Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2009
29.1.2009 | 15:42
Ísland endurræst
Í tilefni af umræðu um Ísland 2.0 datt mér í hug að taka saman hvað ríkisstjórnir eiga sameiginlegt með stýrikerfum. Mér hefur fundist samanburðurinn gefa mér innsýn í heima stýrikerfa og ríkisstjórna.
Stýrikerfi gefa öllum forritum á tölvu sameiginlegan vettvang að starfa á. Öll forritin nota harðan disk, minni, prentara, lyklaborð, mús með því að spyrja stýrikerfið í stað þess að tala beint við þessi tæki. Þannig þurfa höfundar forrita ekki að tala við hvern einasta músaframleiðanda og læra að nota músina þeirra, þeim nægir að biðja stýrikerfið um að segja sér á hvað músin bendir. Stýrikerfið býr þannig til vettvang sem sparar öllum forritum fyrirhöfn og tíma.
Ríkisstjórn útvegar einstaklingum og fyrirtækjum líka sameiginlegan vettvang, útvegar heilbrigðis og menntakerfi, peningakerfi, rafmagn og vegi til að fyrirtækin þurfi ekki sjálf að byggja bryggjur og vegi eða gera rafmagnsvirkjanir og sjúkrahús og prenta peninga.
Stýrikerfi tryggja að eitt forrit leggi ekki undir sig öll afköst vélarinnar og geri hinum forritunum ókleift að vinna. Stýrikerfi eru með "Scheduler" sem sér til þess að öll forrit fái að keyra svolítið, hafi einhvern aðgang að diski, neti og skjá, og að forritin sem fyrir eru geti ekki meinað nýjum forritum að keyra með því að leggja allar auðlindir vélarinnar undir sig.
Ríkisstjórn á að koma í veg fyrir verðsamráð og einokun hjá fyrirtækjum sem bólgna út og vilja leggja landið undir sig. Stjórnin gerir það með því að leysa of stór fyrirtæki upp í smærri einingar (eins og gert var við AT&T) eða sekta fyrirtækin. Ríkisstjórnir eru með skatta, virðisaukaskatt, launaskatt og erfðafjárskatt sem dreifa auðnum og sjá til þess að nýir einstaklingar geti einhvern veginn komist af stað í lífinu og á kostnað þeirra sem eru búnir að koma sér vel fyrir. Ef ríkið gerir þetta ekki endar landið með miðalda fyrirkomulag þar sem allir verða leiguliðar hjá fáum ríkum landeigendum og allt stendur fast.
Stýrikerfi er með einhvern vegg milli sín og forritana sem keyra til að tryggja að stýrikerfið spillist ekki af forritum sem reyna að breyta stýrikerfinu viljandi eða óviljandi. Vírusar reyna viljandi að skipta út hlutum stýrikerfisins og gera það handgengið sér. Sum forrit spilla stýrikerfinu óviljandi með því að afrita gamlar útgáfur stýrikerfisskráa í möppur sem aðeins stýrikerfið ætti að skrifa í. Windows hefur verið slæmt að þessu leyti, Linux minna. (Ef Windows er eins og bómullarborðúkur er Linux eins og vaxdúkur). Stýrikerfi sem halda þessum aðskilnaði ekki til streitu verða á endanum grálúsug og hæg og það þarf að formatta diskinn upp á nýtt til að laga til.
Ríkisstjórn ætti að hafa sambærilegan vegg sem kemur í veg fyrir að embættismenn þiggi sporslur frá einstaklingum og fyrirtækjum eða að ráðherrar ákveði hverjir sitja í hæstarétti. Einnig að þarf að tryggja að lögum sé ekki laumað inn í löggjöfina sem hygla ákveðnum hópi, sbr. kvótakerfið. Svo mega forsetar ekki þiggja far með einkaþotum auðvaldsins. (Þarna er stærsti gallinn í Lýðveldinu Ísland 1.0 að mínu mati, skilin milli stjórnar, laga og auðvalds).
Í sumum stýrikerfum er litið svo á að notandinn eigi sjálfur að ná sér í þau forrit sem hann vantar og stýrikerfið sé bara til þess að gæta minnisins og harða diskins. Önnur stýrikerfi halda að þau eigi að bjóða uppá sem mest frá byrjun, til dæmis ritvinnslu, póst og netvafra. Þetta gerir seljendum forrita gramt í geði því stýrikerfið tekur frá þeim markaðshlutdeild. Microsoft er gott dæmi um þessa heimsspeki en það dreifði Internet Explorer með Windows í óþökk margra. Forrit frá framleiðanda stýrikerfisins geta þó oft gert hluti sem forrit frá öðrum framleiðendum geta ekki því sömu menn koma að hönnun beggja.
Sumar ríkistjórnir vilja bjóða upp á eldspýtnagerð, bæjarútgerð, bílaleigu, matvælaframleiðslu en aðrar halda sig við lágmarks framboð á þjónustu og láta einkageirann um sem flest. Samt eru skil milli ríkis og einkageira alltaf óljós. Af hverju rekur hið opinbera bókasöfn en ekki myndbandaleigur? Af hverju tryggjum við okkur hjá Tryggingarstofnun en bílinn hjá Sjóvá?
Mörg stýrikerfi eiga erfitt með netvæðingu því vélin fyllist af vírusum. Þetta er sérlega slæmt ef stýrikefið er ekki nógu rammgert til að þola ókunnug forrit og notendur. Þessi stýrikerfi voru mörg hver skrifuð áður en netsamskipti voru til, þess vegna eru þau svona viðkvæm.
Margar ríkisstjórnir eiga á sama hátt erfitt með alþjóðleg samskipti, þær líta á inngöngu í Evrópubandalag sem endalok sín, þær þurfa alls kyns tollamúra og eftirlit til að verja viðkvæma innviðina fyrir erlendum áhrifum. Íslenska ríkið er til dæmis með viðkvæma krónu sem þolir ekki öll þessi samskipti við aðrar þjóðir.
Stundum má deila um hvort tölva er nógu stór og öflug til að keyra stórt stýrikerfi. Vél sem sligast undir Vista getur verið hress undir Windows XP. Eldgamlar tölvur geta haldið áfram að gera gagn ef þær keyra Windows 95 eða jafnvel DOS.
Sum lönd eru svo lítil að þau ættu ekki að vera með sendiráð í mörgum löndum eða ráðuneyti fyrir óþarfa hluti. Það má spyrja hvort Ísland eigi að vera með tollembætti eða synfoníu? Getum við keyrt lagabálk Evrópubandalagsins? Getur okkar land keyrt stjórnarskrá sem var hönnuð fyrir annað land á öðrum tíma? Er okkar stjórnarskrá bara léleg afrit af þeirri dönsku?
Hér lýkur samlíkingunum. Ef menn sjá fleiri sambærilega hluti er um að gera að skrifa athugasemd.
Ástandið á Íslandi í dag er að okkur tókst einhvern veginn að endurræsa stýrikerfið eftir að tölvan hrundi en við erum í lítilli skjáupplausn og helmingurinn af forritunum getur ekki keyrt. Flestir eru á því að vírusar hafi eytt gögnunum af harða diskinum, ef gögnin hafi ekki glatast séu þau komin á harða diska í Cayman Islands. Vírusarnir voru vondir en stýrikerfið átti ekki að leyfa þeim að fjölga sér. Maðurinn sem átti að taka backup hafði aldrei gert það og vill nú ekki segja af sér.
Sumir vilja formatta harða diskinn og setja upp nýtt, einfaldara stýrikerfi.
Ég er í þeim hópi sem er efins um að gera stórar breytingar á stuttum tíma. Ástæðan er sú, að gömul forrit eru oft gömul og skrýtin en þau endurspegla samt þekkingu sem hefur safnast upp á löngum tíma. "Never assume the guy who wrote the code was an idiot" segir máltæki í tölvubransanum. Það eru mörg dæmi um að nokkrar línur í kóða sem enginn vissi hvað gerði voru fjarlægðar, og allt hrundi.
Það eru dæmi um að fyrirtæki hafi ákveðið að endurskrifa hugbúnaðinn sinn frá grunni til að laga til og losna við gamalt drasl, en aldrei borið sitt barr eftir það því nýji kóðinn varð verri en gamli kóðinn. Nýi kódinn var einfeldningslegur og tók ekki á mýmörgum sértilfellum sem fara ekki af sjálfum sér.
Þannig reyndi Netscape í mörg ár að skrifa netvafrann sinn aftur en ekkert gekk, Bandaríska flugmálastjórnin reyndi að endurskrifa hugbúnað fyrir flugumferðarstjórn án árangurs. Hún er ennþá að nota hugbúnað frá sjöunda áratugnum síðast þegar ég vissi.
Við þurfum að endurbæta lög og stjórnkerfi en við ættum þá að fara leið sem í hugbúnaði er kölluð "refactoring". Einhverjir góðir forritarar taka þá að sér að endurbæta forrit til að gera þau læsilegri og í samræmi við góða siði. Þeir eiga ekki að bæta við möguleikum, bara að laga til og gera hlutina skýrari.
Þetta jafngildir því að lögum og stjórnarskrá sé breytt gagngert til að endurbæta lýðveldið, en ekki af því einhver hópur sé að biðja um breytingar í eiginhagsmunaskyni.
Mig grunar að þessi tillögun og endurbótavinna hafi ekki verið unnin á Lýðveldinu Ísland 1.0, stjórnarskráin og lögin hafi staðið í stað í gegnum árin. Það er þó ekki réttlæting fyrir því að henda öllu út og byrja frá grunni.því fer hratt út í vitleysu. Hvað með hvalveiðar? Hvað með NATÓ? Eigum við að banna ættarnöfn? Og svo framvegis...
Hér er grein um "Refactoring" og hér er grein um hættur þess að skrifa allt aftur frá grunni.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
22.1.2009 | 16:15
Mjög er um tregt tungu að hræra
Ég hef lítið bloggað undanfarið því ég taldi mig ekki hafa neitt uppbyggilegt að segja úr því sem komið væri. Ég hafði talað gegn ástandinu fyrir hrun en eftir hrun hef ég ekki getað komið auga á næstu leiki í stöðunni sem upp er komin.
Fyrir hrunið fór ég að blogga því ég þurfti að finna að aðrir í þjóðfélaginu sæju það sama og ég. Þá vissi ég varla í hvernig raunveruleika ég lifði því allt sem ég sá var á skjön við allt sem stóð í fjölmiðlum og stjórnmálamenn sögðu. Það var talað um góðæri þótt borgin væri að breytast í rústir af veggjakroti, yfirgefnum húsum og steinsteypukumböldum. Enginn sem ég þekkti borðaði á Salt eða Vox. Fólk var farið að borða óæti eins og "skinku" frá Bónus á sama tíma og það safnaði erlendum skuldum - margir án þess að vita það.
Þetta var eins og í snædrottningunni eftir H.C. Andersen þar sem menn voru með flís úr spegli kölska í auga og sáu fegurðina í kaldranaleikanum. Nú virðist flísin hafa skolast burt en mikill er skaðinn.
Í morgunútvarpinu í gær sagði þulurinn að norðmenn væru að kaupa 57 orrustuþotur af bandaríkjamönnum, þetta væri stærsta einstaka fjárfesting norðmanna frá upphafi og reyndar sama upphæð og þýskir bankar hafa tapað á þeim íslensku. Við getum ekki einu sinni keypt eina björgunarþyrlu, hvernig eigum við að borga allar þessar orrustuþotur?
Ég get ekki séð að aðrar þjóðir muni koma okkur til hjálpar. Eftir heimsstyrjöldina seinni fengu þjóðverjar Marshall-aðstoð eins og fleiri Evrópubúar, en þá vildu bandamenn byggja Evrópu upp til að geta síðar átt við hana viðskipti. Hvar er okkar Marshall ríkisritari? Hvaða ómissandi iðnaður er á Íslandi sem þarf að koma aftur í gang? Ekki eigum við Volkswagen verksmiðjur eða BASF og Siemens? Ef þjóðir heimsins hjálpa ekki Palestínumönnum, af hverju ættu þær þá að hjálpa heimskum jeppaeigendum á Íslandi?
International Monetary Fund er engin góðgerðarstofnun og mun vilja fá lánin endurgreidd með viðunandi vöxtum. Ef við veljum að borga ekki eins og Steingrímur leggur til munu aðrar þjóðir setja okkur í einangrun eins og Bandaríkjamenn gerðu við Kúbu.
Hvað sem öðru líður getum við ekki haft sömu stjórn. Ég vil heldur vita hversu slæmt ástandið er en að vefja umbúðum um sárin meðan það grefur ennþá í þeim.
Ég get sagt að mér líður miklu betur á Íslandi núna en fyrir hrun. Þjóðarsálin er timbruð en hún er alla vega ekki lengur full og óviðræðuhæf. Um daginn drap bíllinn á sér, ég náði að renna honum inn á bensínstöð. Að mér þyrptust menn sem vildu hjálpa til að koma bílnum í gang. Þegar ekkert gekk skutlaði einn þeirra (hann heitir Halldór og er leigubílstjóri) mér heim og hringdi seinna um kvöldið til að láta mig vita símanúmer hjá neyðarþjónustu. Maðurinn frá neyðarþjónustunni sótti mig á laugardegi, kom bílnum í gang (það þurfti að endurræsa tölvuna) og rukkaði mig ekki því hann tók að sér að rukka umboðið beint. Þetta er Ísland eins og ég man eftir því fyrir græðgisvæðinguna.
Íslendingar geta staðið saman eins og bræður, það er okkar stærsti styrkur, og okkar veikleiki þegar hann breytist í fyrirgreiðslupólitík. Nýja Ísland þarf að vera trúrra grunnhugmyndum um jafnrétti, réttlæti og bræðralag og finna leiðir til að veita sjálfu sér aðhald.
Kannski verðum við fyrsta þjóðin sem setur klausu um öldungastjórn eða "Village Elders" í stjórnarskrána. Ég myndi vilja fá leiðsögn frá fólki sem er orðið of gamalt til að vera á kafi í sérhagsmunum eða vera með hræsni.
Svo kemur líka til greina að útlendingar verði fastur hluti af ríkisstjórn eins og Vatíkanið notar svissneska varðmenn. (Helsta ástæðan fyrir því að ég vildi ganga í Evrópubandalagið, var að opna hér út og fá ferska vinda inn en ég er ekki lengur viss um að það yrði sjálfsögð afleiðing af inngöngunni). Margir háskólar eru með prófessora frá öðrum háskólum í kennslu og rannsóknar matsnefndnum, og gera kröfur um að prófessorar hafi ekki sjálfir menntað sig hjá sömu stofnun til þess að skólinn úrkynjist ekki. Kannski þarf íslenska ríkið sambærilega útlendingaherdeild?
"Hlutirnir fara alltaf einhvern veginn" eins og Halldór Laxness sagði. Ísland verður í byggð áfram þótt ég viti ekki hvernig. Bretar, Frakkar, Þjóðverjar og Bandaríkjamenn geta allir fundið hluti í sinni sögu sem þeir blygðast sín fyrir hvort sem það eru nýlendur, stríð við aðrar þjóðir, spillingarmál eða valdníðsla. Þessar ófarir hafa stælt þá og vonandi gert að betri lýðveldum.
Við vorum að fá okkar fyrstu stóru lexíu sem losar okkur kannski við hrokann sem var okkur lifandi að drepa. Nú er spurningin hvernig við vinnum úr þessari dýru lexíu þannig að hún geti orðið eðlilegur og þolandi hluti af íslandssögunni. Vonandi verður hún ekki eins og sturlungaöldin, upphafið af aldalangri niðurlægingu. Við höfum ennþá valið, en fyrst þurfum við að losna við alla fulltrúa gamla tímans. Þannig eru byltingar bara.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
22.1.2009 | 09:31
Hvers vegna ég hætti að mótmæla í gær
Bankar eru ekki venjuleg fyrirtæki. Ef þeir verða peningalausir þurfa seðlabankar og á endanum ríkisstjórnir að hlaupa undir bagga.
Ég vissi þetta og ég hélt að Davíð Oddssson og fjármálaeftirlitið vissu þetta líka. Þótt ég hefði haft ýmigust á spillingu og bruðli fyrir hrunið hélt ég að bankarnir væru tryggðir innbyrðis, með erlendum tryggingum eða öðru.
Það að þjóðin skyldi vera ábyrg fyrir óráðssíu bankanna lít ég á sem handvömm Davíðs og fjármálaeftirlitsins. Þess vegna verður Davíð að segja af sér sem og aðrir formenn Seðlabanka og fjármálaeftirlits. Þetta tel ég vera augljóst.
Ríkisstjórnin hefur ekki neytt þá til að fara og því verður hún sjálf að fara. Ég get ekki skilið hvers vegna ríkisstjórnin hefur ekki tekið til hendinni, ég óttast mest að hún vilji ekki sjá hvað kemur undan teppinu því hún eigi sitthvað í því sjálf.
Ég er líka hættur að treysta Geir Haarde, ég held að hann sé kominn í einhverja sjálfheldu en að stolt hans komi í veg fyrir að hann viðurkenni vanmátt sinn. Í Kastljósi í gær sýndist mér Steingrímur vorkenna Geir sem virtist vera í einhvers konar leiðslu. Þetta var sárt að sjá.
Það var út af þessu sem ég mætti loksins í mótmælin í gær og stóð á Austurvelli milli 16-19. Ég vil að þessu stjórnleysi fari að ljúka.
Hitt get ég alls ekki sætt mig við, og það er að lögreglumenn verði fyrir meiðslum. Þegar ég sá að skríll hafði blandað sér saman við mótmælendur og kastaði grjóti að lögreglu gat ég ekki látið sjá mig þarna lengur.
Ef einhverjir í mótmælendahópnum telja sig hafa myndugleika til þess, mega þeir reyna að hafa stjórn á þessum minnihlutahópi sem veit sennilega ekki um hvað mótmælin snúast en er kominn á staðinn til að skemmta sér yfir skálmöldinni sem aðgerðarleysi ríkisstjórnarinnar hefur skapað.
Þangað til mun ég mótmæla setu ríkisstjórnarinnar með öðrum leiðum því hver dagur sem rennur upp með sama fólki í fjármálaeftirliti og seðlabanka er mér andstyggilegur.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)