Ráðleggingar til prinsa

"Ég færi á taugum ef ég ætti svona mikla peninga" hugsaði ég um  daginn.  "Af hverju sofa þeir ríku vel?"

Ég held ég viti svarið.  Peningar eru ekki aðalatriðið og hafa aldrei  verið, þeir eru einkenni um annað mikilvægara:  Vald.  Ég ólst upp við  að ríkið réði flestu á Íslandi og þetta er því nýtt fyrir mér, en ég  er að læra.

Frægur leikari fær peninga fyrir það eitt að nota dýran bíl sem  framleiðandinn vill gefa honum.  Völd í formi frægðar færa leikaranum  þannig peninga.

Sumir sem eru ríkir á Íslandi eru það af því þeir hafa völd, ekki  öfugt.  Þeir vita að völdin eru tryggð og sofa vel.  Völdin geta verið  í formi lögbundinna réttinda, kvóta, einokunar, tengslanets og margs  annars.

Ráðuneytin og þingið samanlagt gera ca. 1100 starfsmenn, ætli  meðalbankinn sé með 2000 starfsmenn?  Hver er með stærri her þegar  kemur að þekkingaröflun og tengslaneti?

Af hverju vilja margir að ríkisumsvif séu sem minnst?  Kannski útaf  völdum. Ef ríkið minnkar við sig verður til valdatóm og þar komast  aðrir að. Peningarnir sem losna við sölu ríkisfyrirtækis eru kannski  ekki aðalatriðið, heldur hver stjórnar auðlindinni.

"Það er til nóg af peningum, þeir eru ekki málið" sagði framámaður í  þjóðlífinu við mig um daginn. Ég held ég sé að skilja rétt það sem  hann var að reyna að segja.

Sumir verða nýríkir óvart, t.d. með því að eiga hús sem verður  verðmætt.  Ef þú átt 100 milljóna hús núna gætir þú selt það, lagt  peningana inn á banka og fengið milljón á mánuði í vexti.  Af þessari  milljón getur þú borgað 10% fjármagnstekjuskatt og átt 900 þúsund á  mánuði til að lifa fyrir.

Þú gætir notað nýja frítímann til að læra að kaupa völd - en flestir  sem eignast óvart pening eru vanir að vinna dagvinnu og vinna áfram í  staðinn eða slæpast bara í Florida. Þeir munu missa peningana frá sér  smám saman ef þeir sækjast ekki eftir völdum.  Þótt þú kaupir verðbréf  verður hollusta verðbréfasalans ekki fyrst og fremst við þig því þú  ræður ekki yfir honum.

Ef þú eyðir öllum dagstundum þínum í að vinna áttu engan tíma aflögu  til að læra að beita þeim völdum sem þú þó hefur sem neytandi eða  félagsmaður í einhverju félagi. Þekking = völd.

Kunningi sem vann í fjármálafyrirtæki sagði mér að hann hefði haft  samviskubit yfir þeim sem eyddu öllum tíma sínum í að afla fúlgu fjár  en afhentu hana í bankann eins og býflugur koma með hunang til  bóndans. Kunninginn er kominn á eftirlaun fyrir fimmtugt.

Heildsali var heimsóttur af verzlunareigendum sem keyptu af honum  pallettu af vörum fyrir hálfa milljón.  Næst komu þeir og vildu heilan  gám fyrir fimm milljónir.  Heildsalinn var glaður.  Í síðasta skipti  komu þeir og sögðu "Við kaupum af þér heildsöluna fyrir fimmtíu  milljónir".  Hann sagði "ég held nú ekki, ég er að græða á tá og  fingri".

Loks fékk hann uppsagnarbréf frá framleiðandanum sem sagðist hafa  fengið betri umboðsmenn, þeir væru með 70% markaðshlutdeild.  Heildsalinn sat eftir með sárt ennið.  Hann hafði haft peninga en þeim  fylgdu engin völd.

Svona geta þeir gert sem skilja að þeir hafa völd og þora að beita  þeim.  Ef peninga vantar tímabundið má fá þá lánaða, því þeir sem hafa  völd hafa lánstraust.

Ef ríkið veit af ójöfnuði í þjóðfélaginu og vill minnka hann aftur þá  er ekki víst að ríkið ráði í raun þegar þar að kemur.  Skv.  "Leviathan" eftir Hobbes er ríkið samningur milli þjóðfélagsþegna um  að vera ekki í stríði við hvorn annan.  Sá friður kemur niður á  athafnafrelsi manna en það er fórnin.

Ef ríkið verður að engu er vopnahléið búið.  Menn ættu að hugsa sig  tvisvar um áður en þeir gera ríkið óstarfhæft, hvar sem þeir standa í  flokki.

Ef þú ert ungur og þarft að kaupa 100 fermetra íbúð núna þarftu 300  þúsund eftir 40% skatta til að eiga fyrir afborgunum og þá er eftir að  kaupa í matinn. Framtíðarlandið virðist ekki ætlað þér í bili.

Machiavelli myndi ráðleggja þér að fara utan, verða ríkur, koma aftur  og brjótast til einhverra valda með auðnum.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Ásgeir Gunnarsson

Alltaf jafn gaman að lesa pistlana þína.  Fersk hugsun og skemmtileg nálgun

Gunnar Ásgeir Gunnarsson, 12.4.2007 kl. 22:26

2 Smámynd: Jónas Björgvin Antonsson

Það er mikið til í þessu hjá þér, Kári. Peningar eru nefnilega bara birtingarmynd og þeir hafa minni merkingu en margur heldur. Það er hreinlega auðveldara að nálgast þá en virðist, við fyrstu sýn.

J#

Jónas Björgvin Antonsson, 12.4.2007 kl. 23:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband