Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
27.4.2007 | 10:32
Strætó framtíðarinnar
Ég sá ótrúlega tækni í Tallin í Eistlandi síðustu helgi. Eistar hafa tekið framúr vetnisstrætópælingum Íslendinga og keyra nú um alla borgina í rafmagns strætisvögnum.
Þeirra tækni nýtir rafmagnið betur en vetnisstrætó gerir. (Það þarf rafmagn til að mynda vetni).
Ég var að grínast. Tæknin er ekki ný, hún er áratuga gömul.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 6.6.2007 kl. 10:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
24.4.2007 | 21:55
Einsleit fjölbreytni
Mér finnst leiðinlegt að kaupa föt en gaman að fara í búðir eins og Brynju á Laugavegi og Ellingsen. Sennilega er það dæmigert fyrir nerda.
Gamla Ellingsen búðin átti allt; flísatangir í svissneska vasahnífa og kveik í steinolíuofna fyrir neyðarskýli á Hornströndum. Sumt í búðinni hreyfðist alls ekki en það var samt þannig "C" vara sem laðaði mig inní búðina og lét mig kaupa "A" vöruna á endanum. Ég heillaðist af fjölbreytninni.
(Fyrir þá sem ekki hafa lært lagerhald þá eru A vörur þær sem seljast mikið en C vörur þær sem seljast lítið).
Í dag eru flestar búðir í hinum öfgunum. Eingöngu það sem selst vel er til sölu. Það kostar pening að liggja með óhreyfða vöru. Samkvæmt þessari speki er í lagi að selja skó en ekki skóreimar eða skóáburð og það má selja reiðhjól en ekki hjólapumpu eða bætur. Mér leiðast svona búðir.
Það er svo gaman þegar maður finnur það sem mann vantar. Ef þú ert að ganga á Hornströndum og lendir í því að skóreimin slitnar ertu í slæmum málum. Þegar þú finnur svo sjórekið reipi sem hægt er að nota sem skóreim er það góð tilfinning. Það er alvöru vöntun, en ég finn hana sjaldan og það er lúxusvandamál.
Þrýstingurinn að kaupa er mikill. Raddirnar í útvarpinu sem segja mér að hlaupa út í búð eru orðnar jafn skerandi og háværar og ég man eftir þeim í Bandaríkjunum. Ég er farinn að lækka þegar auglýsingarnar koma, eins og ég gerði þar.
Þegar mig vantar eitthvað finn ég ekki neitt af því ég er svo erfiður kúnni. Síðast vantaði mig nýjan bakpoka því sá gamli er orðinn slitinn enda hef ég notað hann daglega í mörg ár. Ég finn ekki poka sem er lokað með bandi. Ég vil ekki rennilásapoka, því rennilásinn eyðileggst löngu áður en byrjar að sjást á pokanum.
Ef ég sætti mig við rennilás bjóðast mér tugir poka. Einhversstaðar ákvað einhver að pokar með bandi væru "C" vara og þar með voru örlög bandbakpokaþurfandi manna ráðin.
Í Wal-Mart fást plastbollar í öllum litum og með öllum myndskreytingum - en bara úr plasti. Ekki leita að kristal. Úrvalið er algert - og samt ekkert. Þetta er mótsögnin sem ég settist til að skrifa um. Ég get kallað hana "Einsleit fjölbreytni".
Flestar búðir í Kringlunni selja áprentaða bómull, hampur og hör sjást ekki. Karlmannaföt eru einsleit, borin saman við úrvalið af kvennafötum. (Ég veit aldrei hvernig Prince fór að því að finna fötin sem hann var í).
Það er nóg til af ísskápum - en reyndu að finna ísskúffur (ég held reyndar að það væri góð hugmynd).
Fyrir 250 milljón árum sprakk "Precambrian" sprengjan, en það er tímabilið í sögu lífsins á jörðinni þegar allar fyrirmyndir allra dýrategunda komu fram á mjög stuttum tíma. Bókin sem lýsir þessu er stórskemmtileg, hún heitir "Wonderful life" og er eftir Stephen Jay Gould.
Það merkilega er að á þessum tíma urðu til geysilega mörg skrýtin dýr sem hafa enga samsvörun í dag. 99% af öllum tegundunum dóu út. Öll dýr í dag eiga forföður meðal eina prósentsins sem eftir lifði.
Steingerfingar hafa fundist af dýrum sem líktust einhverjum ofskynjunum úr LSD trippi. Þessi dýr voru hvorki köngulær né ormar né neitt það sem við þekkjum í dag. Þegar steingerfingar frá þessum tíma fundust fyrst, fengu fræðingar flog við að reyna að troða þeim inn í þekkta flokka dýra.
Öll dýr í dag eru annaðhvort skyld spendýrum eða lindýrum eða köngulóm eða nokkrum öðrum grunnflokkum. Feykileg fjölbreytni dýra en örfáar grunnteikningar. Engin dýr eru til með hjól. Engin dýr kallast á með útvarpsbylgjum. Ef við hefðum ekki steingerfingana myndum við ekki vita þetta og sakna því einskis.
Svipaða sögu er að segja úr þróun reiðhjólsins og tölvanna. Spennandi nýar hugmyndir komu fram þegar í upphafi en örfáar fyrirmyndir urðu eftir.
Það þarf róttæklinga til að hugsa út fyrir rammann, svo einhvern tímann verði eitthvað nýtt til. Það geta ekki allir setið á sömu grein. Við þurfum ekki fleiri pizzu staði og rennilásabakpoka.
Orðið "radical" í ensku er þýtt "róttækur" á íslensku. Það er góð þýðing því "radical" kemur úr "radix" á latínu sem þýðir "rót".
Sá sem er róttækur hugsar um hlutina frá rótinni í stað þess að vinna út frá þeirri grein sem allir sitja á.
Það er þreytandi að vera róttækur því þá detta manni í hug hlutir eins og ísskúffur þegar allir eru að leita að ísskáp og svo vill maður ekki ísskápinn fyrir vikið. Ég er semsagt róttæklingur. Hver hefði trúað því, eins og ég er með óspennandi fatasmekk. Verst er að ég nenni ekki að stofna ísskúffufyrirtæki.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 6.6.2007 kl. 10:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.4.2007 | 15:41
Hver gætir varðmannanna?
"Quis custodiet ipsos custodies" spurði Sókrates.
Forritarar finna ekki villur í eigin forritum því þeir vilja (ómeðvitað) ekki finna þær. Þess vegna þarf einhver annar að prófa forritin. Þetta eru viðtekin sannindi í hugbúnaðarverkfræði.
Rithöfundar fá vini sína til að lesa uppkast yfir. Ökukennarar senda nemendur í ökupróf í stað þess að prófa þá sjálfir.
Af hverju prófa þá kennarar eigin nemendur?
Ef nemendur fá lélegar einkunnir lítur kennarinn illa út. Þess vegna skrifar hann próf sem er jafn lélegt og kennslan. Nemendur borga skólagjöld og kennarar verða ómeðvitað skuldbundnir til að leyfa þeim að ná. Nemandinn er farinn að borga laun kennarans. Ekki bítur maður höndina sem fæðir mann?
Útkoman er gengisfelling á námi.
Við gætum búið til deild hjá ríkinu sem fylgist með gæðamálum í kennslu. Betri leið að breyta þessu er að aðskilja kennara og próf.
Stærri skólar myndu stofna próftökusetur. Nemendur gætu bókað tíma og mætt í próf þegar þeim hentar. Mörg próf væri hægt að halda í tölvuherbergi og fá einkunn samstundis. Önnur próf væru yfirfarin af kennurum eða nemendum sem væru á launum við að yfirfara svör sem þeir fengju send frá setrinu.
Prófið væri ekki úr námsefni allra faga heillar annar heldur í afmörkuðu efni, t.d. fylkjareikningi eða röðunaralgrímum, efni sem nemandinn var 1-3 vikur að tileinka sér. BS gráða yrði samsett úr mörgum svona stöðuprófum.
Prófstress yrði úr sögunni því prófin væru fleiri, en minni, og í boði allt árið.
Nemendur gætu fengið aukavinnu hjá próftökusetrinu við að semja nýjar prófspurningar og við að fara yfir svör.
Kennarar geta einbeitt sér að því að kenna. Ef nemandi spyr: "Verður þetta á prófi?" getur kennarinn svarað "ég veit það ekki, verðum við bara ekki að gera ráð fyrir því?" Prófin verða aftur það mælitæki sem þeim var ætlað að vera.
Nemandi frá HÍ gæti tekið próf hjá HR. Nemandi frá námshópum Ísafjarðar gæti tekið próf í MIT.
Sumir telja sig ekki þurfa kennslu og fyrirlestra til að taka próf, þeir geta þá lesið sjálfstætt og sparað tíma og peninga. Aðrir vilja fá kennslu vegna vinnu sinnar en telja sig ekki hafa gagn af próftöku. Þetta kerfi myndi henta báðum aðilum.
Skólasetur gætu orðið til um allt land sem einbeittu sér að kennslu í afmörkuðum fögum. Nemendur þeirra myndu snúa sér til viðurkenndrar prófstofnunar til að taka próf eftir að hafa stundað námið.
BS gráða eins nemanda gæti orðið til hjá mörgum stofnunum á mörgum árum og verið blanda af staðarnámi, fjarnámi og sjálfnámi. Ef nemendur ná góðu prófi væri það góð auglýsing fyrir viðkomandi skólasetur.
Þarna myndu opnast möguleikar fyrir t.d. Ísafjarðarkaupstað að verða "stærðfræðihöfuðstaður Íslands". Þótt rannsóknarháskóli með dýran sérhæfðan búnað geti kannski ekki risið þar á samt að vera hægt að bjóða þar kennslu eftir menntaskólastigið. Þarna opnast leið til þess.
Þetta er ekki ný hugmynd. Íslendingar á miðöldum stunduðu nám hjá presti í héraði og tóku svo próf í lærða skólanum um haustið. Economist skrifaði grein um þetta sama efni um daginn. Ég held að það sé mikið til í þessu.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 6.6.2007 kl. 10:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
12.4.2007 | 21:07
Ráðleggingar til prinsa
"Ég færi á taugum ef ég ætti svona mikla peninga" hugsaði ég um daginn. "Af hverju sofa þeir ríku vel?"
Ég held ég viti svarið. Peningar eru ekki aðalatriðið og hafa aldrei verið, þeir eru einkenni um annað mikilvægara: Vald. Ég ólst upp við að ríkið réði flestu á Íslandi og þetta er því nýtt fyrir mér, en ég er að læra.
Frægur leikari fær peninga fyrir það eitt að nota dýran bíl sem framleiðandinn vill gefa honum. Völd í formi frægðar færa leikaranum þannig peninga.
Sumir sem eru ríkir á Íslandi eru það af því þeir hafa völd, ekki öfugt. Þeir vita að völdin eru tryggð og sofa vel. Völdin geta verið í formi lögbundinna réttinda, kvóta, einokunar, tengslanets og margs annars.
Ráðuneytin og þingið samanlagt gera ca. 1100 starfsmenn, ætli meðalbankinn sé með 2000 starfsmenn? Hver er með stærri her þegar kemur að þekkingaröflun og tengslaneti?
Af hverju vilja margir að ríkisumsvif séu sem minnst? Kannski útaf völdum. Ef ríkið minnkar við sig verður til valdatóm og þar komast aðrir að. Peningarnir sem losna við sölu ríkisfyrirtækis eru kannski ekki aðalatriðið, heldur hver stjórnar auðlindinni.
"Það er til nóg af peningum, þeir eru ekki málið" sagði framámaður í þjóðlífinu við mig um daginn. Ég held ég sé að skilja rétt það sem hann var að reyna að segja.
Sumir verða nýríkir óvart, t.d. með því að eiga hús sem verður verðmætt. Ef þú átt 100 milljóna hús núna gætir þú selt það, lagt peningana inn á banka og fengið milljón á mánuði í vexti. Af þessari milljón getur þú borgað 10% fjármagnstekjuskatt og átt 900 þúsund á mánuði til að lifa fyrir.
Þú gætir notað nýja frítímann til að læra að kaupa völd - en flestir sem eignast óvart pening eru vanir að vinna dagvinnu og vinna áfram í staðinn eða slæpast bara í Florida. Þeir munu missa peningana frá sér smám saman ef þeir sækjast ekki eftir völdum. Þótt þú kaupir verðbréf verður hollusta verðbréfasalans ekki fyrst og fremst við þig því þú ræður ekki yfir honum.
Ef þú eyðir öllum dagstundum þínum í að vinna áttu engan tíma aflögu til að læra að beita þeim völdum sem þú þó hefur sem neytandi eða félagsmaður í einhverju félagi. Þekking = völd.
Kunningi sem vann í fjármálafyrirtæki sagði mér að hann hefði haft samviskubit yfir þeim sem eyddu öllum tíma sínum í að afla fúlgu fjár en afhentu hana í bankann eins og býflugur koma með hunang til bóndans. Kunninginn er kominn á eftirlaun fyrir fimmtugt.
Heildsali var heimsóttur af verzlunareigendum sem keyptu af honum pallettu af vörum fyrir hálfa milljón. Næst komu þeir og vildu heilan gám fyrir fimm milljónir. Heildsalinn var glaður. Í síðasta skipti komu þeir og sögðu "Við kaupum af þér heildsöluna fyrir fimmtíu milljónir". Hann sagði "ég held nú ekki, ég er að græða á tá og fingri".
Loks fékk hann uppsagnarbréf frá framleiðandanum sem sagðist hafa fengið betri umboðsmenn, þeir væru með 70% markaðshlutdeild. Heildsalinn sat eftir með sárt ennið. Hann hafði haft peninga en þeim fylgdu engin völd.
Svona geta þeir gert sem skilja að þeir hafa völd og þora að beita þeim. Ef peninga vantar tímabundið má fá þá lánaða, því þeir sem hafa völd hafa lánstraust.
Ef ríkið veit af ójöfnuði í þjóðfélaginu og vill minnka hann aftur þá er ekki víst að ríkið ráði í raun þegar þar að kemur. Skv. "Leviathan" eftir Hobbes er ríkið samningur milli þjóðfélagsþegna um að vera ekki í stríði við hvorn annan. Sá friður kemur niður á athafnafrelsi manna en það er fórnin.
Ef ríkið verður að engu er vopnahléið búið. Menn ættu að hugsa sig tvisvar um áður en þeir gera ríkið óstarfhæft, hvar sem þeir standa í flokki.
Ef þú ert ungur og þarft að kaupa 100 fermetra íbúð núna þarftu 300 þúsund eftir 40% skatta til að eiga fyrir afborgunum og þá er eftir að kaupa í matinn. Framtíðarlandið virðist ekki ætlað þér í bili.
Machiavelli myndi ráðleggja þér að fara utan, verða ríkur, koma aftur og brjótast til einhverra valda með auðnum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 6.6.2007 kl. 10:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
10.4.2007 | 09:40
Mætti ég koma með smá tillögu?
Grein Uwe Reinhardt um að gera ætti árás á Ísland, á sér forföður í enskum bókmenntum. Blaðagreinin "A Modest Proposal" eftir Jonathan Swift kom út 1729. Í henni leggur hann til að fátækar írskar fjölskyldur selji börnin sín sem gott kjöt til ríkra fjölskyldna í London.
Í greininni fjallar hann á yfirvegaðan hátt um bágt ástand hjá fátækum og svo kemur þessi málsgrein eins og skrattinn úr sauðaleggnum:
A young healthy child well nursed, is, at a year old, a most delicious nourishing and wholesome food, whether stewed, roasted, baked, or boiled; and I make no doubt that it will equally serve in a fricassee, or a ragout.
Í seinni hluta greinarinnar fer hann ítarlega gegnum útreikninga á því, hversu jákvæð áhrif þetta muni hafa á allar vísitölur. Í enskum skólum er þessi grein kennd sem eitt besta dæmið um breska kaldhæðni.
Fjöldi fólks skrifaði haturgreinar gegn Swift og þarmeð var tilganginum náð; greinin og hryllilegt ástand fátækra fjölskyldna í London komst á forsíður blaðanna. Jonathan Swift er best þekktur sem höfundur annarar þjóðfélagsádeilu en það er "Gulliver í Puttalandi".
Mér datt í hug að skrifa mína eigin grein í þessum anda. Í henni ætlaði ég að leggja til að nú, þegar flestir keyra um á jeppum yfir rennislétt malbik meðan stéttarnar í borginni eru svo niðurníddar að þær eru eiginlega bara færar jeppum, hvernig væri þá að skipta? Jeppafólkið getur notað frábæra torfærueiginleikana í eitthvað og við hjólanerdarnir fáum loksins hjólastíga.
![]() |
Mikil viðbrögð við grein háskólaprófessors um sprengjuárás á Ísland |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 6.6.2007 kl. 10:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
26.3.2007 | 11:36
Vöfflujárn og vestræn menning
Vöfflujárnið okkar er frá Moulinex. Ég keypti það af því við keyptum örbylgjuofn frá þeim fyrir tuttugu árum og hann er ennþá að skila sínu.
Á járninu eru tvö ljós. Rautt ljós er alltaf kveikt og þýðir að straumur sé á því. Grænt ljós slökknar þegar járnið er orðið heitt.
Bæði ljósin eru ómerkt, svo ég verð að muna hvað þau gera. Mér gengur bölvanlega að muna að græna ljósið þýði "bíddu" og að rauða ljósið þýði að allt sé í sómanum.
Sá sem hannaði grillið er að svíkja grundvallarboðorð. Grænt þýðir "gott, haltu áfram" en rautt þýðir "stopp, passaðu þig".
Járnið er lengi að hitna og ef vöffludeig er sett í járnið kólnar það niður og er fimm mínútur að steikja vöffluna. Sá sem hannaði grillið setti of lítið hitaelement í það og of lítið járn.
Ef ég set of mikið deig í járnið vellur deigið út í raufar og samskeyti sem er ómögulegt að þrífa.
Svona grill er með einföldustu tækjum sem neytendur geta keypt og það er svo auðvelt að hanna þau rétt. Moulinex er fínt merki og mér vitanlega var þetta ekki ódýra byrjendajárnið frá þeim.
Vöfflujárn voru orðin ágæt vara fyrir þrjátíu árum en nú fer þeim aftur. Ég velti fyrir mér hvers vegna.
Vita ungir hönnuðir í dag ekki að rautt þýðir stopp og grænt þýðir gott? Vita þeir ekki að það á að merkja ljós með texta? Vita þeir ekki að það þarf að þrífa vöfflujárn og að það á að taka 2 mínútur að steikja vöfflu en ekki fimm?
Ég get upphugsað nokkrar skýringar á þessu:
- Kannski fer kennslu aftur í iðnhönnun.
- Kannski er ekki hægt að fá nógu hæft starfsfólk til að hanna af því það er krónísk vöntun á hæfu fólki í skólana.
- Kannski er vöfflujárn í dag tuttugu sinnum ódýrara en það var fyrir þrjátíu árum og verðlækkunin kemur svona niður á gæðunum.
- Kannski eru hönnuðurnir valdalausir og óhamingjusamir og vinna fyrir feita kalla með bindi sem hafa bara áhuga á að hvert vöfflujárn skili hámarks framlegð.
- Kannski tekur því ekki að hugsa um svona smáatriði af því neytandinn á að henda járninu og kaupa nýtt innan árs.
Kannski er það blanda af öllu þessu.
Ég er ekki með stóráhyggjur af vöfflujárnunum -- en þjóðfélagið byggir á tækni sem þarf að virka svo við getum haldið áfram að finna upp meiri tækni. Hvað með Multimedia stofukerfið og rafrænu skilríkin og Windows Vista og Internetið og gemsana og ljósastýringarnar og þjófavarnarkerfin?
Það er til hugtak sem heitir "Dancing Bear Syndrome". Eftir að hafa séð björn dansa í sirkús nokkrum sinnum byrja menn að spyrja sig: "já, en hversu vel dansar hann?" Ég er að spyrja mig að þessu núna með tilliti til tækninnar.
Ég er einn af þeim sem hef hjálpað öðrum að tjónka við tækni í gegnum árin. Gemsarnir og þvottavélarnar blikka ljósum sem ég er beðinn að ráða í enda er ég einn af þeim fáu sem lesa handbækur. Mig grunar að flestir sem eru ekki tæknilega þenkjandi hafi einhvern "tæknigúru" í sínu lífi.
Þetta gengur ekki svona til lengdar. Tækjunum fjölgar, flækjustig þeirra eykst og ég er löngu hættur að nenna að vera fótgönguliði í þessari Tamagotchi byltingu. Mig grunar að svo sé um fleiri.
Kannski erum við að byggja tæknilegan Babelsturn sem ekki er hægt að bæta ofaná fyrr en gæði eru sett í fyrsta sæti og tæki eru hönnuð þannig að venjulegt fólk geti notað þau.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 6.6.2007 kl. 10:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
12.3.2007 | 10:54
Allir með (Strætó?)
Ég sé fólk koma til vinnu á Range Rover en taka svo lyftuna upp á 5.hæð. Lyftur eru almenningsamgöngur, þær eru bara vel heppnuð útgáfa af þeim. Enginn neitar að taka lyftu vegna þess að þær séu fyrir farlama fólk?
Ég er næstum búinn að leysa vandamálið. Við getum lagt niður strætó. Nú skal ég segja ykkur hvernig.
Á Íslandi er lág glæpatíðni. 99.9% þjóðarinnar er ágætis fólk þótt hin 0.1 prósentin séu góður fréttamatur. Hér væri því hægt að skipuleggja ferðir innan Reykjavíkur á puttanum.
Við gætum búið til "stoppistöðvar" þar sem fólk gæti stimplað inn á gemsann sinn hvert það þyrfti að komast. Viðkomandi gæti til dæmis sent SMS með númeri stoppsins sem hann er á og númeri stoppsins sem hann vill fara til.
Bílar sem keyra framhjá stoppinu gætu einhvernveginn séð hvort einhver á stoppinu á samleið og gefið far. Meiri gemsatækni eða skynjari í rúðuna, veit það ekki ennþá. Íslenskt hugvit leysir það.
Sá sem þiggur far gæti borgað einhverja málamyndaupphæð, ekki svo mikla að menn verði "frístunda leigubílstjórar" en ekki svo litla að það taki ekki að stoppa bílinn. Hugsanlega gæti bílstjórinn safnað "inneign" sem hann getur notað ef hann er sjálfur á puttanum seinna.
Upphæðin gæti runnið til líknarmála ef menn vilja ekki flækja skattheimtuna.
Það þarf "social engineering" til að koma þessu á. Fólk er tilbúið að taka lyftu með ókunnugum en að taka fólk uppí er hugmynd sem þarf að venja fólk við, sérstaklega þegar fólk er orðið hálf innhverft af sjónvarpsglápi og félagslegri einangrun.
Hugmyndin er svolítið klikkuð en ekki of klikkuð. Skortur á almenningssamgöngum er ekki óleysanlegt og alvarlegt vandamál. Allt sem þarf er raunverulegur vilji til að leysa vandann.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 6.6.2007 kl. 10:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
8.3.2007 | 13:07
Miklabraut - Kringlumýrabraut eftir breytingar
Sjálfstæðismenn hafa talað um að gera mislæg gatnamót þar sem Miklabraut mætir Kringlumýrarbraut.
Ég tók eftir því að þegar Hringbrautin var færð litu teikningarnar miklu betur út en útkoman.
Teikningarnar sýndu fólk á gangi með barnavagna og veggjakrotið var víðsfjarri. Raunveruleikinn er ekki þannig. Steinsteypumannvirki laða ekki að sér sætar stelpur með barnavagna.
Hér má sjá hvernig sjálfstæðismenn hafa hugsað sér nýju gatnamótin hjá Kringlunni:
Hér má svo sjá hvernig svona gatnamót líta út þegar þau hafa verið byggð:
Mig langar ekki í göngutúr eða hjólatúr þarna. Ef ég er að misskilja eitthvað, hafið þá endilega samband.
Kveðja, Kári
Stjórnmál og samfélag | Breytt 6.6.2007 kl. 11:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
27.2.2007 | 15:18
Lýðræði og regluverk
Enginn vill lýðræði í alvöru. "Lýður" þýðir skítapakk. Vilja ekki flestir fá stjórnendur sem eru viðkunnalegt fólk með svipaðar skoðanir og þeir sjálfir?
Reyndar treysti ég ekki sjálfum mér og mínum líkum til að stjórna miklu. Allir eru með sína litlu persónulegu sýn á raunveruleikann og hann er svo miklu stærri og flóknari en nokkuð eitt okkar.
Svo eru flestir menn gallagripir. Ef þeir geta ekki einu sinni hætt að reykja eða grennt sig, hvernig geta þeir þá stjórnað öðrum eins og guðir?
Trúbadorinn Paul Kelly söng:
Little decisions
are the ones I can make
Big resolutions
are so easy to break
I don't want to hear about your
Big decisions
Ég er sammála honum. Venjulegir menn ættu ekki að taka of stórar ákvarðanir.
Í ljósi þess að menn eru ákaflega breyskir og yfirleitt ófærir um að taka stórar ákvarðanir, verandi náskyldir öpum, þá hefur mér sýnst satt að þeir stjórni best sem stjórna minnst. Þegar menn vilja setja reglur sem aðrir eiga að fara eftir er best að hafa þær sem einfaldastar.
Dæmi um hið gagnstæða:
Ónefndur ráðherra setti skatt á tóma geisladiska. Peningarnir áttu að fara í að borga tónlistarmönnum sem eiga hugsanlega tónlist sem yrði hugsanlega brennd á þessa diska. Það er hægt að brenna bíómyndir og forrit á diska en forritarar og kvikmyndagerðarmenn fá ekki pening úr þessum sjóði. Mér vitanlega er þessi skattur innheimtur ennþá.
Þarna finnst mér N.N. leika almætti. Jafnvel Guð og jólasveinninn í sameiningu væru ekki færir um að kíkja á alla geisladiskana á landinu og sjá hvað var brennt á hvern disk og koma svo niður um strompinn hjá öllum hlunnförnu tónlistamönnunum með glaðning sem væri útdeild sanngjarnt.
Annað dæmi. Hér er sýnishorn úr tollskránni sem er 526 síður:
0805 Sítrusávextir, nýir eða þurrkaðir:
0805.1000 --- Appelsínur
0805.2000 --- Mandarínur (þar með taldar tangarínur og satsúmur);
klementínur, wilkingávextir og áþekkir blendingar sítrustegunda
[0805.4000 --- Greipaldin, þar með talin pómeló
--- Sítrónur (Citrus limon, Citrus limonum) og súraldin
(Citrus aurantifolia, Citrus latifolia):
0805.5001 --- --- Sítrónur
0805.5009 --- --- Annað
0805.9000 --- Aðrir
Þegar ég les tollskrána spyr ég mig: Hverju voru þessir menn að reyna að stjórna? Var tilganginum náð? Hvað kostar að framfylgja þessum reglum? Hvers vegna þarf ríkisstjórn Íslands að gera greinarmun á Sítrónum og Satsúmum? Líf hvers verður betra?
Hér er sýnishorn úr þriðju Mósebók sem mér finnst vera mjög sambærilegt rit:
Þegar einhver vill færa Drottni matfórn, þá skal fórn hans vera fínt mjöl, og skal hann hella yfir það olíu og leggja reykelsiskvoðu ofan á það. Og hann skal færa það sonum Arons, prestunum, en presturinn skal taka af því hnefafylli sína, af fína mjölinu og af olíunni, ásamt allri reykelsiskvoðunni, og brenna það á altarinu sem ilmhluta fórnarinnar, sem eldfórn þægilegs ilms fyrir Drottin. En það, sem af gengur matfórninni, fái Aron og synir hans sem háhelgan hluta af eldfórnum Drottins. Viljir þú færa matfórn af því, sem í ofni er bakað, þá séu það ósýrðar kökur af fínu mjöli olíublandaðar og ósýrð flatbrauð olíusmurð.
En sé fórnargjöf þín matfórn á pönnu, þá skal hún vera ósýrt brauð af fínu mjöli olíublandað. Þú skalt brjóta það í mola og hella yfir það olíu; þá er það matfórn. En sé fórn þín matfórn tilreidd í suðupönnu, þá skal hún gjörð af fínu mjöli með olíu. Og þú skalt færa Drottni matfórnina, sem af þessu er tilreidd. Skal færa hana prestinum, og hann skal fram bera hana að altarinu. En presturinn skal af matfórninni taka ilmhlutann og brenna á altarinu til eldfórnar þægilegs ilms fyrir Drottin. En það, sem af gengur matfórninni, fái Aron og synir hans sem háhelgan hluta af eldfórnum Drottins.
Ég ímynda mér að mennirnir sem skrifuðu textann hafi verið andlega skyldir mönnunum sem skrifuðu tollskrána.
Er þetta ekki fullmikil stjórnsemi?
Það þyrfti að setja amk. ein lög í viðbót: Lög og reglugerðir sem ekki er hægt að sjá hvaða áhrif muni hafa (til góðs eða ills) eða hvernig á að framfylgja, fari beint í ruslafötuna.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 6.6.2007 kl. 11:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
23.2.2007 | 11:07
Ó reiðhjól glatt þú rennur utan stanz
Pabbi hafði sennilega rétt fyrir sér þegar hann sagði að við hefðum aldrei átt að breyta Reykjavík úr bæ í borg. Þegar maður heldur að maður búi í borg breytast væntingar manns.
Borgir innihalda milljónir af fólki, þær eru háværar og maður tekur neðanjarðarlestir í þeim. Þær bjóða upp á þúsundir af veitingastöðum, risastór söfn og óperur.
Reykjavík er ekki borg, hún ætti að vera bær. Bæir eru huggulegir með grænmetistorgi og gönguleiðum og hjólastígum og fólk hittist og spjallar.
Ég hef átt heima í bæjum, þeir eru frábærir. Ég hef verið í borgum þær eru líka frábærar á sinn hátt, amk. í nokkra daga í senn. Reykjavík er hvorki bær né borg af því þegar við héldum að Reykjavík ætti að vera borg hættum við að passa upp á bæjarbraginn. Við höfum samt ekki náð því að vera borg ennþá. Einu borgareinkennin sem við höfum fengið eru umferð sem gæti sómt sér í London.
Núna síðast skárum við Reykjavík í sundur með styztu hraðbraut sem ég hef séð en hún skiptir Reykjavík jafn örugglega og gljúfrið sem sker Kópavog og kemur í veg fyrir að miðbærinn þar fái sál.
Ég er á hjóli. Ég hef verið það síðan ég var tólf ára. Kannski er ég svona hrifinn af hjólum af því ég þurfti að bíða svo lengi eftir því fyrsta. Kannski hefur það ekkert með málið að gera en ég ætla ekki að sálgreina mig hér.
Ef maður á gott hjól, þá verður það hluti af manni og maður líður um eins og í þessum góðu draumum þegar mann dreymir að maður sé að fljúga. Ef hjólið er ekkert sérstakt, heldur einhver bykkja gerist þetta hins vegar ekki.
Það þurfa nokkur atriði að koma saman fyrst: maður þarf að vera kominn í sæmilegt form og það tekur viku eða tvær. Maður þarf líka að vera í fötum sem þrengja ekki að á vitlausum stöðum og vindurinn má ekki næða niður hálsmálið á manni. Þegar maður hefur lært þetta finnst manni reiðhjólið vera sniðugasta uppfinning síðan hjólið var fundið upp.
Ég sé strax hvort ég mæti reyndum hjólamanni. Þeir óreyndu eru á hjóli sem var aðeins of ódýrt og það heyrist hátt í gírunum af þeir eru ekki alveg stilltir. Þeir óreyndu eru á dekkjum sem eru aðeins of stór og jeppaleg og yfirleitt rúlla ég fram úr þeim þótt ég sé ekki að pedala af því þeirra hjól rúlla svo illa. Svo sé ég þetta fólk ekkert aftur. Ég hugsa samt stundum hvað það var mikil synd að fólkið fékk svona ranga hugmynd um þennan frábæra fararskjóta. Ódýr hjól eru ekki þess virði.
Þegar ég var tólf ára var árið 1976. Þá hjólaði ég á götunni og fór létt með það, bílarnir voru svo fáir. Ég hugsaði ekki um að ég væri "hjólreiðamaður", ég var bara á hjóli.
Síðastliðin ár hef ég fengið pólitíska meðvitund um að ég tilheyri "flokki hjólreiðamanna". Best hefði mér þótt að hjóla bara áfram en nú þarf ég víst að berjast fyrir tilveru minni því að okkur er þrengt.
Fyrst fjölgaði bílunum. Svo var samþykkt illu heilli að leyfa hjólreiðar á gangstéttum. Þá hætti ég að geta spanað um bæinn á fullri ferð og þurfti að þræða ósléttar steinsteypustéttar eftirstríðsáranna sem hefur ekki verið viðhaldið. Í þeim eru staurar á stangli þar sem enginn staur hefði nokkurn tímann átt að vera og ef maður passar sig ekki ræðst einn þeirra á mann. Stéttar voru aldrei ætlaðar fyrir hjólreiðar.
Stéttarnar eru að batna. Þær eru samt engir hjólastígar. Hjólastígar væru með malbiki og myndu líkjast venjulegum umferðargötum, bara miklu mjórri. Við eigum nú þegar einn svona stíg í kringum borgina og hann er frábær, ég þakka mikið fyrir hann. Ég nota hann í "útivist". Það er þegar maður hreyfir sig af samviskubiti af því maður hefur ekki hreyft sig.
Ef maður hjólar bara þarf maður ekki "útivist" eða "rækt", málið sér um sig sjálft. Ég nota hjólið sem farartæki, ég vil fara allt á því. Þá er þessi eini stígur kringum borgina yfirleitt ekki í leiðinni. Mín daglega ferð er meðfram Hringbrautinni.
Færslu Hringbrautarinnar var lokið frekar fljótt hvað bílistana varðaði en hjólastígurinn meðfram henni var harðlokaður 15 mánuði í viðbót. Leiðirnar báðum megin voru ófærar jafnvel reyndum mönnum á fjallabílum allan þann tíma.
Kaldhæðnin í þessu er að yfirvöld meina vel. Þessi stígur meðfram brautinni er ágætur núna og reyndar betri en áður en Hringbrautin var færð. Ég óttast bara að svona framkvæmdir geta gert út af við eina kynslóð hjólamanna. Á meðan Hringbrautin var færð sá ég fólk gefast upp á hjólinu og setjast upp í bíl. Aðgerðin heppnaðist en sjúklingurinn dó.
Ég var einmitt að reyna svo mikið að fá vinnufélaga mína til að prófa að hjóla þegar ósköpin dundu yfir, það var nefnilega "hjólað í vinnuna" átakið og ég skráði kollega mína til keppni. Það varð hálf útþynnt.
Þó ekki væri styrjaldarástand í vegalagningum eru margir með ástæður til að hjóla ekki.
Það eru þeir sem keyptu sér hús meir en fimm kílómetra frá vinnunni. Þeir ættu sennilega ekkert að reyna að hjóla, ég óska þeim farsæls bifreiðarekstar og vona að bensínverðið sligi þá ekki á komandi árum. Hér verð ég að skjóta inn að það er bíll á heimilinu en hann er ekki notaður í smásnatt inní bænum. Reykjavík er lítil en Ísland er stórt og ég veit hvar takmörk mín liggja hjólalega séð.
Svo er það fína fólkið. Það er svo vel klætt og vel til haft, og reiðhjól eru svo nördaleg. Hjól gætu aldrei gengið fyrir þetta fólk, það vorkennir mér af því ég mæti í anorakk og pollabuxum og segir: "Mikið ertu hress að nenna þessu".
Ég hef búið í ameríku og í köben og þar hugsaði ég ekkert út í þetta. Hér líður mér eins og útlendingi í mínu eigin landi. Ég vil hjóla en er eins og frík á götum Reykjavíkur. Mig langar að segja eins og John Merrick í fílamanninum: "I am not an Animal!" Íslendingar eru svo mikið fyrir að klæða sig pent að mér getur blöskrað. Girlie men!
Næsti hópur er sá sem segir að hér sé svo vont veður. Það get ég leiðrétt. Þegar maður er í réttu fötunum og í smá formi sér maður að veðrið er stórfínt. Flestir sem stunda einhverja útivist vita þetta.
Það var miklu kaldara í frostþokunni í köben, og það var verulega erfitt að hjóla í 40 stiga hita í ameríku. Hér er næstum því perfekt hjólaveður allan tímann. Það er svona vika á ári sem ég stelst í jeppanum eða tek strætó. 1/52 er ekki slæmt hlutfall.
Vissir þú að hér má taka hjól með sér í strætó og það kostar ekkert aukalega? Í köben borgar maður sérstaklega fyrir hjólið.
Nú er bara einn hópur eftir. Það er sá sem segir mér að það sé óðs manns æði að hjóla hér. Þá setur mig hljóðan og það er líka þess vegna sem ég skrifa þetta bréf. Ég ætla ekki að sannfæra neinn um að elska hjólreiðar eins og ég geri, en ég vil biðja ykkur hin að taka ykkur smá taki.
Það eruð þið sem keyrið á harðakani út úr hringtorgum yfir gangbrautir án þess að gefa stefnuljós.
Þið sem leggið bílunum á gangstéttirnar til að vera ekki fyrir hinum bílunum. Þið eruð fyrir mér!
Þið sem vinnið við lagfæringar á vegum. Þið mokið holu og setjið hauginn á miðjan hjólastíg og þær fær haugurinn að dúsa mánuðum saman.
Svo eruð það þið sem hannið gangstéttir og hjólastíga en hjólið aldrei sjálf. Þegar einhver býr til lausn án þess að skilja verkefnið verður útkoman yfirleitt ekki góð. Í gamla daga hönnuðu karlmenn eldhús sem konur unnu í. Það voru leiðinleg eldhús. Þannig eru margir hjólastígar hér. Það er augljóst að samtök hjólafólks voru ekki höfð með í ráðum.
Fjármunum er varið í dýrar lausnir (t.d. brýr yfir Hringbraut) í stað þess að leysa brýnni mál - hver ákveður hvar á að nota peningana?
Ég ákvað birta þennan pistil vegna þess að ég sé, að ríkistjórnin ætlar að nota alla vegagerðarpeningana sína (okkar) til að greiða götu einkabílsins.
Einkabíllinn býr nú til vandamál hraðar en hann leysir þau. Vetnisbílar eru vísindaskáldskapur ennþá. Reiðhjólin eru hér í dag og þau eru lausn.
Hvílík hræsni að tala um vetnisbíla á tyllidögum og geta svo ekki haft einfalda hluti eins og hjólabrautir á fjárlagaáætlun. Svei ykkur!
Stjórnmál og samfélag | Breytt 6.6.2007 kl. 11:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)