Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
19.2.2007 | 10:27
Grillið mitt og gjaldmiðlarnir
Ég var mjög ánægður með fyrsta grillið okkar - en það var lítið og
brennarinn í því var allt of nálægt kjötinu.
Allt sem á því var steikt þurfti stöðuga gjörgæslu og varð yfirleitt
brennt að utan og hrátt að innan, og það var ef vel gekk!
Fyrirvaralaust gat gosið upp eldur í því og ég þurfti að rjúka frá
gestunum til að taka bitana af hálf kolaða.
Ég var ótrúlega tregur að kaupa nýtt af því ég hélt að mikill hiti
þýddi gott grill. Ég lét loks tilleiðast í fyrra og við keyptum stórt
"Broil King" grill.
Þetta var bylting. Lykillinn að góðri grillun er nefnilega ekki að
hafa logsuðuhita eina stundina og slökkva undir þá næstu. Nei,
lykillinn er jafn, hægur hiti. Ég var ótrúlega tregur að ná þessu.
Mér dettur þetta í hug þegar ég heyri menn monta sig af íslensku
krónunni og hæfileikum hennar. Hér rýkur efnahagslífið upp og verður
viðbrennt eitt árið og er hrátt í gegn það næsta. Það getur verið að
íslenskum ráðamönnum finnist þeir vera grillmeistarar þar sem þeir standa
yfir krónunni út á svölum, en þetta er ill meðferð á góðu kjöti.
Kjötið í samlíkingunni er íslendingar. Ein kynslóð kemur út
"ofsteikt" því hún keypti hús og jarðir meðan þau voru ódýr, næsta
kynslóð verður "hrá" því hún neyðist til að taka á okurvöxtum lán
fyrir húsunum sem kynslóðin á undan byggði.
Ísland er nú land tækifæranna fyrir þá sem eru tækifærissinnaðir. Þeir
sem vilja gera plön fram í tímann tapa í svona árferði.
Ég legg til að okkar velmeinandi grillmeistarar verði neyddir til að
kaupa grill sem heldur hægum jöfnum hita. Grillið í þeirri samlíkingu
er Evran.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 6.6.2007 kl. 11:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
16.2.2007 | 10:11
Tíminn og þú
Árið er hringferð jarðar um sólu, mánuðurinn hringferð tungls um jörð en
dagurinn hringferð jarðar um sjálfa sig.
Vikan (svarið sem ég vildi fá) er ekki háð himintúnglum heldur er hún gamall
verkalýðssamningur milli faraós og ráðinna starfsmanna við pýramídaviðhald,
vatnsveitur og önnur tilfallandi störf. Faraó var frumkvöðull í
mannauðsstjórnun. Hjá honum áttu menn að vinna sex daga en halda frí þann
sjöunda.
Biblían sagði seinna að Guð hefði haft sama vaktaplan. Sennilega var það
skrifað til að skapa jákvætt andrúmsloft á vinnustað gyðinga og sýna þeim hverju
hægt væri að koma í verk með góðri tímastjórnun.
Margir kvarta undan tímaskorti. Þetta er bull. Þeir hafa allan tímann í
heiminum. Það má halda því fram að við séum öll í hinu eílifa núi og að tíminn
sé tálsýn.
Flestir eru bara að reyna að gera of mikið. Þeir borða aðeins of mikið og þeir
vilja líka meiri tíma. Tími er peningar svo tímaskortur er bara útgáfa af
græðgi.
"Todo" listinn er önnur ástæða fyrir kvörtunum hjá fólki. Því hættir til að
hrúga öllu á hann þangað það er orðið sannfært um að það muni ekki hafa tíma til
að lifa. Fyrirmyndar tímastjórnandi ætti væntanlega að byrja listann sinn:
1. Koma út úr mömmu 2. orga.
Listinn myndi enda: N-1. segja eitthvað spaklegt N.Deyja.
Það verður eitthvað á todo listanum þegar þú deyrð og eins gott að sætta sig við
það. Notaðu hann því fyrir hluti sem þú vilt gera, ekki sem áminningu um hvað
þú ert lélegur pappír.
Nákvæmar klukkur komu nýlega til sögunnar. Klukkur voru ekki gerðar nákvæmar
fyrr en járnbrautafélög þurftu að samræma lestarferðir yfir heimsálfur.
Núna er fólk farið að leika járnbrautalestir hverja einustu mínútu í lífi sínu.
Það er kannski hagkvæmt fyrir þjóðfélagið en ég veit ekki hvort það hámarkar
lífshamingjuna hjá einstaklingnum.
Ég legg til að menn noti Mán-Fös fyrir fyritækið sem þeir vinna hjá, Lau fyrir
fyrirtækið sem þeir reka sjálfir, þ.e. heimilið, en taki sunnudaginn frá fyrir
sjálfa sig. Ef sunnudeginum er eytt í Smáralind (hvort sem er í innkaup eða
afgreiðslustörf) er það vísbending um að hægja á sér.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 6.6.2007 kl. 11:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
15.2.2007 | 10:36
Frjáls innflutningur á ráðamönnum ?
Í gær sat ég athyglisvert málþing sem var haldið af "Viðskiptaráði" en
það heitir nemendafélag viðskiptafræðinema í Háskólanum í Reykjavík.
Þingið hét "Krónan eða Evran". Á því töluðu fjórir: tveir lektorar í
HR, framkvæmdastjóri verðbréfasviðs Landsbankans og hagfræðingur
samtaka iðnaðarins.
Þingið var mjög fræðandi - ég hefði viljað sjá Ríkissjónvarpið taka
það upp og senda út. Málið varðar alla og er of viðamikið til að
afgreiða í stuttum fréttaskotum.
Það sem ég tók með mér heim eftir þetta þing er, að Íslendingar eru
misleitur hópur. "Eigum við að taka upp evruna" fær mismunandi svör
eftir því hverjir "við" erum.
Ég á ekki kvóta eða jörð eða útflutningsfyrirtæki og ég rek ekki
ráðuneyti eða seðlabanka.
Ég er í hagsmunahópnum "matarinnkaupandi, húsnæðislánaafborgandi,
hugbúnaðarsemjandi og verðandi flatskjáfjárfestir". Fyrir minn hóp
sýnist mér svarið vera "já, göngum í ESB og tökum upp evruna".
Málið er rammpólítískt. Bankafulltrúi mun hafa aðra skoðun á málinu
en ég, og við höfum báðir rétt fyrir okkur. Menn verða því að mynda
sér sjálfstæða skoðun. "Við íslendingar" hefur enga merkingu.
Við flytjum nú inn nammi, fjármagn og verkamenn. Það ætti ekki að
vera stórt stökk fyrir þjóðina að flytja ráðamennina inn frá Brussel.
Þessir íslensku mega alveg við svolítilli samkeppni.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 6.6.2007 kl. 11:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
12.2.2007 | 15:07
Hvers vegna hindrar ríkisvaldið duglega bændur í að framleiða meira?
Í grein eftir Bolla Héðinsson sem var birt 7.feb í Viðskiptablaðinu er spurt:
Við hljótum að spyrja okkur hvaða nauðsyn sé talin á því að bændur sem stunda mjólkurframleiðslu þurfi að búa við það kerfi að kaupa sér kvóta af öðrum bændum til að framleiðsla þeirra njóti þeirra opinberu styrkja sem aðrir framleiðendur njóta. Hvers vegna þarf að stýra mjólkurframleiðslu yfirleitt með kvótasetningu og styrkjum?
Hvers vegna mega mjólkurbændur ekki framleiða eins og þeir vilja án afskipta ríkisvaldsins og láta neyslu þjóðarinnar, og möguleika til útflutnings, ráða því hversu mikið selst af framleiðslu þeirra? Spyr sá sem ekki veit.
Ef einhver man hvers vegna aðrar reglur eru látnar gilda um bændastéttina og framleiðslu hennar, heldur en um aðrar atvinnugreinar, þá væri ekki úr vegi að sá hinn sami rifjaði það upp. Ekki ætti að nægja að segja þetta hefur alltaf verið svona og þetta tíðkast annarsstaðar og taka það sem góða og gilda skýringu.
Með sama hætti eiga ráðamenn að svara því hvers vegna þurfi að hafa opinber afskipti af framleiðslu kindakjöts og því hversu mikið er framleitt til innlendrar neyslu annars vegar og til útflutnings hins vegar. Hvers vegna þurfa sauðfjárbændur að vera seldir undir kvóta settan af opinberum aðilum um þann fjölda fjár sem þeim er gert mögulegt að hafa á jörðum sínum? Því skyldu ekki hin almennu lögmál atvinnugreina um framleiðslu einnig gilda um sauðfjárrækt og að bændur ákvarði umfang hennar sjálfir, m.v. jarðnæði og vinnuframlag? Markaðurinn fyrir afurðirnar, hvort heldur hann er innan lands eða utan, er fyllilega fær um að gefa bændum til kynna hversu mikið borgi sig fyrir þá að framleiða.
Ég get ekki orðað þetta betur sjálfur. Ég sé engin rök fyrir þessari miðaldahugsun.
Þetta eru ekkert nema dreggjar af fimm ára áætlunum sem hefðu átt að líða undir lok þegar Berlínarmúrinn féll.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 6.6.2007 kl. 11:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
9.2.2007 | 11:09
Íbúðin mín er eins og bíll...
Ég velti stundum fyrir mér hvað fólk kaupir mikið af aukahlutum þegar
það kaupir bíl en fær sér enga fyrir íbúðina.
Bíllinn er keyptur með rafmagnshita í sætum, sjálfvirkum vinnukonum
með regnskynjara, rafmagnsrúðum, leðursætum, rúðupissi, rafmagns
hliðarspeglum og þjófavörn og fleiru og fleiru.
Íbúðir gætu verið með fjarstýrðri samlæsingu, einum taka sem slekkur /
kveikir á öllum ljósunum, rafmagnsgardínum, gluggum sem hægt er að
opna og loka með fjarstýringu, hituðum leðursófa í stofunni og
innbyggðum steríógræjum í vegg í öllum herbergjum.
Innbyggt þjófavarnakerfi og brunaboði sem slekkur á eldavélinni og
lokar öllum hurðum ef hann finnur brunalykt gæti sparað 40 milljónir á
einu bretti.
Heima hjá okkur eru rafmagnsstýrðar gardínur frá Sólar gluggatjöldum
(get mælt með þeim). Þær kostuðu næstum ekkert meira en þessar
venjulegu með böndunum en samt furða allir gestir sig á þessari
merkilegu nýung þótt þeir eigi bíl með öllum aukahlutum.
Bíllinn endist bara í nokkur ár. Góð leðurhúsgögn fara á haugana
þegar bílnum er hent. Íbúðir endast miklu lengur en bílar svo hvaðan
kom þessi þessi naumhyggja allt í einu?
Stjórnmál og samfélag | Breytt 6.6.2007 kl. 11:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.2.2007 | 16:17
Athyglisverðir tímar
spurður af hverju frægð hans stafaði. Hann svaraði:
Elsti bróðir minn er svo fær að hann sér sjúkdómseinkennin
áður en sjúklingurinn kennir sér meins. Frægð hans hefur ekki
borist út fyrir hverfið.
Næstelsti bróðir minn getur læknað mein á meðan þau eru ennþá
smásár. Hróður hans hefur ekki borist út fyrir heimaborg
okkar.
Ég reyni að lækna sjúkdóma þegar sjúklingarnir koma til mín
sárkvaldir, ég stilli kvalirnar og geri þeim lífið bærilegra.
Þeir breiða frægð mína út.
Ég er draumóramaður, en í mínum draumaheimi ynnu ráðamenn vinnuna sína
svo vel að þeirra yrði nærri aldrei minnst. Við læsum um tónleika og
leikhús af því stjórnmálin væru varla fréttnæm.
Þorgerður Katrín var mikið í blöðunum um daginn af því hún lofaði
Háskóla Íslands þremur milljörðum króna. Ég samgleðst Háskóla
Íslands, en ég hefði verið ánægðari ef Alþingi hefði skapað viðunandi
rekstrargrundvöll fyrir skólann (og aðra skóla) með vel gerðum lögum
svo þessi áberandi góðgerðarstarfsemi Þorgerðar hefði ekki þurft að
verða fréttamatur.
Gömul kínversk bölvun hljómar svona: "May you live in interesting
times". Ég vona að sá dagur muni koma að við Íslendingar lifum ekki á
svona athyglisverðum tímum af því kjörnir ráðamenn vinna vinnuna sína
af ráðvendni og í hljóði.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 6.6.2007 kl. 11:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
6.2.2007 | 17:06
Greinalestur með gagnrýnum augum
lesandans.
Hér er því listi yfir helstu rökleysur sem menn geta búist við að sjá
á prenti. Hafið þær í huga næst þegar þið setjist við greinalestur.
1. Gegn manninum (Ad Hominem)
Dæmi: Hannes Hólmsteinn segir að við eigum að bursta tennur. Hannes
Hólmsteinn er úr stuttbuxnaliði Davíðs. Þess vegna eigum við ekki að
bursta tennur.
2. Ásökun með samanburði
Dæmi: Jón Baldvin segir að bilið milli ríkra og fátækra sé að aukast.
Kommúnistar segja þetta líka. Þess vegna er Jón Baldvin ekkert nema
kommúnisti.
3. Alhæfing
Dæmi: Allir nauðgarar eru karlmenn. Jói er karlmaður. Þess
vegna er hann nauðgari.
4. Að gefa sér það sem á að sanna
Dæmi: Ef Halldór Laxness skrifaði biblíuna, þá er hann ansi góður
höfundur. Halldór Laxness er ansi góður höfundur. Þess vegna
skrifaði hann biblíuna.
Annað dæmi: Ef sjálfstæðismenn komast að í borgarstjórn verður gert
hreint í borginni. Borgin er þrifaleg. Þess vegna eru sjálfstæðismenn
í borgarstjórn.
5. Að álykta út frá bjöguðu úrtaki
Dæmi: Samkvæmt könnun á viðskiptavinum í Gallerí kjöt er fátækt ekki
til á Íslandi.
6. Hálfur sannleikur
Dæmi: Eins og allir vita þá er illu best aflokið svo skellum okkur
þessvegna í að byggja álver.
7. Alhæfing í fljótfærni
Dæmi: Gott lag í útvarpinu áðan, þetta hlýtur að vera frábær stöð.
8. Áhrifagirni út frá eftirminnilegri sögu
Dæmi: "Ég ætla að selja mótorhjólið og kaupa Volvo". "Ekki gera það,
vinur minn missti báða fætur í slysi í Volvo, vertu áfram á
mótorhjóli".
9. Hringferð í röksemdafærslum
Dæmi: Biblían segir að Guð sé til og hún lýgur ekki af því hún er Guðs
orð svo Guð hlýtur að vera til.
10. Höfðað til hefða
Dæmi: Við höfum alltaf styrkt landbúnað. Þess vegna eigum við að
halda því áfram.
11. Að gefa sér orsakatengsl ef hlutir gerast samtímis
Dæmi: Alltaf þegar ég sofna í skónum vakna ég með hausverk. Ég er
ekki frá því að svefn í skóm valdi hausverk.
12. A gerist undan B, þess vegna veldur A B
Dæmi: Aldrei hafa fleiri farið í framhaldsnám og glæpir halda áfram að
aukast. Menntun veldur glæpum.
13. Hála brautin
Dæmi: Ef við lækkum tolla á landbúnaðarvörum koma allir sem eru
búsettir á landsbyggðinni til Reykjavíkur og umferðin mun verða
óbærileg. Þess vegna skulum við ekki hugsa um að lækka tolla.
14. Ályktun út í loftið (Ignoratio Elenchi)
Dæmi: Ég ætti ekki að borga sekt fyrir að keyra of hratt. Af hverju
eruð þið í löggunni ekki að eltast við stórhættulega dópista og
barnaníðinga?
15. Höfðað til afleiðinganna
Dæmi: "Bankafulltrúi, telur þú að húsnæðisverð hækki áfram"? (Það væri
gott fyrir bankana). "Já, ég held það hækki áfram".
16. Strámaðurinn (Straw man)
Dæmi: Jói segir: "Mér finnst ekki að börn eigi að geta hlaupið
fyrirvaralaust út á götu". Siggi: "Mér finnst þú andstyggilegur að
vilja læsa börn inni í myrkum kompum allan daginn". (Var Jói að segja
það?)
Annað dæmi: Borgarstjórinn: "Ef við bætum gatnakerfið minnka
umferðartafir". Andstaðan: Þið sjálfstæðismenn ætlið að breyta
Reykjavík í Detroit. Er ykkur skítsama um umhverfið?
17. Ályktað út frá heimsku
Dæmi: Það er ekki hægt að smíða skip úr stáli, stál sekkur í vatni.
Skip á að byggja úr tré.
Annað dæmi: Hjólreiðar ganga aldrei í Reykjavík, hér eru meiri
brekkur og verra veður en í nokkurri hjólaborg (bæði arfavitlaust).
18. Höfðað til hégóma
Dæmi: Ég hef mjög einfaldan smekk. Ég vel aðeins það besta.
Herragarðurinn. (Ef þú kaupir ekki föt þar ertu smekklaus).
Annað dæmi: Íslendingar borða SS pylsur. (Ef þú borðar ekki SS pylsur
ertu föðurlandssvikari).
19. Höfðað til fáránleika
Dæmi: Ef þróunarkenningin er rétt þá voru landnámsmennirnir apar!
Ætli þeir hafi ekki róið hingað með fótunum?
20. Höfðað til fjöldans
Dæmi: Meirihluti Dana reykir, svo reykingar geta varla verið
skaðlegar.
Annað dæmi: Komdu til Mývatns. 100 milljón mýflugur geta ekki haft
vitlaust fyrir sér.
21. Höfðað til ofbeldis
Trúðu á Guð -- ef þú gerir það ekki ferð þú til HELVÍTIS!
22. Ályktað út frá óskhyggju
Hagfræðingurinn Irving Fisher sagði að hlutabréf hefðu náð hámarki og
að menn ættu að venjast þessu nýja framtíðarverði bréfanna, nokkrum
vikum áður en markaðurinn hrundi 1929.
Hér er æfingadæmi í lokin: Hvað er að þessari röksemdafærslu?
Á tíu sekúndna fresti fæðir kona barn. Það verður að finna þessa konu
og stöðva hana!
PS: Allar þessar rökleysur og fleiri má lesa betur um á:
http://en.wikipedia.org/wiki/Logical_fallacy
Stjórnmál og samfélag | Breytt 6.6.2007 kl. 11:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
6.2.2007 | 15:55
Nafn með rentu?
Þetta er billegt skot hjá mér en... hefur einhver velt fyrir sér hvað nöfn stjórnmálaflokkanna eiga oft illa við?
- Framsóknarflokkurinn verður seint frægur fyrir framúrstefnulegar hugmyndir.
- Það þarf ekki sjálfstætt hugsandi fólk til að kjósa sjálfstæðisflokkinn, hann er eiginlega "sjálfgefni valkosturinn".
- Samfylking virðist ekki geta fylkt sér um eitt né neitt.
- Frjálslyndir eru ekki beinlínis frjálslyndir í garð útlendinga.
Eini flokkurinn sem ég get ekki baunað svona á er Vinstri grænir :)
Stjórnmál og samfélag | Breytt 6.6.2007 kl. 11:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
5.2.2007 | 11:54
Að evra eða evra ekki
eins og það er auglýst af bönkunum í Fréttablaðinu.
Hann sagði strax: "Kannski við hjónin ættum að taka milljón og setja
í reikning hjá íslenskum banka. Við getum ekki tapað á því. Þótt
verðbólgan ykkar fari af stað þá eru lánin samt verðtryggð".
Þetta eru skiljanleg viðbrögð. Hann sá strax hagnaðarvonina, eins og
svo margir aðrir útlendingar hafa gert. Svo er ísland líka vestrænt
lýðræðisþjóðfélag svo ekki er áhættan mikil. Ekki fer landinn að
flaska á því að borga skuldirnar?
Viðhorf vinar míns og annara útlendinga með sparifé í handraðanum er
ástæðan fyrir því að gengi krónunnar helst í 69kr/$ í stað 158kr/$
eins og Economist telur að hún ætti að verðleggjast á.
Við höfum skipt út gamla óvini okkar, verðbólgunni fyrir nýjan óvin,
lánabólguna. Þegar íslendingar treysta sér ekki til að borga af
fleiri lánum munu útlendingar hætta að kaupa krónuna og hún mun
falla, verðbólgan fer aftur af stað í sinni upphaflegu mynd.
Ef við tökum upp Evruna munum við þurfa að taka timburmennina út
strax, svo það er skiljanlegt að margir hagsmunaaðilar vilji ekki sjá
það gerast.
Ég vona að lesandinn geri sér grein fyrir að ólíkir aðilar hafa
ólíka hagsmuni í þessu máli.
Best er illu aflokið: Ég vil að íslendingar taki upp evruna, til þess
að milliliðir hætti að maka krókinn í lánaveitingum og þjóðin læri að
spara og semja um mannsæmandi laun í stað þess að velta stöðugt stærri
vandamálapakka inn í framtíðina.
Ef íslendingar tækju upp evruna núna kæmi í ljós að við gætum ekki
sparað af því við erum láglaunaland í reynd. Amerísku þættirnir
"Friends" og "Seinfeld" sýna fólk borða úti á veitingastöðum daglega.
Ameríkanar geta í raun og veru leyft sér þetta, þetta er ekki
kvikmyndabrella.
Ég sæi í anda venjulega íslendinga leyfa sér þetta hér heima. Eins og
stendur eru fínu veitingastaðirnir í Reykjavík fyrst og fremst
heimsóttir af milliliðunum sem selja okkur lánin og matinn.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 6.6.2007 kl. 11:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.2.2007 | 11:06
Svo fæ ég vexti og vaxtavexti...
Hér er aðvörun til þeirra sem taka lán við íslenskar aðstæður. Myndin sýnir hversu fljót(ur) þú ert að borga af sex milljóna láni ef þú vilt borga 75 þúsund krónur í afborganir.
Bleika línan er 5% lán, sú gula er 14%. Ef þú ert 25 ára þegar þú tekur lánið verður þú skuldlaus 35 ára ef lánið er 5%, annars borgar þú til fimmtugs.
Þess vegna eru menn skuldugir í dag og bankarnir skila metafkomu.
Kveðja, Kári
Stjórnmál og samfélag | Breytt 6.6.2007 kl. 11:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)