Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2012
1.7.2012 | 20:32
Office pakkinn á útleið?
Helstu vörur sem Microsoft selur eru Windows stýrikerfið og svo Office pakkinn. Ég er næstum því hættur að nota Office pakkann og ég ímynda mér að þannig sé því farið hjá fleirum.
Pakkinn samanstendur af forritunum:
- Word (Ritvinnsla)
- Excel (Töflureiknir)
- Outlook (Tölvupóstur)
- Powerpoint (Glærusýningar)
- Access (Gagnagrunnur)
- InfoPath (Eyðublöð hönnuð og útfyllt, fyrir fyrirtæki)
- OneNote (Heldur utan um púnkta og skissur)
- Publisher (Ritvinnsla fyrir bæklinga og fréttabréf)
- Sharepoint (Skjalautanumhald á vef fyrir fyritæki)
Ég notaði fjögur efstu forritin reglulega. Hin hef ég prófað en aldrei haft þörf fyrir. Nú eru þessi fjögur forrit sem ég þót notaði líka á útleið hjá mér.
Ég nota varla Word því ég prenta svo sjaldan á pappír. Ég nota oftar ritvinnsluforrit sem eru innbyggð í vefsíður, til dæmis á Gmail, Wiki eða Facebook. Þessi texti er skrifaður í Notepad.
Outlook nota ég ekki því Google Mail er öruggara, einfaldara og sneggra. Ég get byrjað að lesa póst í Gmail áður en Outlook nær að opna innboxið. Outlook hefur aldrei verið einfaldað og stillingarar í því endurspegla tuttugu ára sögu þess. Mér hefur alltaf fundist leiðinlegt að setja Outlook upp, og reyna að finna hvar póstarnir mínir eru í raun og veru geymdir. (Eru þeir í .PST skrá eða .OST skrá eða bara á póstþjóninum? Nú þegar hægt er að fá terabæti af plássi út í bæ finnst mér ekki gaman af hafa áhyggjur af þessu lengur).
Ég er með nett ofnæmi fyrir Powerpoint sem hefur hreinlega ekki breyst frá því það tók við af skyggnusýningum fyrir rúmum tuttugu árum. Það styður ekki hyperlinka, zooming interface, samvinnu eða annað sem mætti hugsa sér að endurbæta það með. Ég hef séð kynningar þar sem vefsíða var birt á skjávarpa og kynnirinn notaði page up og page down. Gerði sama gagn og Powerpoint.
Excel nota ég ennþá ef ég þarf að reikna eitthvað út en ég þarf ekki alla möguleikana í því. Mér hefur alltaf fundist erfitt að reyna að nota það til að teikna gröf.
Þótt ég noti ekki Sharepoint veit ég að mörg fyrirtæki eru að gera það. Sharepoint gæti orðið langlífasti hlutinn í Office pakkanum, en þá sem innanhúss vefur en ekki hugbúnaður sem er settur upp hjá hverjum notanda fyrir sig.
Office pakkinn úreldist sérstaklega hratt nú þegar fólk vinnur meira með vef og smartsíma. Ég held að hann seljist áfram af því það er mikil hefð fyrir honum. Það þarf hins vegar engan Nostradamus til að sjá að pakkinn styður ekki við framtíðarsýn eins og hún er sýnd í bíómyndum eða jafnvel í kynningarefni frá Microsoft sjálfum þar sem fólk strunsar í gegnum flughafnir með töflutölvur og heldur myndfundi.
Microsoft virðist vera að vakna af værum blundi og byrja að hugsa hlutina upp á nýtt með vörum eins og Surface og Windows 8. Ég held ekki að Office pakkinn sé hluti af framtíðarsýninni hjá þeim. Ef ég héldi utanum veskið hjá fyrirtæki í dag myndi ég spyrja hver þörfin er innanhúss áður en ég borgaði fyrir enn eina uppfærslu á þessum pakka fyrir hverja og eina PC tölvu í húsinu.