Um þotuhreiður og glysið sem safnast í þau

Gamla Tempelhof flugstöðin í Berlin er líkust aðalbyggingu Háskóla Íslands.  Hún er eins og virðulegt musteri og endurspeglar tíma þegar flugið var ennþá kraftaverk og dæmi um hverju mannsandinn getur áorkað.

tempelhof

Brautryðjendur gáfu okkur kraftaverkið en möppudýr og tækifærissinnar eru í óða önn að gera lítið úr því.

Ég sit og skrifa í vél Iceland Express á leið til Íslands frá Danmörku.  Flugið sjálft kostaði 18 þúsund en flugvallaskatturinn í Leifsstöð bætir 7 þúsund ofaná miðann minn.


Þar sem upphaflega stóð bárujárnsskúr við ameríska flugbraut er nú svæði sem er eins og Kringlan eða Smáralind í umfangi og reksturinn á því virðist kosta sitt.

Það styttist í að maður þurfi að vera mættur þremur tímum fyrir þriggja tíma flug.  Nýja vegabréfið mitt inniheldur nú lífssýni til að fullnægja þrálátri öryggisþörf Bandaríkjamanna.  Ég borgaði fimmþúsund fyrir vegabréfið og ég vona að Bandaríkjamenn krefji mig ekki um enn fullkomnara vegabréf allt of fljótt.

Á vellinum eru Íslendingar vanir að kaupa sínar myndavélar og vasadiskó því annarsstaðar á eyjunni er verðið alltof hátt.  Fyrir ferðina fór ég því á vefinn www.dutyfree.is og ætlaði að sjá verð á nerdaleikföngum.  Ég sá hvergi verð á myndavélum lengur svo ég sendi tölvupóst og fékk að vita að búðin Elko væri komin með einkaleyfi á græjusölu á vellinum.

Elko rekur verslunina með lágvöruverðssniði, þarna eru krakkar að afgreiða og áherslan á að selja mikið magn.  Þetta er alveg eins og að koma inn í þeirra verzlanir í bænum.

Af hverju er bara Elko úti á fríverslunarsvæðinu að selja myndavélar?  Hvar er Hans Petersen og allir hinir?  Flugvöllurinn skapar einokun sem er alls ekki nauðsynleg eða náttúruleg.

Ég pældi ekkert í þessu meðan gamla ríkisbúðin var þarna í denn, mér fannst þetta bara vera eins og ÁTVR, svona góð gamaldags ríkiseinokun sem maður hefur vanist frá blautu barnsbeini.  Núna er enginn ríkisbragur á vellinum lengur, þetta er bara nakin einokun í risastórri eftirlíkingu af Kringlunni.

Ég má ekki taka með mér vatnsbrúsa eða naglaklippur inn í þessa innkaupaparadís vegna þess að ég gæti verið að smygla sprengiefni.  Ég reyndi forðum að smygla skyri og soðnu spaghetti í stampi með pestó sósu út á en það var gert upptækt þótt ég byðist til að éta "sprengiefnið" á staðnum.

tsa_profiling

 

 

 

 

 

 


 

 


Gefum okkur að þetta sé heiðarleg tilraun til að auka öryggi í flugi.  Þá skil ég ekki hvernig hægt er að halda verslunarsvæðinu á flugvellinum öruggu.

Vinnustaðurinn er á við hálfa Kringluna.  Hvernig er með mannaráðningar?

Inn á svæðið er mokað tonnum af varningi og mat sem flugfarþegar eiga að kaupa.  Heilu gámarnir af DVD spilurum, kexi, klámblöðum og vindlingum fara inn á svæðið.  Er verið að röntgen gegnumlýsa alla sendiferðabílana?

Má bjóða þér að leita að naglaklippum og hættulegum varningi í sendiferðabílunum sem koma inn á svæðið frá eftirtöldum fyrirtækjum?

  • 66Norður
  • Bistro Atlantic
  • Blue Lagoon
  • Cafe Europa
  • Cafe International
  • Elko
  • Epal
  • Eymundsson
  • Fríhöfnin ehf.
  • Inspired by Iceland
  • Kaffitár
  • Landsbankinn
  • Leonard
  • Optical Studio
  • Panorama Bar
  • Rammagerðin
  • Saga Boutique
  • Securitas
  • Skífan
  • Verzlun 10-11

Ég get ímyndað mér hvernig er að vera terroristi þarna.

Ætli sé hægt að búa til sprengju úr tíu lítrum af 80% rommi?  Ég get keypt það á vellinum og farið með út í vél.  Hvað með haug af Lithium rafhlöðum fyrir fartölvur, þær eru víst slæmar með að springa og fást í Elko, ætli ég geti gert sprengju úr þeim?  Kannski er það of mikil fyrirhöfn, ég lauma sprengjunni bara í næstu sendingu af peysum í 66Norður búðina, eða í rakakrembrúsa frá Blue Lagoon.  Magnesíum er víst eldfimur málmur og er notaður í gleraugnaspangir.  Svo getur verið að brauðhnífurinn sem liggur á borðinu hjá Cafe Europa sé nýtilegur í eitthvað.

evil osama
Ég held ég þurfi ekki að þusa frekar, allir sjá að þessi leit að naglaklippum er fáránleg niðurlæging til að geta svo selt fólki þessar sömu naglaklippur þegar inn á völlinn er komið.

Ef mönnum er alvara með þessum öryggismálum ættu flugfarþegar að labba inn á mjög lokað svæði  eftir vopnaleitina.  Þar væru bara klósett og lögregluþjónar með útprentaðan lista frá Bush að leita að stressuðum mönnum með vefjarhetti og svartar bækur í litlu broti.  Kannski lítil ríkisrekin veitingasala.

Leifsstöð er ekkert einstök, svona eru margir flugvellir.  Undarlegt sambland af reglum sem eru svo fáránlegar að maður hristir hausinn á leiðinni um völlinn, og svo gróðabraski hjá þeim sem notfæra sér þessar undarlegu reglur til að komast í einokunar-verslunarrekstur.

Þegar hjarðir af möppudýrum renna saman á alþjóðavettvangi verður útkoman oft grátbrosleg, sérstaklega ef Bandaríkjamenn fá að ráða ferðinni.

Þegar maður kemur svo vatnsflösku- og naglaklippulaus inn á verslunarsvæðið er ekki hægt að fá kranavatn því á klósettunum rennur volgt forblandað handþvottavatn.  Eina leiðin er að kaupa sér vatnsflöskur í búðunum þar.  Ég er ekki svo mikill samssærissinni að halda að þetta sé vísvitandi gert til að auka vatnssölu, sennilega er þetta yfirsjón.

Kostnaðurinn við að nota þessa stöð er að verða all verulegur hluti af flugferð.  Það þarf að borga ríflega fyrir bílastæði þarna úti í auðninni, í kringum þrjúþúsund krónur fyrir langa helgarferð.  Svo þarf að borga flugvallarskatt, sjöþúsund á mann.  Það er aðgöngumiðinn inn á verslunarsvæðið.  Svo þarf að kaupa mat og drykk á stöðinni því hann fylgir ekki með í flugmiðanum lengur, og ekki má maður koma með mat að heiman því hann gæti verið sprengifimur.

Svo bætist við kaupæðið sem rennur á veikgeðja sálir (þar á meðal mig)  því það þarf að nota möguleikann til að kaupa á meðan hægt er.  Reyndar sýnist mér verðið þarna ekki sérlega hagstætt lengur.  Kannski þarf að leggja vel á núna til að borga uppbygginguna sem hefur átt sér stað þarna upp á síðkastið.  Það væri kaldhæðni ef farþegar byrja að bera draslið í gegnum stöðina í stað þess að kaupa það þar.

Þegar ég kem út í flugvél heldur æðið áfram.  Ég horfi á flugfreyjurnar stunda sölustarfsemi á brennivíni, ilmvötnum, heyrnartólum, moggum og samlokum alla flugferðina.  Meira að segja vatnið kostar.

Maður kemst ekki á klósettið fyrir þessum útspýttu elskum.  Hvernig ætli gangi að komast út í neyðarútgangana fyrir litlu pylsuvögnunum þeirra ef í harðbakka slær?  Það er grátlegt til þess að hugsa að samkvæmt lögum eru flugfreyjur um borð til að tryggja öryggi farþega.

Dyrnar til flugmanns eru harðlæstar.  Það er engin hætta á að litlir krakkar slysist lengur til að verða hugfangnir af flugi með því að heimsækja flugmanninn eins og ég fékk að gera þegar ég var lítill.

Það er niðurlægjandi að fljúga í dag og mér finnst sölumennskan vera komin út í öfgar.

thotuhreidur

 

 

 

 

 

 


 

Ég ætla að enda á uppbyggilegum nótum.

Hugmynd #1:  Hvernig væri að gera allt flugvallarsvæðið að fríverzlunarsvæði og hafa háskólann þarna?

Nemendur gætu búið á svæðinu, fengið mjög ódýran mat, drykk, skólabækur og aðrar nauðssynjar á námsárunum, og kannski unnið hjá fyrirtækjum sem væru í tengslum við skólann og sem gætu geymt hráefni og fullunna vöru á tollfrjálsu svæði.  Svæðið gæti orðið Hong Kong okkar íslendinga.

 

Hugmynd #2:  Gegn framvísun farmiða má fá toll og virðisaukaskatt fellda niður í verzlunum í Reykjavík, þar á meðal í ÁTVR.

Þá væri ekki lengur nauðsynlegt að fara með vörurnar út í vél og fljúga með þær milli landa.  Frjáls samkeppni væri milli búða í bænum og engin fríhöfn nauðsynleg.  Flugvöllurinn fengi að vera eins og BSÍ eða lestarstöð, ekki verzlunarmiðstöð.

 

Hugmynd #3:  Hvernig væri að taka þessa sömu "ströngu" öryggisgæslu upp við helstu umferðarmannvirki?  Miklubraut má sprengja með flutningabíl hlöðnum sprengiefni og því þarf að takmarka aðgang inn á brautina.

Leitað væri í öllum bílum og farmur væri bannaður (en það væri hægt að kaupa gos og samlokur í sérstökum verslunum sem væru reknar við brautina með sérleyfi frá ríkinu).  Einkabílisminn myndi leggjast af og allir færu að hjóla Smile

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

Góður pistill hjá þér. Orðið fáránlega vitlaust allt saman varðandi "öryggið" á allt of mörgum flugvöllum og sölumennskan brjálaðri en nokkurn tíma fyrr. Á flugvellinum í Theheran er skynsamlegasta öryggiskerfi sem ég hef lent í. Þar eru allir skannaðir gróflega við innganginn, sem tekur ekki langan tíma, síðan taka við verslanir og þjónusta eins og víðast hvar, en síðan er aðalöryggistékkið áður en farið er út í vélina, við hvert einasta hlið. Gengur hratt og vel fyrir sig og er, að því er manni finnst, það skynsamlegasta í stöðunni. Líst vel á Hong Kong hugmyndina og vonandi að eitthvað þessu líkt verði gert við varnarsvæðið fyrrverandi.    

Halldór Egill Guðnason, 27.6.2007 kl. 09:48

2 Smámynd: Hildigunnur Rúnarsdóttir

sjá líka hérna, svona til áréttingar á hvað þetta er nú nauðsynlegt, allt saman...

Hildigunnur Rúnarsdóttir, 27.6.2007 kl. 12:45

3 Smámynd: Kári Harðarson

Sölumennskan í kringum flugvallaröryggi er vandamál.  Stór fyrirtæki hagnast á hræðslunni.  Það má líkja þeim við vopnasala.

Sá eini sem tapar á öllu saman er neytandinn.

Kári Harðarson, 27.6.2007 kl. 13:30

4 identicon

Sæll Kári.

Hin ríkisrekna flugstöð í Keflavík með VSK frjálsum varningi er náttúrulega ekkert nema bara ótrúlega gamaldags fyrirbæri sem verið er að reyna að halda lífi í. Spyrja má, af hverju í ósköpunum eru íslendingar enn að reka fríhafnir þegar flestar aðrar þjóðir eru að afnema þessa mismunun þegnana? 

Hvað varðar fáránlegt sýndaröryggi flugfarþega með naglaklippuleit og öðru slíku þá er bara eitt svar sem flugfarþegar hafa, hætta að fljúga! Byrja mætti á að sleppa sólarlöndum, fótbolta og fyllirís ferðum og öðru slíku. Ef samstaða næðist þá færu flugfélög, flugvellir, ferðaskrifstofur og eldsneytissalar fljótt inn á skrifstofur pólitíkusa og ekki þarf þá að spyrja að hvaða niðurstaða yrði. Tilbúin möppudýrsvandamál yrðu afgreidd með hraði. Neytendur, þ.e flugfarþegar hafa allt of lengi látið vaða yfir sig á skítugum skónum og virðast bara biðja um meira og meira af þessu rugli.

Jóhann F Kristjánsson (IP-tala skráð) 27.6.2007 kl. 13:57

5 identicon

Ánægður með þennan pistil hjá þér - oftast er ég þér alveg sammála og ekki síst nú.  Var einmitt að hugsa þetta sama fyrir 3 vikum þegar ég var á leið til sólarlanda - bæði allt þetta falska öryggi og þetta okur sem viðgengst á flugvellinum.  Hvernig stendur annars á því að samloka, sem kostar 200kr í bónus skuli kosta 470kr flugstöðinni - og það án vsk .  Eitthvað þykir mér bogið við það.  Sama virðist eiga við í öðrum verslunum þar - allt virðist kosta það sama eða heldur meira en utan vallar að undanskildu áfenginu - og mest sparað með því að kaupa gamla góða vodkann. 

Annars var ég að koma frá Tenerife - labbaði þar í gegnum öryggishliðið með hálffulla líters vatnsflösku í hendinni án þess að vekja athygli.  Það er þá allavega staðurinn til að nota ef smygla þarf sprengifimu vatni um borð.

Haukur Harðarson (IP-tala skráð) 27.6.2007 kl. 19:55

6 Smámynd: Óskar Þorkelsson

tek undir þennan pistil heilshugar.. hef reyndar þusað um sama hlut eftir ferð sem ég fór til liverpool í vor. óþægindin af "þjónustunni" ætlaði að gera mig geggjaðan í ferðinni sem tók heila tvo tíma og korter..

Minnka þjónustuna og auka þægindin !!

Öryggisgæslan í Leifstöð er í besta falli brosleg.. látin taka af sér beltið og ég veit ekki hvað.. svo kemur maður á Arlanda, Kastrup, Manchester og þar labbar maður bara í gegnum öryggishliðið og ef ekkert pípar þá helduru bara áfram för..

Óskar Þorkelsson, 30.6.2007 kl. 11:20

7 Smámynd: Kári Harðarson

Ég sé eina leið út úr þessu - Leifsstöð þarf samkeppni.

Hvernig væri að Iceland Express færi að fljúga frá Reykjavíkurflugvelli?  Þar væri bara selt brennivín og tóbak við heimkomuna, alveg eins og í gamla daga.

Kári Harðarson, 2.7.2007 kl. 13:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband