæða er ekki fyrir hendi á greiðsludegi, eins þótt úr rætist fljótlega. Ég var nefnilega að borga 2000 krónur til rukkaranna með latneska nafnið út af kröfu sem hreinsaðist ekki út þegar balansinn á reikningi mínum varð jákvæður.
Flosi Kristjánsson, 17.12.2009 kl. 11:18
Þetta er glæpalýður, það er eina orðið um það. Nú er svo hér í Bandaríkjahreppi að talað er um að banna s.k. FIT kostnað, því að það er nákvæmlega enginn kostnaður við þetta. Verður gaman að sjá hvað kemur útúr því. Sem stendur borga ég $28 hjá Frontier Bank ef að ég lendi í þessu, hjá Bank Of America er það $35 per færslu. Og ekki nóg með það, heldur eru færslurnar eingöngu keyrðar í gegn einu sinni ásólarhring. Sem að þýðir að ef að þú átt $100 á bankareikning en notar kortið 5 sinnum, þá eru hæstu færslurnar processaðar fyrst. Þannig að ef þú tekur út (í þessari röð)
$10,
$10,
$10,
$95
sem ætti þá að úleggjast sem
$-25 + $28= $-53 (reyndar aðeins öðruvísi en þið fattið hvað ég á við),
þá kemur það inn í kerfið sem
$95,
$10,
$10 og
$10, það er 3 færslur upp á $25 + 3*28, það er endanleg staða upp á $-84.
Reikningurinn er aðeins vankaður hjá mér en þið sjáið hvað ég á við. Þetta og bara þetta er það eina sem Íslenska kerfið hefur umfram.
Heimir Tómasson, 19.12.2009 kl. 03:30
Í gamla daga þegar handreiknað var í bönkum og ávísanir notaðar (og ofnotaðar) voru sektir pr. ávísun við yfirdrátt og þess ávallt gætt að taka hæstu upphæðir fyrst (væri um margar ávísanir að ræða) svo samanlögð sektarupphæð yrði sem hæst. Bankasvindl er ekkert nýtt.
Sæmundur Bjarnason, 19.12.2009 kl. 04:58
Hárrétt hjá þér Sæmundur minn. Ekkert er nýtt undir sólinni. Ég bendi á færslu mína um þetta málefni.
Heimir Tómasson, 19.12.2009 kl. 05:44
Ég er reyndar að fatta að ég mislas aðeins hjá þér færsluna Sæmundur. Svo það er sama aðferð viðhöfð á Íslandi?
Ég verð reyndar að viðurkenna að ég var í þeirri aðstöðu áður en ég fluttist til USA að ég þurfti ekki að hafa tíðar áhyggjur af þessu, svo að ég man ekki alveg hvernig þetta virkaði.
Heimir Tómasson, 19.12.2009 kl. 05:46
Flott mynd, Elías. Ég hefði rölt inn á skrifstofu Intrum og heimtað eina krónu plús 1600 kr ítrekunargjald, bara til að sjá svipinn á þeim.
Einar Jón, 22.12.2009 kl. 16:51
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.