Bloggfærslur mánaðarins, maí 2008
11.5.2008 | 00:40
Á legsteini: Hann var í rétti
Ég var næstum keyrður niður í gær, þegar ég fór yfir Grensásveg eftir gangbrautinni meðfram Miklubraut.
Bíll hafði lagt af stað út á gatnamótin yfir Miklubraut en komst ekki yfir áður en rauða ljósið kom og þegar umferðin fór að streyma eftir Miklubraut var hann fyrir. Hann tók á það ráð að bakka á fullri ferð til baka, yfir gangbrautina þar sem ég var að hjóla yfir. Það munaði sentimetrum að hann hefði plægt mig niður. Hann stöðvaði, ég stöðvaði og við horfðum hvor á annan. Ég nennti ekki að ræða við hann, það var ekkert að segja.
Örugglega ágætis kall, bara enn einn stjórnleysinginn. Af hverju leyfði hann sér að leggja af stað yfir gatnamót sem hann gat ekki klárað að fara yfir? Af hverju bakkaði hann yfir gangbraut án þess að líta við? Hefur hann enginn prinsipp?
Sem ég skrifa þetta heyri ég vælið í dekkjunum þar sem einhverjir stjórnleysingjar æfa sig í ofsaakstri á Hringbrautinni við JL húsið...
![]() |
Keyrð niður á merktri gangbraut |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Hjólreiðar | Breytt s.d. kl. 01:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
6.5.2008 | 14:27
Rocket Science
Áður en tölvufræðingar fengu nördastimpilinn afhentan var hann í eigu þeirra sem smíðuðu rakettur. Á ensku er sagt "It's not exactly Rocket Science" ef venjulegt fólk á að geta skilið viðfangesefnið.
Frægasti rakettu vísindamaðurinn var án efa Werner Von Braun sem kenndi milljónum manna að telja niður á ensku.
Margir myndu líka benda á Goddard:
Háskólinn í Reykjavík var að skjóta upp eldflaug. Við höfum eignast okkar eigin Werner Von Braun sem er Dr. Ágúst Valfells.
Til að koma flaug á loft þarf samstarf milli faga. Eldsneytið kallar á efnafræði, flaugin sjálf er völundarsmíði, flug hennar kallar á flugfræði og hönnun á rakettumótór fer inn á eitthvað sem heitir "fluid dynamics". Rakettunámskeiðið reyndi því á sitt lítið af hverju, ekki bara grufl innan eins fags.
Eldflaug Háskólans fór ekki nema í 1.350 metra hæð sem er rétt upp fyrir toppinn á Esjunni. Það er langt frá því að snerta geiminn sem byrjar þar sem lofthjúpurinn endar í 100 km hæð. Samt er það meiri hæð en flugeldarnir á gamlárskvöld komast í, sem er yfirleitt undir hundrað metrum.
Það er búið að vera gaman að fylgjast með þessu verkefni í húsinu -- og öðru hvoru hefur fundist undarleg lykt þegar hin og þessi efnablanda var prófuð.
Ég er svoldið stoltur af skólanum mínum þessa dagana. Flottar hjólageymslur undir nýja húsinu, spennandi námskeið. Þetta heldur áfram að vera með skemmtilegri vinnustöðum sem ég hef unnið á.
Nú er spurning hvort nýfengin rakettuþekking í skólanum getur nýst við eitthvað. Hvernig væri að hanna flugelda fyrir næsta gamlárskvöld sem fara hærra, eru stærri og nota reyklaust púður? Ég sé varla hvernig hægt er að toppa fyrri gamlárskvöld nema með einhverju slíku.
Menntun og skóli | Breytt s.d. kl. 14:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
4.5.2008 | 22:15
Don't ask, don't tell.
Spök kona sagði í ræðu sem ég heyrði í vikunni að jafnvel neikvæð afskipti af unglingi væru betri en engin. Þeir sem fá alls engin afskipti veslast upp.
Í framhaldi datt mér í hug : Man lesandinn til þess að hafa lesið um afstöðu borgarstjóra, eða borgarstjórans á undan, eða þar á undan, til hjólreiða og hjólreiðafólks? Ég giska á að svarið sé nei. Þessi málaflokkur er algerlega afskiptur. Borgarstjórarnir gætu ekki sent reikning upp á eina krónu fyrir vinnu í þágu hjólreiðamála.
Að vísu eru gangstéttar og útivistarstígar lagðir, en það eru aðskild verkefni, ekki hluti af stærri stefnu.
Engar greinar eru skrifaðar af öðrum en hjólafólki. Engin lög hafa verið sett um hjólreiðar síðan á sjöunda áratugnum þegar ákveðið var að reiðhjól skyldu hafa keðjuhlíf. Flestir hjólreiðamenn eru því lögbrjótar strax og þeir hjóla af stað enda hafa keðjuhlífar lítið verið notaðar síðan tíugírahjólið kom á markað á áttunda áratugnum.
Hjólafólkið í Reykjavík er að því leyti eins og hommarnir í bandaríska hernum að um þá gilda engar reglur, bara óskrifuð lög: "Don't ask, don't tell". Við tölum ekki um slíkt. Hjólið bara og við horfum í hina áttina.
Fæstir vita að samkvæmt lögum á að hjóla á götunni. Einhvern tímann var gerð undanþága um að menn mættu hjóla á gangstéttum, nokkuð sem átti aldrei að leyfa. Hugsunin var sennilega sú að týpískt hjólreiðafólk væri sex ára gamalt og þyrfti að verða samferða mömmu og pabba eftir stéttinni. Það er ekki minn raunveruleiki í dag. Ég er á fimmtugsaldri og hjóla á 25 km hraða til og frá vinnu. Það er fimm sinnum hraðar en gangandi vegfarandi enda er þeim meinilla við það þegar ég skýst fram úr þeim, lái þeim hver sem vill.
Margir halda að það eigi að hjóla á gangstétt. Fyrir vikið er flautað á hjólamenn sem fylgja lögum og fara á götuna. Einhvers staðar á ég sekt fyrir að hafa hjólað á gangstétt þegar ég var táningur í Reykjavík.
Það er engin leið að hjóla löglega í Reykjavík. Þú verður að brjóta reglur. Samkvæmt lögum er bannað að hjóla yfir gangbrautir en þær eru samt ómissandi hluti af gangstéttum.
Stundum vantar gangstéttir, stundum enda þær snögglega. Stundum byrjar hjólaslóði og endar aftur 50 metrum síðar. Stundum er hann merktur hjólum hægra megin og gangandi vinstra megin þannig að maður þarf að taka fram úr gangandi fólki hægra megin þótt venjan sé að taka eigi fram úr vinstra megin.
Biðskyldur bíla eru oft vitlausu megin við gangbrautir svo bílarnir nema staðar ofan á gangbrautinni. Þar að auki staðnæmast bílar oft með afturdekkin á stöðvunarskyldu í stað þess að stöðva fyrir framan hana. Ég hef aldrei séð lögreglu skipta sér af, frekar en af þeim sem leggja á gangstétt og loka þar með "hjólastígnum".
Áður en við getum farið að tala um úrbætur þarf að búa til raunverulegt kort af hjólaleiðum í borginni. Reykjavíkurborg gaf út kort með hjólastígum en kortið er skáldskapur, áróður fyrir eitthvað norrænt þing þar sem átti að sanna að hér væri allt í himna lagi. Hefur einhver séð hjólastíg meðfram Hringbraut frá Suðurgötu út að JL húsi? Ekki ég. Samt er hann á þessu korti.
Aðrar þjóðir eiga stefnuskrá um hjólreiðar, um það hvernig hjólastæði eiga að vera, hvernig ganga eigi frá leiðum þegar vegavinna er í gangi, frágangi við gatnamót og svo framvegis. Íslendingar eiga engar reglur.
Tvennt mætti gera strax. Í fyrsta lagi þarf að fylgja lögum og banna bílastæði á gangstéttum.
Í öðru lagi þarf að sjá til þess að bílar loki ekki gangbrautum með því að staðnæmast ofan á þeim. Hjólafólk sem fer meðfram aðalbraut þarf að stoppa á öllum gatnamótum af því bílar stöðva ekki þar sem þeir eiga að stöðva. Það er óþolandi að þurfa að stoppa fyrir öllum sem ætla inná eða út af aðalbraut þegar maður ekur sjálfur meðfram henni - á gangstéttinni. Ég er alltaf í órétti.
Ég er rauða örin á myndinni. Á meðan ég þarf að hjóla á gangstétt meðfram aðalbraut eru bílar no.1 og 2 á myndinni óvinir no.1 og 2 í umferðinni. Ef borgaryfirvöld geta minnkað hættuna af þeim væri strax betra að vera á hjóli.
4.5.2008 | 14:34
Góðar hjólafréttir í HáErr
Háskólinn í Reykjavík rís nú í Vatnsmýrinni, rétt hjá Nauthólsvík. Hver deild er í sér "pizzusneið", allar sneiðarnar snerta torg á miðju svæðinu. Hér er mynd af kjallaranum:
Rauða línan sýnir aðkomu niður skábraut sem fer undir húsið. Gráa herbergið þar sem línan endar er litlir 300 fermetrar og þar er gert ráð fyrir hjólageymslum! Búningsklefar og sturtur eru í brúna svæðinu undir miðjunni. Þetta verður ekki betra séð með augum hjólreiðamanns.