24.8.2007 | 13:47
Hvaða tölvupóstur?
Ég sá viðtal við átján ára stúlku í Bandaríkjunum sem sagðist hafa verið að nota sitt fyrsta tölvupóstfang til að geta átt samskipti við háskólann sem hún var að sækja um í.
Hún sagði að vinir sínir notuðu eingöngu MSN, Facebook, AIM, SMS, blogg, Skype og fleiri slíkar þjónustur, þess vegna hefði hún aldrei notað sitt tölvupóstfang fyrr.
Ég hélt að tölvupóstur væri ennþá "hipp og kúl". Svo kemur í ljós að hann er orðinn jafn gamaldags og telexið var fyrir mína kynslóð.
Mér hefur lengi fundist tölvupóstur vera úreldur. Það verður gott að losna við hann. Ruslpósturinn og nafnlausu bréfin hafa fengið að þvælast fyrir nógu lengi.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
23.8.2007 | 13:38
I recommend the Pina Colada
Ég sá að Púkinn er kominn með "Seal of approval" og varð að prófa sjálfur. Hér er mín einkunn:
Smellið á myndina til að að taka nördaprófið.
PS: Hver kannast við fyrirsögnina?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
21.8.2007 | 22:27
Með lögum skal land byggja







Þingholtin myndu brenna glatt því oft komast engir slökkviliðsbílar þarna um.
Hjólreiðamenn voru reknir upp á gangstéttar þegar yfirvöld misstu stjórn á einkabílismanum. Þá urðu þessir ólöglega lögðu bílar málefni hjólreiðafólks. Þeir eru úti um alla Reykjavík.
Það er ekki pláss á þessum stéttum fyrir gangandi eða hjólandi. Það er tilgangslaust að hringja í lögregluna því hún gerir ekkert. Ég hef oft reynt.
Yfirvöld kjósa að framfylgja ekki lögum því það vantar bílastæði og það er allt í lagi að ganga freklega á rétt hjólandi og gangandi af því þeir skipta engu máli.
Þannig fá þeir sem eru ekki á bíl skýr skilaboð um að þeir séu annars flokks þegnar í þessari Detroit norðursins.
Ég get ekki skilið hvers vegna við setjum lög sem við ætlum okkur ekki að framfylgja. Hvað segir það um löggjafann? Hvað segir það um dómsvaldið?
Af hverju eru sum lög "alvöru" en önnur "bara í plati"? Hvað varð um "Með lögum skal land byggja?"
Hjólreiðar | Breytt s.d. kl. 22:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
21.8.2007 | 16:56
Velkominn heim
Ég var að koma heim flugleiðina. Það þýðir að sjálfsögðu viðkomu í Leifsstöð. Ég ætlaði að versla í einu raftækjaverslun landsins sem er undanþegin söluskatti, Elko.
Það fyrsta sem ég rak augun í var að þeir verðmerkja minna en helminginn af vörunum. Ég tók myndir af nokkrum hillum:
Ég gat því ekki séð hvað vörurnar þeirra voru ódýrar og góð kaup enda ákvað ég að sleppa því að eiga við þá viðskipti. Afgreiðslumaður bauðst að vísu til að romsa verðin upp eftir minni en ég afþakkaði það.
Vikurnar þrjár sem ég var úti, sá ég aldrei óverðmerktar vörur í búðum. Þetta eru ótrúlega ósvífnir viðskiptahættir sem viðgangast bara þar sem verslanir komast upp með slíkt í krafti einokunar og án aðhalds frá yfirvöldum eða neytendum.
Það er ekki rétt að íslendingar séu að verða ameríkaniseraðir. Mikið væri gott ef við værum að verða það í raun og veru. Verðmerkingar og neytendaréttur væru þá í lagi og vöruverð hagstætt.
Neytendamál | Breytt s.d. kl. 17:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
2.8.2007 | 15:07
Home of the brave
Hér eru nokkrir sundurlausir þankar frá Bandaríkjunum þar sem þetta er skrifað.
Græjur - GPS
Við tókum bílaleigubíl með Garmin StreetPilot en það er tæki sem þekkir hvert einasta hús í Bandaríkjunum og kann leiðina þangað. Ég vissi ekki hvort þessi tækni væri tilbúin en ég veit núna að hún er það. Þetta er algerlega ómissandi fyrir túrista í stórborgum.
Við hjónin vorum vön að skipta með okkur verkum. Annað keyrði og hitt las kort. Allt gekk vel þar til maður slysaðist á vitlausan "Exit", þá var maður allt í einu kominn í hverfi í stórborg þar sem maður þekkti ekki leiðina aftur upp á hraðbraut. Í myrkri var ennþá erfiðara að lenda í þessu.
Við áttum gróf kort yfir landið, en okkur vantaði oft litlu kortin sem sýna hjáleiðirnar og borgirnar.
Með svona GPS tæki í bílnum er þetta úr sögunni. Hugarfarið breytist. Nú leggur maður í að finna ótrúlegustu búðir og söfn í stórborgum sem ella hefði hreinlega verið of mikil fyrirhöfn að keyra til.
Tækið fæst leigt á bílaleigunni og ég ætla að leigja slíkt eftirleiðis. Ég ætla samt ekki að fjárfesta í svona tæki því í næstu útlandaferð verður þessi græja ennþá flottari og kortið með nýjustu upplýsingum. Heima á Íslandi rata ég.
Græjur - HDTV
Á heimilinu þar sem ég gisti eru komin tvö sjónvörp í háskerpu, "HDTV". Það er ólíkt betra að horfa á sjónvarp hér í Bandaríkjunum núna en var þegar við bjuggum hér. Nú eru útsendingar hér miklu betri en í Evrópu. Myndin er hnífskörp og litirnir góðir. "Litla" sjónvarpið á heimilinu er 32 tommur og það liggur við að myndin sé of lítil til að upplausnin njóti sín til fulls. Í 50 tommu sjónvarpinu er aftur á móti rosalegur munur að horfa, sérstaklega á íþróttir.
Noblesse oblige
Á sjónvarpsstöðinni PBS sá ég viðtal við Warren Buffett og Bill Gates sem var tekið árið 2005. Hægt er að nálgast viðtalið á DVD diski hér.
Í viðtalinu spyrja háskólanemar þessa ríkustu menn heims spjörunum úr. Tvennt vakti athygli mína.
Einn nemandi spurði hvað þeim fyndist um flatan tekjuskatt. Þeir svöruðu hiklaust að hann ætti ekki að verða flatari en hann væri nú þegar. "Við borgum allt of lítið í skatta", sagði Warren Buffett. "Ég borgaði miklu meiri skatt þegar ég var fátækari, þetta er ósanngjarnt".
Annað sem kom fram, var að þeir ætla báðir að losa sig við 99% af auðnum áður en þeir falla frá. Það kom ekki til greina að láta erfingjana hafa alla þessa peninga. Þeir hafa ekki gott af því, og það er okkar skylda að láta peningana nýtast. Annað væri "unamerican". "Við gerum okkur grein fyrir því að þessar fjárupphæðir geta aldrei farið í einkaneyslu einstaklinga, þannig er leikurinn ekki spilaður". Ég mæli með þessu viðtali og vona að nýríkir íslendingar séu farnir að velta fyrir sér "tilgangi leiksins" á jafn heimspekilegan hátt og þessir tveir virðast vera að gera.
Verðlag
Hlaupaskórnir sem ég keypti á Íslandi fyrir 18 þúsund krónur fást hér fyrir 6 þúsund krónur. Leffe bjór kostar 100 krónur flaskan sem er sennilega minna en í Belgíu þaðan sem hann er. Bensínið hefur samt hækkað umtalsvert, kostar 3 dollara en kostaði 1 dollar þegar við bjuggum hér fyrir tíu árum.
Matur er svo ódýr að hann skiptir eiginlega engu máli í bókhaldinu. Margir hér borða bara úti í stað þess að eyða tíma í matarinnkaup og eldamennsku.
Ég man þegar íslenskir fjölskyldufeður gerðu sjálfir við bílana og íslenskar mæður saumuðu föt, saumavélin var aldrei langt undan. Í dag fara bílar á verkstæði og föt eru keypt í búðum.
Kannski kemur sú lenska til Íslands frá Bandaríkjunum, að matseld sé ekki eitthvað sem upptekið fjöskyldufólk fæst við hversdags.
Snobb
Hér kosta Levis gallabuxur 32-50$ (1800-3000 krónur) en þær kosta amk. 12 þúsund kr. heima á Íslandi.
Íslensku krakkarnir sem ég var með í hópi létu samt ekki að sér hæða. Á Íslandi var Levis álitið fínt en hér eru þær of ódýrar til að hægt sé að taka þær alvarlega. Þeir vildu heldur fá Diesel gallabuxur fyrir 100 $ sem eru 6000 krónur. Það sem krakkarnir vildu samt helst voru G-Star gallabuxur sem kosta 160$ og uppúr, þær eru því dýrari en Levis kosta heima. Buxurnar eru ekki málið, heldur að hafa eytt peningunum, virðist vera.
Tilgangurinn er ekki að eignast buxur heldur að fara í pissukeppni. Mikið er erfitt að vera unglingur.
Ég held samt stundum að þetta eldist ekki af Íslendingum. Það hefur eitthvað með smæðina að gera.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
23.7.2007 | 15:59
Frægðin kallar!
Ég mun sjá um þáttinn "Á sumarvegi" á Rás 1, núna á fimmtudaginn, 26.júlí.
Þátturinn verður sendur út kl.1315 og aftur kl.1900 sama dag.
Ég ákvað að misnota ekki tímann til að segja hlustendum hvað betur mætti fara á eyjunni, heldur reyna að vera svolítið skemmtilegur, spila músík og svoleiðis. Sigríður Pétursdóttir, sem sér um þættina, sagði að minnsta kosti að sér hefði ekki leiðst að lesa handritið hjá mér.
Mér datt í hug að ef einhver hefði gaman að blogginu hjá mér gæti sá hinn sami viljað kveikja á útvarpinu.
Kveðja, Kári
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (25)
16.7.2007 | 15:36
Meira um tollinn: Svar til Guðbjörns
Sæll Guðbjörn,
Þú gafst mér nóg að huga um. Nú sit ég á sólbjörtum eftirmiðdegi og reyni að svara þér lið fyrir lið, paragraf fyrir paragraf. Það sem þú skrifaðir er í innfelldum texta hér að neðan.
Gaman að sjá að fleiri en ég hafa gaman af tollamálum. Ég gat ekki orða bundist þegar ég sá af hve lítilli þekkingu var fjallað um tollamál og starfsmenn tollsins í þessu bloggi og athugasemdum þess.
Það er slæmt þegar menn tala um eitthvað af of lítilli þekkingu, ég er sammála því. Þótt innviðir tollsins séu flóknir og hægt sé að vera mörg ár að kynnast þeim, þá er grunnhugmyndin að baki tollheimtu einföld og allir geta haft skoðun á henni.
Margir eru kveðnir í kútinn á þeirri forsendu að þeir séu ekki nógu miklir sérfræðingar. Mér leiðist það og svara yfirleitt ég get þekkt egg frá fúleggjum þótt ég kunni ekki að verpa þegar ég lendi í þeirri stöðu.
Í versta falli kemst upp um vankunnáttu og misskilning sem er þá hægt að leiðrétta eins og þú reynir að gera í þínum skrifum. Allir græða að lokum.
Það kann að vera að ástæða þess að ég er svona viðkvæmur fyrir þess sé að ég er formaður Tollvarðafélags Íslands, auk þess sem ég gegni stöðu yfirmanns hjá tollstjóra. Ég vil hins vegar taka skýrt fram að þessa grein skrifa ég ekki í umboði tollyfirvalda eða Tollvarðafélagsins, heldur er um sjálfstæða skoðun mína að ræða.
Mér hefur aldrei sinnast við starfsmann hjá tollinum. Allir sem ég hef séð í vinnu þar hafa verið iðnir og samviskusamir. Ég hef aldrei séð þá misnota aðstöðu sína eða vera dónalega við mig eða þá sem ég var með. Ég held að starfsmenn tollsins séu að minnsta kosti jafn miklir heiðursmenn eins og starfsmenn lögreglunnar. Gæðafólk virðist veljast þangað.
öllum er heimill innflutningur til Íslands, nema að sjálfsögðu ef um innflutningsbann eða takmarkanir sé að ræða á varningnum. Ef þér finnast reglurnar of flóknar gerir þú líkt og þúsundir íslenskra fyrirtækja og einstaklinga: þú kaupir þér aðstoð tollmiðlara.
Ég veit að ég get keypt mér aðstoð tollmiðlara, en þeir eru einmitt sérfræðingarnir sem ég vísa til í mínum upphaflegu skrifum. Mér finnast reglurnar ekki flóknar. Hins vegar er tímafrekt og kostnaðarsamt fyrir mig og aðra sem vilja flytja inn vörur að framfylgja þeim.
Ég hef svo gaman af dæmum: Ef Akureyringar bæðu alla ökumenn sem þangað kæmu að tína allt út úr bílnum, sýna þeim og setja inn í hann aftur, væri það mjög einföld beiðni að þeirra hálfu. Framkvæmdin myndi samt leggja alla umferð til bæjarins niður.
Drífðu þig endilega til London og taktu með þér nokkrar ,,pallettur af klementínum og seldu ódýrt ég kem að kaupa af þér ekki málið!
Ástæðan fyrir því að ég panta ekki pallettu með matvörum til landsins er að á þeirri pallettu yrðu tugir mismunandi vörutegunda og mikil vinna færi í að gera grein fyrir þeim öllum. Persónulega vil ég panta "bland í poka".
Ég veit að ég gæti komið pallettu til landsins ef hún innihéldi bara eina vörutegund eins og þú stingur uppá. Þá þyrfti ég að selja öðrum það sem á pallettunni er og stofna mína eigin verslun. Ég þyrfti að leggja 120% á vöruna á pallettunni til að hafa upp í kostnað við að koma vörunni í gegnum toll og borga tollana. Ég gæti ekki keppt við Bónus og Krónuna í því umhverfi.
Hvað boð og bönn eða takmarkanir varðar,þá styðjast slíkar innflutningstakmarkanir og bönn við lög og reglugerðir. Því er við Alþingi að sakast, því lögin eru sem alþjóð veit sett af Alþingi en ekki stjórnvöldum. Alþingi ákvarðar jafnframt heimildir framkvæmdavaldsins til setningar reglugerða og annarra reglna.
Að sakast við stjórnvöld á borð við tollstjóra (tollverði), sem einungis sinna skyldu sinni og framfylgja lögunum er ekki sanngjarnt. Þegar tollverðir eða aðrir starfsmenn tollstjóra tollflokka eru þeir einnig að framfylgja landslögum. Tollskráin er viðhengi eða viðauki við tollalögin og hefur lagagildi. Þegar tollstarfsmenn tollflokka eru þeir einungis að flokka varning í réttan tollflokk, þannig að rétt gjöld séu greidd í ríkissjóð og rétt leyfi liggi fyrir við innflutning (fyrir hvoru tveggja eru sem sagt lög sem fyrr segir).
Alveg sammála. Þetta er verkefni fyrir Alþingi og það er alls ekki við starfsmenn tollsins að sakast.
Íslendingar hafa hvorki komið sér upp her né járnbrautum. Við höfum látið okkur stærri þjóðir um að leika sér með dáta og lestarteina. Ég held því fram að tollgæsla hefði átt að fara í sama flokk. Hún sé of kostnaðarsöm fyrir svona litla þjóð og hana hefði aldrei átt að taka upp.
Hún var kannski réttlætanleg þegar örfáir aðilar fluttu inn tóbak, salt og mjöl en nú skipta vörutegundir þúsundum og pappírsvinnan hefur blásið út samkvæmt því. Fyrirbæri eins og iPod eru flóknari og erfiðara að skilgreina en tunnu af brennivíni eða sekk af mjöli. Er iPod tölva, upptökutæki eða sjónvarp? Er ekki nær að hætta að reyna að svara því, og taka upp flatan virðisaukaskatt í staðinn?
Tollskráin (Harmonized System) er notuð í yfir 200 löndum um allan heim og er gefin út af Alþjóðatollastofnuninni (World Customs Organization WCO). Aðalmarkmið WCO og Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (World Trade Organization WTO) sem er aðal samstarfsaðli WCO og ekki þekkt fyrir að standa í vegi fyrir alþjóðaviðskipum er að auðvelda og auka heimsviðskiptin.
Ef menn vilja á annað borð hafa tollamúra er sjálfsagt að vera í WCO og nota skrána þeirra, ég er alveg sammála því. Hinsvegar vil ég engan múr.
Tollskráin er einmitt tæki til að auðvelda viðskipti landa á milli, en ekki leið til hindrunar viðskipta landa á milli. Þegar ég sem tollari sé tollskrárnúmer, þá veit ég annaðhvort hvaða vara er á bak við númerið eða ég fletti því upp.
Tollskráin er einnig mikilvæg fyrir hagtölur, en með númerunum er hægt að fylgjast með inn- og útflutningi á öllum varningi. Innflutnings- og útflutningsaðilar og stofnanir hins opinbera geta þannig fylgst með heildar-innflutningi í ákveðnum tollskrárnúmerum. Þetta nýtir sér heill her af fólki í þjóðfélaginu, bæði hjá fyrirtækjum og ríkisstofnunum. Íslendingar eru t.d. með eigin númer á alls kyns fisktegundum og öðru sem aðrar þjóðir hfa ekki og nýtir þær upplýsingar sem tollyfirvöld veita til margra hluta. Kalifornía hefur ekki áhuga á að flokka loðnu og síld í mismunandi tollflokka eða löngu og karfa eða þorsk, en í staðinn hafa þeir áhuga á ýmsum cítrus-ávöxtum s.s.: klementínum, satsúmum og tangerínum.
Ég er sammála, að það gæti verið gaman og gagnlegt að fylgjast með því sem fer til og frá landinu.
Mætti ekki hugsa sér að stærri kaupmenn og heildsalar skiluðu yfirlitsskýrslum til hagstofunnar um sín viðskipti, án þess að öll vara færi í gegnum nálarauga tollembættis? Það er hægt að mæla umferðarþunga eftir hraðbraut án þess að stoppa hvern einasta bíl og telja í honum farþegana.
Ef ég panta varahlut í gamla hjólið mitt tel ég ekki að ég eigi að útfylla skýrslu um málið, eða borga gjöld. Vinnan fyrir mig réttlætir ekki ágóðann fyrir ríkið. Meðalhófs er ekki gætt. Ég myndi eyða 2 klst að óþörfu til að ríkið hagnist um nokkra hundraðkalla. Mínir tveir klukkutímar eru miklu verðmætari en svo.
Þetta er kjarni málins fyrir mér. Í flestum öðrum löndum myndi ég panta varhlutinn frá einhverjum innanlands af því landið væri nógu stórt til að ég þyrfti ekki að flytja neitt inn sjálfur. Ísland er ekki nógu stórt til að vera land í hefðbundnum skilningi. Þess vegna kemur hér upp einokun, aftur og aftur.
Ef lönd eru nógu stór, þá er innflutningur til þeirra í svo stórum skömmtum að tollafgreiðsla er hverfandi lítill hluti af kostnaði við innflutninginn. Ég myndi ekki setja mig á móti því að tollafgreiða tugi tonna af klementínum. Öðru máli gegnir þegar mánaðarneysla á öllu landinu nær ekki upp í hundrað kíló á mánuði. Tekur því þá að fylla út sérstakt eyðublað? Hver borgar eyðublaðið, prentun þess, útfyllingu og yfirferð? Neytandinn, í formi hærra vöruverðs!
Tollarar ákveða því ekki að í dag fari ,,i-pod í þennan flokk og á morgun fari hann í annan tollflokk. Sé slíkt gert er það lögbrot, sbr. umfjöllun mína á undan, og það á að kæra til tollstjóra og síðan til ríkistollanefndar.
Á okkar dögum er vöruúrval það fjölbreytt að einföld skrá getur ekki innihaldið allar mögulegar vörutegundir, ekki frekar en flokkunarkerfi líffræðinga ræður við hverja nýja flugu og skriðdýr sem menn rekast á inni í skógi. Líffræðingar nota starfsævina til að skrifa lærðar greinar um nýju dýrin sem þeir finna og í hvaða flokk þeir velja að setja þau.
Starfsmenn hjá tollinum hljóta að lenda í þessu sama reglulega.
Þegar sjónvörp komu fyrst á markað, sem voru hönnuð til að tengjast tölvu hlýtur að hafa komið kostnaðarsamt hik á starfsmenn tollsins. Það þurfti að búa til nýjan vöruflokk: tölvuskjáir. Sú vinna hefði verið óþörf ef menn hefðu bara flutt inn skermana án þess að spyrja hvort þeir væru flugur eða skriðdýr.
Viljirðu hins vegar lækka gjöldin þarftu að tala við hið háa Alþingi hér að neðan er 77.gr. stjórnarskrárinnar okkar, svo þetta sé á hreinu:Skattamálum skal skipað með lögum. Ekki má fela stjórnvöldum ákvörðun um hvort leggja skuli á skatt, breyta honum eða afnema hann. Enginn skattur verður lagður á nema heimild hafi verið fyrir honum í lögum þegar þau atvik urðu sem ráða skattskyldu
Veldi tollsins er sem sagt ekkert þegar að ákvörðunum um gjöld kemur eða varðandi tollflokkun þar ræður blákaldur lagatextinn.
Aftur sammála, ég veit að þetta eru landslög.
Hvað lokakaflann hjá þér varðar, Kári minn, þá finnst mér leiðinlegt að valda þér vonbrigðum, því sama ,,skrifræðisóskapnaðinn er að finna í tollamálum innan ESB og einnig bölvaða tollskrána sorry!
Allir virðast sammála því, að í ESB sé gífurlegt skrifræði. Ég ætla ekki að halda öðru fram. Hitt er svo annað mál, að ef við göngum í ESB verðum við hluti af stórri heild og kostnaðurinn af öllu skrifræðinu dreifist á miklu fleiri þegna.
Ef það gerist ekki við inngönguna í ESB, þá vil ég ekki ganga inn heldur leita annara leiða til að losna við tollembættið.
Hvers vegna er ég að þessu?
Ég bjó í Norður-Karolínu í Bandaríkjunum í átta ár. Þar vandist ég því að geta pantað vörur með póstverslun, hvaðan sem var innan Bandaríkjanna. Þau eru opinn markaður með þrjúhundruðmilljón manns og engar hindranir innvortis.
Ég keypti tölvuna mína frá fylki sem var lengra í burtu frá Karolínu en Reykjavík er frá Tyrklandi. Engin tollafgreiðsla. DHL kom með tölvuna mína heim næsta dag og sendingarkostnaður var innifalinn í verðinu sem var auglýst í póstlistanum. Ímyndið ykkur hvort þetta veitti ekki tölvubúðinni í bænum samkeppni ! Hún þurfti að keppa við mörgþúsund aðrar verslanir!
Norður Karolínubúar eru miklu fleiri en Íslendingar, en þeir þurfa ekki að reka tollembætti. Þeir þurfa ekki að kosta rekstur embættisins, og það sem skiptir miklu meira máli: Þeir þurfa ekki að borga óbeinan kostnað við að allar innflutningsskýrslurnar séu fylltar út.
Við Íslendingar þurfum að verða svona. Við eigum að geta orðið fylki í ESB. Ef það er ekki hægt, verðum við að leita annara leiða. Við verðum að losna við þessa múra. Ég hef einu sinni kynnst því að vera laus við þá og ég þoli ekki að hafa þá í mínu lífi aftur.
Neytendamál | Breytt s.d. kl. 16:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
13.7.2007 | 10:50
Breytum tollalögunum eins og ef við værum að ganga í Evrópusambandið.
Ef tollakerfið yrði einfaldað gæti hver sem er flutt inn vörur.
Ef mér líkaði ekki verðið í búðum gæti ég farið í verslunarferð til Englands og láta senda mér heim nokkrar pallettur.
Eins og ástandið í tollamálum er núna, þarf her af sérfræðingum til að stunda innflutning. Tollskráin er mörghundruð blaðsíður og gerir greinarmun á Klementínum, Satsúmum og Tangerínum.
Tollarar eru í dómarahlutverki og ekki er hægt að áfrýja: Er iPod tölva, upptökutæki eða plötuspilari? Í dag er hann upptökutæki og í hæsta mögulega tollflokki, enda kostar hann þrefalt á við öll önnur lönd. Tollurinn gæti breytt þessu með einu pennastriki, slíkt er veldi hans.
Við borgum fullorðnum mönnum laun fyrir að viðhalda þessum skrifræðisóskapnaði. Ég tími því ekki. Breytum tollalögunum eins og ef við værum að ganga í Evrópusambandið.
![]() |
Matvæli dýrust á Íslandi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (21)
11.7.2007 | 22:25
Gangstéttar eru ekki hjólastígar
Besta ástæðan til að kaupa fjallahjól hér er bágt ástand á gangstéttum borgarinnar.
Hér eru reiðhjól sem eiga það sameiginlegt að henta ekki á Íslandi vegna þess að hér eru ekki hjólastígar.
Svona hjól er kallað "Rekki" á íslensku eða "Recumbent" á ensku. Hraðamet á reiðhjóli eru slegin á svona grip.
Vöruflutninga-hjól:
"Den sorte jernhest" er vel útfærð nútíma útgáfa af Kristjaníuhjólinu:
Þetta hjól gæti hentað utanbæjar:
Hjólreiðar | Breytt s.d. kl. 22:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
11.7.2007 | 14:44
Gullegg og gæsaeigendur
Ég fer á kajak með tjald og svefnpoka við óbyggðar strendur á sumrum. Þekkst hefur að menn veiði sér í soðið utan kvóta þegar þannig stendur á.
Þegar ég renndi færi í sjó og dró upp þorsk varð mér um. Þetta var svo auðvelt og fiskurinn var svo góður.
Mér varð hugsað hvílík forréttindi það væru að hafa lyklana að þessu forðabúri og mega skammta sér úr því.
Ég þurfti að snúa aftur í bæinn og vinna fyrir mér með hyggjuvitinu, en ég gat alveg hugsað mér að verða eftir þarna. Ég sá að náttúran gefur það sem mennirnir selja. Af hverju ekki ég?
Það eru forréttindi að hafa aðgang að landsins gæðum. Ég get ekki almennilega vorkennt þeim sem hafa haft þau.
Sumir Arabar eru farnir að hugsa hvað gerist þegar olían klárast. Ekki veit ég hvað þeir fara að sýsla en heimsbyggðin mun alla vega ekki vorkenna þeim þegar þar að kemur.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)