Færsluflokkur: Bloggar

Handbók fyrir konu Þorgríms loksins fáanleg

Ég sá þessa fyrirsögn á blaðsíðu 40 í "Blaðinu" í dag:

kenntakonur

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Loksins fáum við að læra á konu Þorgríms!

Í alvöru talað held ég að fyrirsögnin hafi átt að vera:  "Kennir karlmönnum á konurnar þeirra".

Smile

 


Skyggni 2 metrar

Ég fer í sund í Vesturbæjarlauginni.  Einhverra hluta vegna er vatnið þar eins og í Bláa lóninu.  Ég tók myndir með vatnsheldri myndavél (held ég).

Þessi mynd er tekin í grunnu lauginni en ég get varla séð strikið sem er málað á botninn:

P8240077

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Nú tek ég mynd út í laug.  Kaðallinn hverfur strax í grámóðuna: 

P8240079

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Mér leiðist að synda í svona gruggugu vatni.  Verra er þó að ég held að sundverðir geti ekki séð mann á botninum í gegnum sortann.

 


Hvaða tölvupóstur?

Ég sá viðtal við átján ára stúlku í Bandaríkjunum sem sagðist hafa  verið að nota sitt fyrsta tölvupóstfang til að geta átt samskipti við  háskólann sem hún var að sækja um í.

Hún sagði að vinir sínir notuðu eingöngu MSN, Facebook, AIM, SMS,  blogg, Skype og fleiri slíkar þjónustur, þess vegna hefði hún aldrei  notað sitt tölvupóstfang fyrr.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Ég hélt að tölvupóstur væri ennþá "hipp og kúl". Svo kemur í ljós að  hann er orðinn jafn gamaldags og telexið var fyrir mína kynslóð.

Mér hefur lengi fundist tölvupóstur vera úreldur.  Það verður gott að losna við hann.  Ruslpósturinn og nafnlausu bréfin hafa fengið að þvælast fyrir nógu lengi.



I recommend the Pina Colada

Ég sá að Púkinn er kominn með "Seal of approval" og varð að prófa sjálfur.  Hér er mín einkunn:

  

I am nerdier than 99% of all people. Are you a nerd? Click here to find out!

 

Smellið á myndina til að að taka nördaprófið.

 

PS:  Hver kannast við fyrirsögnina?

 

 


Home of the brave

Hér eru nokkrir sundurlausir þankar frá Bandaríkjunum þar sem þetta er skrifað.


Græjur - GPS

Við tókum bílaleigubíl með Garmin StreetPilot en það er tæki sem þekkir hvert einasta hús í Bandaríkjunum og kann leiðina þangað.  Ég vissi ekki hvort þessi tækni væri tilbúin en ég veit núna að hún er það.  Þetta er algerlega ómissandi fyrir túrista í stórborgum.


Við hjónin vorum vön að skipta með okkur verkum.  Annað keyrði og hitt las kort.  Allt gekk vel þar til maður slysaðist á vitlausan "Exit", þá var maður allt í einu kominn í hverfi í stórborg þar sem maður þekkti ekki leiðina aftur upp á hraðbraut.  Í myrkri var ennþá erfiðara að lenda í þessu.


Við áttum gróf kort yfir landið, en okkur vantaði oft litlu kortin sem sýna hjáleiðirnar og borgirnar.


Með svona GPS tæki í bílnum er þetta úr sögunni.  Hugarfarið breytist.  Nú leggur maður í að finna ótrúlegustu búðir og söfn í stórborgum sem ella hefði hreinlega verið of mikil fyrirhöfn að keyra til.

Tækið fæst leigt á bílaleigunni og ég ætla að leigja slíkt eftirleiðis.  Ég ætla samt ekki að fjárfesta í svona tæki því í næstu útlandaferð verður þessi græja ennþá flottari og kortið með nýjustu upplýsingum.   Heima á Íslandi rata ég.

 

Græjur - HDTV

Á heimilinu þar sem ég gisti eru komin tvö sjónvörp í háskerpu, "HDTV".  Það er ólíkt betra að horfa á sjónvarp hér í Bandaríkjunum núna en var þegar við bjuggum hér.  Nú eru útsendingar hér miklu betri en  í Evrópu.  Myndin er hnífskörp og litirnir góðir.  "Litla" sjónvarpið á heimilinu er 32 tommur og það liggur við að myndin sé of lítil til að upplausnin njóti sín til fulls.  Í 50 tommu sjónvarpinu er aftur á móti rosalegur munur að horfa, sérstaklega á íþróttir.

 

Noblesse oblige

Á sjónvarpsstöðinni PBS sá ég viðtal við Warren Buffett og Bill Gates sem var tekið árið 2005.  Hægt er að nálgast viðtalið á DVD diski hér.

Í viðtalinu spyrja háskólanemar þessa ríkustu menn heims spjörunum úr.  Tvennt vakti athygli mína.

Einn nemandi spurði hvað þeim fyndist um flatan tekjuskatt.  Þeir svöruðu hiklaust að hann ætti ekki að verða flatari en hann væri nú þegar.  "Við borgum allt of lítið í skatta", sagði Warren Buffett.  "Ég borgaði miklu meiri skatt þegar ég var fátækari, þetta er ósanngjarnt".

Annað sem kom fram, var að þeir ætla báðir að losa sig við 99% af auðnum áður en þeir falla frá.  Það kom ekki til greina að láta erfingjana hafa alla þessa peninga.  Þeir hafa ekki gott af því, og það er okkar skylda að láta peningana nýtast.  Annað væri "unamerican".  "Við  gerum okkur grein fyrir því að þessar fjárupphæðir geta aldrei farið í einkaneyslu einstaklinga, þannig er leikurinn ekki spilaður".  Ég mæli með þessu viðtali og vona að nýríkir íslendingar séu farnir að velta fyrir sér "tilgangi leiksins" á jafn heimspekilegan hátt og þessir tveir virðast vera að gera.

 

Verðlag

Hlaupaskórnir sem ég keypti á Íslandi fyrir 18 þúsund krónur fást hér fyrir 6 þúsund krónur.  Leffe bjór kostar 100 krónur flaskan sem er sennilega minna en í Belgíu þaðan sem hann er.  Bensínið hefur samt hækkað umtalsvert, kostar 3 dollara en kostaði 1 dollar þegar við bjuggum hér fyrir tíu árum.

Matur er svo ódýr að hann skiptir eiginlega engu máli í bókhaldinu.  Margir hér borða bara úti í stað þess að eyða tíma í matarinnkaup og eldamennsku.

Ég man þegar íslenskir fjölskyldufeður gerðu sjálfir við bílana og íslenskar mæður saumuðu föt, saumavélin var aldrei langt undan.  Í dag fara bílar á verkstæði og föt eru keypt í búðum.

Kannski kemur sú lenska til Íslands frá Bandaríkjunum, að matseld sé ekki eitthvað sem upptekið fjöskyldufólk fæst við hversdags.

 

Snobb

Hér kosta Levis gallabuxur 32-50$ (1800-3000 krónur) en þær kosta amk. 12 þúsund kr. heima á Íslandi.

Íslensku krakkarnir sem ég var með í hópi létu samt ekki að sér hæða.  Á Íslandi var Levis álitið fínt en hér eru þær of ódýrar til að hægt sé að taka þær alvarlega.  Þeir vildu heldur fá Diesel gallabuxur fyrir 100 $ sem eru 6000 krónur.  Það sem krakkarnir vildu samt helst voru G-Star gallabuxur sem kosta 160$ og uppúr, þær eru því dýrari en Levis kosta heima.  Buxurnar eru ekki málið, heldur að hafa eytt peningunum, virðist vera.

Tilgangurinn er ekki að eignast buxur heldur að fara í pissukeppni.  Mikið er erfitt að vera unglingur. 

Ég held samt stundum að þetta eldist ekki af Íslendingum.  Það hefur eitthvað með smæðina að gera. 

 

 


Frægðin kallar!

Ég mun sjá um þáttinn "Á sumarvegi" á Rás 1, núna á fimmtudaginn, 26.júlí.

Þátturinn verður sendur út kl.1315 og aftur kl.1900 sama dag. 

Clock-RUV

Ég ákvað að misnota ekki tímann til að segja hlustendum hvað betur mætti fara á eyjunni, heldur reyna að vera svolítið skemmtilegur, spila músík og svoleiðis.  Sigríður Pétursdóttir, sem sér um þættina, sagði að minnsta kosti að sér hefði ekki leiðst að lesa handritið hjá mér.

 

 

Mér datt í hug að ef einhver hefði gaman að blogginu hjá mér gæti sá hinn sami viljað kveikja á útvarpinu.

Kveðja, Kári

 

 


Breytum tollalögunum eins og ef við værum að ganga í Evrópusambandið.

 

Ef tollakerfið yrði einfaldað gæti hver sem er flutt inn vörur.

Ef mér líkaði ekki verðið í búðum gæti ég farið í verslunarferð til Englands og láta senda mér heim nokkrar pallettur.

Eins og ástandið í tollamálum er núna, þarf her af sérfræðingum til að stunda innflutning.  Tollskráin er mörghundruð blaðsíður og gerir greinarmun á Klementínum, Satsúmum og Tangerínum.

Satsúmur (ekki Tangerínur)

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Tollarar eru í dómarahlutverki og ekki er hægt að áfrýja:  Er iPod tölva, upptökutæki eða plötuspilari?   Í dag er hann upptökutæki og í hæsta mögulega tollflokki, enda kostar hann þrefalt á við öll önnur lönd.  Tollurinn gæti breytt þessu með einu pennastriki, slíkt er veldi hans.

Við borgum fullorðnum mönnum laun fyrir að viðhalda þessum skrifræðisóskapnaði.  Ég tími því ekki.  Breytum tollalögunum eins og ef við værum að ganga í Evrópusambandið.

 


mbl.is Matvæli dýrust á Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gullegg og gæsaeigendur

Ég fer á kajak með tjald og svefnpoka við óbyggðar strendur á sumrum.  Þekkst hefur að menn veiði sér í soðið utan kvóta þegar þannig stendur á.

Þegar ég renndi færi í sjó og dró upp þorsk varð mér um.  Þetta var svo auðvelt og fiskurinn var svo góður.

fagurfiskur

Mér varð hugsað hvílík forréttindi það væru að hafa lyklana að þessu forðabúri og mega skammta sér úr því.

Ég þurfti að snúa aftur í bæinn og vinna fyrir mér með hyggjuvitinu, en ég gat alveg hugsað mér að verða eftir þarna.  Ég sá að náttúran gefur það sem mennirnir selja.  Af hverju ekki ég?

Það eru forréttindi að hafa aðgang að landsins gæðum.  Ég get ekki almennilega vorkennt þeim sem hafa haft þau.

Sumir Arabar eru farnir að hugsa hvað gerist þegar olían klárast.  Ekki veit ég hvað þeir fara að sýsla en heimsbyggðin mun alla vega ekki vorkenna þeim þegar þar að kemur.

 


Solidarnosc

Um hjólaviðgerðir

Þegar ég var táningur vann ég í hjólabúð.

Einu sinni kom sending af hjólum með gallaða gíra.  Ég sá það ekki strax, þetta  var ekki augljós galli.

Ég var samt farinn að sjá mynstrið þegar tíu - tólf kúnnar voru búnir að koma út  af þessu. Þeir borguðu allir möglunarlust fyrir nýja gíra og héldu að þetta væri  þeim að kenna.

Nú var ég farinn að sjá hvað var í gangi og hefði ekki átt að taka við  peningunum heldur endursenda brotnu gírana til framleiðandans.  En ég "bara vann  þarna" og pældi ekki mikið í þessu.

Allir sem fengu hjól úr þessari sendingu borguðu fyrir viðgerð að lokum.


Um neytendasamtök

Fólk sem er ekki í samtökum og deilir upplýsingum sín á milli er ekki í aðstöðu  til að sjá mynstur eða vinna sameiginlega að sínum málum.  Það er dæmt til að  vera misnotað, jafnvel af þeim sem eru varla að reyna.

Það skiptir ekki máli hver misnotar.  Málið er að illa upplýst fólk lætur  misnota sig.  "There is a sucker being born every minute" átti P.T.Barnum að  hafa sagt. "A fool and his money are soon parted" segir enskur málsháttur.

Á Íslandi er jarðvegurinn frjór fyrir misnotkun. Hraust neytendasamtök væru  merki um sterka grasrót og virkt lýðræði.  Því miður eru þau álíka sterk hér og  félag esperantista (fyrirgefið, esperantistar!)

Í Íslandsklukkunni var Jón Hreggviðsson var troðinn í skítinn af dönskum  yfirvöldum en lofaði samt sinn danska kóng í hástert, fastur í sínu fari - þangað til hann kom til Kaupmannahafnar og sá með eigin augum hallirnar sem  höfðu verið reistar á kostnað íslendinga.  Þá óskaði hann að hann hefði drepið  kóngsins böðul.


Um afleiki

Brotnir gírar og hátt lyfjaverð eru hjóm hjá því að selja sameignir þjóðarinnar,  stofnanir, land og orku fyrir slikk.  Ég veit ekki hvort við erum að því, ég er  ekki nægilega upplýstur!

Lenape indjánar seldu Manhattan eyju til Hollendinga árið 1626 fyrir 24 dollara.  Það er fyndin og skemmtileg tilviljun að Wall Street skuli standa þar í dag og  sýnir hvað kaupmenn á eyjunni hafa haft gott viðskiptavit í gegnum árin.

Menn hafa gert mikið grín af indjánunum fyrir þetta en ég er viss um að  indjánarnir töldu sig vera að gera góð kaup út frá þeim upplýsingum sem þeir  höfðu.

Eignaréttur var ekki vel skilgreint hugtak hjá þeim.  Indjánunum fannst landið  ekki vera eitthvað sem hægt væri að selja. Þeir væru eiginlega að plata hvíta  manninn því hvernig gæti nokkur maður átt land?

Menn hafa líka bent á að 24$ væru orðinn ágætur peningur í dag ef indjánarnir  hefðu ávaxtað þá. Á 5% ársvöxtum væru þeir orðnir tveir milljarðar  bandaríkjadala.  Á 10% vöxtum væru þeir 80 kvadrilljón bandaríkjadalir  (80,000,000,000,000,000 dalir) sem er meira en allir peningar í heiminum.  Eru  ekki vaxtavextir magnað fyrirbæri?  Lántakendum er hollt að hafa það í huga.

Indjánarnir höfðu ekki um margar sparileiðir að velja og mér vitanlega eiga þeir  ekki 80 x 10 í 15.veldi dollara í dag.

Ég vona að íslenskur almenningur eigi ekki of mikið sameiginlegt með Lenape  indjánum fyrir 375 árum sem voru þó spurðir, og þeir ákváðu verðið.

Mikið af þeim nýja auði sem ég sé í dag kemur til af því menn "með glöggt auga  fyrir tækifærum" hafa lært að meta til fjár það sem var ómetanlegt áður, hvort  sem er sameiginlegt landssvæði, fiskveiðilendur, bankar eða burðarnet símans.

Gott hjá þeim!  Ef þeir hafa hagnast á okkar kostnað er það okkur að kenna fyrir  að sofna á verðinum - eða hafa aldrei vaknað almennilega síðan við fengum  sjálfstæðið.

Erum við að selja landið í skiptum fyrir útigrill og jeppa?  Ég hreinlega veit  það ekki.


Um blogg

Ég finn fyrir pirringi hjá mörgum sem blogga, þeir eru að agnúast út í  samfélagið. Það er gott, því samskiptaleiðir eru þá amk. opnar og menn tala um  það sem betur má fara.  "Guði sé lof það svíður" var mamma vön að segja þegar ég  fékk sár.  Það er hættulegra ef allt er dofið.

Getur blogg leitt af sér eitthvað uppbyggilegra en þus?  Getur verið að netið  eigi eftir að valda varanlegri breytingu á uppbyggingu lýðræðis?  Verðum við  upplýstari en Lenape indjánar fyrir 375 árum?

Það þarf meira en flottar tölvur til að fá virkt lýðræði og neytendameðvitund og  ríkisstjórnin mun ekki vinna vinnuna fyrir okkur.  Við fáum þá ráðamenn sem við  eigum skilið.

 


Nú er góður tími til að berjast

Ég bloggaði um sjöfalt lyfjaverð fyrr á vorinu.

Við það tækifæri sendi ég tölvupóst til lyfjaverðsnefndar og til neytendasamtakanna.  Þau sendu svo fyrirspurn áfram til Actavis.

Hvorki Actavis né Lyfjaverðsnefnd svöruðu póstunum einu né neinu.  Að vísu eru bara liðnar þrjár vikur, kannski er ég óþolinmóður?

Ég er persónulega sannfærður um að þeir sem bera ábyrgðina hafa ekki hugsað sér að gera neitt í málunum að óbreyttu.

Þessi þjónusta Aðalsteins Arnarsonar er vissulega á gráu svæði núna, en aðeins þangað til lyfjaeftirlitið leyfir honum að senda lyfin hingað.  

Come on !  Þetta er Íslendingur, í Svíþjóð.  Af hverju ætti hann ekki að geta sent okkur lyf?

Það er ekki það sama, að opna fyrir allan lyfjainnflutning frá öllum löndum, eða leyfa viðurkenndum aðilum á öðrum norðurlöndum að senda hingað lyf.   

Lesið Íslandsklukkuna, þið Jónar Hreggviðssynir, og berjist svo fyrir ykkar eigin sjálfstæði!

Sendið lyfjastofnun póst og biðjið um að Aðalsteini verði leyft að senda hingað lyf.   Það hafa ekki allir efni á að borga fimm þúsund krónur fyrir lyf sem á að kosta sjöhundruð. 

Sendu lyfjastofnun kurteisa en ákveðna ábendingu hér ef þú hefur skoðun á málinu og bentu öðrum á að gera hið sama.  Það er tjáningarfrelsi hér síðast þegar ég vissi.

 

Kveðja, Kári

 


mbl.is Býður ódýrari lyf á netinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband