Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
26.6.2007 | 11:52
Um þotuhreiður og glysið sem safnast í þau
Gamla Tempelhof flugstöðin í Berlin er líkust aðalbyggingu Háskóla Íslands. Hún er eins og virðulegt musteri og endurspeglar tíma þegar flugið var ennþá kraftaverk og dæmi um hverju mannsandinn getur áorkað.
Brautryðjendur gáfu okkur kraftaverkið en möppudýr og tækifærissinnar eru í óða önn að gera lítið úr því.
Ég sit og skrifa í vél Iceland Express á leið til Íslands frá Danmörku. Flugið sjálft kostaði 18 þúsund en flugvallaskatturinn í Leifsstöð bætir 7 þúsund ofaná miðann minn.
Þar sem upphaflega stóð bárujárnsskúr við ameríska flugbraut er nú svæði sem er eins og Kringlan eða Smáralind í umfangi og reksturinn á því virðist kosta sitt.
Það styttist í að maður þurfi að vera mættur þremur tímum fyrir þriggja tíma flug. Nýja vegabréfið mitt inniheldur nú lífssýni til að fullnægja þrálátri öryggisþörf Bandaríkjamanna. Ég borgaði fimmþúsund fyrir vegabréfið og ég vona að Bandaríkjamenn krefji mig ekki um enn fullkomnara vegabréf allt of fljótt.
Á vellinum eru Íslendingar vanir að kaupa sínar myndavélar og vasadiskó því annarsstaðar á eyjunni er verðið alltof hátt. Fyrir ferðina fór ég því á vefinn www.dutyfree.is og ætlaði að sjá verð á nerdaleikföngum. Ég sá hvergi verð á myndavélum lengur svo ég sendi tölvupóst og fékk að vita að búðin Elko væri komin með einkaleyfi á græjusölu á vellinum.
Elko rekur verslunina með lágvöruverðssniði, þarna eru krakkar að afgreiða og áherslan á að selja mikið magn. Þetta er alveg eins og að koma inn í þeirra verzlanir í bænum.
Af hverju er bara Elko úti á fríverslunarsvæðinu að selja myndavélar? Hvar er Hans Petersen og allir hinir? Flugvöllurinn skapar einokun sem er alls ekki nauðsynleg eða náttúruleg.
Ég pældi ekkert í þessu meðan gamla ríkisbúðin var þarna í denn, mér fannst þetta bara vera eins og ÁTVR, svona góð gamaldags ríkiseinokun sem maður hefur vanist frá blautu barnsbeini. Núna er enginn ríkisbragur á vellinum lengur, þetta er bara nakin einokun í risastórri eftirlíkingu af Kringlunni.
Ég má ekki taka með mér vatnsbrúsa eða naglaklippur inn í þessa innkaupaparadís vegna þess að ég gæti verið að smygla sprengiefni. Ég reyndi forðum að smygla skyri og soðnu spaghetti í stampi með pestó sósu út á en það var gert upptækt þótt ég byðist til að éta "sprengiefnið" á staðnum.
Gefum okkur að þetta sé heiðarleg tilraun til að auka öryggi í flugi. Þá skil ég ekki hvernig hægt er að halda verslunarsvæðinu á flugvellinum öruggu.
Vinnustaðurinn er á við hálfa Kringluna. Hvernig er með mannaráðningar?
Inn á svæðið er mokað tonnum af varningi og mat sem flugfarþegar eiga að kaupa. Heilu gámarnir af DVD spilurum, kexi, klámblöðum og vindlingum fara inn á svæðið. Er verið að röntgen gegnumlýsa alla sendiferðabílana?
Má bjóða þér að leita að naglaklippum og hættulegum varningi í sendiferðabílunum sem koma inn á svæðið frá eftirtöldum fyrirtækjum?
- 66Norður
- Bistro Atlantic
- Blue Lagoon
- Cafe Europa
- Cafe International
- Elko
- Epal
- Eymundsson
- Fríhöfnin ehf.
- Inspired by Iceland
- Kaffitár
- Landsbankinn
- Leonard
- Optical Studio
- Panorama Bar
- Rammagerðin
- Saga Boutique
- Securitas
- Skífan
- Verzlun 10-11
Ég get ímyndað mér hvernig er að vera terroristi þarna.
Ætli sé hægt að búa til sprengju úr tíu lítrum af 80% rommi? Ég get keypt það á vellinum og farið með út í vél. Hvað með haug af Lithium rafhlöðum fyrir fartölvur, þær eru víst slæmar með að springa og fást í Elko, ætli ég geti gert sprengju úr þeim? Kannski er það of mikil fyrirhöfn, ég lauma sprengjunni bara í næstu sendingu af peysum í 66Norður búðina, eða í rakakrembrúsa frá Blue Lagoon. Magnesíum er víst eldfimur málmur og er notaður í gleraugnaspangir. Svo getur verið að brauðhnífurinn sem liggur á borðinu hjá Cafe Europa sé nýtilegur í eitthvað.
Ég held ég þurfi ekki að þusa frekar, allir sjá að þessi leit að naglaklippum er fáránleg niðurlæging til að geta svo selt fólki þessar sömu naglaklippur þegar inn á völlinn er komið.
Ef mönnum er alvara með þessum öryggismálum ættu flugfarþegar að labba inn á mjög lokað svæði eftir vopnaleitina. Þar væru bara klósett og lögregluþjónar með útprentaðan lista frá Bush að leita að stressuðum mönnum með vefjarhetti og svartar bækur í litlu broti. Kannski lítil ríkisrekin veitingasala.
Leifsstöð er ekkert einstök, svona eru margir flugvellir. Undarlegt sambland af reglum sem eru svo fáránlegar að maður hristir hausinn á leiðinni um völlinn, og svo gróðabraski hjá þeim sem notfæra sér þessar undarlegu reglur til að komast í einokunar-verslunarrekstur.
Þegar hjarðir af möppudýrum renna saman á alþjóðavettvangi verður útkoman oft grátbrosleg, sérstaklega ef Bandaríkjamenn fá að ráða ferðinni.
Þegar maður kemur svo vatnsflösku- og naglaklippulaus inn á verslunarsvæðið er ekki hægt að fá kranavatn því á klósettunum rennur volgt forblandað handþvottavatn. Eina leiðin er að kaupa sér vatnsflöskur í búðunum þar. Ég er ekki svo mikill samssærissinni að halda að þetta sé vísvitandi gert til að auka vatnssölu, sennilega er þetta yfirsjón.
Kostnaðurinn við að nota þessa stöð er að verða all verulegur hluti af flugferð. Það þarf að borga ríflega fyrir bílastæði þarna úti í auðninni, í kringum þrjúþúsund krónur fyrir langa helgarferð. Svo þarf að borga flugvallarskatt, sjöþúsund á mann. Það er aðgöngumiðinn inn á verslunarsvæðið. Svo þarf að kaupa mat og drykk á stöðinni því hann fylgir ekki með í flugmiðanum lengur, og ekki má maður koma með mat að heiman því hann gæti verið sprengifimur.
Svo bætist við kaupæðið sem rennur á veikgeðja sálir (þar á meðal mig) því það þarf að nota möguleikann til að kaupa á meðan hægt er. Reyndar sýnist mér verðið þarna ekki sérlega hagstætt lengur. Kannski þarf að leggja vel á núna til að borga uppbygginguna sem hefur átt sér stað þarna upp á síðkastið. Það væri kaldhæðni ef farþegar byrja að bera draslið í gegnum stöðina í stað þess að kaupa það þar.
Þegar ég kem út í flugvél heldur æðið áfram. Ég horfi á flugfreyjurnar stunda sölustarfsemi á brennivíni, ilmvötnum, heyrnartólum, moggum og samlokum alla flugferðina. Meira að segja vatnið kostar.
Maður kemst ekki á klósettið fyrir þessum útspýttu elskum. Hvernig ætli gangi að komast út í neyðarútgangana fyrir litlu pylsuvögnunum þeirra ef í harðbakka slær? Það er grátlegt til þess að hugsa að samkvæmt lögum eru flugfreyjur um borð til að tryggja öryggi farþega.
Dyrnar til flugmanns eru harðlæstar. Það er engin hætta á að litlir krakkar slysist lengur til að verða hugfangnir af flugi með því að heimsækja flugmanninn eins og ég fékk að gera þegar ég var lítill.
Það er niðurlægjandi að fljúga í dag og mér finnst sölumennskan vera komin út í öfgar.
Ég ætla að enda á uppbyggilegum nótum.
Hugmynd #1: Hvernig væri að gera allt flugvallarsvæðið að fríverzlunarsvæði og hafa háskólann þarna?
Nemendur gætu búið á svæðinu, fengið mjög ódýran mat, drykk, skólabækur og aðrar nauðssynjar á námsárunum, og kannski unnið hjá fyrirtækjum sem væru í tengslum við skólann og sem gætu geymt hráefni og fullunna vöru á tollfrjálsu svæði. Svæðið gæti orðið Hong Kong okkar íslendinga.
Hugmynd #2: Gegn framvísun farmiða má fá toll og virðisaukaskatt fellda niður í verzlunum í Reykjavík, þar á meðal í ÁTVR.
Þá væri ekki lengur nauðsynlegt að fara með vörurnar út í vél og fljúga með þær milli landa. Frjáls samkeppni væri milli búða í bænum og engin fríhöfn nauðsynleg. Flugvöllurinn fengi að vera eins og BSÍ eða lestarstöð, ekki verzlunarmiðstöð.
Hugmynd #3: Hvernig væri að taka þessa sömu "ströngu" öryggisgæslu upp við helstu umferðarmannvirki? Miklubraut má sprengja með flutningabíl hlöðnum sprengiefni og því þarf að takmarka aðgang inn á brautina.
Leitað væri í öllum bílum og farmur væri bannaður (en það væri hægt að kaupa gos og samlokur í sérstökum verslunum sem væru reknar við brautina með sérleyfi frá ríkinu). Einkabílisminn myndi leggjast af og allir færu að hjóla
Stjórnmál og samfélag | Breytt 3.7.2007 kl. 09:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
21.6.2007 | 19:43
O Fortuna!
Einn kennari minn í stærðfræði benti á eftirfarandi :
Það er best að kaupa lottómiða á föstudögum því þá tvöfaldast líkurnar á að vinna.
Ástæðan er sú að líkurnar á að deyja í umferðinni á leið í vinnu yfir vikuna eru álíka góðar og að vinna í lottó...
Svona er stærðfræðin skemmtileg - og líkurnar á að vinna í lottó litlar. Ekki eyða peningum í lottómiða en njótið þess í staðinn að grafa holu í sandin.
![]() |
Strandgestir varaðir við að grafa holur í sandinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 3.7.2007 kl. 09:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
17.6.2007 | 23:47
Frumstæðar lífverur
Útidyrnar í vinnunni opna sig sjálfar. Yfir þeim vakir auga sem sér til þess. Það er svolítið nærsýnt og ég passa mig að ganga með fyrirferð að innganginum til augað verði örugglega vart við mig. Ég óttast að verða hunzaður og skella á glerinu eins og nærsýnn mávur.
Í síðustu viku tapaðist ein merkilegasta uppfinning 20.aldar, kúlupenninn, í hurðafalsinn á sjálfvirku hurðinni, sem ég flokka ekki með merkilegustu uppfinningum 20.aldar.
Útidyrnar vissu ekkert hvernig þær áttu að taka á pennanum. Þær opnuðust uppá gátt, lokuðust aftur, lentu á pennanum og opnuðust upp á gátt. Lokuðust aftur...
Hér hætti ég að lýsa því sem útidyrnar gerðu af því ólíkt þeim er ég fær um að sjá tilgangsleysið. Þessi framvörður þekkingafyrirtækisins þar sem ég vinn, varð uppvís að örgustu heimsku.
Ef dyrnar hefðu getað horft uppá sjálfar sig og roðnað, þá væri tæknin komin lengra en menn gefa í skyn. Þær hefðu getað hringt á aðstoð, eða kannski skellt fastar og fastar þar til penninn kvarnaðist í mjél, og glaðst svo yfir árangrinum.
Dyrnar eru dæmigerðar mannanna smíðar sem eiga að létta lífið en gera það eiginlega ekki alveg. Menn læra að lifa við skavankana á útfærslunni sem gerir lífið á vissan hátt flóknara en ekki einfaldara.
Þegar ég geng upp að svona dyrum veit ég aldrei hverju ég á von á. Skyldi hurðin opnast fyrir mér eða ekki? Ætti ég að standa kyrr í smá stund og banda höndunum út í loftið í von um að eitthvað gerist? Er kannski sá tími dags þegar beita á lykilkorti? Er ég kannski í þættinum "falin myndavél?" Eða á ég bara að taka í húninn?
Ég las lýsingu á fólki sem taldi sig vera læst inni á gangi milli tveggja hurða. Það var ekki hægt að sjá á dyrunum hvort þær opnuðust inn eða út. Fyrri dyrnar opnuðust inn, þær seinni út. Handföngin gáfu ekkert í skyn og engir "Pull" "Push" miðar voru límdir á hurðirnar með kveðju frá Visa.
Fólkið komst gegnum fyrri dyrnar, en ekki þær seinni og gaf sér að þær væru læstar. Svo sneri það við en gat ekki opnað hinar dyrnar heldur. Fólk kom þeim til aðstoðar. Illar tungur gætu sagt að fólkið væri álíka vel gefið og dyrnar í vinnunni hjá mér.
Hér má lesa lýsinguna á ensku, og fleiri skondnar lýsingar er þarna að finna.
Og nú að allt öðru - og þó ekki.
Náttúran ákvað fyrir löngu að gæða "æðri lífverur" stærri heila til að þær höguðu sér ekki eins og mölfluga sem flýgur inn í kertaloga. Heilinn er dýrt líffæri og þarf orku en náttúran ákvað að það væri þess virði.
Menn smíða fleira en hurðir, þeir búa líka til fyrirtæki og stofnanir. Margar stofnanir virðast ekki geta mætt breyttum aðstæðum frekar en hurðin í vinnunni. Hvernig er hægt að gæða stofnanir þessu "æðra vitsmunastigi" svo þær bregðist við breytingum? Enginn einn starfsmaður inní þeim virðist vera heilinn, allir "bara vinna þarna" eins og frumur í heimskri lífveru.
Það er fyrir löngu orðið tímabært að "ruslakallar" endurskoði tilgang sinn og sæki ekki bara rusl, heldur líka dósir, flöskur og annan úrgang sem má endurvinna. Það er mótsögn að allir borgarbúar fari á einkabíl út í Sorpu með ruslið. Þarna vantar sjálfsgagnrýni í kerfið.
Tollurinn hagar sér ennþá eins og landið sé lokað. Einhver þyrfti að einfalda tollareglur stórkostlega. Er tollskráin endurskoðuð eða bólgnar hún bara út?
Strætó hagar sér eins og hann sé ekki í harðri samkeppni við einkabíla. Leiðaplönin eru ennþá ólæsileg og strætó tekur bara reiðufé, sem fæstir hafa handbært nú á dögum. Við horfum á strætó deyja út eins og risaeðlu.
Án samkeppni verða til fyrirbæri eins og dýrin á Galapagos eyjum. Er ekki einhver leið til að stofnanir njóti hressandi áhrifa samkeppni án þess að alltaf þurfi að einkavæða allt? Eigum við að reka tvö tollembætti og láta þau keppa um hylli þeirra sem flytja inn vörur? Eigum við að gefa stofnunum einkunn í vinsældakosningu?
Sum fyrirtæki eru alltaf að endurskilgreina sig. Við feðgarnir gengum fram hjá verzluninni "17" á Laugavegi. Sonur minn var sannfærður um að hún væri glæný í búðaflórunni, hipp og kúl. Ég gat sagt honum að þetta væri að verða gömul og virðuleg verzlun í bænum (opnuð 1976). Þetta geta eigendur "17" tekið sem hrós.
Ég agnúast út í værukærar ríkis og borgarstofnanir vegna þess að ég vil að þær dugi vel. Annars verða þær vatn á myllu einkavæðingarsinna. Ég sé ekki mikinn mun á að glata sjálfstæði landsins í hendur Dönum eða auðhringum.
(Skrifað að kvöldi 17.júní).
Stjórnmál og samfélag | Breytt 3.7.2007 kl. 09:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
4.6.2007 | 13:34
Heimsborgarar bragðast best
Hún hringdi á hótelið og bað afgreiðslufólkið að senda gemsann til vinkonu sinnar í Danmörku.
Hún er að fara í aðra vinnuferð þangað eftir tvær vikur og sækir gemsann í leiðinni.
Ég spurði strax: Af hverju léstu ekki senda hann til Íslands, hann yrði kominn eftir nokkra daga?
Hún svaraði: "Nei, það yrði svo mikið vesen. Ég myndi þurfa að borga aðflutningsgjöld og toll eða reyna að sanna að ég ætti hann".
Þetta svar hennar sýnir mér, að Berlínarmúrinn okkar er enn á sínum stað. Atlantshafið er okkar Berlínarmúr.
Hann hefur gefið stjórnvöldum hér afsökun til að halda landinu lokuðu, hvað sem hver segir. Reynið bara að panta varahlut í golfkerruna ykkar - eða ostbita.
Þótt bankar hafi hagnast á frjálsum viðskiptum eru þau ekki komin til okkar hinna.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 6.6.2007 kl. 10:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
28.5.2007 | 13:20
Monní monní
Einhvern tímann las ég í frjálshyggjumálgagni, að ríkið ætti að gera sem minnst. Það ætti að sjá um hermennsku, menntun og seðlaprentun. Allt annað ætti einkageirinn að sjá um.
Ef þetta er rétt þá erum við komin langt hér á landi. Við erum ekki með her svo ekki sér ríkið um þann hluta. Og sífellt færri nota gjaldmiðil ríkisins.
Ég er farinn að borga fyrir eina pylsu með Visakortinu. Fyrst eftir að ég flutti til Íslands fannst mér þessi notkun á Visa fyndin, en ekki lengur. Ég er farinn að kalla 50 og 100 kr peningana "borgarpólettur" vegna þess að ég nota þá mest í stöðumæla. Flestir aðrir taka Visa.
Í skólanum þar sem ég vinn eru þrír sjálfsalar hlið við hlið. Sá fyrsti tekur Visa og Debetkort og gefur mér íslenska peningaseðla. Sá við hliðina á tekur við seðlum og lætur mig hafa borgarpólettur (klink). Sá síðasti tekur við klinkinu og selur mér samloku.
Ef ein þessara véla er ekki í stuði þegar ég mæti með Visa kortið fæ ég enga samloku. Þarna eru seðlar og mynt ríkins orðnir óþarfir milliliðir í viðskiptum mínum við Sóma ehf.
Danir voru hatrammir á móti innleiðingu Visakortsins og fundu í staðinn upp eigið kort, Dankortið. Dankortið er þeim eiginleikum gætt, að notkun þess kostar neytendur engin færslugjöld, danir líta svo á, að sparnaðurinn sem bankarnir fá með því að þurfa ekki að meðhöndla klink og seðla eigi að nægja þeim, þeir eigi því færslugjöldin ekki inni hjá neytendum.
Þessi umræða fór ekki fram að neinu marki hér og neytendur borga því færslugjöld beint í formi afnotagjalds Visa, og óbeint vegna þess að kaupmenn borga fyrir hverja Visa færslu og láta viðskiptavinina vitaskuld borga það á endanum.
Það er erfitt að sjá hver kostnaður er af notkun Visa en mér sýnist hann geta verið allt að 2,5% af upphæð færslu plús 280 kr.
Sjá gjaldskrá hér
Þegar við borgum nærri allt með Visa er þetta orðið jafngildi verulegs virðisaukaskatts sem rennur óskiptur til bankanna.
Visa er komið til að vera. Mér finnst við ættum að klára þetta ferli sem hefur verið í gangi síðan Visa kom til Íslands árið 1983.
Við ættum að taka upp rafræn viðskipti og hætta með seðla og skiptimynt. Mér finnst synd að borga fyrir útgáfu seðla og klinks með skattinum og borga svo aftur í formi færslugjalda Visa.
Frekar vildi ég sleppa við annan hvorn þessara kostnaðarliða. Að vísu kostar prentun og myntslátta "aðeins" um 150 milljónir á ári, en meðferð seðlanna í verslunum og bönkum kostar mikla handavinnu.
Ég legg til að ríkið semji við Visa og Mastercard um að taka að sér þetta hlutverk, eftir að umræða hefur farið fram um það, hver á að bera kostnaðinn af færslunum. Í dag er þetta einfaldlega ekki rætt þótt Samkeppnisyfirlitð sé lítið hrifið af ástandinu, sjá hér:
Í norrænu skýrslunni er farið vandlega yfir greiðslukerfi og hreyfanleika neytenda auk þess sem fjallað er um greiðslukortakerfin. Það er skoðun samkeppnisyfirvalda á Norðurlöndum að tveimur fyrrnefndu þáttunum beri að veita forgang í stefnuskrám ríkisstjórna á Norðurlöndum til þess að greiða fyrir þróun í átt til aukinnar samkeppni, neytendum til hagsbóta.
Fyrst ég er farinn að tala um peningamál þá eru hér tvö atriði sem ég vil skrifa niður:
Rafrænn kassastrimill.
Ég myndi vilja fá rafrænt eintak af kassastrimlinum þegar ég fer í verslun. Mér finnst mjög þægilegt að fá tölvupóst frá Atlantsolíu með sundurliðun á innkaupum, í hvert skipti sem ég kaupi bensín.
Þessi tölvupóstur kemur í staðinn fyrir prentun á kvittun þegar ég fylli á tankinn. Ef fleiri tækju þennan sið upp yrði miklu auðveldara að færa heimilisbókhald.
Skýringar á bankayfirlitum.
Mér finnst skrýtið að skýringar á bankayfirlitum skuli ennþá vera sex stafa langar, og stundum vantar þær algerlega.
Netbanki Glitnis leyfir mér að slá inn tvær skýringar með hverri færslu. Sú langa er fyrir mig, en sú stutta er sú sem berst móttakanda greiðslu. Hún er aðeins sex stafa löng og því ónothæf fyrir nokkurn texta. Svona hefur hún samt verið síðan Reiknistofa bankanna var stofnuð fyrir grilljón árum.
Engin skýring birtist á yfirlitinu mínu þegar bankinn minn borgar Visa skuldina mína með því að taka hana af launareikningnum mínum. Ég sé bara risastóru upphæðina sem er með ekki með skýringu og hugsa "já hún". Fleiri færslur birtast svona óboðaðar og óútskýrðar.
Ef ég fæ reikning ætlast ég til að hann sé sundurliðaður. Bankarnir ættu ekki að leyfa sér að fjarlæga pening af reikningum viðskiptavina án þess að setja skýringartexta á færsluna.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 6.6.2007 kl. 10:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
14.5.2007 | 22:21
Um stjórnarmyndun
Ef Sjálfstæðisflokkurinn fer í ríkistjórn með Framsóknarflokknum eina ferðina enn, þá kemur upp í huga mér orðið "Necrophilia", en það er sú árátta að vilja sænga með einhverjum sem er farinn yfir móðuna miklu.
Orðið mætti þýða "Líkþrá" eða "Náþrá".
Ég held að Sjálfstæðiflokkurinn ætti að að leita á önnur mið.
Niðurstöður kosninganna voru að Geir Haarde ætti að leiða stjórn, en að hann ætti að gera það með Samfylkingu eða Vinstri Grænum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 6.6.2007 kl. 10:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.5.2007 | 10:32
Tollurinn
Fyrir mér er tollurinn á leið inn í landið óþægileg áminning um það sem var. Land haftastefnu og miðstýringar.
Ég man eftir að hafa farið með pabba í Landsbankann að sækja gjaldeyri. Þá þurfti að framvísa farmiðunum þar til að fá gjaldeyri skammtað. Visa var ekki komið í hendur íslendinga. Útlönd voru miklu ólíkari Íslandi en í dag, þar fékkst Toblerone og Macintosh og kók í dósum.
Meirihluti utanlandsferða fór í að kaupa græjur og föt, myndavélar og skó. Þegar heimferðin nálgaðist tók við stressið, skyldum við verða "tekin í tollinum".
Nú er allt breytt, maður borgar með Visa og biðraðirnar í Landsbankanum eru liðin tíð. Eitt hefur samt ekki breyst.
Hvernig má það vera að nútíma íslenskir heimsborgarar sem kunna mannasiði í tugum landa og eru löngu hættir að detta í það kl.sex að morgni út í gömlu kanastöð skuli þurfa að versla eins og þeir séu á leiðinni til útlegðar á norður Grænlandi, og reyna svo að keyra smyglið í gegnum tollinn í sjúklegri útgáfu af stórfiskaleik?
Á þessu andartaki hættir íslendingur 21.aldarinnar að vera stoltur heimsborgari og verður aftur álútur fátæktarlúði sem yfirvaldið á með húð og hári. Sekur þangað til fundinn saklaus. Skyldi Stazi gruna eitthvað? Múrinn ennþá á sínum stað.
Þegar við fluttum til Bandaríkjanna var ég fyrst hneykslaður á því hversu litla þjónustu var að finna á flugvöllum þar. Engar verslanir, bara skyndibiti og sjoppa. Hvar voru allar búðirnar? Jú, þær voru á sínum stað, úti í malli.
Vöruverð í búðum í Bandaríkjunum er svo hagstætt að það hefur ekkert upp á sig að kaupa vörur á flugvöllum. "Duty free" gæti aldrei náð fótfestu þar.
Svona þarf þetta að verða hér á landi. Búðirnar á flugvellinum eru arfleið frá tímum haftastefnu og verndarstefnu og tolla. Verð á vörum hér þarf að verða í samræmi við önnur lönd svo vörur komi til landsins með sjóflutningum í stað þess að vera bornar inn í flugvélar og settar í handfarangursgeymslur á meðan flugfreyjur teppa gangana með litlu duty free kerrununum sínum. Þetta er léleg nýting á þotueldsneyti. Alþjóðlegar reglur um 20 kg farangurshámark gera ekki ráð fyrir því að íslenskar ferðatöskur eru gámar fyrir vöruflutninga.
Ónefndur afgreiðslumaður í græjubúð í Reykjavík sagði mér að hann myndi loka búðinni ef hann væri ekki með vörurnar til sölu úti í Leifsstöð. Hann vissi vel að búðin í Reykjavík væri bara sýningarbás. Kaupin færu fram úti á velli.
Tollurinn hefur nóg að gera að leita að fíkniefnum. Af hverju þarf hann að leita að Ipoddum og myndavélum og osti?
Mig dreymir um þann dag þegar ég fer út í búð í Reykjavík til að kaupa mér gallabuxur eða Ipod í stað þess að bíða næstu utanlandsferðar.
Það verður frábært að labba inn í landið án þess að þurfa að horfa upp á skömmustulega meðborgara með ferðatöskurnar opnar meðan tollarar rótast í þeim til að leita að neytendavarningi.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 6.6.2007 kl. 10:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
5.5.2007 | 09:18
Möguleg slysagildra í Vesturbæjarlaug
Í Vesturbæjarlauginni í Reykjavík er vatnið iðulega ógegnsætt eins og ef mjólk hefði verið blandað saman við.
Ég hef heyrt tvær skýringar á þessu hjá starfsfólki. Annars vegar þá, að kolsýran sem bætt er í vatnið til að minnka klórnotkun valdi þessu, hins vegar að málningin í lauginni (sem er ekki flísalögð) sé að leysast smám saman upp í klórnum.
Þegar ég syndi í lauginni sé ég oft ekki næsta mann og alls ekki sundlaugarbotninn. Vatnið hlýtur að þurfa að vera gegnsætt til að eftirlitsmyndavélarnar komi að gagni.
![]() |
Drengurinn var utan sjónsviðs eftirlitsmyndavéla |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 6.6.2007 kl. 10:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
30.4.2007 | 20:20
Um lýðræði, frjálst framtak og fleira
Farþegar í lestarvagni fóru að fikta í hitastilli sem sem hafði verið stilltur á 20 gráður. Upp komu deilur.
Kulvísa fólkið vildi fá 22 stig en þeir sem voru þreknir vildu heldur 18 gráður. Haldin var atkvæðagreiðsla og hitinn ákveðinn 22 stig með naumum meirihluta.
Menn voru almennt sammála um að lýðræðinu hefði verið fullnægt, en þreknu farþegarnir héldu áfram að svitna og hugsuðu með sér að það hefði verið gott ef einnig hefði verið kosið um óbreytt ástand.
Seinna komu lestarvagnar með fjögurra manna klefum. Nú sátu þeir heitfengu saman við opna glugga og þeir kulvísu gátu hjúfrað sig í öðrum klefum með ofninn á fullu og gluggana lokaða. Allir voru ánægðir og ekkert reyndi á lýðræðið.
---
Ég hef séð þykk ský af fuglum á flugi en ég hef aldrei séð tvo fugla rekast á og hrapa.
Nokkrir tugir flugvéla að meðaltali eru yfir Atlantshafi á hverju augnabliki. Hver flugvél um sig hefur meira pláss en kúkur í keppnislaug. Samt þarf aragrúa af flugumferðarstjórum mörg þúsund kílómetra í burtu til að stýra þeim.
Vita fuglar eitthvað sem flugmálayfirvöld vita ekki?
---
Í frumskóginum er einstaklingsframtakið á fullu. Hæstu tréin sólunda ómældri orku í að verða hæst til að njóta sólar. Plönturnar fyrir neðan deyja úr ljósskorti.
Í sama skógi hjálpast maurar að. Samhjálpin er alger og eigingirni ekki til enda spurning hvort hver maur hafi meðvitund.
---
Ég hef séð sérfræðing hanna vélmenni sem á að rata út úr völundarhúsi. Ég hef líka séð völundarhús leyst með því að hella vatni ofan í það svo vatnsbunan lekur út um útganginn. Hvernig fór vatnið að því að rata? Til hvers þurfti þá allar tölvugræjunar?
---
Bifreiðaeftirlitið gamla fannst mér gott dæmi um leiðinlegt fyrirtæki. Það var ríkisrekið. Einkarekna Lyf og heilsa er í 2.sæti hjá mér. Fyrirtækið sem mér líkar best við þessa stundina er rekið af bænum: Sundlaugarnar. Einkarekni Bónus er í 2.sæti.
---
Átti lýðræðið við hjá lestarfarþegunum? Lestarfélagið leysti málið án þess að reyndi á lýðræði.
Er miðstýring betri, eða á hver einstaklingur að ráða sér sjálfur, eins og fuglarnir gera á flugi? Kirkjan er miðstýrð, AA samtökin og Al-Quaida ekki.
Er samvinnan best eins og hjá maurunum eða gildir einstaklingsframtakið eins og hjá trjánum?
Á að kaupa dýrar lausnir á vandamálum sem eru kannski ekki vandamál ef maður setur önnur gleraugu á nefið?
Hvort er ríkisrekstur eða einkarekstur betri?
Ég hef engin patent svör, bara að það er ekki hægt að alhæfa neitt. Þetta eru bara verkfæri og hvert verkefni er sérstakt.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 6.6.2007 kl. 10:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
29.4.2007 | 17:10
Hefðir
Ef ég setti son minn og eiginkonu í kerru og rúllaði þeim á undan mér niður Laugaveginn myndi fólk í fyrsta lagi segja að ég væri stórskrýtinn, svo myndi það hugsa: af hverju labbar fullfrískt fólkið ekki sjálft í stað þess að láta hann ýta sér?
Ef ég sest líka upp í kerruna og læt mótór ýta okkur öllum er þetta allt í einu ekkert skrýtið lengur...
Mér datt þetta sísona í hug á Laugaveginum í gær.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 6.6.2007 kl. 10:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)