Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2010

Hvers vegna ég hef viljað ganga í evrópusambandið

Þegar ég keypti reiðhjól síðast var árið 1998.  Þá borgaði ég 70 þúsund krónur fyrir það og var sjálfur með 430 þúsund krónur í laun, ég bjó í Danmörku.

Núna kostar sambærilegt hjól 299 þúsund krónur í Erninum. Ég er hins vegar ekki með 299/70 * 430 = 1,8 milljónir í laun, launin mín eru miklu nær þeim 430 þúsundum sem ég hafði þá.

Matarkarfan hefur hækkað úr ca. 6 þúsund í 20 þúsund.  Samt er ég hættur að kaupa merkjavöru eins og Ben & Jerrys ís, Tropicana appelsínusafa og Gillette rakblöð, nú heitir appelsínusafinn "Happy" eitthvað og rakblöðin "Matador".

Kaupmáttur launa er ca. 25% af því sem hann var.  Hallærið er rétt nýbyrjað, aðeins liðnir 18 mánuðir af því og ómögulegt að segja hvenær því lýkur. Ísland er á hægri leið út úr umheiminum eftir því sem bílarnir á götunum ryðga.

Efnahagslega er Evrópa á útjaðrinum borið saman við Asíu og Bandaríkin, og nú hefur Ísland færst í útjaðar Evrópu. Við töldum okkur með hinum norðurlöndunum í daglegu tali áður, en miðað við kaupgetu er nær að við flokkum okkur með Portúgal og Búlgaríu.

Ísland getur ekki bara selt rafmagn og fisk því þá eru bara tækifæri hér fyrir ófaglært vinnuafl og svo þá sem stjórna auðlindunum og vilja því að við seljum rafmagn og fisk.  Við verðum þá eins og Kongó eða Bólivía (mikið af auðlindum, lágt GDP). 

Ég vil vera í nánu samstarfi við fyrirtæki í öðrum löndum, framleiða hugbúnað, handbremsuhandföng í Renault eða bara eitthvað fullunnara en fisk og ál.   Ég vil komast nær Evrópu, ég vil ekki vera í útjaðrinum.  Frumkvöðlafyrirtæki þurfa að geta pantað hráefni og varahluti án þess að eyða mörgum dögum í tollafgreiðslu.   Þess vegna vil ég ganga í Evrópusambandið.

---

Ég spara fyrir hlutum, vil ekki fá lánað fyrir þeim enda er ég ekki sammála nýja orðtakinu: "Greitt lán er glatað fé".  Ég treysti ekki íslenskum hlutabréfum en valdi að spara með venjulegum bankareikningum.  Ég bjóst við hruninu, en ég vissi ekki að krónan myndi enda sem einhvers konar "mjólkurmiðar" innanlands með ekkert skráð gengi erlendis.  Ég get ekki flutt því ég kemst ekki úr landi með það sem ég á.  Ég vil geta sparað í gjaldmiðli sem er ekki leiksoppur glæpamanna, ég vil geta farið héðan með sparnaðinn ef mér líst ekki á blikuna.  Þess vegna vil ég ganga í evrópusambandið.

---


Ári fyrir hrun fengum við símtal frá Glitni sem benti okkur á að við værum með sparifé á "Uppleið 4", vildum við ekki færa það á nýjan reikning sem héti "Sjóður 9" og bæri betri ávöxtun? Við spurðum hvort þessu fylgdi áhætta? Fulltrúinn laug að okkur og sagði "Nei".

Við töpuðum 200 þúsund krónum á þessari lygi, en erum samt ennþá í viðskiptum við þá. Ég hef helst viljað loka á öll mín viðskipti en það er tilgangslaust því bankarnir hér eru allir jafn sekir og við verðum að hafa viðskiptabanka.

Sumir segja að Íslandsbanki sé ekki sami banki og Glitnir var.  Með sömu rökum ætti að sýkna glæpamenn af því ef þeir borða og fara á klósettið eru þeir ekki lengur "sömu mennirnir", þeir innihalda jú aðra hluti.

Ég þarf að geta hætt að versla við fyrirtæki sem gera svona lagað, þótt þau skipti um kennitölur.  Ég vil komast í nýjan banka og tryggingarfélag.  Helst vil ég gamla viðskiptabankann minn frá því ég bjó úti.  Þess vegna vil ég ganga í evrópusambandið.

---

Systir mín sem býr í Danmörku sagði mér í óspurðum fréttum að vinur hennar sem býr í Frakklandi hafi sent henni kassa af rauðvíni sem honum fannst gott, kassinn beið eftir henni á tröppunum  þegar hún kom heim úr vinnunni.  Ég vil líka að vinur minn geti sent mér kassa af rauðvíni, "af því bara".  Ef verkafólk og fjármagn má streyma til og frá landinu, hvers vegna má ég þá ekki panta bók á Amazon eða kassa af rauðvíni?  Þess vegna vil ég ganga í evrópusambandið.

---

Ég hef lengi verið hissa hvað umræða er hatrömm á móti sambandinu.  Flestir í mínu nánasta umhverfi hafa búið erlendis, og vita að Ísland er aftarlega á merinni og einangrað í mörgu tilliti.  Þótt flatskjáir séu komnir hingað er svo margt annað sem er ókomið, betri hlutir en flatskjáir, ótrúlegt en satt.  Stjórnsýsla kemur upp í hugann.

Það hefur runnið upp fyrir mér að á landinu er stór hópur af fólki sem ég þekki ekki neitt, sem óttast allt sem það þekkir ekki.  Það á varla til hnífs og skeiðar og er því hrætt við framtíðina og ókunnuga.  Það mun sennilega kjósa Sjálfstæðisflokkinn bara af því orðið "sjálfstæði" kemur fyrir í nafninu,  þar til lífið verður endanlega murkað úr því.

Ég kaus einu sinni Sjálfstæðisflokkinn.  Ég reykti líka einu sinni.

Einu sinni var hafnfirðingum bannað að vinna í Reykjavík.  Man einhver eftir því?  Yfirleitt borgar sig að opna á samskipti, ekki loka þeim.

 

680px-europe.jpg

Um siðrof - veröld sem var

Siðrof eða "Anomie" eins og höfundur hugtaksins kallaði það er, þegar hefðir og siðir samfélagsins brotna niður og fólk veit ekki hvernig það á að hegða sér.

http://visindavefur.hi.is/svar.php?id=54215

Ég ólst upp við að Íslandi væri stranglega stjórnað.  Að því leyti vorum við eins og austantjaldsland býst ég við.  Snickers og Macintosh nammi var bannað, það var bara ein útvarps og sjónvarpsstöð.  Mannanafnanefnd ákvað hvað menn mættu heita, og íslenskuna mátti ekki menga með enskuslettum fyrir nokkra muni.

Svo unnu allir.  Krakkar fóru í unglingavinnu eða sveit, konur sátu með prjónana og karlarnir gerðu við bíla útí skúr, allir karlar áttu tommu og millimetra topplyklasett.  Ekkert var verra en að vera hreppsómagi, jafnvel ekki á tuttugustu öldinni.  "The idle Rich", ríku ættirnar hér sem fengu peninga án þess að vinna höfðu vit á að láta fara lítið fyrir sér.

Ég var ósáttur við margt hér en sætti mig við þessa stjórnsemi yfirvalda, túlkaði hana sem einhvers konar ást og að þetta væri okkur fyrir bestu.

Það var ekki fyrr en ég flutti til útlanda að ég sá margt sem var ekki í lagi hér.  Verðlag var og er svæsið arðrán og gerir lífið óþarflega erfitt venjulegu fólki.  Þegar ég flutti heim sá ég líka að stjórnsemi yfirvalda var þunn skán ofaná stjórnleysi.  Fákeppnin, skortur á gagnrýnum fjölmiðlum.  Bílar lögðu uppá gangstéttum, vörur óverðmerktar í hillum, óvirk neytendasamtök, stjórnleysið tekur á sig margar myndir.

Spillinguna, sem nú er öllum ljós var ég samt ekki búinn að sjá og skilja fyrr en við hrunið.

Það er gott að skýrslan er komin út, en hvað eigum við að gera næst?  Ég trúi varla lengur að vinna sé lykilinn að velgegni, að tíminn sé peningar.  Ég sé næstum því eftir að hafa farið í nám, ég hefði átt að taka lán fyrir hlutabréfum og selja á réttum tíma.  Hvernig geta einstaklingar skuldað milljarða annars, ég er ekki búinn að ná utan um það ennþá.

Þetta er næsta spurning í mínum huga:  Hvernig búum við til siði í landinu?  Ef þetta hefðu bara verið náttúruhamfarir og Reykjavík lent hálf undir hrauni, hefði það næstum því verið betra en það ástand sem er hér núna.

Fjölskylda þar sem fjölskyldufaðirinn verður uppvís að misnotkun á börnunum, hvernig heldur hún jól?

Ég er ekki ennþá nógu vongóður um að lög nái yfir Jón Ásgeir, Pálma í Fons og Björgólfsfeðga og forkólfa ríkiststjórnarinnar sem sat.  Ef þetta fólk gengur ennþá laust og kaupir og selur eiginir annara eftir 1-2 ár veit ég ekki hvað ég geri.


Sókn er besta vörnin

Ég horfði á fréttatímann frá 25.mars á netinu.  Ég á erfitt með að sjá hvaða ummæli fréttastofunnar gætu talist sakhæf.  Fréttin er upptalning á því hvernig veð í fyrirtæki  var notað til að slá lán hjá Glitni, nokkuð sem er ekki dregið í efa.  Svo er sagt að Pálmi og Jón Ásgeir hafi verið viðskiptafélagar og að milljarðar hafi gufað upp.

Mér sýnist að Pálmi sé að hræða fjölmiðla til að þegja og/eða fá fólk til að trúa að þarna standi orð á móti orði.

capture_979590.png

 

 

 

 

 

 

 

 


mbl.is Pálmi stefnir fréttamanni RÚV
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nafn á þessa tegund tölva: Brimbretti

Þar sem tölvurnar eru sérlega vel til þess fallnar að "sörfa" á netinu og líkjast brettum vil ég leggja til að þær verði kallaðar "Brimbretti".

Ég er afhuga hinum lokaða Apple heimi, svo ég held ég bíði eftir grip sem getur spilað aðrar bíómyndir og hljóðskrár en þær sem Apple hefur samþykkt. 

HTC Hero og Legend símarnir eru með Android stýrikerfið, þeir hafa verið að fá jafnvel betri dóma en iPhone, og mér kæmi ekki á óvart þótt HTC kæmi með brimbrettis útgáfu af Android símum bráðlega.

 


mbl.is Margir biðu eftir iPad
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband